Leita í fréttum mbl.is

Líf á reikistjörnunum

Fæstir efast um að líf finnist annarstaðar í alheiminum, því eins og Carl Sagan og Guðmundur Eggertsson hafa rætt um er stærð geimsins þvílík og fjöldi reikistjarna og tungla það mikill að mjög líklegt er að líf hafi orðið til oft. Vissulega eru mörgum spurningum ósvarað, og full ástæða til að reka stjörnulíffræðiskóla.

Spyrja má hvernig líf finnst annarstaðar?

Hvaða aðstæður eru heppilegar fyrir uppruna lífs?

Hvaða grunneiningar eru notaðar í erfðaefni lífvera á öðrum hnöttum?

Hvaða orkugjafa nota lífverur á öðrum hnöttum?

Er jarðhiti nauðsynlegur fyrir myndun fyrstu frumnanna?

Eins og segir í tilkynningu á stjörnufræðivefnum er Ísland talið heppilegur vettvangur fyrir rannsóknir á sumum þessara spurninga, vegna þess að hér er mikil eldvirkni og landið hrjóstrugt og ungt. Þróunar, örveu og sameindalíffræðingar hafa löngum velt fyrir sér frumeinkennum lífvera. Samanburður á lífverum á jörðinni sýnir að við byggjum allar á sama erfðaefni, prótínmyndunarkerfin eru mjög svipuð og lykilþættir í efnaskiptum og byggingu frumunnar eru allar af sama meiði. Gildir þar einu hvort talað sé um hvali, menn eða hitaþolnar örverur.

Íslensk hverasvæði eru búsvæði margra hitaþolinna lífvera, og þau eru einnig segull fyrir ferðamenn og náttúruunendur. Ég tel mikilvægt að vernda þessi svæði, eins og Jakob K. Kristjánsson hvetur til í nýlegri grein (Smáskemmdaferill náttúruperlu Eftir Jakob K. Kristjánsson 29. júní 2012).


mbl.is Alþjóðlegur stjörnulíffræðiskóli hér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það kann jafnvel að vera að ekki þurfi að leita út fyrir okkar sólkerfi til að finna merki um líf á öðrum hnöttum. Það þarf ekkert endilega að vera líf sem líkist því sem við köllum skyni bornar skepnur, en ef það geta þrifist örverur við öfgakenndar aðstæður á hafsbotni eða háhitasvæðum, afhverju þá ekki á tunglum Satúrnusar svo dæmi sé tekið?

Guðmundur Ásgeirsson, 2.7.2012 kl. 17:52

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Guðmundur

Alveg sammála. Menn gerðu sér vonir um að líf gæti verið á Mars, sem m.a. örvaði hugmyndir James Lovelock um eðli lífsins og lífrænna kerfa.

Er ekki mest horft til Evrópu tungls Júpiters, sem vænlegs staðar fyrir líf?

Eins og þú segir, er líklegast að líf á öðrum plánetum sé í formi einfrumunga, líklega einhverskonar dreifkjörnunga (baktería). Á jörðinni ríktu bakteríur í fleiri milljarða ára, áður en fjölfruma lífverur komu fram á sjónarsviðið, og dýr eru bara ~450 milljón ára gömul.

Arnar Pálsson, 3.7.2012 kl. 09:24

3 Smámynd: Mofi

Mér finnst þetta vera alveg að horfa framhjá að út frá því sem við vitum um lífið að þá er útilokað að það myndist einhvers staðar af sjálfu sér. Þeir sem trúa slíku, trúa í algjörri blindni.

Ég gerði einu sinni grein um hvers konar vandamál þetta er fyrir þá sem trúa á sjálfskviknun lífs, sjá: Sönnun fyrir tilvist Guðs - uppruni lífs

Mofi, 10.7.2012 kl. 12:48

4 Smámynd: Arnar

Mér finnst þetta vera alveg að horfa framhjá að út frá því sem við vitum um lífið að þá er útilokað að það myndist einhvers staðar af sjálfu sér.

Ekki gera okkur upp skoðanir með því að rugla saman 'við' og 'ég' Mofi.

Miðað við það sem ég veit þá get ég ekki útilokað að líf myndist af sjálfu sér.

Arnar, 12.7.2012 kl. 11:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband