Leita í fréttum mbl.is

Mikilvægi þróunkenningarinnar fyrir læknisfræði

Þau tíðindi bárust um helgina að norskur geðlæknir hafi verið gefnar bætur vegna meintrar mismununar á grundvelli trúarskoðanna. Honum var ekki boðið starf, af því að hann trúði ekki á þróunarkenninguna. 

 

Hvað er þróunarkenningin?

Kenning er nafn á víðtækri útskýringu í vísindum. Fyrst kemur tilgáta, ef henni er ekki hafnað er e.t.v. komið lögmál, og mörg lögmál eru samþætt í stærri kenningu sem getur útskýrt margvísleg fyrirbrigði og tilfelli. Sbr. þyngdarlögmál Newtons og almennu afstæðiskenningu Einsteins.

Þróunarkenning Darwins felur í sér tvennt. Í fyrsta lagi lífsíns tré, að allr lífverur á jörðinni séu skyldar að meira eða minna leyti. T.d. eru menn og apar svipaðari í útliti en menn og flugur, vegna þess að við erum skyldari öpum en flugum. Í öðru lagi settu Darwin og Wallace fram hugmyndina um náttúrulegt val, sem útskýrir hvers vegna lífverur passa við umhverfi sitt, og hvers vegna þær eru með augu, laufblöð, typpi.

Náttúrulegt val er fjarska einfallt. Það byggist á fjórum atriðum.

1. Breytileika - einstaklingar eru ólíkir.

2. Erfðir, breytileiki milli einstaklinga er tilkomin vegna erfða (að einhverju leyti).

3. Mismunadi æxlunar-árangri (það er ekki nóg að æxlast - þú verður að geta af þér börn, því annars komast genin þín ekki áfram).

4. Baráttu fyrir lífinu, einstaklingar eru misjafnlega góðir í því að hlaupa, veiða, elda, þrífa sig, finna maka, búa til afkvæmi með makanum, verja afkvæmið o.frv.

Fleira þarf ekki til að útskýra fjölbreytileika lífsins, eiginleika lífvera og hvers vegna þær bila.

 

Darwinísk læknisfræði

Þróunarkenningin kastar einstöku ljósi á læknisfræðina, því hún hjálpar okkur að skilja byggingu lífvera, hvernig samskiptum sýkla og hýsla er háttað, hvernig erfðagallar viðhaldast í stofnum og togstreitu á milli kerfa lífverunnar. Hún sýnir okkur hvaða eiginleikar eru gamlir, hvað er sameiginlegt öllum dýrum/hryggdýrum/spendýrum/mannöpum, og hvað er nýtilkomið. Mjólkurkirtlar birtust í einum hópi lífvera, næringarsepar sæhestanna eru önnur leið að sama marki (nema hvað þeir eru á karldýrinu).

Þróunarkenningin útskýrir hvernig skaðlegar stökkbreytingar viðhaldast, þær eru fjarlægðar af náttúrulegu vali en það megnar aldrei að hreinsa allt burt (m.a. vegna þess að alltaf verða nýjar breytingar í hverri kynslóð).

Þróunarkenningin sýnir hvernig áhrif stökkbreytinga veltur á umhverfinu - ef umhverfi breytist þá getur það sem var gott orðið skaðlegt. Ekki allir sjúkdómar vegna erfða, umhverfisþættir valda mörgum sjúkdómum (sígarettur og asbest búa til lungnakrabbamein). Náttúrulegt val getur ekki varið okkur fyrir slíku, bara vitsmunaleg hegðun fólks (svona eins og að setja sílikon í poka og smeygja undir húðina....).

Og ef við notum of mikið af sýklalyfjum, þá mun þol gagnvart þeim þróast vegna náttúrulegs vals.  Það er því mikilvægt að læknar kunni þróunarfræði.

Það er hægt að hafna útskýringum þróunarkenningarinnar á fjölbreytileika lífsins og sýklalyfjaóþoli, og skírskota til yfirnáttúrulegra krafta. En þá ertu búinn hafna vísindalegri aðferð og opna dyrnar fyrir allskonar yfirnáttúrulegar skýringar á þyngdaraflinu, jarðskjálftum, getnaði, gangi tunglsins og sigri eða tapi í íþróttum.

 

Líkamspartavélvirkjar eða fræðimenn?

Það er reyndar praktísk spurning, hversu mikið þarf einstakur starfsmaður að vita. Ef hlutverk þitt er að greina lungnasjúkdóma í 30 einstaklingum á dag, hversu oft þarft þú að nýta þér þekkingu á þróunarkenningunni? Ef um er að ræða fjölónæman stofn baktería, sem þolir öll þekkt sýklalyf, þá er það gott. Ef um er að ræða 50 ml af steinolíu sem sjúklingurinn andaði að sér af því hann vildi vera eldgleypir, þá þarftu ekki að nýta þér þekkingu um þróunarkenninguna.

Norski læknirinn starfar á sviði geðlæknisfræði. Vera má að þróunarkenningin gagnist honum ekkert í sínu starfi. Spyrja má hefði umsókn viðkomandi verið hafnað er hann hefði efasemdir um erfðalögmál Mendels? Þyngdarlögmál Newtons? Taugalíffræði tuttugustu aldar?

 

Eru læknar líkamspartavélvirkjar*, sem þurfa ekki að vita neitt um þau lögmál sem móta líkama? Eða þurfa þeir að kunna skil á bestu útskýringum á því hvernig líkamar virka, ekki bara einkennum sem koma fram þegar þeir bila.

Kveikjan að pistlinum var upphringi frá Frosta og meðreiðarsveini hans í Harmageddon.

 

* Með þessari líkingu er ekki verið að kasta rýrð á starf vélvirkja, en mér skilst á kunningjum að margir nútímavélvirkjar þurfi ekki að skilja starfsemi véla, bara skipta um partana sem tölvan segir að séu bilaðir. Þar liggur grunnurinn að líkingunni.

 

Ítarefni:

George C. Williams og Randolph M. Nesse  Why We Get Sick: The New Science of Darwinian Medicine

Darwinian medicine, Nesse, RM et al. (2009). "Making evolutionary biology a basic science for medicine". Proceedings of the National Academy of Sciences of the United States of America. 107 (PNAS) Suppl 1 (suppl_1): 1800–7.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vísindasamfélagið lætur leiða sig á asnaeyrunum, gagnrýnilaust, enda komast menn ekki upp metorðastigan öðruvísi. "Kapp er best með forsjá" er eitthvað sem vísindasamfélagið mætti tileinka sér. Allt sem þú taldir upp getur auðveldlega átt sér aðrar skýringar. En nei, ekki hugsa gagnrýnið, starfið gæti legið að veði.

Benni (IP-tala skráð) 31.1.2012 kl. 10:39

2 identicon

Flott viðtal og flottur pistill. Það er erfitt að skilja hvernig fólk getur hafnað því að þróun eigi sinn þátt í þessu ótrúlega breytilega lífríki jarðar. Eins og þú réttilega nefnir eru t.d. fjölónæmar bakteríur (sem sýklalyf eiga stórann þátt í að þróa)gott dæmi um þróun sem á sér stað beint fyrir framan nefið á okkur! Staðreyndir og sannanir um tilvist þróunar eru æpandi-áberandi og mér þykir magnað að einhver nái að loka augunum og halda nógu fast fyrir eyrun til þess að þessi sannleiki ná ekki í gegn...

Hrönn Egilsdóttir (IP-tala skráð) 31.1.2012 kl. 11:26

3 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk fyrir innslagið Benni

Ég held að þú snúir þessu eitthvað við. Gagnrýni er kjarninn í vísindalegu starfi, t.d. ef menn eru ekki sjálfsgagnrýnir þá enda þeir á því að prófa hriplekar tilgátur (sem engu skila).

Þú segir að allt sem ég telji upp eigi sér auðveldlega aðrar skýringar. Það eru til margar skýringar, en þær eru ekki allar vísindalegar.

Ég gæti útskýrt sigur Dana á EM í handbolta með því að skírskota til inngrips Buddah. Þá tilgátu er ógerlegt að afsanna. Þess vegna leita vísindin að útskýringum sem hægt er að afsanna.

Takk Hrönn fyrir innslagið.

Þróun er sífellt að gerast, og í raun forvitnilegt hversu lítið er kennt á þessum nótum í læknisfræði. Bók Williams og Nesse var kennd í læknadeild Chicago háskóla, en engu slíku er til að dreifa í Læknadeild hér.

Fólk er með merkilega fastmótaðar lífsskoðanir, og gögn og staðreyndir virðast hræra þau harla lítið. Spurningin er hvernig mennta má þjóð með þessa staðreynd að leiðarljósi?

Arnar Pálsson, 31.1.2012 kl. 11:38

4 identicon

Ég hef trúað þróunarkenningunni síðan ég var smá gutti. Mér fannst reyndar skrítið að eitthvert agnarlítið hlutfall lífvera tækju upp á því , af einskærri tilvilun að stinga allar aðrar af og þróast upp í mann.  En hvað vissi ég!? En nú er ég búinn að kynna mér rök beggja og komst að því að þróunarkenningin er einhver ofmetnasta kenning sem ég veit af. Það kom mér á óvart hvað sannanirnar eru veikar. Þessari ofmetnu kenningu er að mestu beint gegn trúarkenningum, sem endurspeglast í svari þínu. Málið er að ef vísindasamfélagið tæki upp á því að reyna að sanna tilvist jólasveinsins væri því ekki skotaskuld úr því.

Benni (IP-tala skráð) 31.1.2012 kl. 20:39

5 identicon

Sæll Arnar, 

Ég vildi bara þakka þér fyrir skemmtilegt viðtal við Frosta! Einnig vill ég þakka þér fyrir að benda mér á tvær bækur (nennti ekki að leita að færslunni) sem ég bað um í  jólagjöf og fékk! :) Það voru bækurnar Skipulag algeimsins og Fiskurinn í okkur. 

Og fyrir Benna þá vill ég benda á bókina Fiskuirnn í okkur sem er mjög fræðandi og skemmtilegt rit um þróun. 

Brynjar Örn (IP-tala skráð) 1.2.2012 kl. 10:06

6 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll Benni

Ég á bágt með að setja mig í þín spor, því ég veit ekki hvaða skoðanir þú hafðir (trúðir) á hverjum tímapunkti, eða hvaða fræðslu þú hefur fengið eða texta lesið.

Ég get sagt að fólk á Íslandi hefur almennt átt auðvelt með að meðtaka þróun sem staðreynd, kannski vegna þess að við eru sögulega jarðbundin þjóð sem upplifir, líf, dauða og mátt náttúrunnar í veðrum og jarðhræringum.

Tilurð mannsins er sannarlega merkileg, en ef þú skoðar eiginleika lífvera, þá er maðurinn greinilega af sama meiði og apar, spendýr og hryggdýr. Og sömu lögmál og útskýra tilurð vængja ávaxtaflugunnar og varnarkerfa plantna duga til að útskýra eiginleika mannsins.

Margir hafa reynt að grafa undan þróunarkenningunni, af því þeim finnst hún ganga gegn hugmyndum um guðlega sköpunar í trúarbrögðum sem þeir aðhyllast.  Þeir aðillar hafa ausið út efni, bókum, bæklingum og myndböndum, með það eitt að markmiði að kasta rýrð á þróunarkenninguna.

Þróunarkenningin afsannar ekki guð. Allavega ekki alvitran, alsjándi guð sem er utan og ofan við okkar skilningarvit og utan við efnisheiminn. Hins vegar er hún náttúrulegur valkostur við þá hugmynd að guð hafi skapað manninn og lífverurnar og alla/eða suma eiginleika þeirra. Þeir sem kjósa nátturulegar skýringar á tilveru mannsins gera best í að velja þróunarkenninguna, af því að hún er best studd gögnum og hefur staðist ítrekaðar prófanir. þeir sem vilja yfirnáttúrulegar skyringar, geta valið sér eina af u.þ.b. þúsund mismunandis sköpunarsögum sem finnast í trúarbrögðum mannfólks.

Bestu skilgreiningar á jólasveinninum sem ég hef séð prýða hann yfirnáttúrulegum kröftum. Því tel ég að jólasveinninn sitji á sama fjósbita og guð og Óðinn, utan seilingar vísindanna.

Takk fyrir innslagið Brynjar Örn.

Gaman að heyra að þér líkar bækurnar, ég er að vona að einhver skrifi ritdóma um þá....kannski þú?

Arnar Pálsson, 1.2.2012 kl. 12:36

7 identicon

Sæll Arnar. Það er spurning hverjir eru að reyna að grafa undan hverju. Mér finnst einmitt trúleysingjar vera að grafa undan þróunarkenningunni Eins og þú nefnir er það einmitt áhyggjuefni mitt, hversu auðveldlega við gleypum við öllu sem við erum mötuð af, þar með talið, ég sjálfur. Ég á engan forföður sem var api, hvað þá fiskur. Það þarf tvo til getnaðar. Hverjar eru líkurnar á að "api" með mannalitninga hitti annan slíkan og eigi við hann getnað? Sú tilviljun er  stjarnfræðilega ólíkleg. Hvað þá, frá fiski til manns.  Þróun skýrir ýmislegt, en þróunarkenningin er komin langt fram úr sjálfri sér. Sýklar þróa með sér ónæmi, svona eitthvað svipað og líkamsræktarfólk þróar með sér vöðva og kraft. PS Ég skal ganga í klúbbinn þinn þegar maðurinn er orðin vél, og kalla það "þróun". En vonandi verð ég dauður þá.                   

Benni (IP-tala skráð) 2.2.2012 kl. 02:02

8 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll Benni

Gögnin benda til þess að við mennirnir séum fjarskyldir frændur simpansa. Það er fyrir 5-7 milljónum ára var uppi apapar sem gat af sér a.m.k. tvö afkvæmi og afkomendur þessara afkvæma gátu af sér ættmeiða sem leiða til manns og simpansa. 

Kjarninn í þróunarkenningunni er náttúrulegt val (sem ég útskýrði að ofan, og stendur óhaggað). Þetta er kraftur sem getur breytt eiginleikum lífvera, með tíð og tíma. Í hverri kynslóð verður örlítil breyting vegna breytinga í tíðni arfgerða sem hafa áhrif á eiginleika og hæfni einstaklinga.

5 milljónir ára þýða 250.000 kynslóðir (ef við gefum okkur 20 ára kynslóðatíma). Það er kappnægur tími fyrir þann mun sem við sjáum á mönnum og simpönsum.

Það er mér ekkert kappsmál að þú gangir í einn klúbb eða úr öðrum. 

Ein leiðrétting:

Ónæmi meðal sýkla er vegna þróunar - þ.e. breytingu á samsetningu og eiginleikum stofns (tegundar). 

Breyting á einstaklingi sem liggur undir lóðum, er lífeðlisfræðileg breyting ekki þróunarleg.

Lífeðlisfræðileg aðlögun er ekki það sama og þróunarfræðileg aðlögun.

Arnar Pálsson, 2.2.2012 kl. 10:12

9 Smámynd: Arnar

Benni: Hverjar eru líkurnar á að "api" með mannalitninga hitti annan slíkan og eigi við hann getnað? Sú tilviljun er  stjarnfræðilega ólíkleg.

"Api" með mannalitninga getur miðlað sínum mannalitningum áfram þótt hann fjölgi sér með öðrum apa án slíkra litninga.  Þar sem afkvæmi okkar fá erfðaefni frá báðum foreldrum.

Þegar nógu margir einstaklingar í hópnum eru komnir með 'mannalitningana' þá er kannski hægt að segja að þessi hópur hafi þróast í aðra tegund en aðrir hópar þar sem engin einstaklingar hafa þessa litninga.

Það er að segja, þróun á sér stað í hópum en ekki einstaklingum í hópnum.

Hugtakið 'stjarnfræðilega litlar líkur' er fljótt að breytast þegar þú hættir að hugsa um einn einstakling og ferð að hugsa um hóp..

Arnar, 2.2.2012 kl. 10:24

10 identicon

Sæll Arnar. Ertu þá að segja að api og maður geti gefið af sér afkvæmi.  Segðu mér, Arnar. Af hverju finnst ekki einn einasti steingerfingur af miljónum, sem er á milli tegunda. Meira að segja Darwin sjálfur hafði miklar áhyggjur af þessu.

Benni (IP-tala skráð) 3.2.2012 kl. 01:40

11 Smámynd: Arnar

Benni, ég var að reyna að segja að api breyttist ekki í mann á einni nóttu og þurfti ekki að finna sér annann apa sem hafði breyst í mann til að fjölga sér með.

Einhverstaðar, einhvern tíman var hópur af öpum þar sem söfnuðust fyrir gena breytingar sem gerði þá meira mennska en aðra apa af sömu tegund, þangað til þeir voru loksins orðnir að sér tegund.

Ef þú heldur að þetta sé bull og trúir sköpunarsinnunum þegar þeir halda því fram að við sjáum engin merki um þróun í dag, kynntu þér þá aðeins Ring species.

Og allir steingervingar eru af milli tegundum milli tveggja annara steingervinga.  Alveg eins og maður er bara millitegund milli apa og hvers sem mannkyn á eftir að þróast í í framtíðinni.

Arnar, 3.2.2012 kl. 10:01

12 Smámynd: Arnar Pálsson

Benni.

Ég sagði ekki að api (simpansi) og maður gætu eignast afkvæmi.



Ég útskýrði fyrir þér að þróun tekur tíma, á 250000 kynslóðum breytist heilmargt.

Einstaklingar sem eiga sameiginlegan forföður fyrir 20 kynslóðum geta átt afkvæmi,

Þeir sem eiga forföður fyrir 300 kynslóðum geta það...

..en þegar kynslóðirnar eru orðnar of margar þá gengur það ekki (vegna samspils gena og þroskun fóstra).

Fjöldi kynslóða sem aðskilur tegundir er reyndar mismikill eftir tegundum. Það eru gögn sem benda til að menn og neanderdalsmenn hafi átt afkvæmi saman, og sumir fuglar geta æxlast með öðrum fuglum sem aðskildust fyrir milljón árum.

Þetta er ekki mjög flókið, maður þarf bara að sjá fyrir sér keðju kynslóðanna og að í hverri kynslóð breytist hópurinn (tegundin) örlítið. Með nægilega mörgum kynslóðum verður lítill munur að miklum, og apar að mönnum.

Á tímum Darwins var steingervingafræðin á bernskuskeiði. Hún hefur síðan dafnað og þroskast, og allar niðurstöður hennar falla að þróunarkenningunni.

Metur þú orð Darwins að verðleikum, þegar hann er að benda á veikleika við hugmynd sína eða þegar hann er að rökstyðja hana?

Arnar Pálsson, 3.2.2012 kl. 12:13

13 identicon

Sæll Arnar. "Ring species"bætir engu við umræðuna, en setur hana bara í "fallegri"umbúðir. Ef allir steingerfingar eru af millitegundum þá eru alltaf að eiga sér stað risastökkbreitingar. Darwin kom fram með athyglisverða "kenningu" sem síðan hefur verið oftúlkuð og  meðhönluð sem hinn eini sannleikur um uppruna mannsins. Enda fær enginn fjöður í hattinn fyrir efasemdarrugl. Þvert á móti.

Benni (IP-tala skráð) 4.2.2012 kl. 03:48

14 Smámynd: Arnar Pálsson

Benni

Ring species er fínt dæmi, staðreynd sem passar við kenninguna.

Þú ert alltaf að skipta um umræðuefni, í stað þess að reyna að rökstyðja mál þitt.

Ef þú vilt endilega meðtaka yfirnáttúrulegar útskýringar, þá skaltu bara viðurkenna það fyrir sjálfum þér (og kannski öðrum).

Það fær enginn fjöður í hattinn fyrir að taka yfirnáttúru fram fyrir náttúrulegar skýringar....nema í ákveðnum trúarsamfélögum.

Í vísindunum vinnur fólk sér inn orðstír, með því einmitt að vera gagnrýninn og framkvæma ströng próf á tilgátum, OG að vera tilbúinn að hafna þeim þegar gögnin mæla þeim mót.

Arnar Pálsson, 6.2.2012 kl. 09:58

15 Smámynd: Arnar

Benni, Ring species endurspegla nákvæmlega það sem þú ert að gagnrýna, við erum með eina tegund sem þróast í sitthvora áttina þangað til það eru til tveir hópar af 'sömu tegund' sem eru samt orðnir það ólíkir að þeir geta td. ekki lengur eignast sameiginleg afkvæmi (sem er einn af eiginleikunum sem aðgreinir tegundir.. að þær geti ekki eignast saman frjótt afkvæmi).

Hvar eru þá millistigin?

Ég get því miður ekki gert mikið í því að risaeðlur hafi ekki séð sóma sinn í því að sjá til þess að amk. eitt dýr af hverri kynslóð varðveitist okkur til yndisauka.

Arnar, 6.2.2012 kl. 11:50

16 identicon

 Mér finnst ykkar kenningar vera um einhverjar yfirnáttúrulegar tilviljanir. Tilvist mannsins á sér ekkert annað en "yfirnáttúrulegar" útskýringar, sama hver niðurstaðan er.

Benni (IP-tala skráð) 6.2.2012 kl. 13:29

17 Smámynd: Arnar Pálsson

Benni

Já eða nei spurning.

Er þín afstaða sú að yfirnáttúrulega skýringa sé þörf á tilurð mannsins?

Þó að þú misskiljir þróunarkenninguna, þá er það okkur að meinalausu. Við höfum reynt að útskýra fyrir þér hvernig hún virkar, en þú hrekur ekki málflutning okkar... "mér finnst ykkar kenningar..." er ekki rök heldur skoðun.

Arnar Pálsson, 7.2.2012 kl. 08:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband