Leita í fréttum mbl.is

Okkar innri Askja

Upplifunin að sjá jörðina sem agnarsmáan lítin depil vekur auðmýkt. Maður finnur fyrir smæð sinni og jarðar. Ekki spillir fyrir lestur Carl Sagans, sem setur manninn og hans glappaskot og afrek í samhengi. Menn berjast á banaspjótum út af yfiráðum á lítilli flís af agnarsmáum depli í óravídd geimsins.

Sú upplifun að sjá jörðina úr þessari fjarlægð vekur einnig með mér n.k. lofthræðslu. Þegar maður stendur frammi fyrir nýrri vídd, eða hyldýpi náttúrunnar þá sundlar manni.

Upplifunin er áþekk því að standa við Dettifoss eða barmi Öskju. Páll Skúlason heimspekingur og fyrrum rektor Háskóla Íslands, hefur einmitt hugleitt hvað ægifögur náttúra gerir fyrir okkur. Í bókinn Hugleiðing við Öskju segir hann:

Þegar maður kynnist slíkri veröld er maður kominn á leiðarenda. Kominn í snertingu við veruleikann sjálfan. Hugurinn opnast fyrir fullkominni fegurð og maður sér loksins um hvað lífið snýst...

Askja táknar einfaldlega jörðina sjálfa, hún er jörðin eins og hún var, er og verður á meðan hún heldur áfram hringsóli sínu um himingeiminn.

Páll hefur einnig talað um hversu erfitt það er fyrir okkur að lýsa sterkum náttúruupplifunum eða sambandinu við náttúruna*. Tvær manneskjur sem standa á brún Öskju kunna báðar að verða fyrir sterkum hughrifum, en lýsa þeim á ólíkan hátt. Páll leggur því á að fólk finni sína innri Öskju og kanni sín tengsl við náttúruna.

Íslendingar hafa betri tækifæri en margir nútímamenn að tengjast náttúrunni, vegna þess að kraftar hennar leika lausum hala um landið okkar. Stormar, stórsjór, skriður og eldgos minna okkur ítrekað á kraft náttúrunnar og landið ber einnig merki um þeirra ógnarmátt. Nýlegasta dæmið er auðvitað gosið í Holuhrauni, rétt sunnan Öskju. Þótt gosstöðvarnar séu utan seilingar hafa fréttamenn verið duglegir að færa okkur tíðindi og myndir. Vísindamenn hafa einnig verið duglegir að segja frá atburðarásinni. Sem dæmi má nefna erindið Jarðeldur á söndum norðan jökla: Vísindi á mannamáli - 17. feb. kl 12.10. í HÍ.

Í þessu samhengi vil ég einnig minnast á umhverfisbloggið Pale blue dot sem þrír Íslenskir líffræðingar skrifa. Það er innblásið af myndskeiði og skrifum Carl Sagan. Á vefsíðu þeirra má lesa tilvitnun í Sagan sem fylgir myndskeiðinu fræga úr þáttunum.

* Annars er hugmyndin um samband við náttúruna dálítið fyndin, því menn eru auðvitað hluti af náttúrunni. Við erum sannarlega sérstök tegund á meðal dýra, en þrátt fyrir það sem trúartextarnir kenna þá stöndum við ekki til hliðar við eða erum yfir náttúruna hafin.


mbl.is Föli blái punkturinn í 25 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. febrúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband