Leita í fréttum mbl.is

Gagn af menntun - erlendis

Snemma á námsárunum fæddist sú hugmynd að fara utan í framhaldsnám. Þá stundaði ég rannsóknir á líffræðistofnun Háskólans, sem voru svo dásamlega skemmtilegar og gefandi að hugurinn þyrsti í meira.

Úr varð að ég fór til Norður Karólínu í doktorsnám í erfðafræði, og sé svo sannarlega ekki eftir því. Menntun erlendis er góður skóli fyrir einstaklinga, sama hvort þeir eru í fræðilegu eða hagnýtu námi.

Ég varla orð til að lýsa því hversu mikilvægur námstíminn erlendis var. Fyrirfram hafði maður allskonar ranghugmyndir um BNA, sem tvístruðust við nánari skoðun. Einnig er það ákaflega mikilvægt ungu fólki að fá að spjara sig á eigin fótum. Að síðustu, var það mér lífsnauðsynlegt sem fræðimanni að sækja frekari menntun ytra, og ekki skaðaði að vinna við afburða stofnanir (Fylkisháskólann í Norður Karólínu og háskólann í Chicago). Vísindin sem ég fæst við spruttu úr samstarfi og samneyti við allskonar fólk við þessa háskóla, háskólar eru yndislegir suðupottar framsækinna hugmynda.

Robert Barber sendiherra Bandaríkjanna hérlendis fjallar um nauðsyn þess að fara utan í nám eða framhaldsnám í grein í Fréttablaðinu. Hann segir m.a.

Sambönd sem verða til og þróast með alþjóðlegri menntun eru varanleg og endast alla ævina. Alþjóðlegir nemendur auðga kennslustofur, háskólasvæði og samfélög hýsilanda sinna á máta sem heldur áfram löngu eftir að nemendurnir hafa snúið aftur til heimalanda sinna. Þeir þróa með sér skilning á gildum og sjónarmiðum fólksins í hýsilöndum sínum, sem þeir hafa í huga það sem eftir lifir lífs þeirra.

Alþjóðleg menntun og efnahagslífið
Þegar snúið er heim eftir dvöl erlendis nýtur heimaland alþjóðlega nemandans góðs af reynslu hans, þekkingu og fenginni færni; sömu færni og nauðsynleg er til að stunda samkeppni í hinu hnattvædda hagkerfi nútímans. Tenging landa með alþjóðlegri menntun stuðlar að opnun markaða og auknum viðskiptum. Sem sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi hef ég gert það að persónulegu markmiði mínu að auka viðskiptatengsl á milli landa okkar tveggja. Ég tel að sú reynsla sem fengin er með menntun í Bandaríkjunum veiti sterkari grunn sem bæði lönd geta notið góðs af.

Auðvitað er sendiherrann að vekja áhuga íslenskra nemenda á framhaldsnámi erlendis, en hann bendir líka á að fleiri Bandaríkjamenn sækja nú í nám í Evrópu.

Viðleitni mín á Íslandi er ekki takmörkuð við að senda fleiri Íslendinga til náms í Bandaríkjunum. Bandaríska utanríkisráðuneytið hvetur fleiri bandaríska nemendur til að íhuga nám erlendis. Ég trúi því að þessi viðleitni sé að virka. Fleiri nemendur, en nokkru sinni fyrr, horfa nú til Íslands sem lands menntunar – hvort sem um er að ræða grunnnám, framhaldsnám eða jafnvel sumarnám. Það hvetur mig til dáða að sjá hvernig þau koma fram fyrir land sitt og segi ég þeim öllum að hann eða hún, eins og ég, eru sendiherrar Bandaríkjanna á meðan þau stunda nám hér.

Og auðvitað felur það í sér að allir íslenskir námsmenn eru vitanlega sendiherrar Íslands út á við. Það eru forréttindi að tilheyra þessari fámennu og sérstöku þjóð, en þeim fylgja líka skyldur. En skyldur okkar sem námsmanna og manneskja eru einnig við þekkinguna og leitina að henni. Tendrum forvitnina, efumst og gagnrýnum, spyrjum spurninga, leitum svara og gefumst ekki upp.

Með öðrum orðum, köstum okkur í suðupottana og hrærum saman nýstárlegar hugmyndir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband