Leita í fréttum mbl.is

Arfleifð Darwins: Þróun atferlis

Hið íslenska bókmenntafélag gefur út bókina Arfleifð Darwins, sem við höfum kynnt með pistlum á þessari síðu. Valdir kaflar úr bókinni eru aðgengilegir á darwin.hi.is og Facebook síða helguð bókinni hefur verið sett í loftið. Hrefna Sigurjónsdóttir og Sigurður S. Snorrason skrifuðu kafla um þróun atferlis, sem þau kynntu í fyrirlestri á Darwin dögunum fyrir ári síðan. Hér eru brot úr kafla þeirra (pdf af fyrstu þremur síðum kaflans má sjá á Darwin.hi.is).
Atferli einstaklings, dýrs eða manns, er í raun allt það sem hann gerir, hvernig hann hegðar sér. Atferlisfræðingar leitast við að greina og flokka atferli og svara spurningum er lúta að lífeðlisfræði þess og þróun. feður dýraatferlisfræðinnar eða eþólógíunnar (ethology), eins og fræðigreinin var gjarnan nefnd, eru oftast taldir vera þrír, Konrad Lorenz (1903–1989),
Karl von Fritz (1886–1982) og Niko Tinbergen (1907–1988). Þeir gerðu garðinn frægan um miðbik síðustu aldar og hlutu nóbelsverðlaunin fyrir rannsóknir sínar árið 1973. Mun það vera í eina skiptið sem dýrafræðingar hafa fengið þau verðlaun. Þó er óhætt að segja að Charles Darwin sé hinn eini og sanni frumkvöðull á þessu sviði eins og svo mörgum öðrum. Hann lýsti hegðun dýra og túlkaði hana í ljósi aðlögunargildis í sínum þekktustu ritum, Uppruna tegundanna (On the Origin of Species), The Descent of Man, and Selection in Relation to Sex og The Expression of the Emotions in Man and Animals...
Árið 1975 kom út stór og merkileg bók eftir Edward O. Wilson, skordýrafræðing við Harvard-háskóla, sem ber heitið Sociobiology (félagslíffræði). Bókin markaði upphafið að uppgangi hinnar nýju dýraatferlisfræði þar sem hegðun dýra, einkum félagshegðun, er skoðuð í ljósi vist fræði og þróunarfræði og áhersla lögð á að atferli sé að einhverju leyti arfbundið. Wilson tók fyrir alla helstu dýrahópa og í síðasta kaflanum fjallaði hann um hegðun manna á sama hátt. Ári seinna kom út bókin The Selfish Gene eftir breska þróunarlíffræðinginn richard Dawkins. Dawkins lagði áherslu á að það væru í raun genin sem náttúrulegt val snerist um. Genin „lifðu“ áfram en ekki einstaklingarnir, hvað þá hóparnir. Óhætt er að segja að þessi mikla áhersla á aðlögunargildi hegðunar, hafi valdið miklum úlfaþyt í vísindasamfélaginu. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband