Leita í fréttum mbl.is

Það hafa alltaf búið Starkadderar á Kalsælustað...

Bærinn hokinn af elli og vanrækslu hangir utan í ás í Sussex. Starkadder fjölskyldan hefur búið þar í aldir, samanber einkennisorð ættarinnar, "það hafa alltaf búið Starkadderar á Kalsælustað". Yfir Kalsælustað (Cold comfort farm) ríkir ættmóðirin, Aða Dóms frænka (Aunt Ada Doom). Hún er sérlynd, mannfælin, langrækin fýlustjórnandi, sem heldur ættmennum sínum í spennutreyju ótta og ættrækni. Allir vita að ef þeir ígrunda brottflutning þá muni Aða tjúllast endanlega, og enginn þorir að bera ábyrgð á því. Ef viðkvæm mál koma til umræðu, bregður hún fyrir sig trompi. Hún segir drafandi kuldalegri röddu, "ég sá eitthvað skelfilegt í eldiviðarskúrnum..." (i saw something nasty in the woodshed). Enginn hefur minnstu hugmynd um hvað það var en setningin dugar til að slá öll mál og rök út af borðinu.

Aða Dóms er ekki eina litríka persónan á Kalsælustöðum, einnig má minnst á Amos eldklerk, Adam Lambadrátt (Lambsbreath), heimasætuna ljóðelsku Elfine og frú Bjöllu, jarðbundnu heimilishjálpina. Persónur þessar eru sköpunarverk enska rithöfundarins Stellu Gibbons. Cold comfort farm sem kom út 1932 var fyrsta bók hennar, og segir sögu af ungri konu Flóru Poste sem við fráfall foreldra sinna, þarf að flytja til fjarskyldra ættingja í sveitinni. Á bænum er allt í niðurníðslu eða andlegum lás. Nöfn kúnna, Graceless, Aimless, Feckless, og Pointless, endurspegla ástandið ágætlega.

Samkvæmt bókarýnendum The guardian er þetta eina af 100 bestu ensku bókum síðustu aldar. Ég las hana aftur nú í vor, og kunni ágætlega við. Hún er hugvekjandi, en að mestu meinlaus. Skrifuð lipurlega og með ágætri framvindu. Frú Gibbons æfði stíl sinn á því að skrifa fyrir blöð, en leyfir sér einnig ljóðrænu á köflum og galsalega nýyrðasmíð. Bókin er almennt þekkt sem gamansaga, eða háðsádeila á rómantísk skrif þessa tíma, en hefur einnig traustann undirtón. Sterk ung kvenpersóna kemur í nýjar aðstæður, og reynir að hafa jákvæð áhrif á líf fólks, þrátt fyrir ægivald ættmóðurinnar.

92780Það má alveg deila um hvað sé heppilegasta þýðingin á Cold comfort farm. Ég lék mér með nokkur tilbrigði, Frostnotastaði, Kaldalónsbæ, Frostsælushól, Kuldanotastaður...en skorti andríki fröken Gibbons.

Robert McCrum The 100 best novels: No 57 – Cold Comfort Farm by Stella Gibbons (1932)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband