Leita í fréttum mbl.is

Fjármögnun og framkvæmd kosningabaráttu rektorsefna, og rannsóknarplön ef kosinn

Kæru rektorsframbjóðendur og samstarfsmenn


Það hefur verið örvandi og ánægjulegt að fylgjast með opinni umræðu um stöðu, stefnu og markmið Háskóla Íslands. Það væri yndislegt ef rektorskosningar væru á hverju ári.

Í kjölfarið af góðum ábendingum Vilhjálms Árnasonar og eftir samræður við félaga, spruttu nokkrar spurningar til frambjóðenda um kosningabaráttuna og framtíðarplön. Þær eru fæstar mínar, en ég held að þær eigi erindi við frambjóðendur og kjósendur.

Á undanförnum mánuði hafa frambjóðendur prentað úrval plakata, myndbanda, boðið snittur, safa og áfengi, auglýst í kvikmyndahúsum og á öðrum miðlum.

1) Rétt eins og stjórnmálaflokkar þurfa að standa skil á fjármögnun framboða sinna og kosningarbaráttu, er ekki sanngjarnt að rektorskandidatar upplýsi kjósendur um fjármögnun?
2) Hvað kostar kosningarbaráttan?
3) Hvaða einkaaðillar, félög eða fyrirtæki styrkja viðkomandi frambjóðanda og hversu mikið?

Einnig má spyrja um hvernig hafa frambjóðendur fengið fólk til að standa í kosningarbaráttunni.
Mikilvægasta málið varðar stöðu undirmanna - þar sem tveir frambjóðendur eru í stjórnunarstöðum í Háskólanum (eru t.d. yfir Árnastofnun og Miðstöð framhaldsnáms) og reka stóra rannsóknarhópa.

4) Hafa frambjóðendur fengið undirmenn sína til að standa í kosningarbaráttu?
5) Ef svo er - er ekki um hagsmunaárekstra að ræða?

Seinustu spurningarnar fjalla um framtíðarplön í rannsóknum, ef viðkomandi verður kosinn rektor.

6) Hyggjast frambjóðendur leggja rannsóknir sínar á ís, ef þeir eru kosnir?
7) Hyggjast frambjóðendur setja kennslu og aðra stjórnun til hliðar, ef þeir eru kosnir?
8) Ef spurningu 6 eða 7 var svarað neitandi, hvernig ætlar viðkomandi að forðast hagsmunaárekstra sem starfandi vísindamaður/stjórnandi og yfirmaður stærsta háskóla landsins?

Ég hef ekki sótt alla fundi og lesið allt efni, og biðst forláts ef hér er hamrað á gömlu járni.

Með vinsemd og virðingu,

-------
Spurningar þessar spruttu úr samræðum við góða félaga, og sendi ég þær á rektorsframbjóðendur og Hi-starf í dag.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnar Pálsson

Einar Steingrímsson svaraði spurningunum, og gaf sitt mat á kosningarslagnum á Hi-starf síðdegis. Það verður að viðurkennast að spurningarnar bárust seint, en vonandi fást svör við þeim frá kjörnum rektor.

--------

Sæll Arnar og þið öll

 

Eini kostnaður minn við framboðið var vegna tveggja ferða til landsins frá Glasgow, þar sem ég bý, rétt um 110.000 ISK.  Þann kostnað greiddi ég allan úr eigin vasa.  (Háskólaráð neitaði að taka nokkurn þátt í þeim kostnaði, þótt rektor, fyrir þess hönd, talaði um mikilvægi þess að gæta jafnræðis gagnvart frambjóðendum.)

 

Ég naut engrar teljandi aðstoðar frá neinum í þessari baráttu nema sambýliskonu minni, enda takmarkaðist kynningarstarfsemi mín við að halda úti Facebook-síðu vegna framboðsins, greinaskrif í fjölmiðla og þátttöku í fundum sem aðilar tengdir skólanum skipulögðu.

 

Hefði ég verið kjörinn rektor hefði ég lagt til hliðar allt starf við kennslu og rannsóknir, af því að ég hefði þá átt fyrir höndum mikið verk við að koma til leiðar þeim breytingum sem ég talaði fyrir.

 

Í framhaldi af þessu ætla ég að leyfa mér að lýsa hér í örstuttu máli þeim lærdómi sem ég dreg af þessu rektorskjöri, og sem ég ætla síðar að gera ítarlegri skil.

 

Manneskja sem vill verða rektor í HÍ má ekki leggja til neinar umtalsverðar breytingar.  Allar teljandi breytingar eru líklegar til að hafa neikvæð áhrif á einhverja starfsmenn, og það er ekki vænlegt til sigurs að fæla frá atkvæði með þeim hætti.  (En hæpið er hins vegar að ganga út frá því að ekki þurfi neinar teljandi breytingar að gera á starfi skólans til að ná háleitum markmiðum hans.)  Í staðinn verður sá sem langar mikið að verða rektor að lofa öllu fögru, jafnvel stórauknum fjárframlögum frá ríkinu, þótt rektor ráði auðvitað engu um þau, hvað þá um námslán stúdenta.

 

Jafnvel þótt frambjóðendur keppist um að vera sem jákvæðastir skiptir kosningabarátta af þessu tagi starfsmönnum í tvær stríðandi fylkingar.  Það er slæmt fyrir starfsandann í framhaldinu, og ekki síður að grunsemdir munu vakna eftir á um að verið sé að hygla því fólki sem verður nýjum rektor handgengið, fyrir stuðning þess í kosningabaráttunni.

 

Í mörgum erlendum háskólum er það nánast regla að rektor er ráðinn utanfrá.  Fyrir því eru góðar ástæður, bæði þær sem að ofan eru nefndar um nauðsynlegar breytingar og eins að erfitt er fyrir okkur flest að taka á óþægilegum vandamálum sem snerta fólk sem við höfum lengi unnið nálægt.  Sé eitthvað "séríslenskt" við HÍ í þessu efni er það væntanlega helst að smæðin og nálægðin er svo yfirþyrmandi að hér er við ennþá rammari reip að draga en víða erlendis.

 

Á síðustu vikum og dögum hafa líka komið upp á yfirborðið ýmis mál á borði núverandi forystu sem hún hefur ekki tekið á, og sem valdið hafa mikilli óánægju.  Ekki virðist líklegt að rektor sem kemur innan úr skólanum, hvað þá úr þessari æðstu forystu sjálfri, muni veitast auðvelt að bæta úr þeim málum, sem liggja þá væntanlega áfram að eins og mara á skólanum.

 

Í stuttu máli:  Það er eitur fyrir Háskóla Íslands að velja rektor einungis með kosningu af hálfu starfsmanna og stúdenta.  Og, HÍ virðist sárlega þurfa að fá utanaðkomandi manneskju í rektorsstarfið.

 

Bestu kveðjur,

Einar

Arnar Pálsson, 20.4.2015 kl. 00:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband