Leita í fréttum mbl.is

Stofnfruma með þrjá foreldra

Hvatberar eru orkuverksmiðjur frumna. Þær eru að upplagi bakteríur, og eru með 16569 bp litning (í tilfelli mannsins) sem skráir fyrir tæplega 40 genum. Hvatberar erfast eingöngu frá móður, og ef galli er í erfðaefni þeirra fá öll afkvæmi konunar gallann í móðurarf.

Mitochondria%2C_mammalian_lung_-_TEMMynd af hvatbera af vef Wikimedia commons.

Hvatberasjúkdómar

Nokkrir sjúkdómar eru orsakaðir af göllum í genum hvatberans, sumir mjög alvarlegir.

Upp kom sú hugmynd að lækna þennan genagalla, með því að flytja kjarna frá móður inn í heilbrigt egg (án erfðaefnis). Þetta væru þá nokkurskonar hvatberaskipti, áþekk hugmynd og beinmergskipti þó að öðrum skala. Þetta egg er síðan tæknifrjóvgað með innspýtingu sæðisfrumu, eins og algengt er ófrjósemislækningum.

Shoukrat Mitalipov og félagar við rannsóknarstofnun í Oregon framkvæmdu svona tilraun á rhesusöpum fyrir nokkrum árum (Api með þrjá foreldra).

Stofnfruma með þrjá foreldra

Í Nature vikunnar birtist grein sem lýsir hliðstæðum tilraunum með mannaegg og sæði. Þar var kjarni í skiptingu fjarlægður úr eggi - og annar settur í staðinn. Eggið var síðan frjóvgað með innspýttu sæði*

Niðurstaðan er sú að stórt hlutfall frjóvgaðra eggja virkjast eðlilega (fullt af smáatriðum hér sem tengjast rýrisskiptingu o.fl.), en einnig að frumuskiptingar voru eðlilegar. Einnig voru fósturstofnfrumur eðlilegar, miðað við þá þætti sem kannaðir voru.

Fósturvísar spendýra mynduðu svokallað kímblöðru. Hjá mönnum er hún á 5 degi með um 55 frumur og á 7 degi hátt í 80. Af þessum 80 myndar um helmingur kökk inni í blöðrunni, og úr kekki þessum myndast síðan fóstrið sjálft. Hinar frumur mynda líknarbelg, fylgju og fleira spennadi vefi. Úr kekkinum má vinna fósturstofnfrumur, embryonic stem cells, sem brúka má í læknisfræðirannsóknum og etv meðferð (Nóbelsverðlaun í þroskunarfræði).

Breskt siðfræðiráð sagði að ef engin praktísk vandamál væru því samfara að skipta út hvatberum, þá væri siðferðilega verjandi að framkvæma slíka aðgerð.

Þessi rannsókn var lítið skref í áttina að genalækningum. 

Framlag þriggja foreldra

Mamma 1: Hvatberalitningur 16569 basar

Mamma 2: 22 venjulegir litningar og X kynlitningur ~3.200.000.000 basar

Pabbi: 22 venjulegir litningar og Y kynlitningur ~3.100.000.000 basar

Y litingurinn er ~58 millj. basar og X litningurinn ~153 millj. basar.

Framlag mæðranna er því ekki jafnt. Hlutfall framlags mömmu 1 og mömmu 2 er ~1/200.000. Með öðrum orðum, leggur mamma 1 til jafnmikið af DNA og forfaðir í 17 eða 18 lið.

Á móti kemur að genaþéttni hvatberalitnings er meiri en kjarna DNA. Og að auki er margir hvatberar í hverri frumu. Í venjulegum líkamsfrumum eru hundruðir eða þúsundir hvatbera, hver um sig með 2-10 eintök af litningi í sér. Mikill munur er á fjölda hvatbera milli frumugerða, og skipa kynfrumurnar sér á sitthvorn enda skalans. Sæðisfrumur, sem eiginlega bara kjarni með svipu, hafa um 100 stykki. Eggið, stærsta einstaka fruma mannslíkamans er hins vegar með uþb. milljón hvatbera. Enda þarf það að skipta sér í hundruði fruma áður en fylgjan myndast og fóstrið fer að fá næringu frá móður sinni.

Ítarefni

Mitochondrial gene replacement in primate offspring and embryonic stem cells. Tachibana M, Sparman M, Sritanaudomchai H, Ma H, Clepper L, Woodward J, Li Y, Ramsey C, Kolotushkina O, Mitalipov S. Nature. 2009 Sep 17;461(7262):367-72. Epub 2009 Aug 26.

Api með þrjá foreldra

Viðtal við erfðafræðing á Rás 2.

*Það má snúa út úr orðalagi þessu...en bara ef maður er dóni.

Viðbætur: Millifyrirsögnum og síðasta hlutanum um framlag þriggja foreldra var bætt við 27. okt. 2012.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gleymdu samt ekki að "eugenics" er versti óvinur mannkynsins og kom 6 milljón af rjóma hans í gröfina á sínum tíma.

x (IP-tala skráð) 27.10.2012 kl. 06:18

2 identicon

Er bara að segja að í þessum málum frekar en nokkrum öðrum þarf að fara varlega. "Genalækningar" gætu auðveldlega flust yfir á hættulegar brautir og þá myndum við endurtaka hryllinginn, bara í lúmskari, og þar af leiðandi hættulegri, mynd.

x (IP-tala skráð) 27.10.2012 kl. 06:19

3 identicon

Svo er sama hvað mönnum finnst um fóstureyðingar, "brottnám" erfðaefnis eggs, eða hvað sem er...Þú ert að messa við skyssu eftir Guð, hvað sem þú trúir það sé (og það trúa allir á það í einhverri mynd, með einhverjum orðum)? Myndirðu vaða í að leiðrétta skyssurnar hans Da Vinci's? Ef ekki hugsaðu þig þá um tvisvar. Skyssa er kannski ekki meistaraverk, fóstur er kannski ekki barn, en skyssa eftir snilling, hvað þá SNILLINGINN, er þúsundafallt meira virði en óteljandi "listaverk" eftir dauðlega meðalmenn, hversu greindir sem þeir kunna að vera og færir í einhverjum hugvísindum.

x (IP-tala skráð) 27.10.2012 kl. 06:22

4 Smámynd: Arnar Pálsson

Herra x

Eugenics - mannkynbætur hafði mörg birtingaform. Ýktasta formið birtist í þriðja ríki nasistanna, en vægari tilbrigði birtust í geldingu vanvita hérlendis. 

Eru vanvitar skyssa guðs?

Við skimum núna fyrir downs-heilkenni og bróðurparti slíkra fóstra er eytt. Það eru nútíma mannkynbætur.

Eru downs-einstaklingar skyssa guðs?

Við gefum einstaklingum með PKU sérstaka fæðu til að ákveðinn erfðagalli valdi ekki lífshættulegum sjúkdómi. Það er nútíma mannbæting.

Erum við að messa við skyssu guðs?

Viltu að við látum PKU sjúklingana borða hvað sem er (t.d. 2 ára?) og kveljast?

Ég ætla ekki bera í bætifláka fyrir Eugenics fortíðar en það er ágætt að taka stöðuna af yfirvegun og setja heilbrigði og líðan ofar trúarlegum grunnsetningum.

Ef Da, vinci reiknaði rangt, þá myndi ég leiðrétta hann. Fólk hefur aldelis leiðrétt hann, annars sætum við uppi með þyrlur og kafbáta úr mótatimbri.

Ég skora á þig að skrifa undir nafni.

Arnar Pálsson, 27.10.2012 kl. 13:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband