Leita í fréttum mbl.is

Fræðimaðurinn og Sjúklingurinn

Ég held að velflestir hafi gaman að sjálfum sér, amk. að hugsa um sjálfan sig ef ekki um að tala eða dásama. Og í slíkum sjálfsrenningum er nokkuð algengt að fólk rekist á nýjar hliðar á sjálfum sér eða persónu sinni. Slíkt er fyllilega eðlilegt, engin skömm er af því að vilja frekar hjálpa hömstrum í smáhamstraburði en að selja verðbréf. Einnig er það náttúruleg staðreynd að margir samborgarar okkar eru beinlínis þjakaðir af slíkum eða áþekkum fjölbreytileika í geðslagi eða persónu. Einn slíkur er sjúkdómurinn geðhvörf (e. bipolar disorder), þar sem sjúklingurinn getur sveiflast milli ofláta og þunglyndis, jafnvel sama daginn.

Einn félagi minn hefur borið slíkan kross í rúm 20 ár. Samhliða hefur hann stundað sína rannsóknarvinnu, á vísindasögu og tengslum mannerfðafræði og líftækni. Upp á síðkastið hefur sjúkdómurinn orðið að hans faglega viðfangsefni. 

Steindór J. Erlingsson hefur kafað í heimildir um virkni(eða skort á virkni) margra geðlyfja sem nú eru algeng á markaði, og starfshætti lyfjafyrirtækja. Það sem gefur skrifum hans sérstakan tón er að þetta er ekki eingöngu starf hugsjónamanns heldur barátta sjúklings við að skilja ástand sitt og leita lækninga.

Við höfum vitnað til margra greina Steindórs hér, en nýjasta greinin er sú athyglisverðasta til þessa. Hún birtist í Geðvernd: Rit Geðverndarfélags Íslands ( Frá vonleysi til vonar: Hugleiðingar fræðimanns um sjúkling, geðlyf og bata, 40: 24-29, 2011.). Ég fékk leyfi til að birta hér nokkrar málsgreinar. Hér fjallar Steindór um sínar tvær hliðar, Fræðimanninn og Sjúklinginn.

Meðvitundin um togstreituna á milli Fræðimannsins og Sjúklingsins sem kviknaði um mitt árið 2008 fól ekki í sér skilning á eðli vandamálsins. Liðu tæp tvö ár þar til fullnægjandi skilningur birtist skyndilega. Þetta átti sér stað í kjölfar innlagnarinnar í upphafi ársins 2010. Á meðan á henni stóð kynntist ég lækni sem við skulum kalla Önnu. Hún sýndi mér mikinn áhuga og gaf sér mun meiri tíma til samskipta en nokkur annar geðdeildarlæknir sem rekið hefur á fjörur mínar. Í samræðum okkar fór ég að tala um mig sem samsettan úr tveimur hlutum, Fræðimanninum og Sjúklingnum, sem geta ekki á nokkurn hátt talast við. Þarna sá Anna tækifæri!

Sannarlega eiga geðsjúkdómar sér bæði rætur í líffræði okkar og samskiptum (eða skorti á þeim) milli fólks. Í greininni ræðir Steindór nokkur að þeim atriðum sem ættu að gera fólk tortryggið gagnvart lyfjamokstri geðlækna, en einnig hvernig manneskjuleg samskipti og innsæi geta hjálpað fólki við að yfirstíga sín geðrænu vandamál. Lausnin er ekki alltaf að gleypa magnyl, stundum þarf maður að ýfa upp gömul sár, eða amk horfa á örin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þakkir fyrir að benda á þessa góðu grein.

Vel að verki staðið, Steindór. Ég varð djúpt snortinn þegar Sjúklingurinn svaraði ákúrum Fræðimannsins.

Það er rétt hjá Arnari að benda fólki á að gjalda lyfjaframleiðendum varhug.

Öðru fremur þykir mér greinin fjalla um vitundina og samspil hennar við þetta..., tja eigum við að segja M-kenninguna.

Jóhann (IP-tala skráð) 22.12.2011 kl. 21:29

2 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Já var einmitt að ljúka við bókina hans sem hann andmælir genanauðhyggjunni, greinin sem þú póstar er reyndar lifandi sönnun gegn genanauðhyggjunni.

Takk.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 23.12.2011 kl. 13:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband