Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Tónlist

Musicophilia

Menn eru tónelskustu verur jarðar. Tónlist er svo samofin manninum að erfitt er að ímynda sér líf án hennar. Hvernig væri heill dagur eða ár án tónlistar? Sannarlega er fólk misjafnlega upphrifið af tónlist og hæfileikar eru mismiklir. Margir byrja að spila á flautu rétt eftir fæðingu, fá klassíkina í æð á unga aldri og upplifa dásamlega tónlist alla ævi. Afi minn organistinn og kórstjórinn stóð fyrir samsöng á öllum mannamótum. Ég var á táningsaldri þegar áhuginn á tónlist kviknaði, pabbi gaf mér segulbandstæki sem ég notaði til að taka upp slagara úr útvarpinu (af vinsældarlista rásar 2, þætti Snorra Más Skúlasonar og Skúla Helgasonar o.fl. góðum). Skriðan var komin af stað og ég eyddi ómældu fé í smáskífur, 12-tommur, breiðskífur og geisladiska í Gramminu, Plötubúðinni, Steinar músik og myndir, Hljómalind, Japis og Skífunni.

En hvað kveikir þennan mikla tónlistaráhuga mannfólks? Þegar litið er yfir dýraríkið finnast sannarlega tónvísar skepnur en engin tegund tekur músik jafn alvarlega og við. Geðlæknirinn og taugalíffræðingurinn Oliver Sacks fjallar um þessa tónást í bók sinni Musicophilia: Tales of Music and the Brain frá árinu 2007 (mynd er af kápu bókarinnar). musicophilia-tales-of-music-and-the-brain.jpgHann ræðir mikilvægi tónlistar fyrir mannfólk og kannar einnig furðuleg tilfelli (ekki bara sjúkdómstilfelli) tengd tónlist. Þótt Dr. Sacks fjalli iðullega um einstök eða einangruð tilfelli (case studies) eru skrif alltaf mjög manneskjuleg. Við fáum að kynnast einstaklingum og því hvernig tónlistarleg einkenni eða sjúkdómar hafa áhrif á líf þeirra og færni.

Fyrsti kaflinn í Musicophilia fjallar um mann sem varð fyrir eldingu og þegar hann raknaði viðs sér hafði hann allt í einu gríðarlegan áhuga á tónlist. Hann fór að hlusta á klassíska tónlist af afergju og lærði á píanó. Það er líkast því að rafstuð eldingarinnar hafi tengt duldar stöðvar heilans við meðvitundina. Í kjölfarið fékk eldinga-þeginn glænýtt áhugamál.

Síðasti hippinn

Önnur saga fjallar um ungann mann á hippatímanum (The last hippie - fjallar um Greg F og birtist fyrst í Anthroplogist on Mars). Greg leitaði að svarinu við lífsgátunni og gekk í Hare-Krishna hóp í New Orleans. Þar varð hann fljótlega fyrirmynd annara iðkenda vegna þess að hann náði meiri yfirvegun og alsælu í íhugun sinni og almennu atferli en aðrir iðkendur, hann var það sem kallst má transcendental. Ástæðan fyrir þessari guðlegu alsælu var mjög raunveruleg, hann var með hnefastórt æxli í heilanum. Þegar foreldrar hans fundu hann hafði hann ekki hugmynd um hver þau væru, og mundi ekkert hvað hafði gerst daginn áður. Æxlið var fjarlægt en minnisleysið varði. Hins vegar mundi Greg eftir tónlist hippatímans, sérstaklega lög Grateful dead sem var uppáhaldsband hans. Það er sem tónlistarminni sé ótengt venjulegu minni. Annað áþekkt dæmi um slíkt er minnislaus hljóðfæraleikari, sem gat jafnvel lært og spilað heil verk á opinberum tónleikum, þótt hann gæti ekki munað eftir fjölskyldumeðlimum eða samstarfsmönnum. Þess má geta að saga Greg F var innblástur kvikmyndarinnar The music never stops, sem er í annað skipti sem frásagnir Olivers Sacks eru kveikjan að kvikmynd. Í hinu tilvikunu var það sagan Awakenings sem fjallaði um drómasjúklinga er vöknuðu til vitundar eftir L-dopa gjöf.

Tónlistarminni og gáfa eru sem sagt aðgreinanleg innan heilans, og tengjast aðeins að hluta hefðbundu minni og greind. Oliver rekur fleiri stórmerkileg dæmi um tónlistargáfur, tónlistaráhuga, tón-ofskynjanir og tónvillur. Sumir eru algerlega tónlausir (amusia) en aðrir hafa engan áhuga á tónlist, þótt tóneyra þeirra sé óbrigðult.

Sérkennilegast fannst mér að fræðast um tón-ofskynjanir. Einstaklingar upplifa þá oft einfalt suð eða són, sem síðan ágerist. Í ýktustu tilfellunum upplifir fólk stanslausa tónlist á háum styrk, t.d. germanska marsa eða franskar ættjarðarvísur. Oftast er tónlistin fólkinu kunnugleg, vögguvísur úr æsku, slagarar frá dansiballatímanum eða tónverk sem viðkomandi spilaði oft. Svakalegasta útgáfan er samt þegar stuttir lagabútar eða laglínur endurtaka sig ítrekað, jafnvel stanslaust hökt á milli tveggja nótna. Það hlýtur að vera andskoti við að búa.

Bláa verkið í D-dúr

letternumbercolor.gifSamruni skilningsvita einkennir fólk með synesthesia. Einn félagi okkar í Ameríku sá bókstafi í litum, R var brúnt, en F rautt og svo framvegis. Síðan fór það eftir fjölda og stöðu bókstafa hvort að nöfn fólks væru brún, græn eða himinblá (myndin sýnir mismun í litagerðum eftir einstaklingum, af vefnum www.musanim.com). Í bók Sacks er kynntur tónlistarmaður sem upplifði tónlist í litum. Verk í D-dúr var blátt fyrir honum, og það var algerlega eðlilegt. Einstaklingar með synesthesia upplifir sig ekki sem afbrigðilega, enda er þetta frekar einkenni en heilkenni. Birtingarformið er hins vegar mismunandi, verk sem er blátt fyrir einum er mosagrænt fyrir öðrum. Engir tveir einstaklingar eru með sama litróf fyrir tónstigann.

Oliver Sacks rekur þessi dæmi og fjölda annara af stakri prýði og sýnir okkur hversu djúpstæð tónlist er í vitund okkar. Hún kallar fram minningar í langt gengnum Alzheimer sjúklingum, þeir rísa við dogg og taka sporið. Tónlist vekur samkennd og mjög sterkar tilfinningar. Í bókinni er aðallega minnst á klassíska tónlist, sem og þjóð og sönglög frá eldri tímum. Ef til vill er þetta þversneið af sjúklingum þeim sem Sacks hefur sinnt, fáir pönkarar eru innritaðir á spítala (eða hafa efni á meðferð). Tónverkin og flytjendurnir skipta samt tæplega öllu máli. Eldmóður persóna Nick Hornby í High fidelity skilar sér ágætlega þótt maður haldi ekki upp á alla flytjendurna sem þar eru tilgreindir (reyndar eldist sá partur bókar Hornby illa, það sem var svöl pop-kúltúr tilvísun árið 1991 er fjarska hjákátlegt 15 árum síðar).

Uppruni tónlistar 

Fyrr á öldum var tónlist að öllum líkindum útbreidd, sönglög og vísur hafa örugglega ferðast manna á millum. Síglaðir söngvarar fóru á milli byggða og skemmtu fólki, kenndu heimamönnum ný lög og vísur. Tónlist er mikilvægur þáttur í allskonar helgiathöfnum og trúariðkunum, hún nýtist til að vekja sterk hughrif og hamra á boðskap sem koma á til skila (Jesú bróðir besti og Allah Akbar). Samt tel ég ólíklegt að tónást (musicophilia) sé aukaafurð trúarbragða, líklegra er að klerkar skipulagðra trúarbragða hafi séð hér leik á bórði til að sveipa helgiathafnir og þjóðsögurnar sínar fallegri blæ (svona rétt eins og Jesúrokk nútímans!).

En hver er uppruni tónlistar? Simpansar eru arfaslakir söngvarar, skrækja í besta falli og halda engum tón. Einhvern tímann í þróunartré manntegundar varð sönghæfileikinn til. Einn möguleiki er að söngur fylgi í kjölfar þróunarlegra breytinga á röddum og tilurð talmáls? Annar kostur er sá að fyrstu tjáskiptin hafi verið söngur, og að talmál hafi fylgt í kjölfarið? Mér þykir fyrri kosturinn líklegri, því tóngáfu er misdreift á fólk, en lang-lang flestir geta lært að tala. En eftir að tóneyra og sæmilegustu raddbönd komu til skjalanna er líklegt að söngur hafi orðið hluti af mannanna veröld. Spurningin er bara, hvenær þetta gerðist. Var þetta að gerast um það leyti og forfeður okkar yfirgáfu Afríku, eða áður en við skildumst frá Neanderdalsmönnum? Eða er söngur kannski ennþá eldri, gekk Lucy, hin frægasta drótt manntegundarinnar Australopithecus afarensis, kannski um steppur Afríku og söng Waka Waka...

Sjá einnig.

S Mithen The Singing Neanderthals: The Origins of Music, Language, and Body  2008

Samtal vort og Guðmundar Pálssonar í morgunútvarpi rásar 2. Hljóðrituninni lýkur aðeins of snemma, en þið misstuð ekki af miklu.

Leiðrétting.

Í fyrstu útgáfu pistils var talað um tónverk í D-major, sem er helber enska. Sem betur fer leiðrétti Sigurður Þór Guðjónsson mig. Honum á ég bestu þakkir skyldar. D-major er D-dúr og F-minor er F-moll.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband