Leita í fréttum mbl.is

Áföll og tilgangur lífsins

Við sem lifum án trúarbragða þurfum að finna lífi okkar tilgang sjálf. Það er meiriháttar verkefni og reynist sumum ofviða, sérstaklega þegar tómleiki veraldarinnar blasir við eða við sökkvum okkur um of í tilgangsleysi allra hluta (samanber bísamrottuna). Áföll eins og slys, ofbeldi eða nauðgun geta einnig rænt okkur friðnum og skilið okkur eftir á bjarmi hengiflugs, þar sem ótti, þunglyndi og sjálfsvígshugsanir berjast um í okkur.

Steindór J. Erlingsson hefur átt við þunglyndi að stríða í nokkra áratugi, og hefur fjallað um þá baráttu, eðli geðsjúkdóma, skilgreiningu þeirra og fleira í nokkrum greinum. Nýjasta framlag hans er frásögn af atburðum sem líklega sendu hann á braut alvarlegs þunglyndis og sjálfsvígshugsana. Frásögnin hefst svo:

Í ljósinu frá jeppanum blasti gapandi brjóstkassinn við og ég hugsaði skelfingu lostinn: „Get ég bjargað lífi mannsins?“ Dauðahryglurnar og hræðslan við að verða sjálfur skotinn nístu mig inn að beini. Ég varð að yfirgefa staðinn, dröslaði deyjandi manninum inn í jeppann og brunaði á spítalann, ef spítala skyldi kalla. Stöðvaði í niðamyrkri og tók líflítinn líkamann út. Á meðan ég hljóp með hann inn á daunillan spítalann sá ég og heyrði líf mannsins fjara út. Hann dó nokkru síðar.

Þessi atburður, sem átti sér stað er ég vann sem sjálfboðaliði um nokkurra mánaða skeið í Eþíópíu, var endapunkturinn á eins og hálfs sólarhrings atburðarás sem ég á enn erfitt með að trúa að ég hafi upplifað. Erfið veikindi bundu óvænt enda á dvölina. Reynslan í Afríku, framandleiki tilverunnar eftir heimkomuna, langvinn veikindi og martraðir virðast hafa orðið þess valdandi að hugsunin um sjálfsvíg hefur fylgt mér alla tíð síðan. Nýlega vörpuðu skrif rithöfundanna Albert Camus, Leo Tolstoy og Primo Levi nýju ljósi á reynsluna. Loksins, eftir 27 ára baráttu, eygi ég von um að sjá út úr myrkrinu.

Greinin heitir Hugleiðing um áföll og sjálfsvígshugsanir og birtist í nýjasta hefti Tímarits máls og menningar. Hún er forvitnileg blanda af persónulegri frásögn og leit að tilgangi lífsins með aðstoð merkra heimspekinga. Greinin er óvenjuleg í dýpt sinni og heiðarleika, þar sem Steindór dregur ekkert undan og rekur þjáningar sínar og hugleiðingar og hvernig skrif Alberts Camus og annarra hafa hjálpað honum í baráttunni. Hún hlýtur mín bestu meðmæli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Maslov-píramídinn útskýrir margt.

Jón Þórhallsson, 11.9.2015 kl. 15:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband