Leita í fréttum mbl.is

Háskólar í hættu

Menntun er nauðsynleg fyrir okkur sem einstaklinga og samfélagið sem við tilheyrum.

Menntun gefur okkur tækifæri til að kynnast veröldinni og sögu hennar, því hvaða kraftar móta náttúruna (lifandi jafnt og dauða), hugmyndum um eðli mannsins, samfélaga og þjóða. Menntun hjálpar einstaklingum í leit að lífsfyllingu, tilgangi og félagsskap.

Háskólar eru æðsta menntastigið, og þar kemur fullorðið fólk og fær að kynnast og rannsaka margvísleg fræði og hugmyndir.

Ávextirnir eru margvíslegir. Margir tiltaka nauðsyn á menntun fyrir nýsköpun og efnahag og þjálfun sérhæfðs starfsfólks eða stétta, en ég held að mikilvægast sé þroskun á mannlegri og samfélagslegri færni einstaklinga. Óbeinir ávextir sem erfitt er að mæla, en sem stuðla engu að síður að traustu og hraustu samfélagi, sem getur tekist á við áskoranir framtíðar.

Ég skora á alla að skrifa undir áskorun til frambjóðenda og stjórnmálaflokka um að styðja háskóla á Íslandi á næsta kjörtímabili.

Háskólar í hættu.

Meðalframlag íslenska ríkisins á hvern ársnema í háskóla er tæplega 1,3 milljónir króna. Ísland er þar langt á eftir nágrannaþjóðum sínum því framlagið nemur rúmlega 2,2 milljónum króna að meðaltali annars staðar á Norðurlöndum.

Í aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs er markmiðið að styrkja fjármögnun háskólakerfisins hér á landi svo hún verði að minnsta kosti sambærileg við meðaltal annarra norrænna ríkja árið 2020. Ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2017-2021 sýnir hins vegar að engan veginn er komið til móts við ofangreint markmið.

Viðvarandi undirfjármögnun háskólanna dregur úr framþróun í samfélaginu og samkeppnishæfni landsins. Enn fremur er ljóst að ef ekki er lagt meira fé til reksturs háskólakerfisins þarf á endanum að fækka nemendum og draga úr fjölbreytileika í námsframboði.

Við undirrituð krefjumst þess að stjórnvöld setji menntamál í forgang og framfylgi fyrrgreindum markmiðum um fjármögnun háskólakerfisins með það að leiðarljósi að jafnmikið fjármagn fylgi hverjum háskólanema hér á landi og nemum annars staðar á Norðurlöndum árið 2020.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband