Leita í fréttum mbl.is

Safnið sem gleymdist, þjóðarhneisa

Náttúruminjasafn Íslands er ekki til, ekki sem aðgengilegt og fræðandi safn í anda Ameríska náttúruminjasafnsinsSmithsonian eða Náttúruminjasafnið í London (The national natural history museum).

Nýverið hélt Helgi Torfason, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands erindi um stöðu safnsins. Hún er heldur bagaleg, eins og fjallað var um í Fréttablaðinu 24. nóvember 2011 (Safnið sem ráðamenn kusu að gleyma). Þar segir m.a.

Öll vestræn ríki, að Íslandi undanskildu, hafa komið upp veglegum náttúruminjasöfnum til varðveislu og sýningar náttúrugripa. Þangað sækja þúsundir manna, heimamenn og gestir, á hverju ári. Náttúruminjasafn Íslands er eitt þriggja höfuðsafna Íslands, en í rúm 120 ár hefur verið beðið eftir því að náttúruminjasafn fái hentuga aðstöðu.

Ástæðurnar eru þó nokkrar, m.a. skilningsleysi stjórnmálamanna og að því er virðist andstaða Náttúrufræðistofnunar. Helgi segir meðal annars í viðtali við Fréttablaðið:

Erfitt er að fá svar frá stjórnsýslunni. Þau eru nokkur bréfin sem ég hef sent á undanförnum árum til bæði mennta- og menningarmála- og umhverfisráðherra, en fæstum þeirra hefur verið svarað. Ég hef til dæmis sent bréf og óskað eftir því að sett verði á fót óháð nefnd sem færi yfir málefni safnsins og Náttúrufræðistofnunar og gerði tillögur um hvernig gripa- og safnamálum yrði háttað í framtíðinni og hvaða gripir fari til safnsins samkvæmt bráðabirgðaákvæði í lögum um safnið. Því hefur ekki svarað enn, frekar en öðrum.

...

Helgi segir að ekki sé aðeins unnið gegn safninu innan stjórnsýslunnar heldur sé það einnig gert af forsvarsmönnum Náttúrufræðistofnunar. "Þeir vilja þetta safn dautt og að sýningarnar verði deild hjá Náttúrufræðistofnun og þá í Urriðaholti. Aðilar sem ekki hafa neitt með safnið að gera hafa látið teikna um 500 fermetra sýningaraðstöðu þarna upp frá, sem mér finnst að vísu ekki sýna mikinn metnað. Þess utan er það mín skoðun að staðsetning fyrir sýningar og aðra starfsemi Náttúruminjasafnsins sé afleit í Urriðaholti," segir Helgi. Hann útskýrir að safna- og sýningarhúsnæði verði að vera aðgengilegt fyrir almenning, fjölskyldur, skóla og ferðamenn. "Aðrar þjóðir byggja þessi söfn nær undantekningarlaust miðsvæðis í höfuðborgum sínum. Forstjóri Náttúrufræðistofnunar hefur kynnt þá skoðun sína að það ætti að gera safnið að deild hjá stofnuninni, þetta kemur reyndar fram í Ársskýrslu Náttúrufræðistofnunar fyrir árið 2008."

Er það ekki dæmigert íslenskt að fálæti og valdatogstreita standi góðum verkum fyrir þrifum?

Aðalspurningin er samt hvernig er best að leggja málefninu lið?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Heyr heyr! Við þurfum að koma upp almennilegu safni á Íslandi, ekki bara Náttúruminjasafn heldur Vísindasafn þar sem börn og fullorðnir geta komið, fræðst um heiminn og leikið sér í tilraunum. Það eru til ágætar fyrirmyndir víða um heim. Þarf ekki að vera mjög dýrt en gæti skilað okkur svo miklu til baka.

- Sævar

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 25.11.2011 kl. 13:03

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Sammála Sævar, ég held að vísindi gætu orðið góður hluti af þessu safni. Náttúruminja, vísinda og tæknisafn gæti orðið frábær vettvangur fyrir miðlun, fræðslu og skemmtun.

Í Chicago fórum við reglulega (eins og um þakkargjörðarhelgina! Húrra "black friday") í vísinda og tæknisafnið, skoða líkön af lestum, stökkbreytta froska og þýskar Stuka-steypivélar (sjá forsíðu safnsins www.msichicago.org/)

Arnar Pálsson, 25.11.2011 kl. 13:16

3 identicon

Það þarf bara að berjast harðar fyrir þessu - breytta upp ermar og koma þessu máli í umræðuna og vekja áhuga almennings - skapa þrýsting á stjórnmálin.

bjadddni (IP-tala skráð) 25.11.2011 kl. 13:28

4 Smámynd: Arnar Pálsson

Sammála Bjadddni, það er nauðsyn að vekja fólk til vitundar um nauðsyn þess að byggja svona vísinda og náttúrusafn.

Kannski er nauðsynlegt að kjósa einhvern á þing, sem myndi berjast fyrir þessu máli (kjósa lobbísta á þing virðist vera íslenska leiðin ekki satt...).

Arnar Pálsson, 25.11.2011 kl. 14:16

5 identicon

Arnar,

Vísindin er ágæt, en þó ekki lausn á vandamálum mannsins, nema upp að vissu marki. Enga múgsefjun, takk fyrir.

Hinrik (IP-tala skráð) 25.11.2011 kl. 14:46

6 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll Hinrik

Hvar staðhæfði ég að vísindin eða náttúruminjasafn væri svarið við vandamálum mannsins? Mér finnst einfaldlega bagalegt að við sem þjóð eigum ekki veglegt náttúrufræði og vísindasafn, þótt sannarlega eigum við ágætar stofnanir í Náttúrustofu Kópavogs og blönduðum byggða og náttúrusöfnum úti á landi.

Hver finnst þér annars vandamál mannsins vera?

Arnar Pálsson, 25.11.2011 kl. 16:57

7 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Söfn af þessu tagi eru nýtt markvisst sem huti af námi á forstigum. Heimsóknir á þessi söfn eru fróðleiksnáma og innblástur og margur vísindamaðurinn hefur markað braut sína sem barn eftir heimsókn á slík söfn. Þetta á að vera sjálfsagður hluti af menntakerfinu.

Það er spurning hvort alfarið er hægt er að treysta á ríkið í þessu. Svona verður aldrei fugl né fiskur án driftar áhugasamra stórhuga og einkaframtaks, svo ég legg til að Háskólinn leggi t.d. eitthvað af happdrættisfé í þetta eða og jafnvel að stofnaður verði sérstakur sjóður sem afla myndi fjár frá einkaframtakinu, með áheitum og happdrættissölu. Veglega uppbyggt safn gæti þá kannski staðið undir sér að stórum hluta með aðgangseyri, ef þetta yrði gert af stórhug.

Ef menn geta fundið hálfan milljar hjá einkaframtakinu í að byggja Disneykirku á Skálholti og aðrar 200 milljónir í tilgátutorfkofa, þá sé ég ekki að þetta sé ókleyfur hamar.

Jón Steinar Ragnarsson, 26.11.2011 kl. 11:59

8 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Mikið væri gaman að fá náttúru- og vísindasafn. Ég hef skoðað nokkur slík en tvö eru minnistæðust. Í Cardiff í Wales heimsóttum við íslenskir kennarar í námsferð safn þar sem allt miðaði að því að fá börn og fullorðna til að fikta og prófa. Allt var í leikskólalitum og nóg pláss til þess að nokkrir gátu verið við sömu tilraun. Ég sá ekki betur en þetta svínvirkaði.

Hitt safnið er í Barcelona og er meira svona fullorðins, þó krakkar geti vel notið þess, sérstaklega ef heimsóknin er vel undirbúin. Þar vann ég það helst til frægðar að ávarpa mann sem var í afgreiðslunni og biðja hann að útvega okkur leigubíl. Svo leit ég almennilega framan í manninn til þess að brosa mínu blíðasta, en í staðinn fyrir blítt bros braust framm skellihlátur. Ég hafði beðið svona silikonmynd (vaxmynd?) af Einsteim að hringja á bíl.

Hólmfríður Pétursdóttir, 26.11.2011 kl. 18:24

9 Smámynd: Arnar Pálsson

Jón Steinar

Ég er sammála um að þetta gæti nýst sem stoð við nám á nokkrum skólastigum.

Það má vera að það þurfi aðstoð einkaframtaksins í þessu tilfelli, eða eitthvað samkurl. Ef safnið yrðu byggt utan á Háskólanum er mjög eðlilegt að hann myndi leggja fé til byggingar, og jafnvel borga laun einhverra fræðimanna sem ynnu á safninu. 

Það myndi et.v. styrkja Þjóðminjasafnið einnig ef annað veglegt safn yrði byggt á Háskólalóðinni, þá myndi skapast ör-útgáfa af Smithsonian söfnunum í Washington DC, þar sem nokkur mismunandi söfnum er raðað meðfram túninu sem tengir Þinghúsið og Washington minnismerkið.

Hólmfríður

Ég hef komið í hvorugt þessara safna, en mun örugglega kíkja á þau ef vindarnir bera mig á réttar slóðir. Það er nokkuð algengt að hafa herbergi eða álmur helgaðar yngsta fólkinu, með þrautum, græjum og gormum til að fikta í. Experimentarium í Köben er einmitt frábært dæmi um það. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að íslenskt vísinda og náttúrufræðisafn væri með 200 fermetra rými þar sem börn geta snert á náttúrulögmálunum. Jafnvel að láta taka mynd af sér með silikonEinstein (frábær saga!!!) eða Vaxútgáfu af Benedikt Gröndal ef svo ber undir.

Arnar Pálsson, 28.11.2011 kl. 10:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband