Leita í fréttum mbl.is

Varpar ljósi á uppruna og fjölbreytileika hesta

Hákons Jónsson er doktorsnemi við Kaupmannahafnarháskóla. Hann hefur verið að rannsaka erfðafræðilegan skyldleika og þróun hesta, asna og zebrahesta, og m.a. erfðaefni úr tegund Equus quagga quagga sem var útrýmt snemma á síðustu öld. Nýlega birtist grein eftir Hákon og samstarfsmenn hans í hinu virta vísindariti PNAS, sem er blað bandarísku vísindaakademíunnar.

Ættkvísl hesta, asna og zebrahesta er um 4 til 4,5 milljón ára gömul. Umtalsverður munur er á fjölda litninga milli tegunda, en erfðafræðilega eru þær samt mjög skyldar. Hákon og félagar beittu sameindaerfðafræðilegum aðferðum til að greina genasamsetningu í 6 tegundum, sem margar hverjar eru í útrýmingarhættu. Síðan notuðu þeir samanburð á erfðamengjum og stofnerfðafræðileg líkön til að kanna skyldleika tegundanna, og flutning gena þeirra á milli. Gögnin afhjúpa flókna sögu tegundamyndunar, landnáms og flutninga heimsálfa á milli. Forvitnilegast er þó að þó að mikill munur sé á fjölda litninga, frá 16 upp í 31 pör, greindust mörg tilfelli um flutning á genum þeirra á milli. Það gengur í berhögg við tilgátur um að litningabreytingar séu lykilinn að myndun tegunda.

quagga_photo.jpgHákon og félagar skoðuðu líka erfðamengi Equus quagga quagga sem er nýútdauð tegund. Mynd af wikimedia commons.

Hákon er með stærðfræðipróf frá HÍ og einnig meistarapróf í tölfræði og lífupplýsingafræði. Hann vann meistaraverkefni með Zophoníasi O. Jónssyn og Gunnari Stefánssyni um prótínmengi í nokkrum tegundum, sem hann lauk árið 2012.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband