Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Erfðabreytingar og ræktun

Samanburður á löggjöf um líftækni á norðurlöndum

Norræna lífsiðanefndin lét gera úttekt á löggjöf um líftækni og skyld mál á norðurlöndum. Skýrsla um þetta hefur verið gefin út, í samstarfi við Nordforsk, og er aðgengileg á netinu á vef Lífsiðanefndarinnar. Sirpa Soini ritstýrði verkinu, en sérfræðingar á öllum norðurlöndunum komu að því. Í inngangi skýrslunnar segir:

The Nordic Committee on Bioethics was established in 1996. However, Nordic collaboration in the biotechnological arena started as far back as 1987. Many new issues have emerged since then; for instance, in connection with the ability to read the entire genome, examine embryos before implantation and use stem cells for therapeutic purposes.

 

One of the tasks of the Nordic Committee on Bioethics is to follow legislative developments within the sphere of biotechnology in the Nordic countries. The Nordic countries have adopted surprisingly different regulatory approaches to sensitive biotechnological issues, e.g. assisted reproduction and prenatal diagnostics and screening.

 

In 2000, the Nordic Council recommended charting the legislation and regulations pertaining to biotechnology in the Nordic countries. The first report was published in 2003, with a second, broader overview in 2006. Given the rapid progress of technology and the emergence of legislation to regulate the field, it is due time to update the tables from the previous reports. The European Union is increasing regulation of various areas of biotechnology, but its mandate in the field of health basically remains complementary. However, to meet common safety concerns, the EU may adopt measures that set high standards of quality and safety of organs, tissue, blood, and medicinal products and devices. Thus areas such as clinical trials, market authorisation of medicinal products and handling of tissue and blood lie within the EU’s sphere, whereas access to assisted reproduction and genetic testing, for instance, do not. EU legislation is binding for Denmark, Finland and Sweden, but Norway and Iceland are not.

 

In addition to EU legislation, other supranational legislation may affect the legal landscape as well. The most important international biomedical document is the Council of Europe’s Convention for the Protection of Human Rights and Dignity of the Human Being with regard to the Application of Biology and Medicine from 1997 and the additional protocols. The legal status of the Convention and its protocols are listed in Table 16.

 

We hope that these tables can give the reader an overall picture of the legislation in the Nordic countries. However, it should be noted that the format cannot provide comprehensive information with all the necessary details. We therefore recommend contacting the respective country rapporteurs listed below.

 

Nálgast má skýrsluna í heild sinni á vef norrænu lífsiðanefndarinnar (NCbio).

egislation on biotechnology in the Nordic countries – an overview 2014

 


Afneitunarhyggja og flóttinn frá raunveruleikanum

María lætur ekki bólusetja barnið sitt. Hans afneitar erfðabreyttum maís. Jakóbína afneitar þróunarkenningunni, og trúir að guð hafi skapað líf á jörðinni fyrir fjórum milljörðum ára. Trilli afneitar gögnunum úr lyfjaprófinu og heldur áfram að selja pillur með alvarlegum aukaverkunum. Blómberg afneitar loftslagsvísindunum og trúir því að breytingar á loftslagi séu óháðar athöfnum mannsins.

Þetta eru nokkur dæmi um afneitunarhyggju (denialism), þar sem hluti samfélagsins afneitar veruleikanum og sættir sig við þægilega lýgi í staðinn.

Ekkert okkar er fullkomlega rökfast eða höfum rétt fyrir okkur í öllum málum. Þannig að stundum getum við tekið rangar ákvarðanir, höldum t.d. að morgungull með erfðabreyttum maís sé slæmt þegar enginn gögn styðja þann grun. En menn eru ekki eylönd. Og afneitanir geta ferðast manna á milli, rétt eins og góðar fréttir af útsölum eða nýju sýklalyfi. Þar á ofan myndast oft einarðir hópar í kringum vissar afneitanir og lífskoðanir.

Ef við höldum okkur við afneitun á erfðabreyttum maís, þá er augljóst að fólk sem markaðsetur lífrænan lífstíl, matvöru, hjálpartæki og "lyflíki" hagnýtir sér þetta mál til að þétta raðir og vinna nýja liðsmenn.

Afneitunarhyggja

Í hinum vestræna heimi er ákveðin mótsögn. Við byggjum velferð okkar á framförum tækni og vísinda, og grunngildum upplýsingarinnar. En margar af afurðum tækni og vísinda vekja okkur ugg. Michael Specter fjallar um þetta í bók frá árinu 2009, sem heitir Afneitunarhyggja (denialism). Hann vitnar í dæmi Michael Lipton um rafmagn. Ef rafmagn hefði fyrst verið notað í stuðprik og rafmagnsstóla, í stað ljósapera og vifta, er mögulegt að samfélagið hefði afneitað tækninni.

Bók Specters fjallar um afneitanir forkólfa lyfjafyrirtækja á eigin gögnum. Hann rekur dæmið um Vioxx, sem hafði jók tíðni hjartaáfalla hjá þeim sem tóku það, en Merck reyndi að hylja þá staðreynd með spuna og öðrum óþverrabrellum. Lyfið var á endanum tekið af markaði.

Hann fjallar líka um trúnna á vítamín og lífrænan mat, sem eins og áður sagði byggir á að fá viðskiptavini til að gangast undir ákveðna afneitun á gæðum annarar fæðu og kostum hefðbundins landbúnaðar.

Menn smíða gervilíf

Einn kaflinn hreyfði samt við mér. Hann fjallaði um gervilíf, synthetic biology. Hann lýsir þar möguleikum nýrrar tækni til að erfðabreyta lífverum. Þessi aðferð er frábrugðin hefðbundinni erfðatækni að því leyti að fleiri breytingar eru gerðar og þær samhæfðar, t.d. á ákveðin efnaskiptakerfi. Þegar ég las þann kafla, þá fann ég til tilfinningalegra ónota. Þannig skildi ég (að vissu leyti) andstæðinga erfðabreyttra matvæla og lífvera. Viðbrögð þeirra hljóta að vera líkamleg og tilfinningaleg, og ansi sterk.

Sálfræðingar hafa sýnt fram á að við erum ekkert sérstaklega rökvís, og að djúpgreypt fælni eða skoðanir geta mótað hegðan okkar. Daniel Kahneman fjallar um þetta í bókinni "Að hugsa hratt og hægt" (Thinking fast and slow), sem við rituðum um fyrir nokkru (alger perla sú bók fyrir þá sem hafa áhuga á mannlegri hugsun).

Gallar í bók Specters um afneitun

En umfjöllun þó Specters um gervilíf sé snörp og hreyfi við manni, þá er hún ekkert sérstaklega nákvæm. Hann er sekur um einfaldanir og óraunhæft mat á möguleikum tækninnar. Og að vissu leyti er það gallinn á bókinni allri. Hún er mjög snaggarlega skrifuð, uppfull af skörpum setningum og oft mjög háðskum. En rökflæðið er ekkert svakalega sterkt. Einnig afgreiðir hann afneitara á of einfaldann hátt.

Hann reynir ekki að skilja hvað fær fólk til að afneita tækni eða þekkingu?

Hvað er það í mannlegri hegðan sem fær okkur til að afneita vísindalegri þekkingu?

Hvað er það við miðlun þekkingar sem gerir fólki kleift að afneita henni?

Einnig spáir hann ekki í því hvernig við getum hjálpað fólki að yfirvinna fordóma á tækni eða félagslegum nýjungum?

En fyndnasti parturinn er að Michael Specter var afneitari sjálfur. Eins og DARSHAK SANGHAVI rekur í bókadómi í New York Times, þá hafði Specter sem blaðamaður ritað um kosti lyfjafyrirtækja og hvernig "óhefðbundnar" lækningar lofuðu góðu fyrir framtíðina. Í bók sinni hefur hann alveg söðlað um, og skammar Merck lyfjafyrirtækið fyrir að einblína á hagnað og fólk sem fellur fyrir boðskap um óhefðbundnar meðferðir og heilsubótarefni. Hann nýtir sér ekki tækifærið til að kafa í eigin afneitanir, og hvað hann þurfti til að sá villu síns vegar.

Bók Specters er hraðlesin og frísklega skrifuð. Hann vísar í ágætar heimildir og tekst á afneitunarhyggju, sem birtist á marga vegu í samfélagi nútímans. Hann hefði e.t.v. getað rýnt dýpra í ástæður fyrir afneitun og hvernig við sem einstaklingar og samfélag getum tekist á við fordóma okkar og afneitanir.

Þeir sem hafa áhuga á að fræðast um bókina bendi ég á tvo, ansi ólíka ritdóma í NY Times.

Ég get ekki beinlínis mælt með henni, nema í samhengi við aðrar betri bækur um skyld efni, bók Kahnemans og bækur Shermers (að neðan).

img_1137.jpgHér er smá raunveruleiki, sem væri sniðugt að flýja frá. Mynd AP.

Ítarefni.


Spriklandi andstæðingur erfðrabreyttra lífvera

Erfðatækni er notuð í landbúnaði til að betrumbæta plöntur og húsdýr. Hún er hluti af verkfærasetti sem ræktendur búa að, og nýtist t.d. til að gefa plöntum þol gagnvart sýklum eða jafnvel til að bæta ræktunareiginleika og afurðir.

Rannsóknir hafa sýnt að erfðabreyttar plöntur eru ekki síðri að næringarinnihaldi og almennt ekki hættulegar umhverfi og heilsu.

Engu að síður er umtalsverð tortryggni gagnvart erfðabreyttum plöntum. Gagnrýni andstæðinga erfðabreyttra lífvera byggir oft á heimspekilegum rökum og félagslegum. (við megum ekki breyta náttúrunni, eða erfðatækni er notuð af stórfyrirtækjum sem gera bændur að þrælum)

Endrum og eins bera andstæðingarnir upp rök sem virðast vísindaleg. Og það eru nokkrir (svokallaðir eða sjálfskipaðir) fræðimenn sem skaffa gögn eða greinar sem virðast benda til þess að erfðabreyttar plöntur séu hættulegar heilsu.

Einn þeirra er Gilles-Éric Séralini sem vinnur við háskólann í Caen í Frakklandi og er einnig stofnandi og stjórnandi stofnunar sem einbeitir sér að gagnrýni á erfðabreyttar lífverur (CRIIGEN).

Hann hefur sent frá sér nokkrar greinar, sem flestar hafa verið gagnrýndar af öðrum vísindamönnum vegna alvarlegra galla og oftúlkunar.

Árið 2012 birtist grein eftir Seralini og félaga í tímaritinu Food and Chemical Toxicology sem virtist benda til að erfðabreyttur maís ylli krabbameini í rottum.

Seralini með "niðurstöðurnar" í fjölmiðla og neitaði öðrum fagmönnum að lesa greinina áður en fréttin fór í loftið. Slíkt er mjög óalgengt, og þýðir að aðrir fagmenn geta ekki sett sig inn í málið áður en fréttamenn kynna það. (það að margir fréttamennirnir sættu sig við þetta skilyrði er áfellisdómur yfir þeirra vinnubrögð). Á sínum tíma skrifuðum við þetta.

En staðan er sú að fjöldi ritrýndra rannsókna hefur ekki fundið nein áhrif. Þessi rannsókn Serilinis sýnir skaðleg áhrif. Hvernig samrýmum við þetta tvennt?

a) Eru áhrif til staðar, en þau finnast bara í lengri tíma rannsóknum.

b) Áhrif eru til staðar, en þau eru það veik að þau finnast bara í fáum rannsóknum?

c)  Engin áhrif, niðurstaða Serilinis og félaga er jákvæð vegna tilviljunar (búast má við marktækum niðurstöðum í 1 af hverri 20 tilraunum - einungis vegna tilviljunar. Samkvæmt grunnsetningum tölfræðinnar því við sættum okkur við "falskar jákvæðar" - "false positive" niðurstöður í 5% tilfella).

d)  Engin áhrif en Serilini og félagar oftúlka niðurstöður sínar eða hönnuðu tilraunina vitlaust.

e)  Áhrif eru til staðar, en allir hinir vísindamennirnir vantúlka niðurstöður sínar eða hönnuðu tilraunirnar vitlaust.

Aðrir fagmenn lásu greinina og komust að því rannsóknin var mjög meingölluð að nær öllu leyti, og  að endingu var greinin dregin til baka af tímaritinu. Slíkt er gert ef upp kemst um gallaða tölfræði, illa hannaðar tilraunir og/eða oftúlkanir á niðurstöðum. Í þessu tilfelli var tilrauna uppsetningin gölluð og tölfræðileg greining ófullnægjandi. Þeir notuðu m.a. rottustofn þar sem 80% dýranna fá krabbamein og samanburðarhópurinn var svo lítill að tölfræðin var ómarktæk.

Andstæðingar erfðabreyttra lífvera tóku þetta óstint upp og sögðu að um þöggun væri að ræða.

Það er sannarlega matsatriði hvenær er rétt að draga grein til baka, en mér finnst eðlilegt að slíkt sé gert ef tilraunin er illa hönnuð, tölfræðin léleg eða niðurstöðurnar oftúlkaðar.

Aðrar rannsóknir, m.a. önnur langtíma rannsókn og stór samantekt í Food and Chemical Toxicology sýndi að erfðabreyttum maís hafði ekki áhrif á heilsu eða lífslíkur músa.

Óhellindi Seralinis

Hvað gerir Seralini næst, þegar búið er að draga grein hans til baka. Hann klæðir gögnin í ný föt og sendir í annað tímarit. Svo sendir hann út fréttatilkynningu og segir að greinin erfðabreyttur maís valdi krabbamein. Reyndar stóð í fyrri útgáfu greinarinnar "the data are inconclusive, due to the rat strain and the number of animals used", en sá varnagli var fjarlægður úr seinni útgáfunni. Einnig var fullyrt í fréttatilkynningu að rannsóknin væri ritrýnd, en ritstjóri  Environmental Sciences Europe sagði í viðtali að svo væri ekki.

Í þessari umræðu sem mörgum öðrum málum skiptir ekki máli hvort að gögnin séu rétt, heldur að "niðurstöðurnar" henti þeim sem hafa krók að maka. Seralini og margir andstæðingar erfðabreyttra lífvera tína til atriði sem henta þeirra skoðun og lífssýn, óháð því hvort þau eigi við rök að styðjast eða ekki.

Leiðrétting. Í fyrstu útgáfu pistilsins var spriklandi með tveimur k-áum.

Ítarefni:

John Entine Forbes 24. júní 2014. Zombie Retracted Séralini GMO Maize Rat Study Republished To Hostile Scientist Reactions

Arnar Pálsson | 21. september 2012  Veldur erfðabreyttur maís krabbameinum í mönnum?

 


Lífrænar kartöflur eru stressaðari en venjulegar kartöflur - hverjar eru afleiðingarnar?

Nýleg rannsókn kannaði genatjáningu í kartöflum sem ræktaðar voru á tvo ólíka vegu. Um var að ræða sama kartöfluafbrigðið, en þær voru ræktaðar á hefðbundinn hátt, eða á lífrænan hátt.

Genatjáning í öllu erfðamenginu var könnuð - þ.e. í tugþúsundum ólíkra gena. 

Í ljós kom að ræktunaraðferðin hafði áhrif á genatjáninga, í lífrænt ræktuðu kartöflunum var marktækt meiri tjáning á stress og varnargenum ýmiskonar.

Það sýnir óyggjandi að lífræn ræktun er stressandi fyrir kartöflur, og e.t.v. aðrar nytjaplöntur.

Spurning er hvort að þetta hafi einhverjar afleiðingar fyrir heilsu neytenda?

Kevin Folta visindamaður í Flórida hefur bent á að á landsvísu er jákvætt samband milli aukinnar neyslu lífrænna afurða og tíðni einhverfu.

Gögnin spanna 30 ára tímabil, frá  1980 til 2010 og sterk fylgni á milli breytanna.

Hefur Folta sannað að lífrænt ræktaðar afurðir valdi  einhverfu?

Aðrir hafa bent á að hlutfall erfðabreyttra matvæla (GMOfoods) hefur aukist samfara aukinni tíðni sykursýki og krabbameina í BNA.

Er þá sannað að erfðabreyttur matur veldur sykursýki og krabbameinum?

Svarið við báðum spurningum er NEI.

Fylgni sannar EKKI orsakasamband.

Rökvillan sem Folta setti fram var af sama meiði og sú sem andstæðingar erfðabreyttra lífvera halda á lofti.

Folta dró fram áþekkt dæmi, til að reyna að sýna fram á hversu hættulegt það er að halda að fylgni staðfesti orsakasamband.

Vigdísi Stefánsdóttur er þökkuð ábendingin.

Pistill Kevin Foltes er aðgengilegur á netinu: Organic Food Causes Autism and Diabetes 4. feb 2013.

Heimild um genatjáningu í kartöflum:

The Identification and Interpretation of Differences in the Transcriptomes of Organically and Conventionally Grown Potato Tubers Jeroen P. van Dijk, Katarina Cankar, Peter J. M. Hendriksen, Henriek G. Beenen, Ming Zhu, Stanley Scheffer, Louise V. T. Shepherd, Derek Stewart, Howard V. Davies, Carlo Leifert, Steve J. Wilkockson, Kristina Gruden, and Esther J. Kok Journal of Agricultural and Food Chemistry 2012 60 (9), 2090-2101


Merking erfðabreyttra matvæla felld í Kaliforníu

Samhliða kosningum um forseta bandaríkjanna og fulltrúa fylkja í öldungadeild og fulltrúadeildina var kosið um margvísleg önnur málefni í fjölmörgum fylkjum.

Í Kaliforníu var kosið um hvort það ætti að vera  "skylda að merkja erfðabreyttar matvörur". John Weaton sem barðist fyrir því að málið færi í almenna atkvæðagreiðslu kallaði það "The California Right to Know Genetically Engineered Food Act."

Samkvæmt Ballotapedia var tillagan, númer 37, felld:

No5,990,28052.3%
Yes 5,456,051 47.7%

Razib Khan og lesandi hans tóku saman gögn úr kosningunum eftir sýslum í Kaliforníu. Þá kemur í ljós mjög sterkt jákvætt samband  milli fylgis Obama og stuðnings við tillöguna. Myndin er af síðu Razib - gene expression.cNfRw

Það sýnir svart á hvítu að vinstrimenn eru tortryggnari á erfðabreytingar.

Hins vegar eru amerískir hægrimenn tortryggnir á loftslagsvísindi.

Hvorir tveggja efast um tiltekin vísindi sem snerta það svið mannlífsins sem þeim er kært (frelsið til að keyra trukka og frelsið til að upplifa - þar með borða - náttúruna).

Traust vísindaleg gögn ganga gegn afstöðu beggja hópa. Loftslagsvísindamenn eru sammála um að maðurinn hafi breytt loftslagi með því að seyta út koltvíldi og öðrum lofttegundum. Á sama hátt álykta matvælafræðingar og heilbrigðisvísindamenn að erfðabreyttar plöntur og afurðir úr þeim séu jafngildar venjulegum nytjaplöntum og afurðum.

Færa má rök fyrir því að hin íslenska reglugerð um að skylt sé að merkja matvæli sem innihalda hráefni úr erfðabreyttum plöntum sé ósanngjörn. Hún lækkar allavega ekki verðið til almenns neytanda.

Gáfulegra væri að hafa kerfi hliðstætt því sem gyðingar hafa. Kosher merking er á fæðu sem uppfyllir trúarlega staðla, og stranghlýðnir gyðingar velja þá fæðu. Á sama hátt gætu strangtrúaðir hreinmatistar komið sér upp merkingum á því sem ekki er erfðabreytt, og borgað sjálfir fyrir kostnaðinn í stað þess að velta honum á neytendur annara matvæla.


Miðlun vísindalegrar þekkingar á öld veraldarvefsins

Vísindin byggja á strangri og varkárri aðferð. Settar eru fram skýrar tilgátur og þær prófaðar á sem strangastan hátt. Reynt er að afsanna tilgáturnar, með vandaðri uppsetningu tilrauna og rannsókna og næmum prófum.

Þegar ekki tekst að hrekja tilgátu - má draga varfærnar ályktanir um að einhverjar líkur séu á hún sé rétt. Tilgátan er hins vegar ekki sönnuð! Tilgátur eru nefnilega ekki sannaðar, heldur eru þær meðteknar - uns annað kemur í ljós.

Ef tilgáta standast ítrekuð próf dvínar óvissan um sannleiksgildi hennar og hún fær stöðu lögmáls eða staðreyndar. Dæmi um þetta eru afstæðiskenning Einsteins og þróunarkenningin*.

Tilgátur þurfa að uppfylla nokkur skilyrði, um prófanleika, einfaldleika, rökrænt samræmi og tengingu við grundvallarþekkingu. Vísindin byggja nefnilega á grundvallarþekkingu, og bæta við hana. 

Stundum eru settar fram tilgátur sem ganga gegn grundvallarþekkingu,  en þá er krafan sú að þannig tilgátur þurfi mjög sterkan stuðning til að teljast samþykktar (Extraordinary claims require extraordinary evidence - Carl Sagan).

Í nútímasamfélagi geta vísindamenn og hagsmunaðillar beitt veraldarvefnum til að blása út skoðanir og hjávísindi, sem ganga þvert á grundvallarþekkingu. Tvö dæmi eru rædd hér.

Í fyrsta lagi er það herferð orkufyrirtækja gegn loftslagsvísindunum. Sú herferð er mjög vel studd fjárhagslega, byggir á stórum stofnunum sem sveipa sig vísindalegri slæðu, og nýtir sér net fjölmiðla, bloggara og fréttamanna til að kasta rýrð á þá vísindamenn sem hafa fundið út að mennirnir eru að valda verulegum loftslagsbreytingum á jörðinni.

Í öðru lagi er Giles-Eric Serilini og félagar á stofnuninni Committee for Research and Independent Information on Genetic Engineering, sem er sjálfseignarstofnun með markmiðið:  (CRIIGEN is an independent non-profit organization of scientific counter-expertise to study GMOs, pesticides and impacts of pollutants on health and environment, and to develop non polluting alternatives).

Serilini komst í fréttirnar í september mánuði þegar rannsókn hans og félaga birtist í tímaritinu Food and Chemical Toxicology. Í rannsókninni var því haldið fram að erfðabreyttur maís og illgresiseitrið Round-up ylli krabbameini.

Vandamálið er bara að rannsóknin var meingölluð, eins rakið hefur verið ítarlega (Veldur erfðabreyttur maís krabbameinum í mönnum?, Erna Magnúsdóttir Skaðsemi erfðabreyttra matvæla http://www.vantru.is/2012/09/21/13.00/NHS: Claims of GM foods 'link to cancer' disputed by other researchers). Sex franskar vísindaakademíur (Serilini vinnur við Háskólann í Caen) gagnrýndu greinina og sögðu að ályktanir hennar stæðust ekki vegna alvarlegra aðferðagalla.

Hér er því dæmi um vísindalega útlítandi grein, sem ekki er hægt að treysta. Í vísindum er nokkur dæmi um slíkt, en afleiðingarnar eru ekki það alvarlegar. Ef allir sem þurfa vita að viðkomandi grein er bull og stundum eru slíkar greinar jafnvel dregnar til baka. En ef grein (eða hugmynd) sem þessi öðlast sjálfstætt líf, fyrir utan veröld vísindanna, þá geta afleiðingarnar orðið alvarlegar.

Það er einmitt tilfellið með grein Serilinis, hún var kynnt á opnum fjölmiðlafundi með miklum látum. Fréttin sjálf flaug um víða veröld, en spurnir af veikleikum rannsóknarinnar hafa skriðið með veggjum. Fiskisagan flýgur en netið situr fast.

Hvað geta vísindamenn á viðkomandi fagsviði gert í þessari stöðu?

Eiga þeir að senda fréttamönnum/ritsjórum ábendingar?

Eiga þeir að skrifa í blöðin (blogga, eða setja upp youtube videó) til að gagnrýna svona rangfærslur?

Eiga þeir að framkvæma sjálfstæða rannsókn á þeim fyrirbærum sem "bullgreinin" ræðir?

Eiga þeir að loka augunum og halda áfram sínu starfi (haus í sand nálgun)?

Eiga þeir að senda kjörnum fulltrúum póst og leiðrétta skyssur í málflutningi þeirra?

Altént, vísindin eiga ekki upp á pallborðið hjá öllum. Orkufyrirtækin agnúast í loftslagsvísindamenn, umhverfissinnar í sameindaerfðafræðingum, útgerðamenn í fiskifræðingum (nema þegar þeir eru að reyna kreista makríl úr ESB) og refaskyttur í refafræðingum. Kannski að ég fari bara að rannsaka stórnraðir gena í ávaxtaflugu...en nei ó nei,  ég gæti þurft að nota erfðatækni og hún er af hinu illa.

*Ekki þróunarkenning Darwins, því hún var ekki alveg rétt og var betrumbætt með réttri erfðafræði á síðustu öld.


Erindi: Nóbelsverðlaun, erfðabreytt hveiti og opinn aðgangur

Nokkur forvitnileg erindi eru í boði í vikunni. Fyrst ber að nefna erindi Guðbjargar Aradóttur líffræðings um erfðatækni (Erfðabreytt hveiti og samfélagsumræðan)

Mánudaginn 22. október kl. 15 mun Guðbjörg Inga Aradóttir (Gia Aradóttir) líffræðingur halda fyrirlestur í húsi Landbúnaðarháskóla Íslands á Keldnaholti um rannsóknir á erfðabreyttu hveiti við Rothamsted rannsóknarstofnunina í Bretlandi. Gia var nokkuð í fréttum síðast liðið sumar vegna þátttöku sinnar í þessari rannsókn sem komst í fjölmiðla þegar hópur sem kallaði sig ‚Take the flour back‘ hótaði að skemma tilraunareiti með hveitinu. Rannsóknahópurinn brást við þessu með nýstárlegum hætti þegar hann sendi frá sér myndband á YouTube til þess að skýra sína hlið málsins og óskaði jafnframt eftir samræðum við hópinn sem hótað hafði skemmdarverkum.

Á fimmtudaginn mun Guðrún Valdimarsdóttir lektor, lífefna-og sameindalíffræðistofu, Lífvísindasetri læknadeildar fjalla um Nóbelsverðlaunin í lífeðlis og læknisfræði 2012. (25. október 2012 - 12:20 til 13:00 á Keldum)

Nóbelsverðlaunin í lífeðlis- og læknisfræði árið 2012 skiptast á milli tveggja vísindamanna, Dr. John B. Gurdon, University of Cambridge, og Dr. Shinya Yamanaka, Kyoto University. Verðlaunin eru veitt fyrir þá uppgötvun að þroskaðar, sérhæfðar frumur er hægt að endurforrita í fjölhæfar stofnfrumur. Uppgötvun þeirra breytti þeirri almennu skoðun að starfsemi og eiginleikar líkamsfruma (somatic cells) væru óafturkræf. Dr. Gurdon klónaði fyrstur manna  frosk þar sem hann flutti kjarna úr sérhæfðri líkamsfrumu úr froski í kjarnalaust egg  og sýndi  fram á að erfðaupplýsingarnar úr líkamsfrumunni nægðu til að mynda halakörtu  (1962). Dr. Yamanaka varð fyrstur til að umbreyta sérhæfðri líkamsfrumu beint í fjölhæfa stofnfrumu (2006).  Í erindinu verða rannsóknir þeirra raktar og fjallað um notagildi þeirra í læknisfræðilegum tilgangi.

Á föstudaginn verður haldið upp á viku opins aðgangs með örmálþingi í Öskju 

Í tilefni af alþjóðlegu Open Access vikunni (http://www.openaccessweek.org) verður haldið örmálþing um opið aðgengi (OA) að birtu fræðiefni, með þáttöku LUVS, Heilbrigðisvísindabókasafns LSH og Rannís. Kl. 12:30 - 13:30 í stofu 130.


Erfðatækni, umhverfi og samfélag

Í framhaldi af námskeiði um erfðatækni og samfélag, í samstarfi LBHI, HI og HA, hefur nú verið ákveðið að bjóða upp á 3 endurmenntunarnámskeið sem spanna notkun erfðatækni í landbúnaði, matvælaiðnaði og áhrif hennar á heilsu. Áhugasömum er bent á tilkynningu frá LBHI.

Erfðatækni, umhverfi og samfélag 

Í samstarfi við Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og Matvælastofnun

Stök námskeið á sviði erfðatækni sem henta þeim sem vilja efla og dýpka þekkingu sína á erfðatækni á einn eða annan máta. Námskeiðin geta t.a.m. nýst vel þeim sem vinna við fjölmiðla, almenningsfræðslu, kennurum á mismunandi skólastigum, starfsfólki í heilbrigðisgeiranum, þeim sem vinna við landbúnað sem og þeim sem vinna við lyfja - og matvælaframleiðslu. Á námskeiðunum verður farið yfir hvað felist í erfðatækni og hvernig megi nýta þessa tækni í grunnrannsóknum, læknisfræði, landbúnaði og matvælaiðnaði. Lögð verður áhersla á að fjalla um málið frá öllum hliðum og kynntir verða bæði möguleikar og takmarkanir við beitingu tækninnar, þ.m.t. hugsanlegar hættur fyrir heilsu manna og umhverfið.

Hagnýting erfðatækni í landbúnaði

Kennarar: Áslaug Helgadóttir prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, Jón Hallsteinn Hallsson dósent við Landbúnaðarháskóla Íslands, Arnar Pálsson dósent/Zophonías Jónsson dósent við Háskóla Íslands og Guðni Elísson prófessor við Háskóla Íslands.

Tími: Fim. 1. nóv., kl. 12:30-17:00 hjá LbhÍ á Keldnaholti í Reykjavík

Hagnýting erfðatækni í matvælaiðnaði

Kennarar: Oddur Vilhelmsson dósent við Háskólann á Akureyri, Helga Margrét Pálsdóttir sérfræðingur hjá Matvælastofnun, Arnar Pálsson dósent/Zophonías Jónsson dósent við Háskóla Íslands og Guðni Elísson prófessor við Háskóla Íslands.

Tími: Fim. 8. nóv., kl. 12:30-17:00 hjá LbhÍ á Keldnaholti í Reykjavík

Hagnýting erfðatækni í heilbrigðisvísindum og áhrif erfðabreyttrar fæðu á heilsu

Kennarar: Magnús Karl Magnússon prófessor við Háskóla Íslands, Eiríkur Steingrímsson prófessor við Háskóla Íslands, Arnar Pálsson dósent/Zophonías Jónsson dósent við Háskóla Íslands og Guðni Elísson prófessor við Háskóla Íslands.

Tími: Fim. 15. nóv., kl. 12:30-17:00 hjá LbhÍ á Keldnaholti í Reykjavík.

Ef þátttakandi skráir sig á öll námskeiðin þrjú, þá er veittur 20% afsláttur af heildar­reikningi og því einungis greitt 23.760kr. Einnig er hægt að skrá sig á staka daga og kostar þá hver dagur 9.900kr. Skráningar: endurmenntun@lbhi.is (fram komi nafn, kennitala, heimili, sími og nafn námskeiðs) eða hafa samband í síma: 433 5000


Veldur erfðabreyttur maís krabbameinum í mönnum?

Erfðabreyttar lífverur eru umdeildar. Þær eru búnar til með erfðatækni, sem gerir vísindamönnum kleift að flytja gen úr einni lífveru yfir í aðra. Jafnvel úr bakteríu yfir í plöntur. Ég hef skrifað töluvert um erfðabreyttar lífverur komið þeim og erfðatækninni til varnar. Hér er lyklaborðið aftur lamið, því í vikunni birtist ritrýnd rannsókn frá Giles-Eric Serilini og félögum hans við háskólann í Caen í Frakklandi.

Uppsetning tilraunar

Þar er lýst fæðutilraun, 200 rottum er skipt í 10 hópa (með jöfnum kynjahlutföllum). Hvítar rottur af stofninum Sprague-Dawley voru notaðar í rannsókninni. Vitað er að í þeim myndast mjög gjarnan krabbamein (brjóstamein aðallega) ef dýrin borða óhóflega mikið.

Hópur tuttugu rotta til viðmiðunar fékk venjulegan maís í ætinu, en hinir níu hóparnir fengu erfðabreyttan maís (roundup-ready), erfðabreyttan maís af akri sem var spreyjaður með eitrinu (roundup) eða venjulegan maís og roundup í drykkjavatninu. Athugað var hvort að styrkur hefði áhrif, með því að bæta mismiklu af erfðabreytta maísnum í fæðuna (11%, 22% eða 33%), eða hafa mismikið af Roundup í vatninu.

Uppsetningin er ágæt, nema hvað viðmiðunarhópurinn er helst til lítill að mínu viti. Og það hefði verið mjög gott að hafa óháðar endurtekningar af rottuhópunum, eða jafnvel annan stofn (meira um það síðar).

Niðurstöður og ályktanir hópsins voru kynntar á blaðamannafundi nýlega. Gagnstætt venju, fengu blaðamenn ekki eintak af vísindagreininni fyrirfram, nema þeir undirrituðu "Non-disclosure samning". (Það er óheppilegt, því það gefur blaðamönnum styttri tíma að leita álits óháðra aðilla, áður en fréttirnar fara í loftið.)

Ályktanir rannsóknarinnar eru sláandi. Erfðabreyttur maís og illgresiseitrið roundup drepur rottur og eykur tíðni krabbameina. Það er hins vegar vert að kafa aðeins í gögnin. Þeir segja að dánartíðni rotta sem fengu erfðabreyttan maís eða maís ræktaðan með roundup sé hærri en viðmiðunarhópsins. Einnig að tíðni krabbameina sé hærri meðal þeirra sem fengu meðhöndlun en tuttugu viðmiðunarrottaanna. Reyndar vantar tölfræði í greinina, sem þýðir að þeir geta ekki staðhæft að um marktæk áhrif sé að ræða. Þegar rýnt er í myndirnar má e.t.v. sjá áhrif í kvendýrum en ekkert í karldýrum. (sjá mynd 1 á vefsíðu tímaritsins) Fleiri agnúar á greininni eru ræddir hér neðar.

Hvað þýðir þetta - er roundup-ready erfðabreyttur maís hættulegur mönnum?

Í þessu tilfelli voru rottur notaðar sem líkan til að kanna möguleg áhrif af erfðabreyttri plöntu og áhrifum illgresiseiturs. Niðurstöðurnar virka afdráttarlausar, en spurning er hvort að samskonar maís (eða afurðir af ökrum sem eru spreyjaðir með roundup) séu hættulegur mönnum? Þetta má brjóta niður í nokkrar spurningar:

1) hversu gott líkan fyrir líffræði mannsins er rottan?

Svarið er að rottan er góð fyrir sumar rannsóknir en slæm fyrir aðrar. T.d. er rottan ekki gott líkan fyrir HIV rannsóknir, vegna þess að ónæmiskerfi þeirra er harla ólíkt okkar. Hins vegar er nagdýrið, eins og skylda tegundin mús, ágætt til að skilja þroskun margra líffæra, sérstaklega líffæra sem eiga langa þróunarsögu.

2) hversu gott líkan er þessi tiltekni rottustofn?

Er þessi tiltekna gerð af rottum sé gott líkan fyrir rannsóknir á eituráhrifum fæðu?  Ég veit ekki svarið - en eiturefnafræðingar eða nagdýrasérfræðingar ættu að geta svarað því. Það er örlítið tortryggilegt að þessi stofn sé útsettur fyrir krabbameinum ef um ofeldi er að ræða. Því væri mjög mikilvægt að tryggja að allir hópar (viðmið og hinir) fái jafnmikið að borða. Þeir segjast mæla fæðuinntöku en ræða ekki áhrif hennar.

3) hvað segja aðrar rannsóknir?

Í vísindum er nauðsynlegt að  endurtaka rannsóknir. Það er ekki nóg að einn aðilli fái tilteknar niðurstöður. Hann þarf að lýsa framkvæmdinni nægilega vel, og aðrir að geta endurtakið hana og fengið sömu (áþekkar) niðurstöður, til að vísindasamfélagið öðlist tiltrú á hugmyndinni. Nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar á erfðabreyttum mais, en þær hafa ekki fundið nein skaðleg áhrif.

Það viðurkennist að þær tóku einungis til 90 daga tímabils. Það er fullkomlega sanngjarnt að krefjast langtímarannsókna.

En staðan er sú að fjöldi ritrýndra rannsókna hefur ekki fundið nein áhrif. Þessi rannsókn Serilinis sýnir skaðleg áhrif. Hvernig samrýmum við þetta tvennt?

a) Eru áhrif til staðar, en þau finnast bara í lengri tíma rannsóknum.

b) Áhrif eru til staðar, en þau eru það veik að þau finnast bara í fáum rannsóknum?

c)  Engin áhrif, niðurstaða Serilinis og félaga er jákvæð vegna tilviljunar (búast má við marktækum niðurstöðum í 1 af hverri 20 tilraunum - einungis vegna tilviljunar. Samkvæmt grunnsetningum tölfræðinnar því við sættum okkur við "falskar jákvæðar" - "false positive" niðurstöður í 5% tilfella).

d)  Engin áhrif en Serilini og félagar oftúlka niðurstöður sínar eða hönnuðu tilraunina vitlaust.

e)  Áhrif eru til staðar, en allir hinir vísindamennirnir vantúlka niðurstöður sínar eða hönnuðu tilraunirnar vitlaust.

Mér finnst líklegast að kostur b) eða c) sé sá rétti. Ef við þurfum að velja á milli d) og e), þá telst fyrri kosturinn líklegri, á því prinsippi að samsæri gengur bara upp ef fáir standa að því.

4) Hvaða niðurstöðum getum við treyst?

I nútíma samfélagi er offramboð á upplýsingum, frá auglýsendum, sérhagsmunahópum, stjórnvöldum, sveitastjórnum og fræðimönnum. Hvernig á hinn almenni borgari að vinna úr þessum upplýsingum og hvernig getur hann tekið sína sjálfstæðu ákvörðun? Í þessu tilfelli eru helstu aðillarnir fyrirtækin sem selja erfðabreyttar lífverur (og illgresiseyði), stjórnvöld sem vilja tryggja öryggi borgaranna, stjórnmálamenn sem vilja það sama og stjórnvöld og atkvæði að auki, hagsmunsamtök og fyrirtæki sem hag hafa af því að móta neyslumynstur almennings. Lífvísindamenn hafa óbeinna hagsmuna að gæta, því að löggjöf um erfðabreyttar lífverur setur rannsóknum þeirra skorður (sem kosta peninga).

Í málinu má stilla upp tveimur andstæðum hópum. Serilini og nokkir samstarfsmanna hans, eru í öðrum hópnum. Hann hefur birt nokkrar rannsóknir á erfðabreyttum plöntum, og nær alltaf fundið eitthvað þeim til foráttu. Hann er einnig forstöðumaður Committee for Research and Independent Information on Genetic Engineering, sem er sjálfseignarstofnun með þetta markmið (CRIIGEN is an independent non-profit organization of scientific counter-expertise to study GMOs, pesticides and impacts of pollutants on health and environment, and to develop non polluting alternatives.). Serilini og félagar lýsa því yfir að engir hagsmunaárekstrar séu tengdir rannsóknunum.

Í hinum hópnum eru nær allir aðrir vísindamenn, sem hafa kannað eiginleika og áhrif erfðabreyttra lífvera. Meðal annars eru menn sem hafa farið í saumana á rannsóknum Serilinis og gagnrýnt þær fyrir ófaglega tölfræði, oftúlkanir á niðurstöðum og hreinar ýkjur.

Í kjölfarið á birtingu þessarar rannsóknar hefur frekar skerpst á þessum línum en hitt.

5) hvar liggur sönnunarbyrðin?

Það er algengt að rætt sé um sönnurnarbyrði í umræðu um erfðabreyttar lífverur. Andstæðingar þeirra staðhæfa að ekki hafi verið sannað að þær hafi ekki skaðleg áhrif. Á meðan þeir sem verja erfðabreyttar lífverur segja að slík krafa sé óraunhæf, því ekki beitum við henni á aðrar nýjungar í matvælaframleiðslu (eða spjaldtölvur, nanotækni, snyrtivörur og tónlist). Við getum aldrei sannað að erfðabreyttar plöntur hafi engin áhrif, frekar en að við getum sannað að skyr sé ekki krabbameinsvaldandi. Reyndar vita næringarfræðingar að vissir fæðuflokkar eða matarvenjur auka líkurnar á tilteknum krabbameinum, sem sjá má í landfræðilegum mun á tíðni vissra krabbameina.

6) hvar liggur ábyrgðin?

Ábyrgð vísindamanna er að rannsaka mikilvæg viðfangsefni, og ef þau tengjast almannahagsmunum miðla af þekkingu sinni af kunnáttu og hófsemi. Þeir ættu að varast of stórar yfirlýsingar, bæði um mögulega hættu og um að engin hætta sé á ferðum. Það á við um rannsóknir á eðlisfræði, efnafræði, líffræði og læknisfræði. Í þessu tilfelli hafa margar rannsóknir kannað spurninguna um áhættu af erfðabreyttum nytjaplöntum, og ekki fundið neina vísbendingu um skaðleg áhrif. Sannarlega er möguleiki að við höfum ekki kannað rétta þætti, eða á réttan hátt. Síðan er það spurning hvort að við viljum að vísindamennirnir hrópi úlfur í hvert sinn sem þeim grunar að eitthvað hræðilegt sé að fara að gerast (að sandsílið sé að hverfa, að makríllinn sé að borða sandsílið, að lundarnir séu ekki nógu hamingjusamir, að rjómatertur séu óhollar, að hreyfing slíti likamanum, að hefðbundin matvæli muni ganga til þurrðar). Ég er hallur undir hófstilltari umræður, og á málefnalegum grunni. Umræða um erfðabreyttar lífverur vekur miklar tilfinningar, og oft er grautað saman tilfinningalegum, félagslegum og mishaldbærum líffræðilegum rökum.

7) er Roundup (glyphosate) hættulegt mönnum?

Þessi spurning hefur verið könnuð í amk 20 mismunandi rannsóknum. Greining Pamelu Mink og félaga á þessum rannsóknum, bendir til þess að glyphosate í þeim styrk sem það berst í fólk auki ekki líkurnar á krabbameini.

Our review found no consistent pattern of positive associations indicating a causal relationship between total cancer (in adults or children) or any site-specific cancer and exposure to glyphosate.

En þau mæla samt með því að við flokkum og fylgjumst með þessu efnum.

Annmarkar við tilraun og framkvæmd

Nokkrir annmarkar eru á rannsókninn (sjá sérstaklega samantekt á síðu Bresku heilbrigðisþjónustunar: Claims of GM foods 'link to cancer' disputed by other researchers).

Forvitnilegt er að engin magnáhrif eða samlagningaráhrif eru greind. Þ.e. engin aukning er á dánartíðni eða krabbameinum á milli rotta sem fá 11%, 22% eða 33% af erfðabreyttum maís (né af roundup meðhöndlun). Einnig mætti búast við samlagningaráhrifum ef erfðabreytti maísinn og illgresiseitrið hefðu áhrif á mismunandi vegu. Það eitt og sér er ekki Slík áhrif sjást ekki í gögnunum.

Ég tel ákaflega brýnt að endurtaka tilraunina, helst með fleiri rottum til viðmiðunar (sjá að ofan), í fleiri stofnun og á ólíkum rannsóknastofum. Mikilvægt er einnig að uppsetningin sé þannig að þeir sem framkvæmi tilraunina, viti ekki hvaða fæði hvaða rotta er að fá. Þetta er krafan um blinda tilraun, rotturnar fá fæðu A, B, C...o.s.frv. en sá sem sinnir nagdýrunum vita ekki samsetningu hverrar blöndu fyrir sig.  Ath. ég er ekki að staðhæfa að "athuganda" áhrif hafi verið ástæðan fyrir því að viðmiðunar rotturnar fengu ekki krabbamein og lifðu lengur. Heldur vill ég bara sjá betur uppsetta tilraun.

Lokaorð

Það verður að viðurkennast að við upphaf lesturs greinarinnar þá var ég frekar efins um mikilvægi hennar. Ítarlegur lestur sannfærði mig ekki um að erfðabreyttur maís (eða roundup) séu hættuleg heilsu manna. Ég tel hins vegar mikilvægt að tilraunin sé endurtekin, helst af nokkrum óháðum hópum og með öðrum rottuastofnum. Samt grunar mig að ef slíkar rannsóknir hrekja niðurstöður Seralini, þá muni þær aldrei verða ræddar jafn ítarlega og þessi grein. Engin þeirra frétta sem ég las, greindi t.d. frá niðurstöðum frú Mink og félaga um að Roundup virðist ekki tengjast krabbameinum. Því miður sækjum við mannfólk í hasar og læti, og kunnum ekki almennilega að meta gildi hófstilltrar umræðu eða vísindavinnu.

Ítarefni, heimildir og dæmi um umræðuna.

Long term toxicity of a Roundup herbicide and a Roundup-tolerant genetically modified maize  Gilles-Eric Séralini, Emilie Clair, Robin Mesnage, Steeve Gress, Nicolas Defarge, Manuela Malatesta, Didier Hennequin, Joël Spiroux de Vendômois Food and Chemical Toxicology Available online 19 September 2012

NHS: Claims of GM foods 'link to cancer' disputed by other researchers

Epidemiologic studies of glyphosate and cancer: A review Pamela J. Mink, Jack S. Mandel, Bonnielin K. Sceurman, Jessica I. Lundin  Regulatory Toxicology and Pharmacology Volume 63, Issue 3, August 2012, Pages 440–452.

Erna Magnúsdóttir Skaðsemi erfðabreyttra matvæla http://www.vantru.is/2012/09/21/13.00/

Egill Helgason Rannsókn sýnir hættu vegna erfðabreytts maís

Leiðrétting. Í fyrstu útgáfu pistils ruglaði ég saman mús og rottum, sem er kannski vottur um ávaxtaflugusnobb af minni hálfu. Munurinn á þessum nagdýrum hefur ekki áhrif á inntak greinarinnar.


Efasemdastöðin sefur aldrei

Umhverfisráðaneytið sýndi gott frumkvæði með því að skipuleggja ráðstefnu um erfðabreyttar lífverur, sem haldin var 15. maí síðastliðinn. Fenginn var meira að segja erlendur sérfræðingur, til að fjalla um reynslu Dana og regluverk þeirra. Aðrir fyrirlesarar voru meðal annars sérfræðingar frá Umhverfisstofnun, Umhverfisráðaneytinu og Háskóla Íslands og Akureyrar.

Fjallað var um eiginleika erfðabreyttra lífvera, regluverk og rannsóknir sem hafa metið áhættuna af slíkum lífverum á heilsu og umhverfi. Því miður komst ég ekki á fundinn, vegna annara starfa, en viðmælendur mínir sögðu umfjöllunina hafa verið vandaða og skýra.

Eiríkur Steingrímsson fjallaði um mögulegar hættur af erfðabreyttum lífverum á heilsu. Hann tók  sérstaklega fyrir vísindagreinar sem andstæðingar erfðabreyttra lífvera hafa haldið á lofti. Þeir halda að vísindarannsóknir þessar sanni að erfðabreyttar lífverur séu hættulegar heilsu fólks, en fara þar með staðlausa stafi. Þær rannsóknir sem um ræðir standast ekki gæðakröfur. Þær eru annað hvort illa skipulagðar (vantar t.d. viðmiðunarhóp), nota mælitækni á óviðeigandi hátt, oftúlka smávægileg eða óviðeigandi tilhneygingar í gögnunum. Því ályktar Eiríkur að erfðabreytt matvæli hafi engin áhrif á heilsu fólks (viðtal í 10 fréttum 15. maí 2012, byrjar um 7 mínútu).

Í umræðum eftir sem hófust að loknum fyrirlestrum fór hins vegar mikið fyrir andstæðingum erfðabreyttra lífvera, sem fannst þeirra rödd ekki hafa fengið að heyrast. Viðmælendur mínir segja að fum hafi komið á ráðherra umhverfismála, og hún hafi beðist afsökunar á því að rödd almennings hafi ekki fengið að heyrast (eftir því sem ég best veit, leiðréttið mig ef rangt er með farið)*. Grein eftir Svandísi (Leitin að samræðugeninu) birtist síðan í Fréttablaðinu 17. maí 2012. Þar segir m.a.

Þegar upp var staðið reyndumst við hafa skipulagt málþing, þar sem sérfræðingar og fulltrúar stjórnsýslu áttu sviðið - en sjónarmið almennings áttu ekki fulltrúa meðal frummælenda. Jafnframt reyndist á köflum of lítið gert úr afstöðu þeirra sem setja spurningarmerki við ýmsa þætti erfðabreyttrar ræktunar. Í kjölfarið hefur hluti umfjöllunarinnar verið gagnrýndur fyrir að umgangast andstæðar skoðanir ekki af nægjanlegri virðingu - og þar með gera þeim sem ekki aðhyllast sömu sterku vísindahyggjuna erfiðara að taka þátt í samræðunni.

Umhverfisráðuneytið leit alltaf á málþingið sem fyrsta skrefið í að móta ítarlega stefnu hér á landi um erfðabreytta ræktun. Við höldum ótrauð í það ferðalag, þó ekki hafi tekist nógu vel við fyrsta skrefið. Vonandi finnum við samræðugenið á leiðinni, svo okkur auðnist að gera ólíkum sjónarmiðum jafnhátt undir höfði við þá stefnumótun. [feitletrun AP]

Auðvitað er eðlilegt að almenningur, fræðimenn og stjórnsýslan ræði málin. Vandamálið er bara að velja fulltrúa almennings. Eins og staðan er hérlendis heldur frekar þröngur hópur hagsmunaaðilla (Slow foods hreyfingin, samtök lífrænna ræktenda og nattúra.is) uppi áróðri gegn erfðabreyttum lífverum. Segja má að andófið sé hluti af þeirra markaðssetningu, þeir skilgreina sinn "hreinleika" með því að taka einarða afstöðu gegn erfðabreyttum lífverum, og sérstaklega nytjaplöntum (rétt eins og Greenpeace öfluðu fylgi með mótmælum gegn hvalveiðum). Þessi hópur sem skírskotað er til í greininni sem almenningur, er það ekki heldur hagsmunahópur. 

Á fundinum voru næstum eingöngu fræðimenn, fulltrúar stjórnsýslu og andstæðingar erfðabreyttrar ræktunar**. Það voru sárafáir, ef einhverjir "almennir" borgarar. Mér skilst einnig að engir fulltrúar fréttamiðla hafi setið allan fundinn. Hvernig í ósköpunum ætla fjölmiðlar að fjalla um svona mál ef þeir gefa sér ekki tíma til að hlýða á málflutninginn? Ef fréttamenn hafa brennandi spurningar um þetta mál, hefðu þeir átt að koma með þær og pumpa fyrirlesarana.

En víkjum aðeins að orðum ráðherra. Hún segir að fyrirlesarar hafi verið gagnrýndir fyrir að:

... umgangast andstæðar skoðanir ekki af nægjanlegri virðingu - og þar með gera þeim sem ekki aðhyllast sömu sterku vísindahyggjuna erfiðara að taka þátt í samræðunni.

Með öðrum orðum, vísindamenn eru hrokagikkir. Það er sannarlega satt að fæstir vísindamenn eru mjúkmálir sleikipinnar, sem geta pakkað hlutunum í silki og satínslæður. Það er ekki hluti af okkar starfslýsingu. Vísindamenn læra að greina vandamál, hanna tilraunir, framkvæma þær og draga ályktanir. 

Orðalag vísindalegra ályktana ræðst af því hversu góðar niðurstöðurnar eru. Ef niðurstöðurnar eru óljósar eða misvísandi, er ályktunin varfærin. Ef niðurstöður margra rannsókna benda í sömu átt, þá er leyfum við okkur sterkara orðalag ályktunin. Dæmi um tvær sterkar staðhæfingar eru:

Sígarettur valda lungnakrabbameini.

Erfðabreyttar nytjaplöntur eru ekki hættulegar heilsu.

Ef þú heldur að sígarettur valdi ekki lungnakrabbameini, þá kann þér að virðast fyrri staðhæfingin vanvirðing við þína skoðun. En hún er það ekki. Hún er, eins nálægt og vísindin komast, staðreynd. Eigum við að virða skoðanir þeirra sem segja að sígarettur séu hollar?

Varðandi seinni hluta setingarinnar, þá held ég að ráðherra hafi sett fingurinn á mikilvægan punkt. Flestir almennir borgarar skilja ekki vísindalegar aðferðir og vísindalegar ályktanir. Þar er kannski brotalömin. Ástæðan fyrir því að umræða sem þessi blómstrar, og í samfélaginu vaði uppi meinvillur á borð við þá að erfðabreyttar lífverur séu hættulegar (sjá einnig, loftslagsefahyggju, afneitun helfararinnar, World Trade Center samsæriskenninar, bóluefnissamsæriskenningar o.fl.).

Deilan um erfðabreyttar lífverur er ekki vísindaleg í eðli sínu, heldur fjallar frekar um hræðslu við hið óþekkta, spurningar um siðfræði ræktunar og landbúnaðar, tortryggni gagnvart alþjóðlegum fyrirtækjum og umhyggju fyrir eigin skinni (og stundum náttúrunni).

Mér sýnist sem andstæðingar erfðabreyttra lífvera lifa samkvæmt djúpt greypti sannfæringu. Þeir grafa upp ótrúlegustu hluti sem röksemdir gegn erfðabreytingum, en hundsa fleiri hundruð rannsóknir sem hafa sýnt að erfðabreyttar lífverur eru ekki hættulegar. Michael Shermer (Skeptic society) fjallar slíkt í bókinni Believing brain. Þar segir m.a.

.. our most deeply held beliefs are immune to attack by direct educational tools, especially for those who are not ready to hear contradictory evidence.

Heilar okkar mannfólksins*** eru ekki þær fullkomnu rökvélar sem við höldum að þær séu. Heldur erum við lituð af tilfinningum og fyrri reynslu. Ef ég ældi eftir að hafa borðað lambasteik á 8 ára amælisdaginn, lá í rúminu í viku með óráði, er líklegt að ég þoli ekki lambakjöt****. Aðrar skoðanir okkar myndast á lúmskari hátt, en þegar þær hafa myndast höfum við tilhneygingu til að standa við þær. Eina verkfærið gegn okkar bjagaða heila er hin vísindalega aðferð. Hún gerir okkur kleift að meta tilgátur út frá gögnum, ekki persónulegri upplifun og skoðun. Shermer orðar þetta vel:

I’m a skeptic not because I do not want to believe, but because I want to know. How can we tell the difference between what we would like to be true and what is actually true? The answer is science.

Það að efast og krefjast gagna er ekki náttúrulegt ástand mannsheilans. Einstaklingum er ekki eðlislægt að efast. En sem hópur getum við gert meiri kröfur. Þannig urðu vísindin til, og þau hjálpa okkur að meta óvissuna, eins og Shermer segir:

Belief comes quickly and naturally, skepticism is slow and unnatural, and most people have a low tolerance for ambiguity.

Með hliðsjón af umræðu um erfðabreyttar lífverur hérlendis má álykta að vísindamenn þurfa að vera duglegri að miðla almenningi af þekkingu sinni, en einnig reynslu af hinni vísindalegu aðferð og óvissunni. Samræðugenið mitt starfar annað slagið, en efasemdastöðin sefur aldrei.

*Bætt við 20. maí: (eftir því sem ég best veit, leiðréttið mig ef rangt er með farið).

**Leiðrétt 20. maí, áður stóð: "andstæðingar lífrænnar ræktunar"

***Leiðrétt 20. maí, áður stóð mannfólk, nú "okkar mannfólksins"

****Leiðrétt 20. maí, breytti frásögn úr annari persónu í fyrstu.

Ég vil þakka KP leiðréttingar.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband