Leita í fréttum mbl.is

Ályktun um uppbyggingu Náttúruminjasafns Íslands

Ályktun um uppbyggingu Náttúruminjasafns Íslands

Í umboði neðangreindra samtaka skorum við á Alþingi og mennta- og menningarmálaráðherra að taka hið fyrsta af skarið varðandi málefni Náttúruminjasafns Íslands og búa þannig  um hnúta að starfsemi þess rísi undir nafni við miðlun á fróðleik og þekkingu á náttúru landsins, náttúrusögu, náttúruvernd og nýtingu náttúruauðlinda, eins og lög kveða á um. Ályktun Alþingis nr. 70/145 um hvernig minnast skuli aldarafmælis fullveldis Íslands, sem formenn allra þingflokka á Alþingi fluttu undir lok síðasta kjörtímabils og samþykkt var með 56 atkvæðum mótatkvæðalaust er mikið fagnaðarefni. Þar kemur m.a. fram að Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni ... „að sjá til þess að í fjármálaáætlun til næstu fimm ára, sem lögð verður fyrir Alþingi vorið 2017, verði gert ráð fyrir uppbyggingu Náttúruminjasafns.“Það veldur því vonbrigðum að Náttúruminjasafns Íslands skuli hvergi vera getið í tillögu ríkisstjórnarinnar að ríkisfjármálaáætlun 2018–2022.

Á 100 ára afmæli HÍN árið 1989 kynnti menntamálaráðherra áætlanir um að reist yrði hús yfir Náttúrugripasafn Íslands. Í kjölfarið var mæld út lóð í Vatnsmýri fyrir byggingu  Náttúruhúss sem var hugsað sem safnbygging og aðsetur Náttúrugripasafns. Í  deiliskipulagi Háskólasvæðisins er enn gert ráð fyrir Náttúruhúsi á þessum stað, á  svonefndum G-reit.

Staða Náttúruminjasafnsins, höfuðsafns þjóðarinnar í náttúrufræðum, hefur frá upphafi  verið óviðunandi og safnið búið við þröngan kost þau tíu ár sem liðin eru frá stofnun  þess. Fjárheimildir hafa verið afar naumt skornar, starfsmenn aðeins tveir hið mesta, skrifstofuaðstaða ótrygg og engin aðstaða til sýningahalds, kennslu eða miðlunar  fróðleiks á eigin vegum.

Öflugt náttúrufræðisafn styrkir menntakerfið og menningarlífið og stuðlar að aukinni þekkingu á náttúru landsins og skilningi á tengslum hennar við umheiminn. Menntun landsmanna í náttúrufræðum er forsenda sjálfbærni í atvinnugreinum þjóðarinnar, sem nær allar hvíla á nýtingu náttúrunnar. Aukinn skilningur á náttúru Íslands er eitthvert  brýnasta verkefni samtímans og skólaæska landsins á sannarlega skilið metnaðarfullt og  nýstárlegt náttúrufræðisafn þar sem undrum og ferlum náttúrunnar eru gerð skil.

Það er mikils um vert að ekki verði hvikað frá þeim góðu fyrirheitum sem gefin eru í fyrrnefndri ályktun Alþingis.


Hið íslenska náttúrufræðifélag
Bandalag Íslenskra skáta
Eldvötn - Samtök um náttúruvernd
í Skaftárhreppi
Félag íslenskra safnafræðinga
FÍSOS - Félag íslenskra safna og
safnmanna
Fjöregg í Mývatnssveit
Fuglavernd
Landvernd
Líffræðifélag Íslands
Náttúruverndarsamtök Austurlands
Náttúruverndarsamtök Íslands
Náttúruverndarsamtök Suðurlands
Náttúruverndarsamtök
Suðvesturlands
Samlíf, samtök líffræðikennara
Skógræktarfélag Ísland
Ungir umhverfissinnar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband