Leita í fréttum mbl.is

Skuggahlið lyfjaiðnaðar eða munur á samfélögum?

Nýlegar fréttir segja frá því að skipt hafi verið um stjórn í yfirstjórn Novartis í Japan. Novartis er alþjóðlegt lyfjafyrirtæki, með aðalbækistöðvar í Sviss. Ástæðan er sú að markaðsdeild fyrirtækisins hafði óeðlileg áhrif á lyfjaþróun, og vegna þess að ekki var upplýst um aukaverkanir efna sem voru í þróun sem lyf.

En hver er ástæðan fyrir klúðrinu?

Er það of mikil ítök markaðsmanna í vissum lyfjafyrirtækjum eða deildum þeirra?

Er þetta vandamál lyfjafyrirtækja yfir höfuð?

Er þetta vegna þess munar á því hvernig samfélög takast á við vísindalegar spurningar?

Mig grunar reyndar að allar ástæðurnar eigi við, og etv. einhverjar fleiri. Ég mun ekki rökstyðja það í löngu máli, en setja fram nokkra punkta til stuðnings.

Markaðsmenn og vandamál lyfjafyrirtækja

Það er vel skjalsett að mörg lyfjafyrirtæki hafa lagt ofuráherslu á markaðsmál, jafnvel upp að því marki að afbaka vísindaleg gögn og fela þau. Notagildi lyfja er metið með lyfjaprófum, og einnig eru aukaverkanir kannaðar með vísindalegum aðferðum. Því miður eru ótal leiðir til að hagræða lyfjaprófum, og flestar þeirra hafa verið prufaðar og stundum brúkaðar kerfisbundið af lyfjafyrirtækjum. Einnig er ansi mörg dæmi um að lyfjafyrirtæki hafi vitað um aukaverkanir lyfja, en látið hjá líða að kunngjöra yfirvöldum eða sjúklingum (sbr. Vioxx). Þetta er skrásett m.a. af Ben Goldacre í Bad Pharma og Carl Elliot í White coat, black hat. Steindór J. Erlingsson hefur t.d. fjallað um misræmi í kynningu á geðlyfjum hérlendis (sjá tengla neðst).

Samfélög og vísindalegar spurningar

Okkur er kennt að menn séu allir jafnir. En það er samt munur á samfélögum og hefðum, sem getur haft áhrif á það hvernig þau takast á við óvissu og yfirvald. Vísindi fjalla um opnar spurningar, þar sem mikilvægt er að gæta hlutlægni og vera tortrygginn á viðtekin sannindi. Vísindi taka nefnilega oft framförum þegar eldri hugmyndum er kollvarpað. Jafnvel hugmyndum sem yfirvöld eða yfirmenn hafa mikla trú á.

John P.A. Ioannidis er tölfræðingur sem hefur mælt bjögun í atferli vísindamanna. Vísindamenn eru nefnilega ekki óskeikulir. Í einni rannsókn sýndi hann fram á meiri bjögunin meðal kínverskra en amerískra faraldsfræðinga, líklega vegna þess að þeir eru viljugri til að hlýða yfirvaldi (eða tregari til að gagnrýna það eða viðtekna þekkingu). Svipuð skekkja en ekki jafn sterk var greinanleg meðal annarra asískra þjóða.

Niðurstaðan er semsagt sú að kínverskir hópar eru útsettari (að meðaltali!) fyrir bjöguðum niðurstöðum, mögulega vegna þess meiri hollustu við yfirvaldið. Það gæti útskýrt hvers vegna þetta vandamál kom upp í Japanska útibúi Novartis.

Ég vil samt leggja áherslu á að margir kínverskir og asískir vísindamenn eru afburða góðir, og hafa lagt mikið til vísinda. Kínverskir og Tævanskir félagar mínir í Ameríku voru margir mjög góðir vísindamenn, einbeittir, vinnuglaðir og sífellt spyrjandi góðra spurninga. Hluti af því er vitanlega hið frjóa umhverfi Amerískra háskóla, þar sem rannsóknin fær forgang, jafnvel ofar orðspori skólans eða yfirmannsins.

Skekkjur í vísindaumhverfi vegna punktakerfis

Eins og við höfum fjallað um, t.d. í grein með Pétri H. Petersen (Gallað vinnumatskerfi HÍ vinnur gegn gæðum vísinda), þá er ofuráhersla á greinar og áhrifastuðul að drepa vísindin. Mér var bent á sláandi dæmi um þetta í grein um Kínversk vísindi. Í Kína er kerfi sem verðlaunar einstaka vísindamenn (um nokkrar milljónir), fyrir að birta í virtustu tímaritum heims. Það er einstaklega hættulegt, og bókstaflega ýtir undir svindl. Í greininni segir.

For example, if a Chinese colleague publishes an article in a highly regarded scientific journal they will be financially rewarded by the government – yes, a bonus! – on the basis of an official academic reward structure. Publication in one of the highest impact journals is currently rewarded with bonuses in excess of $30,000 – which is surely more than the annual salary of a starting staff member in any lab in China.

Og við Háskóla Íslands er punktakerfi sem stýrir greiðslum til vísindamanna eftir því hversu mikla vísindalega framleiðni þeir eru með. Kerfið hér er ekki jafn ýkt og í Kína, en það er samt vandamál.

Meira vit væri í að leggja niður vinnumatskerfið, eða gera á því róttækar breytingar. Einnig mætti meta gæði vísinda (ekki bara magn) og gæði í kennslu og leiðbeiningu grunn- og framhaldsnema.

Þeir sem hafa áhuga ættu að athuga málþing um Gildi og gagnsemi gæðamats í háskólastarfi nú síðdegis.

Ítarefni:

Ben Goldacre - Bad Pharma : review The Telegraph

Carl Elliott -  White Coat, Black Hat

Steindór J. Erlingsson Lyfjafyrirtæki og blekkingar, Fréttablaðið, 26. nóvember, 2009.

Arnar Pálsson  17.12.2013 Gott skref í rétta átt

Zhenglun Pan, Thomas A Trikalinos, Fotini K Kavvoura, Joseph Lau, John P.A Ioannidis Local Literature Bias in Genetic Epidemiology: An Empirical Evaluation of the Chinese Literature PLoS Med. 2005 December; 2(12): e334. doi: 10.1371/journal.pmed.0020334

Neal S Young, John P. A Ioannidis, Omar Al-Ubaydli  Why Current Publication Practices May Distort Science PLoS Med. 2008 October; 5(10): e201. doi: 10.1371/journal.pmed.0050201

 

 


mbl.is Lyfjahneyksli hjá Novartis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. apríl 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband