Leita í fréttum mbl.is

Oliver Sacks taugalíffræðingur og sagnamaður er fallinn frá

Heilinn er stórbrotið fyrirbæri sem hjálpar okkur að skynja veröldina, rata um heiminn og samfélagið og heldur utan um hvatir okkar, minningar og þrár. Svo bregðast krosstré sem önnur tré - heilinn er ekki óbrigðull. Frávik í heilastarfsemi gera okkur erfitt fyrir og valda oft mikilli þjáningu (bæði sjúklinga og aðstandenda), en þau upplýsa okkur einnig um eiginleika taugakerfisins og vitundarinnar.

Oliver Sacks sinnti og rannsakaði sjúklingum með fágæta galla, meðal annars mann sem ruglaðist á konu sinni á hatti, mann sem varð fyrir eldingu og fylltist ástríðu fyrir tónlist, og mann sem fékk hnefastórt æxli i höfuðuð og man ekkert nema tónlist Grateful Dead (hvílík örlög!).

Oliver Sacks er líklega þekktastur fyrir bókina the Awakenings sem gat af sér samnefnda kvikmynd með Robin Williams og Robert Deniro í aðalhlutverkum. Þar fjallar hann um sjúklinga með svefnsýki sem margir hverjir höfðu sofið í áratugi. Árið 1969 var prufað að gefa þeim taugaboðefni, L-Dopa og raknaði fólkið þá við sér og var hið kátasta. Lækningin var tímabundin því þau féllu aftur í svefn einhverju síðar. Þó hægt væri að vekja fólkið með boðefninu urðu vökustundirnar alltaf styttri og styttri, líklega vegna þess að líkamarnir urðu ónæmir fyrir efninu.

Oliver fjallar á einstaklega næman hátt um einkenni og líðan sjúklinga sinna, dregur ekkert undan en viðheldur virðingu þeirra. Það er náðargjöf sem fáir hafa, og nær ómögulegt fyrir áhugapenna að lýsa almennilega. Til þarf lestur bóka Sacks. Hann hafði nefnilega einstaka frásagnagáfu og skrifaði af mikilli nærgætni og tilfinningu.

Ástæðan fyrir því kann að vera að hann var í raun ástfanginn af sjúklingum sínum, eins og hann lýsir í sjálfsævisögu sinni. “I had fallen in love – and out of love – and, in a sense, was in love with my patients.” Hann var ástfanginn í þeim skilningi að hann kafaði með sjúklingunum að rótum sjúkdóma þeirra, reyndi að skilja eðli þeirra og birtingarmyndir.

Óliver Sacks stundaði vísindi sértilfella og persónulegrar þekkingar, ekki vandlega skipulagðar rannsóknir á þúsundum með tilheyrandi viðmiðunarhópum og tölfræði. Engu að síður lærir maður heilmikið af skrifum hans, t.d. um sína eigin taugakippi, veikleika eða einkenni. En ekki síst að bera virðingu fyrir fjölbreytileika hins mannlega rófs og persónunum sem auðga líf okkar.

Ítarefni:

Mark Tran 30. ágúst 2015 The Guardian Oliver Sacks, eminent neurologist and author of Awakenings, dies aged 82

Awakenings.

Will Self, 8. maí 2015 The Guardian On the Move: A Life by Oliver Sacks – review

Arnar Pálsson 2. janúar 2012 Musicophilia


Gnarr hvetur til uppbyggingar náttúruminjasafns Íslands

dilaskarfur_arnthorNáttúruminjasafn Íslands er ekki eiginlegt safn. Það er til í lögum, er með forstjóra og vonandi ennþá nokkrar skrifstofur upp á náð Háskóla Íslands. En það er ekki safn í eiginlegri merkingu, sem fólk getur gengið um og skoðað geirfuglinn, hvalabein, steindir, hraungerðir eða uppstoppaða smáhesta.

Það er alger hneisa að ekki sé náttúruminjasafn í landi sem þekktast fyrir náttúru.

Jón Gnarr fjallar um ástand safnsins eða hallæri öllu heldur í pistli í Fréttablaði laugardagsins (Náttúrulega). Þar segir hann m.a.:

Það er ekkert veglegt náttúruvísindasafn á Íslandi. Það er sérkennileg staða í landi sem er heimsfrægt fyrir náttúru sína. Það er svona svipað og ef í Danmörku væri ekkert Legoland. Fyrir nokkrum árum heimsótti ég safnið í París. Það sem vakti athygli mína var að flestir gestir voru í þeim hluta safnsins sem snéri að Norðurslóðum. Þar er uppstoppaður Geirfugl og fyrir framan hann var löng biðröð.

Söfn gegna margvíslegu hlutverki. Samkvæmt lögum er hlutverk Náttúruminjasafns Íslands að “varpa ljósi á náttúru Íslands, náttúrusögu landsins, nýtingu náttúruauðlynda og náttúruvernd, auk þess að varpa ljósi á samspil manns og náttúru og á náttúru landsins í alþjóðlegu samhengi.” 

Söfn upplýsa og fræða, það jafnast ekkert á við fræðslu sem maður heldur að sé skemmtun eða afþreying. John Dewey benti á að við lærum með því að gera og kanna eitthvað (ekki bara af bók eða dæmum). Á söfnum fáum við að kanna náttúru sem erfitt er að nálgast, rýna í steingervinga eða bera saman steindir, hristast á jarðskjálftahermi eða fylgjast með vindi búa til sandöldur. Söfn nýtast til að skrá sögu, mynstur, hamfarir, strauma og stefnur, jafnt í náttúru, listum og búsetu.

Ríki, höfuðborg og landsmenn allir eiga að taka höndum saman og tryggja að almennilegt náttúruminjasafn verði sett upp hérlendis.

Mynd af fuglum tók Arnþór Garðarsson.

Ítarefni:

Náttúruminjasafn Íslands | Höfuðsafn á sviði náttúrufræða

35/2007: Lög um Náttúruminjasafn Íslands

Ályktun um stuðning við Náttúruminjasafn Íslands

Ákall vegna Náttúruminjasafns Íslands

Arnar Pálsson 25. nóvember 2011 Safnið sem gleymdist, þjóðarhneisa


Frábært framlag íslenskrar erfðagreiningar

Íslensk erfðagreining gaf landspítalanum jáeindaskanna, sem mun nýtast til að greina nokkrar gerðir krabbameina og jafnvel alzheimer. Það er staðreynd að íslenskt heilbrigðiskerfi hefur verið í fjársvelti, jafnt hefur skort fjármagn fyrir launum, tækjum,...

Ný erfðatækni mikið framfaraspor

Rannsóknir á varnarkerfum baktería leiddu vísindamenn að einstöku kerfi, sem nú hefur verið hagnýtt fyrir erfðatækni. Erfðatækni gengur út á að breyta genum lífvera eða bæta við genum, eða jafnvel hanna frá grunni. Tæknin til þess hefur verið ansi...

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband