Leita í fréttum mbl.is

Víkjandi brandari

Ég myndi krefjast erfðaprófs áður en ég prentaði þessa frétt í blaðinu mínu. The SUN er hins meira umhugað um að selja blöð en að gæta sannleikans. Það sama á við um miðla sem endurprenta slúður þeirra án gagnrýni.

The SUN reyndi að gefa fréttinni blæ virðuleika með því að ræða við Bryan Sykes forstöðumann Oxford Ancestors Ltd. Vinur minn hjá Decode sagði mér frá Bryan, sem stofnaði fyrirtæki sem stundar einskonar "erfðafræðilegan lófalestur". Hann sagðist t.d. geta rakið ættir allra aftur til 7 ættmæðra mannkyns (sjö dætur Evu - var þetta kallað), á grundvelli hluta hvatberalitningsins. Að auki skáldaði hann þjóðsögur í kringum þessar dætur Evu og gaf þeim djúpstæða og afgerandi eiginleika, svona dáldið eins og Bionicle og Pokemon kallarnir hafa. Þetta eru vísindi í anda The SUN.

En ef við gefum okkur að drengurinn sé afkvæmi karlsins og konunar sem eru með honum á myndinni, þá er líklegasta skýringin á litarhafti hans sú að hann sé arfhreinn um víkjandi stökkbreytingu í geni sem tengist myndun litarefnisins eumelanin. Allir einstaklingar eru með einhverjar víkjandi stökkbreytingar, sem oftast skaða virkni viðkomandi prótíns eða einhvers líffræðilegs ferlis. Það er ekki fyrr en viðkomandi fær galla í sama geni frá báðum foreldrum að áhrif stökkbreytingarinnar verða ljós. Í þessu tilfelli væru foreldrarnir arfblendnir um gen sem stuðlar að myndun litar, eðlilega útgáfa gensins dyggði til að mynda nægan lit. En þegar drengurinn fær tvær stökkbreyttar útgáfur af geninu "fölnar" í samanburði við foreldra sína.

Ítarefni um erfðafræðileg upprunapróf: Erfðapróf og uppruni


mbl.is Svört hjón eignast hvítt barn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vendetta

Í sambandi við "ættfræðilegan lófalestur" þá var heimildarmynd á Discovery fyrir nokkrum árum sem var kallað "The Search for Adam". Þar var verið að rekja ættliði mannkynsins þúsundir ára aftur í tímann gegnum samansetningu Y-litninga. Þetta var aðeins hægt í beinan karllegg. Í hvert skipti sem var staldrað við einhvern þjóðflokk í einhverri álfu eða hjá einhverjum beinum frummmanna var athugað hvort upphaflegu litningarnir væru hjá þeim, en sífellt var viðkvæðið: "Nei, þessir litningar eru runnir undan einhverri annarri samstæðu" og svona hélt leitin áfram lengra og lengra aftur í tímann. Mig minnir, að ekki hafi komizt niðurstaða úr þessari rannsókn (inconclusive). Ég man ekki hvaða skilgreiningu á litningum var stuðzt við til að gete staðhæft: "Já, þetta er forfaðir alls mannkyns", en skilgreiningin og rökfærslan fyrir henni hljómaði sára einföld.

Er mögulegt að finna "upprunalegu" litningasamstæðuna? Er það sams konar "ættfræði" sem þessi Bryan er með?

Vendetta, 22.7.2010 kl. 14:18

2 Smámynd: Vendetta

Þegar ég fer að rifja þetta upp, þá minnir mig að í byrjun þessara þáttar hafi verið slegið fast, að fyrst menn hafa öðruvísi litninga (annan fjölda) en æðri prímatar, þá hlýtur að hafa verið einhver sem var fyrstur til að hafa þessi 23 litningapör og sem hafði ekki erft litningana frá mennskum forföður, og hlyti því að vera fyrsti maðurinn á jörðinni. Síðan var eitthvað fleira sem ég hef gleymt. Eitthvað í þá áttina. Allavega voru Y-litningarnir aðalatriðið í rannsókninni, en ekki genin sem slík.

Vendetta, 22.7.2010 kl. 14:28

3 identicon

Þú veist jafnvel og ég að mbl eru hallir undir spúkí fréttir... ég var meira að segja rekin fyrir að benda á að ein spúkí frétt skýrðist af geðveilu og eða glæpastarfssemi :)

doctore (IP-tala skráð) 22.7.2010 kl. 14:31

4 identicon

Bull, kjaftæði og heimska. Dna ræður hvort þú ert hvítur eða svartur, karl eða kona, ekki kynskiptiaðgerðir og stökkbreytingar. Barnið hefur svarta andlitsdrætti og "furðulegt" hár og svo framvegis. Það er ekki hvítt, heldur stökkbreytt svart barn. Tveir svartir menn gætu aldrei eignast barn sem myndi greinast erfðafræðilega sem fyrst og fremst hvítt = Indó Evrópskt.

Garg Arg (IP-tala skráð) 23.7.2010 kl. 03:30

5 Smámynd: Arnar Pálsson

Vendetta

Við getum alveg rakið sögu eins litningahluta eða gens, en málið er að saga genanna er mismunandi. Eitt af þínum genum kann að vera ættað úr Gaulverjabæ, annað af Suðurnesjum og þriðja genið frá Baskneskum forföður sem staldraði við í meyjarskemmu á vestfjörðum.

Það var vissulega til ein manneskja sem er sameiginlegur forfaðir allra núlifandi einstaklinga, en gen okkar eru ekki endilega afrit gena þeirrar manneskju.

1) Sum gen komu frá öðrum forfeðrum, sem hluti mannkyns getur rakið sig til.

2) Einhver gen forföðursins hafa horfið úr stofninum, vegna þess að i) þau voru lélegar útgáfur af viðkomandi geni eða ii) vegna tilviljunar, "kynfrumuguðinn notar teninga" -

3) Mörg gen hafa breyst á þessum tíma vegna stökkbreytinga.

DoktorE

Það er eftirsjá af þér af blogginu hérna, það vantar skarpari rýni og meira kjarnyrtara mál.

Garg Arg

Ég sagði einmitt að "liklegast" væri að barnið væri arfhreint um eina eða fleiri stökkbreytingar sem hefðu breytt húðlit þess.

Ég hef litla þolinmæði gagnvart tali um Hvítar manneskjur og svartar sem einhverja allsherjar lýsingu á eiginleikum fólks. Kannski er þetta skortur á skopskyni...

Arnar Pálsson, 3.8.2010 kl. 14:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband