Leita í fréttum mbl.is

Enn skal banna útiræktun erfðabreyttra lífvera - Hefur eitthvað breyst?

Opið bréf til flutningsmanna þingsályktunartillögu um bann við útiræktun erfðabreyttra lífvera.

Fram er komin á Alþingi tillaga til þingsályktunar um bann við útiræktun á erfðabreyttum lífverum (Þskj. 1073 – 667. mál). Flutningsmenn tillögunnar eru þingmennirnir Þuríður Backman, Mörður rnason, Álfheiður Ingadóttir, Þór Saari, Ólína Þorvarðardóttir, Birgitta Jónsdóttir, Þráinn Bertelsson og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.

Samkvæmt tillögunni skal „skipa starfshóp er vinni að breytingum á lögum og reglugerðum í þeim tilgangi að banna útiræktun á erfðabreyttum plöntum eigi síðar en 1. janúar 2013“. Rökin eru eftirfarandi: „Að mati flutningsmanna er nauðsynlegt að leggja af útiræktun á erfðabreyttum plöntum til þess að vernda hreinleika íslenskrar náttúru og með tilliti til siðferðislegrar skyldu núlifandi kynslóðar til að koma í veg fyrir að einkenni hennar glatist.“

Sambærileg tillaga var lögð fram á löggjafarþingi 2010-2011 (Þskj. 737 – 450. mál) og voru flutningsmenn þeir sömu nema í stað Atla Gíslasonar og Ólafs Þórs Gunnarssonar eru komnar þær Álfheiður Ingadóttir og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir. Í bréfi til nefndarsviðs Alþingis 10. febrúar 2011 gerðu 37 sérfræðingar í erfðafræði og skyldum greinum athugasemdir við tillöguna. Í bréfinu sagði m.a.: „Við teljum að tillaga þessi sé með öllu óþörf enda gilda þegar ströng lög og reglur um erfðabreyttar lífverur á Íslandi. Meðal annars starfar sérstök nefnd sem fer yfir hverja erfðabreytingu fyrir sig og metur hana og áhættuna af henni í hverju tilviki á vísindalegum forsendum. Engin ástæða er til að banna útiræktun erfðabreyttra lífvera þegar engin hætta er talin stafa af slíkri ræktun.“

Okkur er ekki kunnugt um að fram hafi komið ný fræðileg rök um hættuna sem erfðabreyttrar plöntur geti haft á „hreinleika íslenskrar náttúru“ sem gefa tilefni til þess að endurskoða þetta álit. Endurupptaka umræddrar tillögu á dagskrá Alþingis án nýrra gagna hlýtur að vekja þá spurningu hvaða upplýsingar og rök liggja að baki því að alþingismennirnir átta kjósa að halda tillögunni til streitu og taka því ekki tillit til álits helstu sérfræðinga þjóðarinnar í erfðafræði og skyldum greinum. Við þessari spurningu hljóta flutningsmenn tillögunnar að bregðast áður en Alþingi tekur efnislega afstöðu til málsins.

Arnar Pálsson, dósent, Háskóla Íslands
Áslaug Helgadóttir, prófessor, Landbúnaðarháskóla Íslands
Eiríkur Steingrímsson, prófessor, Háskóla Íslands
Guðmundur Eggertsson, prófessor emeritus, Háskóla Íslands
Jón Hallsteinn Hallsson, dósent, Landbúnaðarháskóla Íslands
Magnús Karl Magnússon, prófessor, Háskóla Íslands
Már Másson, prófessor, Háskóla Íslands
Ólafur S. Andréssson, prófessor, Háskóla Íslands
Þórunn Rafnar, Íslenskri erfðagreiningu


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Páll Jónsson

Já þetta er merkilegt uppátæki hjá okkar virðulegu þingmönnum.

Oft grunar manni að þeir sem velta fyrir sér stjórnmálum velji vísindalegar skoðanir út frá pólitískum skoðunum frekar en öfugt. Hægri menn efast um hnatthlýnun, vinstri menn eru með fóbíu fyrir erfðabreyttum matvælum, etc.

Og þá er maður að tala um klárt, ungt fólk með puttann á púlsinum, ekki bara Alþingismenn. Sorgleg staða. 

Páll Jónsson, 27.4.2012 kl. 18:37

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þessi frasi; "Náttúran á að njóta vafans" er tekin alla leið. Þessi þankagangur hefur verið skilgreindur af Alþjóða heilbrigðisstofnuninni sem "Vistkvíði". 

Líklega má setja þennan "sjúkdóm" í flokk með fóbíum, því hann lýsir sér í ofsadepurð og angist yfir örlögum náttúrunnar. Allt rask í náttúrunni veldur sjúkdómseinkennum, oft mjög alvarlegum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.4.2012 kl. 00:00

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég held að fáir efist um hnatthlýnun, Páll, heldur frekar um hversu stóran hlut maðurinn á í þeirri þróun og hversu slæmar afleiðingarnar eru fyrir lífríkið og mannkynið.

Vistkvíðasjúklingar geta ekki á heilum sér tekið vegna hlýnunarinnar og verða eins og manneskjan í Ópinu eftir Munk, af tilhusuninni einni saman.

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.4.2012 kl. 00:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband