Leita í fréttum mbl.is

Jafn alvarlegt og lygar O´Reilly?

Blaðamenn, fréttamenn og ritstjórar bera mikla ábyrgð. Þeir þurfa að segja frá því sem gerist á heiðarlegan og skýran hátt, til að lesendur skilji mikilvæg mál og veröldina betur. Ef þeir gera mistök, þurfa þeir að axla ábyrgð.

Á Íslandi fyrir aldamót voru flest blöð tengd stjórnmálaflokkum, með nokkrum athyglisverðum undantekningum. Í dag eru stærstu blöðin hérlendis, Fréttablaðið og Morgunblaðið bæði í eigu fjársterkra aðilla sem hafa hag af því að meira sé fjallað um sum mál og minna um önnur. Að mínu mati eru bestu fréttamiðlarnir hérlendis eru kjarninn.is, stundin.is og fréttastofa RÚV.

Erlendis eru margir prentmiðlar sjálfstæðari en útbreiddu íslensku blöðin, t.d. í bandaríkjunum NY Times (í eigu Ochs Sulzberger fjölskyldunar) og Washington post (Jeff Bezos - eigandi Amazon.com). En jafnvel stór og virt blöð geta gert mistök, eins og nýjustu fréttir af minningargöngunni í Selma bera með sér. Þá valdi NYTimes að klippa til myndir af viðburðinum, og sýna bara nýjasta forseta Bandaríkjanna (Obama) en ekki þann næstnýjasta (Bush jr). Í fréttinni er fjallað um ræðu Obama sem hann flutti af viðburðinum (sjá neðst).

Klippingin á myndinni hefur verið gagnrýnd, og það verður athyglisvert að sjá hvernig blaðið bregst við.

Fyrir nokkrum árum komst upp að blaðamaður hjá NY Times hafði spunnið upp viðtöl fyrir fréttir, og jafnvel logið til um að hafa verið á vettvangi. Hann var rekinn.

Fyrir skemmstu var sagt frá því að fréttamaðurinn Brian Williams á NBC hafi sagt ósatt um þyrluferð í Írak. Hann baðst afsökunar í sjónvarpi og sagði upp.

Nú eftir áramót bárust fréttir af því að Bill O´Reilly, sem þekktur er úr O´Reilly factor á Fox, hafi logið því að hann hafi lent í átökum. Hann slær iðullega um sig með yfirlýsingum um að hann hafi lent í skotbardaga í Falklandseyjastríðinu og átökum í borgastyrjöld í mið-ameríku. Blaðamenn á Motherjones komust að því að Bill hafi hreinlega logið, því nær engir fréttamenn fengu að koma til Falklandseyja í stríðinu. Bill hafði reyndar verið í Argentínu allan tíman og lent í einhverjum mótmælum, sem í minningu hans líta út eins og stríð.

O´Reilly hefur ekki beðist afsökunar eða viðurkennt lygarnar. Fox sjónvarpsstöðin stendur bak við sinn mann.

Tvöfalt siðgæði í praxís. Vonandi fjallar mbl.is og Morgunblaðið einnig um gloríur O´Reillys.

Ítarefni:

Motherjones Thu Feb. 19, 2015 David Corn and Daniel Schulman Bill O'Reilly Has His Own Brian Williams Problem


mbl.is Sakað um að fjarlægja Bush
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað "í ósköpunum" er íslenskt vísindafólk að rannsaka?

Fyrir tæpum sjö árum var kosningabarátta Obama og McCain að komast á skrið. Varaforsetaefni McCains var fyrrum fylkisstjóri Alaska, Sarah Palin.

Henni fannst það líklegt til vinsælda (atkvæða) að hæðast að rannsóknarverkefnum sem bandaríkjastjórn styrkir. Hún sagði:

You've heard about some of these pet projects, they really don't make a whole lot of sense and sometimes these dollars go to projects that have little or nothing to do with the public good. Things like fruit fly research in Paris, France. I kid you not.

Ávaxtaflugan Drosophila melanogasterÞar sem frú Palin skildi ekki, var hvernig vísindin virka og hversu mikilvæg tilraunalífvera ávaxtaflugan er. Á þeim tíma skrifaði ég lítinn pistil flugunni til varnar (Óhæfur frambjóðandi) en nú er mér annara um vísindin í heild sinni.

Skoðun frú Palin er reyndar ansi algeng, margt fólk skilur ekki hvað ríkið er að púkka upp á grunnrannsóknir, rannsóknastofnanir eða háskóla. Hluti af ástæðunni er sá að fólk hefur öðrum hnöppum að hneppa, það nennir ekki eða vill ekki setja sig inn í málið. Einnig er nokkuð ljóst að vísindasamfélagið hefur ekki verið nægilega duglegt að kynna rannsóknir og niðurstöður.

Það er meðal annars kveikjan að fyrirlestraröð Háskóla Íslands, Líffræðistofu og lífvísindaseturs um vísindi á mannamáli. Þau erindi eru öllum opin og tekin upp á myndband, sem hægt er finna á vefnum.

Svipaðar ástæður eru líklega á bak við nýjung hjá Rannsóknamiðstöð Íslands, sem stendur fyrir opnum fundi fimmtudaginn 12. mars (sjá hér að neðan).

Íslenskt vísindafólk rannsakar margskonar viðfangsefni, og eigum við fullt af fólki í fremstu röð alþjóðlega. Vonandi komast sem flestir á þennan fund, þótt það viðurkennist að tímasetningin sé ekki beint heppileg dagvinnufólki. Ég er til dæmis að kenna þetta síðdegi.

------------- tilkynning orðrétt -----------------

Hvað er íslenskt vísindafólk að rannsaka? Hvernig verkefni styrkir Rannsóknasjóður? Hvernig skiptast styrkir úr sjóðnum?

Fimmtudaginn 12. mars kl. 14-17 verður opinn kynning á Rannsóknasjóði, úthlutun hans og fjölbreyttum verkefnum sem sjóðurinn styrkir. Kynningin verður haldin á Hótel Sögu, 2. hæð.

Markmið kynningarinnar er að kynna starfsemi sjóðsins og það fjölbreytta vísindastarf sem hann fjármagnar. Á dagskránni verða áhugaverð erindi og veggspjaldakynningar þar sem vísindamenn kynna rannsóknir sínar á öllum sviðum vísinda. Upplýsingar um Rannsóknasjóð hér. Eiríkur Stephensen hjá Rannís veitir allar upplýsingar um sjóðinn og kyninguna. Sími 515 5800, netfang eirikur.stephensen@rannis.is

Fundarstjóri verður Brynja Þorgeirsdóttir, fjölmiðlakona.

Allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir!

Dagskrá:

Kl. 14:00-15:30 Opnun og kynningar verkefna

  • Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, opnar fundinn.
  • Guðrún Nordal, formaður stjórnar Rannsóknasjóðs flytur ávarp.

Verkefnakynningar (í stafrófsröð):

  • Forspárþættir heilsu og hegðunar meðal ungs fólks. Inga Dóra Sigfúsdóttir, prófessor við Háskólann í Reykjavík.
  • Meðfædd bakteríudrepandi peptíð gegn sýkingum og ónæmum bakteríustofnum. Guðmundur H. Guðmundsson, prófessor við Háskóla Íslands.
  • Rannsókn á einhleypum konum í hópi vesturfara, 1870-1914. Sigríður Matthíasdóttir, fræðimaður við Reykjavíkurakademíuna.
  • Vöktun virkra jarðskjálftasprungna og kortlagning jarðskjálftaáhættu í þéttbýli. Benedikt Halldórsson, vísindamaður við Háskóla Íslands.
  • Þróun rafefnahvata fyrir vistvæna og sjálfbæra eldsneytis- og áburðarframleiðslu. Egill Skúlason, dósent við Háskóla Íslands.

15:30-17:00 Veggspjaldasýning

Kynnt verða 40 verkefni sem hlutu nýja styrki á árunum 2013 og 2014.

Í lok kynningar verður boðið upp á léttar veitingar.

----------- tilkynningu lýkur --------

Ítarefni:


Bloggfærslur 9. mars 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband