Leita í fréttum mbl.is

Vísindi á mannamáli: Verðmæti vísinda

Verðmæti vísinda – Frá grunnrannsóknum til lækningavara á markaði

Ágústa Guðmundsdóttir, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, fjallar um tilurð og vöxt líftæknifyrirtækisins Zymetech og tengsl þess við grunnrannsóknir í skólanum í öðru erindi fyrirlestraraðarinnar Vísindi á mannamáli sem Háskóli Íslands stendur fyrir. Erindið verður í Hátíðasal Háskóla Íslands þriðjudaginn 18. nóvember nk. kl. 12.10.

Fjallað verður um gildi grunnrannsókna í nýsköpunarferlinu og það hvernig djúp þekking á ensímum, örverufræði, matvælafræði, lífefnafræði, frumulíffræði og lyfjafræði nýtist beint í hagnýtri líftækni. Nýsköpunarferli líftæknifyrirtækja er langt og flókið. Alþjóðlegir markaðir líftækniafurða, eins og t.d. lækningavara, eru stórir, kröfuharðir og nýjungagjarnir. Því krefst þróun nýrra lækningavara fyrir slíka markaði sífelldrar uppbyggingar hugvits og aukinnar þekkingar. Kostnaður við einkaleyfi, skráningu lækningaafurða, erlenda ráðgjafa, markaðsmál, leyfisveitingar og fleira er mikill en nauðsynlegur fyrir alþjóðlega markaðssetningu.

Um fyrirlestraröðina
Vísindi á mannamáli er ný fyrirlestraröð Háskóla Íslands sem efnt er til að frumkvæði Lífvísindaseturs og Líffræðistofu Háskóla Íslands. Markmiðið er að varpa ljósi á það hvernig vísindamenn háskólans reyna að afhjúpa leyndardóma náttúrunnar og hvaða þýðingu vísindarannsóknir hafa fyrir daglegt líf fólks, t.d. baráttu við sjúkdóma eða náttúruöflin eða til að auka lífsgæði og takast á við nýjar áskoranir tengdar breytingum í umhverfinu.
 
Fyrsti fyrirlesturinn Brjóstakrabbamein og leitin að bættri meðferð var fluttur af Jórunni Eyfjörð. Þriðji fyrirlesturinn verður í janúar.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband