Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Menntun og skóli

Aðskiljum heim menntunar og heim peninga

Eigum við að hækka skólagjöld (innritunargjöld), minnka ríkisstyrki, auka aðkomu atvinnulífs að menntakerfinu, auka námskröfur fyrir LÍN eða setja kvóta á fleiri námsbrautir?

Allar þessar spurningar fjalla um togstreituna milli peninga og menntunar. Páll Skúlason fyrrverandi rektor HÍ ræddi þetta ítarlega í Sjónmáli í gær (Háskólanám ekki einkafjárfesting nemandans).

Mikilvægi menntunar

Hann lagði áherslu á að peningar mega ekki einir ráða ferðinni. Við verðum að meta menntun að eigin verðleikum. Og líka átta okkur á að hún er ekki einkamál nemanda, heldur skiptir hún líka samfélagið máli. Samfélagið fjárfestir í góðri menntun þegnanna, með það að markmiði að upplýsa fólk og gefa því tækifæri til að bæta sig í lífi og starfi. Samfélagið fjárfestir líka í menntun, til að skaffa atvinnulífi hæfa einstaklinga og til að næra grasrótina þaðan sem nýjar hugmyndir og fyrirtæki spretta.

Sannarlega eru peningar af skornum skammti, en það er algerlega misráðið að einblína á menntakerfið með augum aurasálarinnar. Í Bandaríkjunum hafa peningasjónarmið verið ríkjandi í rekstri margra háskóla, með mörgun alvarlegum aukaverkunum. Meðal þess sem Páll tíundaði er það að skólagjöld í BNA hafa tilhneygingu til að hækka langt umfram almennt verðlag. Þetta skilar sér ekki endilega í betri menntun, en örugglega í feitari bónus fyrir rektor viðkomandi háskóla. Afleiðingin er líka stéttaskipting. Bara hinir ríku komast í bestu skólana. Og þeir sem læra í bestu skólunum fá bestu vinnurnar.

Páll talaði einnig um að flestir íslenskir háskólanemar taki nám sitt alvarlega, og séu ekki mikið að dúlla sér. Þetta er líklega rétt, en mér finnst samt vanta upp á að íslenskir nemendur skilji hversu mikil forréttindi háskólanám er. Um víða veröld er bágstatt fólk sem myndi gefa allt fyrir aðgang að góðri menntun, en á sama tíma sýna margir íslenskir nemendur merkilegt skeytingarleysi gagnvart eigin framtíð og náminu.

Ég veit ekki hverju veldur, en mig grunar að menntun geti ekki keppt við skemmtanasirkusinn um athygli fólks. Amk er ég skelfilega ginkeyptur fyrir lélegu sjónvarpsefni, fyrirsögnum um líkamsparta og ofbeldi, litríkum formum og lykt af heitri súkkulaðibitaköku.

Altént, einn mikilvægasti punktur Páls var að við þurfum að tala um mikilvægi menntunar, bæði við fullorðna fólkið og börn á öllum aldri.

Rás 1. Sjónmál 17. 2. 2014 Háskólanám ekki einkafjárfesting nemandans

Skylt efni.

Ritdómur um University, Inc.: The Corporate Corruption of American Higher Education eftir Jennifer Washburn.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband