Leita í fréttum mbl.is

Líffræði og umhverfisfræði fiskeldis

Líffræðifélagið hefur tekið þátt í að skipuleggja röð fyrirlestra um líffræði og umhverfisfræði fiskeldis, í samstarfi við Verndarsjóð villtra laxastofna og Stofnun Sæmundar fróða við HÍ.

Fyrirhugað er að halda á næstu mánuðum nokkrar málstofur um fiskeldi í kvíum á sjó og landi, á vegum NASF, Verndarsjóðs villtra laxastofna, Stofnunar Sæmundar fróða við Háskóla Íslands og Líffræðifélags Íslands. Mikil umræða á sér nú stað um arðsemi, kosti og galla laxeldis í sjó. Reynsla af fiskeldi í sjó hér við land og erlendis hefur verið misjöfn og full ástæða er til að fara vandlega yfir hina ýmsu þætti áður en teknar eru ákvarðanir um frekari framkvæmdir á þessu sviði. Veturinn 2014 er áformað að fá til landsins óháða sérfræðinga sem hafa rannsakað áhrif sjókvíaeldis á nálæg vistkerfi og þekkja reynslu annarra þjóða af laxeldi. Jafnframt hefur verið boðið til málstofanna sérfræðingum í fiskeldi í „lokuðum kerfum”, bæði í sjó og í fersku vatni á landi.

Fyrsta málstofan verður haldin í Reykjavík föstudaginn 17. janúar 2014, kl. 13:30 á Café Sólon.

Þar mun dr. Brian Vinci frá The Conservation Fund, Freshwater Institute í Bandaríkjunum segja frá frumkvöðlaverkefni í laxeldi á landi sem unnið hefur verið að í Vestur-Virginíufylki. Þar hefur náðst undraverður árangur án þess að notuð séu bóluefni eða sýklalyf. Fiskurinn er alinn í kerjum sem er haldið hreinum með búnaði sem fangar úr vatninu öll úrgangsefni frá fiskinum. Með því að hafa kerin á landi er komið í veg fyrir samgang eldisfiska við villta laxastofna og þar með dregið stórlega úr hættu á smiti af sjúkdómum og laxalús, genablöndun eða neikvæðum vistfræðilegum áhrifum.

Þá mun Geir Spiten hjá fyrirtækinu Akvatech flytja erindi um lokuð kerfi með áherslu á kerfi sem gefið hafa góða raun vegna hreinlætis og allra aðstæðna til eldis. Takmark fyrirtækisins er að koma á fót alþjóðlegri starfsemi sem byggist á þessari hreinlegu og heilsuvænu eldistækni.

Erindin verða flutt á ensku.

Þau sem hug hafa á þátttöku eru vinsamlega beðin um að láta vita á netfangið nasf@vortex.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Það er ekki víst að hægt sé að bera saman sjókvíaeldi hérlendis og víða erlendis.

Hér við land eru mjög sterkir sjávarstraumar og sjór kaldur.

=Umhverfið það hreinsar sig fljótt og vel og kuldinn heldur niðri pestum.

(Fiskeldismenn nú á dögum eru meðvitaðir um að hvíla svæði; þannig að enginn hætta sé á mengnun).

Á sama tíma víða erlendis þá safnast óhreinindi undir kvíar í lygnum sjó

og veikindi aukast eftir því sem hitinn er meiri.

Jón Þórhallsson, 12.1.2014 kl. 00:35

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk fyrir innleggið Jón

Þetta eru einmitt atriði sem við viljum fá umræðu um.

Norðmenn hafa lent í vandræðum vegna umhverfisáhrifa kvíaeldis í fjörðum sínum, og það er líklega rétt sem þú segir, að bæði hitastig (mikill hiti á vissum árstíma) og straumar skipta þar máli. 

Ef íslenskir firðir eru með öðru vísi og hressari strauma þá er það sannarlega heppilegt til að draga úr umhverfisáhrifum kvíaeldis.

Hugmyndin er að fá umræðu um þessi og önnur atriði sem skipta máli fyrir eldið og umhverfið. Uppástungur vel þegnar.

Arnar Pálsson, 14.1.2014 kl. 09:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband