Leita í fréttum mbl.is

Af hverju að lesa biblíuna?

Persónulega skil ég ekki fólk sem nennir að lesa trúartexta eins og biblíuna. Jafnvel þeir sem eru yfirlýstir jésúitar, hafa aldrei lesið biblíuna, treysta frekar á túlkanir annara og niðursuðu presta og postula.

Sem fermingardrengur reyndi ég að lesa biblíuna (ég var alveg stappfullur af helgi...svo lá við slepju), en fannst Frank og Jói miklu skemmtilegri.

Félagi Steindór, sem ég vitna til oftar en biskupinn í biblíuna, birti nýlega pistil á innihald.is um Guðleysi og biblíuna. Steindór hefur nefnilega lesið tugi bóka um kristni, biblíuna, trú og trúleysi. Síðan las hann biblíuna, eða amk nýja testamentið. Hann segir:

Ég hef lesið um afbyggingu og ótrúlega smækkun Jesú, þróunarsögu djöfulsins, áhrif Adam og Evu á frumkristni, Tómasarguðspjall, illsku- og ofbeldisvandamál Biblíunnar, þjóðfræðilega greiningu á Biblíunni, Opinberunarbókina, og endalok Biblíurannsókna 

Það sem mér þykir hins vegar mest um vert er að ég lét loksins verða af því að lesa Nýja testamentið (NT) og valda kafla úr því Gamla (GT). Það er sérkennileg tilfinning fyrir guðlausan mann að lesa NT. Hér er á ferðinni rit sem hefur haft gríðarleg áhrif á vestræna menningu undanfarin tvöþúsund ár og sér ekki fyrir endann á því. Þrátt fyrir þetta snerti lestur Biblíunnar ekki við mér tilfinningalega. Varð mér því stundum hugsað til einstaklinga á borð við Sophie Scholl sem sóttu styrk í Biblíuna til þess að berjast gegn ofurefli. Þetta mun ég líklega aldrei upplifa. Kjarkur minn kemur annars staðar frá. Innra með sjálfum mér.

Þó Biblían hafi ekki snert við mér tilfinningalega þá tendraði lesturinn upp vitsmunahliðina í mér. Ástæða þess liggur fyrst og fremst í því að ég var búinn að undirbúa mig vel og hóf því lesturinn með nokkuð ítarlegan leiðarvísi. Ég byrjaði t.d. ekki á Mattheusarguðspjalli, fyrsta riti NT, heldur Markúsarguðspjalli. Ástæðan er sú að Markús er elsta guðspjallið og byggja Mattheus og Lúkas að hluta til á því. Einnig var ég meðvitaður um þversagnir og falsanir í Biblíunni.

Þótt umfjöllun Steindórs sé skemmtileg þá mun ég frekar lesa Thinking fast and slow eftir Daniel Kahneman sem ég keypti í bóksölu stúdenta í vikunni (Heili 1 og heili 2) en biblíuna eða bækur um hana. Þótt sannarlega sé hún merkileg bók, þá vil ég frekar lesa um einhver djúp fræði en sögu trúartexta (hvort sem það sé talmúdd, nýja testamentið eða bókin um veginn).

Gleðileg súkkulaðiegg og páskalambasteik. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Antonsson

Sérhver nýr dagur boðar ný tíðindi. Nú taka vísindin undir þá kenningu að hollt sé að borða súkkulaði og fasta, einkum á vordögum. Ísbjörnin veit þetta og fær ekki almennilega að borða fyrr en selirnir kæpa, en sætt súkkulaði fær hann aðeins í dýragörðum. Í morgun var ég að horfa á prédikara á Omega halda því fram að guð hafi skapað alheim úr engu. Hann var nokkuð sammála Innihalds-mönnum um þá staðhæfingu.

Einhver vísindafákur sagði að við hefðum aðeins uppgötvað 99 prósent af alheiminum. Hvað skyldu fiðrildin segja um sína prósentu þegar kemur að því að leysa lífsgátuna, uppgötva heiminn og telja stjörnurnar. Trúarbrögðin hafa vitanlega stytt sér leið að sannleikanum og vilja veita leiðsögn eftir bestu getu. Alltaf finnast þjónar sem vilja létta okkur erfiðið og því ekki að taka því ef annað er ekki í boði til að róa okkur á erfiðum tímum. Vísindinn eru ekki þess megnuð að hemja grimmasta rándýr merkurinnar. Frekar að þau auki hræðsluna um algjöra tortímingu lífs á jörðinni með atóminu sem er lausbeislað. Hvað segir erfðafræðin um þá áráttu mannshugans að vera stöðugt að afla sér nýrra vitneskju, þekkingu sem að lokum tortímir honum?

Biblían er ekki verri en gloppótt vísindi. Erfðaeiginleikinn er partur af sköpuninni og tímanum. Erfðafræðin er líkleg til að varpa ljósi á alheiminn í náinni framtíð. Útþenslan og breytikrafturinn eru á mikilli ferð. Vísindasagnfræði og skáldskapur er ekki verra hugsunarefni en píslasaga Krists. Allt leitar jafnvægis segir á einum stað en hvaða sannanir höfum við leikmenn. Páskar er góður tími til umhugsunar og líklega mesta þarfaþing því sumarið er í nánd.

Sigurður Antonsson, 5.4.2012 kl. 22:29

2 identicon

Ég las færslu þína. Mig langar að benda þér á mikilvægan hlut. Athugaðu að Biblían er mjög erfið bók að skilja. Allir sem virkilega þekkja hana vita það. Ég veit ekki um neinn sem hefur tekist að ljúka upp Biblíunni "í herberginu heima" af eigin rammleik. En fjölmargir fara einmitt þá leið og gefast upp. Ráð mitt er því þetta: fáðu leiðsögn, og skoðaðu trúna sjálfa (jafnvel gagnrýnum augum) og athugaðu hvernig hún kemur þér fyrir sjónir. Gluggaðu svo í Biblíuna. Þá mun hún opnast,... hægt, hægt...

Karl (IP-tala skráð) 5.4.2012 kl. 22:46

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég tek undir með síðasta ræðumanni og segi:

Blúbb blúbb bla dí bla blíbb blíbb blúbbedí blúbb...

Jón Steinar Ragnarsson, 6.4.2012 kl. 03:59

4 Smámynd: Óli Jón

Ég hef aldrei skilið þetta með að það þurfi að túlka Biblíuna til þess að draga út úr henni rétta merkingu. Þetta er, að sögn, bók sem skrifuð er undir handleiðslu eða andgift frá almáttugri og alvitri veru en þegar á hólminn er komið virðist snilld hennar ekki meiri en svo að aðal áróðursrit hennar er þannig að hægt er að misskilja það á ótal vegu. Hún virðist það illa skrifuð að enginn leið er til þess að skilja hana á einn og sama veginn. Ef Biblían er til marks um yfirburði megin yrkisefnis hennar og ef hún er skrifuð með velþóknun þess, þá ristir snilli þess ekki djúpt.

Óli Jón, 6.4.2012 kl. 12:47

5 Smámynd: Mofi

Í mínum huga eru allir textar sem fjalla um stóru spurningar lífsins trúarlegir textar. Þar sem Biblían hefur haft gífurleg áhrif á samfélög heimsins, aðalega hinn vestræna og Islam. Ég myndi upplifa það sem óþægilega fáfræði að þekkja ekki þann texta sem hafði einna mest áhrif á þann heimshluta sem ég bý í og eins og Steindór segir, mun halda áfram að móta hann.

Varðandi túlkanir á Biblíunni þá tel ég að aðal vandamálið er að fólk les hana ekki alla og les hana með fyrirfram gefnum hugmyndum sem geta ruglað mann í ríminu. Síðan er fólk að lesa þýðingar á Biblíunni en þar getur maður fundið orð sem samfélagið hefur gefið ákveðna merkingu í þegar Biblían hefur ekki gefið þá merkingu. Gott dæmi um þetta er orðið helvíti en við lesum í þetta orð brennandi eldur og eilífar kvalir en Biblían nefnir ekkert slíkt enda orðið helvíti horfið úr stórum hluta þýðinga af Biblíunni.

Lang eðlilegast fyrir fræðimenn að lesa textan sjálfir og meta Biblíuna á eigin spítur, annað er eitthvað svo óekta og letilegt.

Mofi, 6.4.2012 kl. 13:18

6 Smámynd: Mofi

Það er svekkjandi hve mikið viðhorf til Biblíunnar hefur breyst, tökum t.d. hvað Thomas Huxley sagði um Biblíuna:

The Bible has been the Magna Carta of the poor and oppressed. The human race is not in a position to dispense with it.
Thomas Huxley

Þetta er frá einhverjum sem barðist á móti boðskap hennar en hans þekking á sögu hennar og hvaða áhrif hún hafði á lesendur hennar lét hann segja þetta.

Mofi, 6.4.2012 kl. 13:26

7 Smámynd: Sigurður Alfreð Herlufsen

Ég legg til að menn einfaldi þetta mál með því að lesa einungis þau orð sem sögð eru komin úr munni Jesú Krists.

Njörður P. Njarðvík tók saman þessi orðog setti á bók og þá verður þetta allt einfaldara.

Að standa í deilum um trúarrit finnst mér vera feilhögg mikið. Í grunninn erum við sammála um flest grundvallaratriði.

Erum sammála um hvernig við eigum að koma fram við næsta mann.

Það er gott veganesti.

Eftir því sem menn fara lengra inn í smáatriði, þá finna þeir fleiri tilefni til að vera ósammála um!

Sigurður Alfreð Herlufsen, 6.4.2012 kl. 14:50

8 identicon

Arnar, ég met hreinskilni þína mikils. Skil raun vel að þú nennir ekki að lesa Biblíuna.

Steindor J. Erlingsson (IP-tala skráð) 6.4.2012 kl. 16:50

9 identicon

Arnar, ég met hreinskilni þína mikils. Skil raun vel að þú nennir ekki að lesa Biblíuna.

Steindor J. Erlingsson (IP-tala skráð) 6.4.2012 kl. 18:26

10 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Sigurður Alfreð: Var það ekki Jesús sem sagði t.d.

"Ef einhver kemur til mín og hatar ekki föður sinn og móður, konu og börn, bræður og systur og enda sitt eigið líf, sá getur ekki verið lærisveinn minn. "

Nú eða:

"Ætlið ekki, að ég sé kominn að færa frið á jörð. Ég kom ekki að færa frið, heldur sverð. Ég er kominn að gjöra ,son andvígan föður sínum, dóttur móður sinni og tengdadóttur tengdamóður sinni. Og heimamenn manns verða óvinir hans.' Sá sem ann föður eða móður meir en mér, er mín ekki verður, og sá sem ann syni eða dóttur meir en mér, er mín ekki verður."

Það er bara göfgin og ástin ein eftir ef við höldum okkur bara við orð meistaras eða hvað?

Jón Steinar Ragnarsson, 7.4.2012 kl. 04:08

11 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Nú þarf bara góðan trúmann til að túlka þessa meiningu í burtu og segja okkur að þarna standi eitthvað allt annað en skrifað er.

Jón Steinar Ragnarsson, 7.4.2012 kl. 04:11

12 Smámynd: Hörður Þórðarson

"Varðandi túlkanir á Biblíunni þá tel ég að aðal vandamálið er að fólk les hana ekki alla og les hana með fyrirfram gefnum hugmyndum sem geta ruglað mann í ríminu."

Enginn sem átti hlut í að skrifa biblíuna skrifaði án fyrirfram gefinna hugmynda. Enginn sem lesið hefur bibliúna hefur gert það án slíkra hugmynda. Er það eitthvað vandamál?

Fyrir þá sem ekki skilja að þeir einstaklingar sem lesa biblína skapa sína persónulegu mynd af henni og skoðanir og ætlast til þess að allir skilji biblíuna á sama hátt er þetta vandamál.

Það eru ekki til tveir einstalingar sem skilja biblína á nákvæmlega sama hátt. Vandamálin koma upp þegar einhver aðili verður ósáttur við að aðrir skilja biblíuna á annan hátt en hann gerir og reynir að troða sínum skilningi upp á aðra. Slíkt er vissulega "vandamál". 

Hörður Þórðarson, 7.4.2012 kl. 06:52

13 Smámynd: Mofi

Jón Steinar, þú þarft bara að lesa guðspjöllin í heild sinni til að skilja þessi einföldu orð. Þú velur að taka út setningar og rembast síðan við að afbaka þær; það er hægt að afbaka allt ef viljinn er fyrir hendi. Af hverju er þessi vilji fyrir hendi?

Mofi, 7.4.2012 kl. 09:52

14 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ekki stóð á túlkunum og skýringum.

Það er ekki orð afbakað í þessu Mofi. Þetta er copy paste beint úr guðspjöllunum. Ég vildi ekki gera Arnari það að birta tvö guðspjöll í heild sinni til að fólk gæti kynnt sér samhengið, en þú getur kannski útskýrt það fyrir mér?  

Jón Steinar Ragnarsson, 7.4.2012 kl. 13:18

15 Smámynd: Mofi

Ef málið er að láta líta þannig út að Jesú var að boða sínum fylgjendum að fara í stríð þá er það afbökun. Þarna er Hann einfaldlega að segja að gjaldið við að fylgja Honum getur verið deilur og illindi því að ekki allir eru sammála og sáttir við þá sem velja að fylgja Honum.

Mofi, 7.4.2012 kl. 16:31

16 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk allir fyrir innslagið, ég get ekki svarað öllum en tíni nokkur atriði út úr.

Sigurður:

Trúarbrögðin hafa vitanlega stytt sér leið að sannleikanum og vilja veita leiðsögn eftir bestu getu.

Það skiptir töluverðu máli hvaða leið er farin að réttu svari. Því það er ekki endilega svarið sem skiptir mestu, heldur að við séum með góða leið til að afla svara. Vísindin hafa reynst okkar besta leið til að afla áreiðanlegra svara um eiginleika veraldar og lífvera. Trúartextar, biblían og aðrir, bera sannarlega margan vísdóm og leiðsögn um mannlega hegðan og gildi, en þeir eru ekki brúkleg aðferð til að afla nýrra svara.

Hvað segir erfðafræðin um þá áráttu mannshugans að vera stöðugt að afla sér nýrra vitneskju, þekkingu sem að lokum tortímir honum? 

Mjög skemmtilega spurt, hvað drífur forvitni mannsins? Ég myndi kannski spyrja hvort að náttúrulegt val hafi aukið tíðni erfðaþátta sem gerðu forfeður okkar forvitnari en aðra apa? Við þessari spurningu hef ég ekkert svar.

Ég veit hitt, að þekkingin mun ekki tortíma okkur heldur okkar eigin gjörðir. Mannfólk hefur í gegnum tíðina verið fjarska duglegt að drepa hvort annað, bæði viljandi og fyrir slysni.

Karl.

Ég nenni ekki að lesa biblíuna af því að aðferð hennar er ekki vísindaleg, og hún er daufur keppinautur við skemmtibókmenntir eins og Frank og Jóa, Bókasafn Ömmu huldar og Harðsoðið undraland.

Óli Jón og Steindór

Ég væri kannski til í að lesa bók um uppruna hugmynda biblíunar, hvernig sagnahefðir araba, afríkana og evrópskra ættbálka runnu saman í grautarpottinn sem biblían er (alveg sammála þér Óli, allt sem ég hef lesið úr henni er þessu marki brennt).

Sigurður, Jón Steinar, Mofi og Hörður

Valkvæður lestur er leyfilegur á biblíunni, og í tilvitnunum af vefsíðu vantrúar?

Af fornum textum hef ég lesið nokkra, söguna af apakonunginu úr kínverskri "goðafræði", skrif Lucian, einskonar grísk guða-gamanmál og slatta af skrifum grísku meistarana. Þessar bókmenntir gáfu mér miklu meira en þessar síður og partar úr biblíunni sem ég las.

Þessi pistill var aðallega hugsaður sem persónuleg yfirlýsing, og ábending á vandaðari og betur hugsuð skrif Steindórs.

Arnar Pálsson, 10.4.2012 kl. 12:35

17 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég hef reyndar, af öllum mönnum, lesið alla biblíuna, hvert einasta andskotans orð.

Sigurður Þór Guðjónsson, 17.4.2012 kl. 12:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband