Leita í fréttum mbl.is

Kjarninn: Erum Charlie þar en ekki hér

Kjarninn fjallar um tvískinnung íslenskra stjórnmálamanna, sem segjast fylgja tjáningarfrelsinu þegar gera má grín að spámönnum arabískra trúarbragða en grafa síðan stanslaust undan tjáningarfrelsinu hérlendis. úr umfjöllum kjarnans (Við erum öll Charlie…þegar það hentar):

Atburðirnir hræðilegu í París, sem hófust á því að ráðist var á höfuðstöðvar skopmyndablaðsins Charlie Hebdo á miðvikudag, hafa fyllt heimsbyggðina óhug. Í þeim féllu alls 17 manns auk þess sem skotmarkið var valið vegna efnistaka þess.  Því var árásin líka bein aðför að því mál- og tjáningarfrelsi sem við teljum sjálfsögð mannréttindi. Að minnsta kosti þegar okkur hentar.

...

Ýmsir íslenskir ráðamenn hafa hins vegar hoppað á „Ég er Charlie“ vagninn og segjast þar með standa dyggan vörð um þau grundvallargildi sem tjáningarfrelsið er. Í fljótu bragði er ekkert athugavert við þessa afstöðu. Hún lýsir samhug og stuðningi við aðra Evrópuþjóð sem gengur í gegnum hræðilega raun.

...

Meiðyrðamálum sem höfðuð eru á hendur blaðamönnum hefur fjölgað gríðarlega. Þau voru til dæmis jafn mörg árið 2011 og þau voru á fimm ára tímabili í kringum síðustu aldamót. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur þrívegis þurft að snúa dómum sem íslenskir dómstólar hafa fellt yfir íslenskum blaðamönnum vegna meiðyrða.

...

Í hinu víðfræga lekamáli óskaði lögreglan eftir því að dómstólar myndu knýja fréttastjóra mbl.is til að gefa upp heimildarmann vefsins, sem lak minnisblaðinu um hælisleitandann Tony Omos þangað. Sú beiðni fór alla leið til Hæstaréttar sem tók blessunarlega þá ákvörðun að beiðnin væri galin og stríddi gegn öllum meginreglum blaðamennsku. Það breytir engu um að þetta var reynt.

...

Við þekkjum blessunarlega ekki þann veruleika þar sem fjölmiðlamenn eru myrtir sökum vinnu sinnar. En við þekkjum það vel að reynt sé að hræða þá til að fjalla um hlutina á ákveðinn hátt. Þeim skilaboðum er komið áfram á hverjum degi af valdaöflum í íslensku samfélagi.

Við erum því ekkert öll Charlie. Það eru fjöldamörg dæmi um hið gagnstæða. Og það er óvirðing við þá atburði sem áttu sér stað í Frakklandi þegar íslenskir stjórnmálamenn, allstaðar að úr hinu pólitíska litrófi, skreyta sig með þeim stolnu tjáningarfrelsisfjöðrum.

Ég er sammála þessari greiningu og er stoltur áskrifandi Kjarnans.

Ég hvet aðra til að slást í hópinn.


mbl.is Spyr um rannsóknir á múslímum á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. janúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband