Leita í fréttum mbl.is

Arfleifð Darwins: ritdómar

Fyrstu tveir ritdómar um Arfleifð Darwins birtust á undangengnum vikum. Annar þeirra ritaði Brynjólfur Þór Guðmundsson á miðjunni (23. des. 2010), og hinn var í Bændablaðinu (1. tbl. 2011, bls. 24) - sem er aðgengilegt á vefnum (höfundur ritdóms er JVJ).

Lokaorð ritdóms bændablaðisins:

Ástæða er til að hvetja allt áhugafólk um þróun liffræðilegs fjölbreytileika til að kynna sér vel efni þessarar bókar. Hún sýnir vel að kenningar Darwins hafa staðist tímans tönn og eru grundvöllur hugmynda í náttúruvísindum. Hér er komið ákaflega vandað verk sem á næstu árum hlýtur að verða grundvallarrit í þessum efnum fyrir íslenska lesendur.

Brynjólfur segir á Miðjunni:

Guðmundur Eggertsson skrifar svo dæmi sé tekið ágæta grein um uppruna lífs og rekur þar ýmsar kenningar sem hafa verið settar fram í þá veru, sumar sem hafa verið slegnar af og aðrar sem mönnum finnst enn koma til greina. Sennilega eru fáir ef nokkrir betur til þess fallnir en Guðmundur sem sendi einmitt fyrir fáeinum árum frá sér þá mjög svo ágætu bók Leitin að uppruna lífs.

Steindór J. Erlingsson skrifar um hvernig þróunarkenningunni var tekið á Íslandi í fyrstu. Þar er meðal annars að finna þennan gullmola í samantekt þar sem hann fjallar um hvernig Þorvaldur Thoroddsen sneri frá stuðningi við þróunarkenninguna: „Þegar horft er til baka á hin snöggu og algeru umskipti í heimspekilegri afstöðu Þorvalds til náttúrunnar, er freistandi að álykta að hann hljóti að hafa orðið geðveikur.“ Steindór lýsir því reyndar yfir strax í næstu setningu að þetta sé að öllum líkindum ekki raunin heldur megi rekja breytinguna til þróana í eðlisfræði, auk þess sem ótímabært andlát dóttur Þorvalds kann þar að hafa haft áhrif. Er þessi ritgerð nokkuð áhugaverð lesning um móttökur þróunarkenningarinnar hérna og af hverju afstaða manna kann að hafa stjórnast.

Fleiri greinar mætti að ósekju nefna þó það verði ekki gert hér að svo stöddu.

All nokkuð er af skýringarmyndum í bókinni og er það gott því á köflum mega lesendur hafa sig við til að fylgja þræði þó bókin sé vissulega ætluð áhugasömum almenningi. Þetta er kannski ekki mjög hentug lesning fyrir sólarströndina en áhugaverð bók fyrir þá sem vilja kynna sér efnið nánar og gott framtak að leggja fram svona greinasafn sem hvort tveggja heldur arfleifð Darwins á lofti og skýrir hana um leið. Greinarnar eru sem fyrr segir fjölbreyttar og þó viðbúið sé að þær geti vakið misjafnlega mikinn áhuga hjá hverjum og einum gefa þær ágætis vísbendingu um fjölbreytileikann í þessum efnum.

Að lokum má svo geta þess að kápuhönnun Bjarna Helgasonar[tengill AP] er afar vel heppnuð.

Áhugasömum er bent á að nokkrir af kaflahöfundum munu taka þátt í námskeiði á vegum Endurmenntunar HÍ, þar sem farið verður í valda kafla í bókinni og rætt um Charles R. Darwin og þróunarkenninguna í víðu samhengi.

Ritdómur Bændablaðsins er einnig aðgengilegur á pdf-formi á vefsíðu Steindórs J. Erlingssonar. Þar misrituðust reyndar nöfn tveggja kaflahöfunda, "Steindór J. Eiríksson" á að vera Steindór J. Erlingsson, "Agnar Pálsson" á að vera Arnar Pálsson.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vendetta

"höfundur ritdóms er JVJ"

Ég hélt fyrst að um Jón Val Jensson væri að ræða.

Vendetta, 19.1.2011 kl. 14:38

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Líklegast er að JVJ sé Jón Viðar Jónmundsson sauðfjárræktarráðanautur.

Arnar Pálsson, 19.1.2011 kl. 14:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband