Leita í fréttum mbl.is

Náttúrlegt val og tegundamyndun í þorski og skyldum þorskfiskum

Föstudaginn 29. apríl ver Katrín Halldórsdóttir doktorsritgerð sína í líffræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Heiti verkefnisins er: Náttúrlegt val og tegundamyndun í þorski og skyldum þorskfiskum (Natural selection and speciation in Atlantic cod and related cod-fish). Vörnin fer fram í stofu 132 í Öskju, náttúrufræðahúsi HÍ, og hefst kl. 14:00.

Andmælendur eru dr. Matthew W. Hahn, prófessor við líffræðideild Háskólans í Indiana, Bloomington, Bandaríkjunum, og dr. Michael Matschiner, rannsóknamaður við miðstöð rannsókna í vistfræði og þróunarfræði, við lífvísindadeild Óslóarháskóla.

Ágrip af rannsókn
Atlantshafsþorskur, Gadus morhua, er þekktur fyrir sérstaklega mikla frjósemi. Hver hrygna hrygnir milljónum eggja í hvert sinn. Lífvera með slíka frjósemi ætti að geta þolað sterkt val og svarað hraðar valþrýstingi umhverfisins en minna frjósamar lífverur. Af þessum ástæðum er þorskurinn ákjósanleg lífvera eða líkan til rannsókna á náttúrulegu vali á sameindasviði í villtum stofnum. Samanburður milli skyldra lífvera í tegundahópum getur verið gagnlegur við mat á aðskilnaði og uppruna. Hann getur einnig gagnast í leit að skilningi á þeim þáttum sem valið herjar á og eru mikilvægir fyrir darwinska hæfni lífveranna. Í doktorsverkefninu voru raðgreind gen sem líkleg eru til að vera undir vali, sem og heil erfðamengi. Auk Atlantshafsþorsksins voru rannsakaðir Kyrrahafsþorskur (Gadus microcephalus), Grænlandsþorskur (Gadus ogac), Alaskaufsi (Gadus chalcogrammus), ískóð (Boreogadus saida), og ísþorskur (Arctogadus glacialis). Vísbendingar um sameiginlega fjölbrigðni meðal samsæta gena milli ólíkra tegunda er mikilvæg sönnun um jafnvægisval, kraft sem viðheldur erfðabreytileika í stofnum. Merki um slíkt fannst í Cathelicidin-genum sem tilheyra meðfædda ónæmiskerfinu. Nýjar aðferðir byggðar á fjölsamruna Λ samfallanda (multiple merger coalescent), aðferðir sem finna sameiginlegan forföður gena, voru notaðar sem núlllíkan til þess að rannsaka val á Ckma-geninu. Við stofnerfðafræðigreiningu erfðamengjagagna á um 200 einstaklingum af þessum mismunandi þorskfisktegundum var beitt nýlegum tölfræðiaðferðum um sennileika arfgerða. Niðurstöður sýndu að þróunarlegur uppruni Alaskaufsans er kynblöndun milli ískóðs og Atlantshafsþorsks. Sett er fram tilgáta um æxlunarlega einangrun vel þekktra vistgerða þorsks við Ísland, útsjávar- og strandgerðar, sem með kynblöndun hafi myndað nýja æxlunarlega einangraða tegund sem hefur sama litningafjölda og foreldragerðirnar. Blendingstegundin virðist æxlunarlega einangruð frá foreldragerðunum og þrífst í vist sem spannar vistir beggja foreldragerðanna.


Söngvar hnúfubaksins á norðurslóðum - 25. apríl

„Söngvar hnúfubaksins á norðurslóðum: Ný innsýn inn í viðveru og athafnir stórhvelis við Íslandsstrendur“

Edda Elisabet Magnúsdóttir flytur erindi á vegum Hins íslenska náttúrufræðifélags. Erindið verður flutt mánudaginn 25. apríl kl. 17:15 í stofu 132 í Öskju, náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands. Aðgangur er öllum heimill og ókeypis.

450px-sargassosea.gif  Ágrip af erindi:

„Hnúfubakur (Megaptera novaeanglia) er stórhveli af undirættbálki skíðishvala (Mysticeti). Tegundin er eitt helsta aðdráttaraflið í hvalaskoðunum við Ísland enda einn algengasti hvalurinn við strendur landsins. Á árunum 1860–1955 gekk verulega á stofninn vegna hvalveiða í N-Atlantshafi. Mat á stofninum við Ísland voru aðeins um 2000 dýr árið 1987 og því á barmi útrýmingar. Stofninn óx verulega hratt eftir 1995 og telur í dag rúmlega 11.000 dýr.

Hnúfubakar eru mikil fardýr og ferðast allt að 7000 km aðra leið milli fæðu- og æxlunarstöðva. Meginfæðustöð hnúfubaka í N-Atlantshafi er umhverfis Ísland en aðrar fæðustöðvar er að finna við N-Noreg, Grænland og austurströnd N-Ameríku. Þekktasta æxlunarsvæði hnúfubaka í N-Atlantshafi er við í Karíbahafi. Þó virðist aðeins hluti hvala frá Íslandi og Noregi nýta þær æxlunarstöðvar en þar eru ráðandi hnúfubakar frá austurströnd N-Ameríku. Einhverjir hnúfubakar frá Íslandi og Noregi nýta sér æxlunarstöðvar við Grænhöfðaeyjar, en æxlunarstofninn þar virðist mjög lítill eftir óhóflegar veiðar á svæðinu á 19. og 20. öld, eða um 300 dýr. Því eru kenningar á lofti um að fleiri æxlunarsvæði sé að finna í N-Atlantshafi sem enn á eftir að bera kennsl á.

Nýlegar hljóðrannsóknir á viðveru hnúfubaka við strendur Íslands hafa sýnt fram á að hvalirnir haldi til við norðausturströnd Íslands yfir hávetur og fram í mars. Þrátt fyrir að vera utan þekktra æxlunarstöðva syngja hnúfubakstarfarnir sína einstöku æxlunarsöngva af miklum móð á þessum tíma. Þessi sérstaka hljóðmyndun einskorðast fyrst og fremst við æxlunartímann, þ.e. nóv.–apríl. Söngatferlið á norðurslóðum undirstrikar frekari fjölbreytileika í far- og æxlunarhegðun þessarar tegundar en áður var talið.“

 

Edda Elísabet stundar doktorsnám í líffræði við HÍ en verkefni hennar snýr að notkun hljóðupptökutækja til rannsókna á heilsársviðveru og hegðun hnútubaka við NA-strönd Íslands. Edda lauk mastersprófi við HÍ árið 2007 þar sem hún rannsakaði heilsársviðveru höfrunga í Faxaflóa. Edda er lærður kennari og hefur sinnt kennslu við HÍ og menntaskóla sem og starfað sem leiðsögumaður og ráðgjafi fyrir hvalaskoðunarfyrirtæki og söfn.


Sjá nánar á vef HÍN (http://www.hin.is/) Vertu félagi HÍN á Facebook (www.facebook.com/hid.islenska.natturufraedifelag)

Neikvæð umhverfisáhrif sjókvíaeldis við Íslandsstrendur

Fimmtudaginn 14. apríl n.k. verður haldið málþing um neikvæð umhverfisáhrif sjókvíaeldis við Íslandsstrendur. Landssamband veiðifélaga og Landssamband stangaveiðifélaga standa fyrir málþinginu í samstarfi við Angling iQ. Málþingið hefst kl. 16:10 og mun...

Móta minningar vetradreifingu síldarinnar?

Föstudagsfyrirlestur vikunnar verður fluttur af Jed I. Macdonald , doktorsnema í líffræði. Erindi Jeds heitir: Do memories govern the winter distribution of Atlantic herring? Meðhöfundar hans eru Kai Logemann, Elias T. Krainski, Þorsteinn Sigurðsson,...

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband