Leita í fréttum mbl.is

Krybburnar þagna...

Krybbur (e. crickets) eru vinalegar skepnur en geta verið ansi háværar. Þegar við bjuggum í Norður Karólínu fylltu krybburnar sumarkvöldin með braki og brestum. Karlkrybburnar (hversu kjánalega sem það nú hljómar) syngja með því að skekja vængina, og kvendýrin velja besta eða vandaðasta söngvarann og makast við hann.

En krybbur sem numu land á Hawaii hafa tapað þessu sönghæfileika, á u.þ.b. tuttugu árum. Ástæðan er sú að staðfundin sníkjufluga rennur á hljóðið og verpir eggjum í líkama karlkrybbanna. Eggin klekjast og lirfurnar éta krybbuna upp til agna á um viku.  Þetta hefur leitt til mjög hraðrar þróunar þögulla krybba á tveimur Hawaii-eyjum (Kauai og Oahu). Syngjandi krybbur eru í miklum minni hluta á eyjunum, en hinar þöglu alsráðandi.

Nýleg rannsókn skoðaði  form vængjanna á báðum eyjunum og tengda erfðaþætti. Megin niðurstöðurnar eru þessar.

1. Vængir syngjandi krybba á Kauai og Oahu eru næstum því eins í laginu.

2. Vængir þögulla krybba eru mjög ólíkir vængjum hinna syngjandi.

3. Vængir þöglu krybbana á Oahu eru mjög ólíkir vængjum þöglu krybbana á Kauai

Þetta sýnir að þróunin hefur farið ólíkar leiðir til þess að þagga í Krybbunum.(sjá myndir á vef BBC)

Hið sérkennilega er að sama svæði á litningum dýranna tengist söngnum á báðum eyjum. Þannig að þótt að útlit dýranna sé töluvert ólíkt, gæti verið að um sambærilega erfðagalla sé að ræða. Reyndar þarf frekari rannsókna við til að staðfesta tengslin milli ákveðinnar stökkbreytingar og lögunar vængjanna.

Ég fékkst einmitt við að kortleggja gen sem tengjast formi vængja í Norður Karólínu. Á myndinni hér fyrir neðan sést vængur ávaxtaflugu, með stoðæðum. Fyrir neðan eru myndir sem sýna hvaða breytingar á vængjunum eru algengastar (vinstra megin lögum miðhluta vængsins og hægra megin vængsins í heild). Fyrir miðsvæði vængsins er mest breyting í afstöðu krossæðanna tveggja. Við fundum að stökkbreyting fyrir framan EGFR genið tengist einmitt breytileika í fjarlægð á milli krossæðanna. Þannig að þið skiljið að maður espist upp, þegar maður les svona æsispennandi frásögn um vængi, og krybbur sem þagna...

wingshape.jpg

Ítarefni:

Sonia Pascoal o.fl. 2014 Rapid Convergent Evolution in Wild Crickets Current biology

dx.doi.org/10.1016/j.cub.2014.04.053

Crickets in two places fall silent to survive

Palsson A, Dodgson J, Dworkin I, Gibson G. Tests for the replication of an association between Egfr and natural variation in Drosophila melanogaster wing morphology. BMC Genet. 2005 Aug 15;6:44.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband