Leita í fréttum mbl.is

Darwin og lífsnautnin frjóa

Hvers vegna dansa fuglar? Hví ropa froskar? Hversvegna settu konur Viktoríutímans fjaðrir fugla í hattana sína? Hvers vegna mála menn veggi (á hellum og í húsasundum)?

9781608192168.jpgListsköpun er sjaldan viðfangsefni líffræðinga, en ljóst er að víðfemasta kenning líffræðinar getur einnig hjálpað okkur að skilja rætur listarinnar. David Rothenberg skrifaði nýlega bókina Survival of the beautiful, þar sem hann fjallar um listaverk dýra og hversu útbreitt fegurðarskynið er í dýraríkinu. Rauði þráðurinn í bók hans er hinn þróunarfræðilegi vinkill, sem fjallar um sameiginlegan uppruna lífvera og að náttúrulegt val er besta vísindalega útskýringin á fjölbreytileika og eiginleikum lífvera.

Þróunarkenning útskýrir t.d. eiginleika gena, frumunnar, vefja, þroskunar og vistfræði. Hún hjálpar einnig til við að skilja atferli, bæði sögu þess og orsakir. Það er gert með því að setja fram tilgátur um aðlögunargildi. Til dæmis ef tiltekið atferli finnst hjá dýrategund má spyrja hvernig það gagnist lífverunni? Þá er spurt um Darwinska hæfni, og hvort atferlið auki hana.

Vandamálið er vitanlega að prófa slíkar tilgátur. Hvernig má afsanna það að dans Óðinshanans auki hæfni hans. Hann hnitar hringi á tjörnum, líkt og skrautskrifari, sbr. viðurnefnið Skrifarinn. Ef þeir sem skrifa meira en aðrir eignast fleiri eða lífvænlegri unga, þá er stoð rennt undir tilgátuna. En ef ungarnir eru hvorki fleiri né hressari, hvað er þá til ráða? Þá setja aðlögunarsinnar oft fram aðra tilgátu, og svo enn aðra og enn aðra...sem hefur leitt til gagnrýni annar þróunarfræðinga.

Raunveruleikinn er sá að þótt að þróunarkenning Darwins sé besta vísindalega skýring á tilurð lífvera og fjölbreytileika þeirra, þá er mjög erfitt að sanna að einstakir atburðir í þróunarsögunni séu tilkomnir vegna náttúrulegs vals. Aðrar líffræðilegar skýringar geta nefnilega átt við. 

Ef við tökum dans Óðinshanans sem dæmi, þá er einn möguleiki að hann sé tilkomin vegna tilviljunar. Að einhverjum ástæðum hafi stökkbreyting sem ýtti undir dans af þessum toga orðið allsráðandi, og því hegði allir Óðinshanar sér eins og skrifarar. Einnig er mögulegt að dansinn sé aukaverkun annara breytinga. Ímyndum okkur að náttúrulega hafi verið valið fyrir taugaveiklun í forfeðrum Óðinshana (vegna þess að hún gerði þá hæfari í lífsbáráttunni). Dansinn er Þá kannski bara aukaverkun taugaveiklunarinnar, en hafi ekki aðlögunargildi einn og sér.

Þeir sem hafa gaman af vangaveltum á þessum nótum ættu endilega að kíkja í Reykjavíkur Akademíuna á fimmtudaginn (17. maí 2012). Þá verður málfundur undir yfirskriftinni:

Darwin og lífsnautnin frjóa: Vangaveltur um atferli tegundarinnar út frá kenningum Darwins

Úr tilkynningu:

Málþing á vegum Félags áhugamanna um heimspeki verður haldið fimmtudaginn 17. maí n.k. kl. 16:00 – 18:00 í fundarsal ReykjavíkurAkademíunnar, JL húsinu, Hringbraut 121.

Árið 2011 flutti Valgarður Egilsson læknir erindi í Ríkisútvarpinu þar sem hann skoðaði atferli manneskjunnar með gleraugum Charles Darwin. Félag áhugamanna um heimspeki mun bjóða til málþings út frá erindunum og munu þar flytja framsögu, ásamt Valgarði, Einar Árnason, prófessor í þróunarfræði og stofnerfðafræði, og Steindór J. Erlingsson vísindasagnfræðingur.

Dagskrá:
16:00     Homo sapiens: Atferli tegundarinnar skoðað með gleraugum Darwins. Valgarður Egilsson læknir.
16:30    Óðurinn til gleðinnar, kjóinn í Kolbeinsstaðahreppi og kenning Darwins.Einar Árnason, prófessor í þróunarfræði og stofnerfðafræði.
16:50    Er hægt að selja mannkyni hvaða hugmynd sem er? Dæmisaga ú geðlæknisfræði og lyfjaiðnaðinum. Steindór J. Erlingsson vísindasagnfræðingur.   
17:10    Kaffihlé.
17:30    Pallborðsumræður.

Tengill á erindi Valgarðs Egillsonar.

http://ruv.is/sarpurinn/homo-sapiens/05042012

Fyrstu þrjár síðurnar í kafla Hrefnu Sigurjónsdóttur og Sigurðar S. Snorrasonar í Arfleifð Darwins.

Þróun atferlis

Síða um bók Rothenbergs.

http://www.survivalofthebeautiful.com/

Pistlar okkar um þróun atferlis.

Þróun atferlis

Arfleifð Darwins: Þróun atferlis

Í laufskálanum tifa maríuhænur

Ótrúleg en samt náttúruleg greind


mbl.is Elsta vegglist mannkyns er í Frakklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband