Leita í fréttum mbl.is

Risaeðlur og skólabækur í Texas

Risaeðlur standa bandaríkjamönnum miklu nær en íslendingum. Bergið hérlendis er svo ungt (innan við 20 milljón ára) að engar leifar af risaeðlum geta fundist hér. Þær finnast eingöngu í u.þ.b. 65 milljón ára eða eldri berglögum*. Krakkar sem gramsa í beneventum í Öskjuhlíð eiga enga möguleika á að finna steingerð risaeðlubein. En amerískir eða breskir krakkar geta hæglega rambað á slík í sinni hamrahlíð.

Ég man sem krakki að maður spáði ekki mikið í risaeðlur, bjöllur eða fiðrildi, þetta voru ekki dýr sem náðu inn á radarinn. Radarinn minn var líka fullur af kúm (einstaka járnsmiðir og dordinglar skriðu ofan á hrúgunni). En margir ameríkanar eru hugfangnir af risaeðlum frá barnæsku.

Það því ákaflega forvitnilegt hvers vegna svo margir ameríkanar afneita þeirri staðreynd að jarðsagan spannar 4 og hálfan milljarð ára og að risaeðlurnar hafi þróast og síðan dáið út fyrir um 65. milljón árum. Afneitun á þróunarkenningunni er ansi algeng í bandaríkjunum, ekki bara hjá einangruðum öfgahópum heldur einnig hjá stórum hluta fólks í sumum fylkjum.

Eitt slíkt fylki er Texas, þar sem mjög margir kjörnir fulltrúar eru andsnúnir þróunarkenningunni og loftslagsvísindum.

Ástæðurnar eru vitanlega margar, en mig grunar að pólitískar, sálfræðilegar og félagsfræðilegar ástæður liggi að baki. Sálfræðingar hafa sýnt  að fólk skipar sér í ákveðna hópa, og tileinkar sér norm þess hóps. Við tilheyrum hópnum íslendingar, ég að auki hópi kjósverja og erfðafræðinga.

Margir í bandaríkjunum samsvara sér hópnum repúblikanar eða evangelistar. Og ef málpípur þeirra hópa predika gegn þróunarkenningunni eða loftslagsvísindum, þá er líklegt að fólk í þeim hópum tileinki sér þá afstöðu (án verulegrar meðvitaðrar hugsunar).

Þetta á vitanlega líka við um fólk á hinum enda stjórnmálarófsins. Vinstrimenn eru útsettari fyrir hugmyndum um samfélagslega ábyrgð, að menn séu verndarar umhverfisins eða um jafnrétti manna, dýra og þörunga.

Hitt er alvarlegra ef kjörnir fulltrúar stjórna fylki eða landi frekar eftir trúarlegum eða heimspekilegum gildum, en raunveruleika veraldar. Vesturlandabúar skopast oft að tangarhaldi trúarpostula á daglegu lífi í hinum svokallað þriðjaheimi, en eru blindir á svipuð vandamál hjá sér.

Í Texas birtist þetta þannig að kjörnir fulltrúar repúblikana hafa skorið upp herör gegn þróunarkenningunni og loftslagsvísindum. Aðferðin er að taka fyrir kennslubækur sem nota á í fylkinu, og gera athugasemdir við einstök atriði í þeim.

Hér er ansi langt seilst - enda hefur mótstaða menntakerfisins, vísindamanna og umhugaðra borgara verið öflug. Engu að síður voru varnaglar um þróun og loftslagsvísindi í vissum kennslubókum samþykktir af menntanefnd Texas. Næsta skref er að fá 3 sérfræðinga á viðkomandi sviði til að meta varnaglana.

Ímyndið ykkur hvernig þetta myndi ganga fyrir sig á hinum enda stjórnmálarófsins. Hvað myndum við segja ef vinstrimenn í menntanefnd, myndu segja að allar erfðabreytingar væru af hinu illa og banna kennslubækur sem fræddu fólk um þau "óvísindi". Eða að þeir myndu banna hluta í kennslubókum sem fjalla um ónæmiskerfið og bóluefni, af því að "bóluefni valda einhverfu og öðrum sjúkdómum".

Viljum við virkilega að trúarleg eða pólitísk gildi trompi efni skólabóka og námskrár? Vonandi fylgir Ísland ekki í þetta fóta-feil-spor Texas.

Stuðst var að töluverðu leyti við grein í NY Times um sköpunarsinna í menntanefnd Texasfylkis.

NY Times MOTOKO RICH 22. nov. 2013. Texas Education Board Flags Biology Textbook Over Evolution Concerns

*Efri mörkin eru óljósari, því það er skilgreiningaratriði hvað telst til eiginlegra risaeðla. 

Aðrar greinar um þróun:

Arnar Pálsson | 14. febrúar 2009  Þróun og aðferð vísinda

Arnar Pálsson | 17. maí 2010 Bilið milli T-rex og Texas

Arnar Pálsson | 19. ágúst 2011 Þróunarkenningin er staðreynd


mbl.is Heil beinagrind risaeðlu á uppboði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband