Leita í fréttum mbl.is

Hver fær nóbelsverðlaunin í læknisfræði?

Á mánudaginn verða Nóbelsverðlaunin í læknisfræði og lífeðlisfræði tilkynnt. Verðlaunanna er beðið með umtalsverðri eftirvæntingu, ekki síst af þeim sem halda að þeir eigi þau skilið.

Rannsóknarverkefni mitt í Chicago snérist um þróun genastjórnunar í ávaxtaflugum. Við nýttum okkur sérstakt þroskunargen sem heitir even-skipped. Sameindaerfðafræðingurinn Michael Levine hafði rannsakað þetta gen í þaula og fundið út hvernig stjórn á virkni þess ræðst af framboði og samspili nokkura þátt. Sumir hafa jákvæð áhrif og aðrir neikvæð áhrif. Framboð stjórnþáttana er mismunandi eftir frumum og á ólíkum tímaskeiðum þroskunar. Levine sýndi fram á hvernig stjórnþættirnir bindast ákveðnum kenniröðum í DNAinu, og hafa þannig áhrif á virkni gensins.

dsimulans_dsechellia_lottetal2007_s.jpgMynd af tjáningu evenskipped (sjö bláar rendur) í ávaxtaflugum.

Levine er einn þeirra sem bíður spenntur á mánudagsmorguninn, því hann er sannfærður um að hann eigi skilið að fá verðlaunin. Sannarlega voru og eru rannsóknir hans í sérflokki, en það er samt ansi erfitt að spá fyrir um hverjir fá verðlaunin. Nokkrir þættir koma þar til. 

Í fyrsta lagi þarf uppgötvunin að vera nægilega afmörkuð til að hægt sé að skilgreina hana. Undantekningin frá þessari reglu er líklega þegar Linus Pauling fékk verðlaunin fyrir efnatengsl, sem flestir áttuðu sig á að var í raun verðlaun fyrir gott ævistarf.

Í öðru lagi mega ekki of margir vera um hituna. Nóbelsverðlaunin eru veitt í mesta lagi þremur einstaklingum. Ef fleiri taka þátt í rannsóknunum eða margir hópar afhjúpa sama fyrirbæri, þá er mjög erfitt að ákveða hver á þau skilið. Þegar Watson, Crick og Wilkins fengu Nóbelsverðlaun fyrir byggingur DNA, þá var rætt um að Rosalind Franklin hefði líka átt þau skilið. En þar sem Franklin hafði fallið frá nokkru áður, leystist vandamálið!

Í þriðja lagi þarf uppgötvunin að vera nægilega nálægt læknisfræði til að vekja áhuga nóbelsnefndarinnar. Það er óttalega dapurt því margar flottar niðurstöður í skyldum grunnvísindum, tölfræði, líffræði og tölvunarfræði eiga ekki möguleika á viðurkenningu. Staðreyndin er þó sú að læknisfræðin byggir að mjög miklu leyti á þekkingu annara vísinda. Framfarir í mannerfðafræði nútímans eru drifin af lífefnafræði, stofnerfðafræði, tölfræði og tölvunarfræði, frekar en innsæi eða þjálfun lækna. Þess vegna hafa þó nokkur verðlaun í læknisfræði, fallið í skautu þroskunarfræðingum eða sameindalíffræðingum sem vinna með aðrar tegundir en manninn.

Í fjórða lagi þá skiptir máli hvernig sænska vísindaakademían er samsett. Hún hefur mjög mikið að segja um hver verður tilefndur, og þá skiptir máli hvaða fólk er í akademíunni og þeirri nefnd sem kemur að nóbelsverðlaunum. Ef akademían er uppfull af boðferlafólki eða frumuflekaliði, þá er viðbúið að verðlaunin lendi á sviðum sem þeir sérfræðinga skilja og hafa áhuga á. Ef akademían væri stappfull af vist eða þróunarfræðingum, þá eru meiri líkur á verðlaunum á þeirri grein vísinda. Reyndar hefur bara einn þróunarfræðingur, Hermann Muller, fengið nóbelinn, fyrir að finna áhrif geislunar á stökkbreytitíðni.

Að síðustu má velta fyrir sér hvort að einhver íslendingur eigi möguleika á nóbelsverðlaunum í læknisfræði? Það komst upp kvittur meðal nemenda í líffræði fyrir nokkrum árum að einn kennarinn í deildinni væri næstum því að fá Nóbelsverðlaun. Því miður var það helber misskilningur. Mér dettur helst í hug að Kári Stefánsson væri veitt verðlaunin, vegna þess hversu stóran þátt Íslensk erfðagreining átti í mannerfðafræðibyltingu síðasta áratugar. En vandamálið við það fag var lýst í liðum eitt og tvö hér að ofan. Fagið er mjög vítt, og erfitt að skilgreina afmarkaðar uppgötvanir. Og mjög margir vísindamenn hafa skarað eldinn með góðum árangri. Það eru tugur manna í svipaðri stöðu og Kári, sem hafa leitt stóra rannsóknarhópa og mokað út greinum um hina og þessa uppgötvunina í mannerfðafræði. Merkilegt nokk er lítið fjallað um þetta fólk í hérlendum fréttamiðlum.

Því er líklegra að verðlaunin fari til einhverra vísindamanna sem hafa helgað sig einu vandamáli og jafnvel kollvarpað eldri tilgátum um ákveðin atriði í líffræði eða læknisfræði.

NPR fjallar um spá Thomson/Reuters um það hverjir muni fá nóbelinn í læknsifræði, og þá kemur upp viðfangsefnið genastjórn. Þeir tilgreina reyndar ekki M. Levine, en eru kominn inn á sérsvið hans.

Ítarefni:

Palsson A, Wesolowska N, Reynisdóttir S, Ludwig MZ, Kreitman M (2014) Naturally Occurring Deletions of Hunchback Binding Sites in the Even-Skipped Stripe 3+7 Enhancer. PLoS ONE 9(5): e91924. doi:10.1371/journal.pone.0091924


Bloggfærslur 3. október 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband