Leita í fréttum mbl.is

Gögnin ljúga ekki, hvorki um tamiflu né homeopatíu

Cochrane hópurinn hefur beitt sér fyrir vönduðum yfirlitsrannsóknum á mörgum lyfjum og læknisfræðilegum fyrirbærum. Heimspeki þeirra er að meta tilraunir og gögn með ströngustu gleraugum tölfræðinnar. Það þýðir að bera saman uppsetningu rannsókna, rannsóknarhópa og viðmiðunarhópa, mælistikur og aðra þætti sem gætu haft áhrif á niðurstöðurnar.

Þetta hljómar flókið, af því að þetta er flókið. 

En þetta er einnig ákaflega mikilvægt, því að illa hannaðar eða framkvæmdar rannsóknir eru ekki bara til óþurftar heldur geta þær kostað mannslíf.

Í morgun bárust fréttir af því að Cochrane hópurinn hefði loksins komist í gögn frá Roche lyfjafyrirtækinu um flensulyfið Tamiflu, og fundið út að lyfið standi ekki undir nafni. Ég legg áherslu á loksins, vegna þess að Roche var mjög tregt til að birta niðurstöður prófanna á lyfinu, jafnvel þótt að verklagsreglur krefðust þess.

Fyrir 5 árum hafði heimurinn miklar áhyggjur af fuglaflensufaraldri, og ríkisstjórnir keyptu fjöll af Tamiflu til að bregðast við. Samantekt frá Cochrane hópnum (2008) benti til að Tamiflu drægi úr áhrifum og stytti meðgöngu sjúkdómsins. En þá kom japanski barnalæknirinn til bjargar.

Keiji Hayashi áttaði sig á því að merkið var drifin áfram af gögnum úr einni grein, sem tók saman gögn úr 10 öðrum rannsóknum. Og, þetta er lykilatriðið, 9 rannsóknanna voru innanhús rannsóknir Roche. Það sem í kjölfarið fylgdi var tryllt sauðaleit (wild sheep chase), með ótrúlegum útúrsnúningum af hálfu fyrirtækisins. Eftir tæp 5 ár náðust gögnin úr klóm Roche, og þegar þau voru síðan greind af óháðum aðillum kemur í ljós að efnið mildar ekki áhrif flensunar.

Gögnin afhjúpa líka lygina á bak við hómeopatíu

Í dag birtust einnig fréttir af því að nýleg Áströlsk rannsókn afsannaði fullyrðingar um að smáskammtameðferðir séu nothæfar sem lækningar. Það er í sjálfu sér ekki ný frétt, allar kerfisbundnar og vandaðar rannsóknir á fyrirbærinu hafa komist að sömu niðurstöðu.

Í þessu tilfelli tala gögnin sínu máli, alveg eins og í tilfelli Tamiflu.

En samt lifir mýtan meðal fólks, og því er sannarlega nauðsynlegt að fjölmiðlar fjalli um þessa rannsókn. Ég ætla ekki að ræða smáskammta-þjóðtrúnna frekar hér, en vísa frekar á eldri pistil okkar og Ben Goldacre um sama efni.

Ítarefni:

Arnar Pálsson 19. nóvember 2007 Högun tilrauna og smáskammta"lækningar"

Arnar Pálsson 17. desember 2012  Smáskammtalækningar eru ekki studdar af vísindum

The Guardian 16. nóvember 2007 Ben Goldacre A kind of magic?

The Guardian 10. apríl 2014. Ben Goldacre  What the Tamiflu saga tells us about drug trials and big pharma

Ben Goldacre - Bad Pharma : review The Telegraph

Carl Elliott -  White Coat, Black Hat

Steindór J. Erlingsson Lyfjafyrirtæki og blekkingar, Fréttablaðið, 26. nóvember, 2009.


mbl.is Milljónum kastað í gagnlaus flensulyf?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heyrðu kallinn minn, Jóakim Aðal-Önd Landlæknir Yfir-Sérfræðingur Íslands er nú ekki sammála þér um gagnsleysi Tamiflu. Lyfjafyrirtæki eru góð, og vilja bara bjarga mannslífum. Guð blessi sérfræðinga. Amen.

símon (IP-tala skráð) 10.4.2014 kl. 16:30

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Símon

Landlæknir hefur oftast rétt fyrir sér, ef hann fer eftir traustum niðurstöðum.

Í þessu tilfelli er hann í andstöðu við gögnin, og þau bogna ekki.

En af gefnu tilefni vill ég bæta við að aðrir, m.a. þeir sem hafa agnúast í Landlækni út af bólusetningum, eru nær alltaf í andstöðu við gögnin.

Arnar Pálsson, 10.4.2014 kl. 17:37

3 identicon

Kæri Páll, það sem ætti að vekja óhug er sú staðreynd að enginn athugaði heimildirnar á bak við Tamiflu á sínum tíma, ekki síður en sú staðreynd að maðurinn neitar að draga til baka með Tamiflu.

Og hverjir voru á bak við Tamiflu ráðleggingar WHO? Auðvitað Roche Tamiflu framleiðandi og vinir: http://www.theguardian.com/business/2010/jun/04/swine-flu-experts-big-pharmaceutical

símon (IP-tala skráð) 10.4.2014 kl. 20:05

4 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll Símon

Reiðin ætti fyrst að beinast að lyfjafyrirtækinu.

Svo að eftirlitsstofnunum, sem ekki hafa staðið sig í að gæta þess að lyfjaprófanir séu framkvæmdar á réttan hátt og gögnin úr þeim aðgengileg fyrir óháða fagaðilla.

Og ef fulltrúar heilbrigðiskerfisins eru ekki að meðtaka lexíur þessa máls, þá þurfum við að brýna málið fyrir þeim.

Og ef þeir taka ekki sönsum, þá má reiðast eða fyllast óhug.

Það eru fjölmörg atriði sem mega fara betur í lyfjageiranum, eftirliti okkar með lyfjum og lækningameðferðum, og ákvarðantöku og stefnumótum í heilbrigðiskerfinu.

Í því er mikilvægast að byggja á traustum gögnum, tvíblindum rannsóknum og opinni greiningu á niðurstöðunum. Eins og Cochrane hópurinn stundar.

Aftur, þetta tilfelli sannar ekki að öll lyfjafyrirtæki séu svindlarar, en undirstrikar vandamálin og hversu erfiðlega gengur að lagfæra þau!

Arnar Pálsson, 10.4.2014 kl. 21:00

5 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Lyfjafyrirtæki eru í business til að græða peninga. Svo einfalt er það.

Arnór Baldvinsson, 10.4.2014 kl. 23:25

6 identicon

Páll, eins og Bush mistókst að segja einu sinni: "Fool me once, shame on you; fool me twice, shame on me".

Það er búið að vera vitað mál í mörg ár að þessi fyrirtæki hafa hagað sér svona lengi og vitað er að þessi spilling sem leyfir það er kerfislægt vandamál, alveg frá fölsuðum rannsóknum til WHO. Þú getur eytt heilli viku í að googla "revolving door" plús "big pharma" eða "FDA" eða "CDC" eða "Monsanto"etc.. Fólk almennt séð treystir stofnunum eins og landlæknisembættinu því það heldur í alvörunni að embættið athugi svona hluti faglega áður en það auglýsir bólefni og lyf.

Þú getur líka leikið þér að því að fletta upp bloggum og athugasemdum sem reyndu að vara við þessu Svínaflensu/Tamiflu kjaftæði, á sínum tíma, og athugað hvernig tekið er á gagnrýnisröddum í okkar upplýsta samfélagi.

 DUHHHHH, samsæriskenningar, duuuuuuhhh

símon (IP-tala skráð) 11.4.2014 kl. 00:33

7 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll Arnór

Lyfjafyrirtæki og önnur fyrirtæki, eru í buisness til að græða peninga. Mörg fyrirtæki veita nauðsynlega þjónustu eða selja vörur sem við höfum mikla þörf fyrir.

kv, Arnar

Arnar Pálsson, 11.4.2014 kl. 08:42

8 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll Símon.

Eins og áður sagði geri ég mér alveg grein fyrir því að það séu brotalamir í kerfinu, ekki síst hjá eftirlitsaðillum, og hef skrifað um það hér.

Ég nota ekki tímann á netinu, og leiðist að lesa spjallþræði, heldur les bækur og greinar (sbr. að ofan).

Það er rétt hjá þér að eitt af vandamálunum er mikið flæði starfsfólks á milli eftirlitsaðilla og fyrirtækja og heilbrigðisgeira. Það verður að stöðva.

Annað atriði er að vandamálin eru þess eðlis að venjulegir stjórnmálamenn annað hvort skilja þau ekki eða að þá skortir drif til að taka á málunum (vegna þess að þau séu flókin þjóðþrifaverk sem kjósendur munu ekki fatta!).

Í því tilfelli þá hjálpa samsæriskenningar og predikarar þeirra ekki.

Það sem virkar er að opna kerfið, öll lyfjapróf verður að skrá í almennan grunn, óháðir vísindamenn verða að hafa aðgang að öllum gögnunum, fyrirtækjum er refsað grimmilega fyrir að skila ekki gögnum, skrá verður aukaverkanir kerfisbundið, og setja verður skorður á flæði starfsfólks á milli eininga (fyrirtækja, eftirlits og þjónustu).

Þess vegna tók ég þátt í alltrials, og hvatti til þessara og annara endurbóta á kerfinu.

http://alltrials.net/

Vandinn verður leystur með aðferðum upplýsingarinnar, ekki með herför gegn bóluefnum eða lyfjafyrirtækjum.

Arnar Pálsson, 11.4.2014 kl. 08:55

9 Smámynd: Arnar Pálsson

En Símon

Svona fyrir forvitnissakir.

Hver er afstaða þín til smáskammtalækninga?

kv, ARNAR

Arnar Pálsson, 11.4.2014 kl. 08:56

10 identicon

Mæli með að fólk lesi þessa hérna bók

http://www.amazon.com/Bad-Pharma-Companies-Mislead-Patients/dp/0865478007

Þar sem einmitt er fjallað um þetta mál (og önnur) og það sem viðgengst á þessu markaði.

Vill samt taka það fram að ég er ekki á móti bólusetningum yfirleitt (hef látið bólusetja börnin mín) og lyfjum. Ég er hjúkrunarfræðingur.

En ég vill að það séu strangari kröfur á birtingu ALLRA gagna í sambandi við prufanir á lyfjum, ásamt því að lyfjafyrirtæki þurfi að mæta ymsum skilyrðum fyrir að fá starfsleyfi. Þetta er allt of slappt eins og það er og allt of mörg got sem þeir geta sloppið í gegnum.

Iris Björg Þorvaldsdóttir (IP-tala skráð) 11.4.2014 kl. 10:55

11 Smámynd: Halldór Björgvin Jóhannsson

Þú getur líka leikið þér að því að fletta upp bloggum og athugasemdum sem reyndu að vara við þessu Svínaflensu/Tamiflu kjaftæði, á sínum tíma, og athugað hvernig tekið er á gagnrýnisröddum í okkar upplýsta samfélagi.

Er það ekki einmitt vandamálið, það eru gagnrýnisraddir og samsæriskenningar við í raun öllu sem hægt er að hugsa sér og stór hluti af því er frá aðilum sem hafa ekki hugmynd um hvað þeir eru að tala/skrifa, þetta er það sem við myndum líklegast skilgreina sem "overflow of information".

Halldór Björgvin Jóhannsson, 11.4.2014 kl. 12:48

12 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæl Íris

Bók Goldacres er einmitt mín helsta heimild í þessari umræðu.

Krafan frá okkur, á að vera á lyfjafyrirtækin, eftirlitsaðillana og löggjafann sem þarf að búa til lagaumhverfi sem tryggir eftirlit og opið aðgengi að gögnunum fyrir óháða vísindamenn.

Takk Halldór

Þetta er pínkulítið mín upplifun af netinu. Sem fræðimaður, þá er maður með örlíti hærri kröfur á greinar og umræðu, en meðalborgari. Maður vill skýrar forsendur, og heiðarleika gagnvart staðreyndum, gagnsæi í lýsingu á tilraunum og tölfræði. Og jafnvel aðgengi að gögnunum sjálfum, til að geta sannreynt niðurstöðurnar sjálfur...

Þau skilyrði eiga bara við lítinn hluta af netinu, og það er fullt af texta sem á lítið skylt við upplýsingar. (misinformation kannski frekar en information)

Einstaka vísindamenn eru ekki óskeikulir, og hafa rangt fyrir sér  í mörgum málum, en sem samfélag höfum við leið og aðferðir til að svara spurningum.

Arnar Pálsson, 11.4.2014 kl. 13:06

13 Smámynd: Halldór Björgvin Jóhannsson

Það er rétt hjá þér Arnar, það má eiginlega segja bæði "Overflow of information" og "Overflow of misinformation", bæði eiga í raun við.

Halldór Björgvin Jóhannsson, 11.4.2014 kl. 16:40

14 identicon

Arnar Páls, ég kallaði þig víst óvart Pál í fyrri athugasemd. Ég hef enga sterka skoðun á smáskammtalækningum en treysti þeim ekki sjálfur.

Þú talar enn um samsæriskenningar og misinformation.

Samsæriskenning er ekki skítugt orð. "Revolving Door" er samsæri til að gera það ódýrara og auðveldara að koma nýjum lyfjum á markaðinn, til að græða meiri peninga. Þetta fyrirkomulag, og "háðar" rannsóknir, og falin gögn, er líka samsæri til að selja drasl sem virkar ekki. Og oft líka til að fela hættulegar aukaverkanir. Það mætti kalla þetta "misinformation business". Tamiflu er ágætt dæmi.

Vandamálið er ekki bara spillt fyrirtæki og óvirkt eftirlit. Þetta er líka ákveðið "attitue problem" hjá háskólasamfélaginu og fjölmiðlum, sem lýsir sér þannig að staðhæfingar frá þessum fyrirtækjum, og vinum þeirra í hinum meintu eftirlitsstofnunum, eru sjálfkrafa teknar sem gild vísindi. Það dettur engum í hug að rannsaka heimildirnar eða skoða gögnin með gagnrýnum augum.

Gagnrýnisraddir eru hinsvegar þaggaðar niður miskunnarlaust.  Algeng aðferð er að láta fjölmiðlana hlægja af þessum klikkuðu "samsærissmiðum". Allt sem þeir segja er sjálfkrafa talið misinformation, og aftur þarf ekkert að athuga neinar heimildir.

Svo er kvartað yfir of miklu flæði af upplýsingum. Það er kjaftæði, en það er ágætis staðfesting á því að samfélagið kunni ekki lengur að greina góðar heimildir: Ef nafnið á gúmmístimplinum er nógu flott, þá er heimildin talin góð.

símon (IP-tala skráð) 11.4.2014 kl. 19:36

15 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll Símon

Takk fyrir svarið, og allt í lagi með nafnaruglinginn. Það kemur alltaf sá tímapunktur þegar fólk hefur ræðst lengi við undir "öðru" flaggi að svona lagað þarf að leiðrétta.

Það var ekki mín ætlan að spyrða við þig samsæriskenningar, því ég veit ekki til þess að þú hafir verið að dreifa slíku. Ég var að tala almennt um fólk sem talar gegn  bólusetningum, og tínir allt til máli sínu til stuðnings. Það er tilbúið að nota sér vísindalegar ályktanir í einni setningu, en afneitar jafngóðum eða betri gögnum í næstu fullyrðingu. Það þykir mér vera ódýr umræðulist, og full íslensk.

Mér þykir þú taka ansi sterkt til orða, þegar þú segir að  "Þetta er líka ákveðið "attitue problem" hjá háskólasamfélaginu og fjölmiðlum, sem lýsir sér þannig að staðhæfingar frá þessum fyrirtækjum, og vinum þeirra í hinum meintu eftirlitsstofnunum, eru sjálfkrafa teknar sem gild vísindi. Það dettur engum í hug að rannsaka heimildirnar eða skoða gögnin með gagnrýnum augum."

Háskólar og fjölmiðlar eru ekki upp til hópa gagnrýnislausir á lyfjafyrirtæki. Það er fullt af fólki (en kannski ekki nóg) sem reynir að  "rannsaka heimildirnar eða skoða gögnin með gagnrýnum augum."

Til að slíkt skili sér þarf samfélagið líka að kunna að meta vísindalegar niðurstöður og hveru erfitt það er að finna rétt svar. Vísindi eru andskoti erfið og oft mjög djúpt á svörunum.

En við getum etv sammælst um að fjölmiðlar eru ekki að standa sig. Þeir fjalla yfirleitt bara yfirborðið, en reyna ekki að gefa fólki tilfinningu fyrir dýpt vandamálanna eða því hversu flókin málin eru. Og ef svo er þá býst fólk við einföldum svörum við öllum hlutum.

Og þá sprettur upp þörf fólks fyrir "bullýsingar" (misinformation) sem þekur stóran hluta internetsins. Sem áhugamaður um þróun og miðlun líffræðilegra staðreynd, get ég til dæmis vottað að netið er fullt af áróðri sköpunarsinna. Sumt af því efni er dulbúið sem vísindalegt. Og markmiðið er það eitt að lokka fólk inn og sannfæra það um þá samsæriskenningu að vísindamenn séu fávitar sem vilji ræna fólk guði.

Arnar Pálsson, 14.4.2014 kl. 17:54

16 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll Halldór

Mér finnst information  eigi að skýrskota til texta með sannleiksgildi. Eins og hvenær strætó eigi að ganga, hvenær kjörstaðir séu opnir, eða hverjir vextir séu á ákveðnu láni.

Mikið af því sem sett er fram sem upplýsingar á vefnum, er mitt á milli skoðunar og áróðurs, en án sannleiksgildis.

En etv. er ég með of þrönga skilgreiningu á information.

Arnar Pálsson, 14.4.2014 kl. 17:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband