Leita í fréttum mbl.is

Stuðningur við menntun eykur velsæld

Til hvers í ósköpunum eru vísindi og fræði. Sarah Palin fyrrum fylkisstjóri Alaska og varaforsetaefni var alveg með það á hreinu að vísindamenn væru iðjuleysingjar sem sóuðu fé skattborgara í fáranleg gæluverkefni, eins og að rækta ávaxtaflugur. Sarah og margir aðrir misskilja alvarlega hlutverk vísinda, fræða og háskóla. Vísindin leita að sannleikanum um veröldina, manninn og samfélögin. Þekking frelsar hugann, þekking er kraftur, þekking opnar dyr.

Háskólar eru staður þar sem nemendur koma og læra um veröldina, afla sér þekkingar. En þeir læra líka hvernig þekkingin verður til, aðferðir til að afla hennar og hvernig við tökumst á við óvissu og opnar spurningar. Sumir segja að því meira sem maður lærir, því betur skilur maður hvað maður veit lítið. Því fylgir auðmýkt og varkárni, sem eru góð leiðarljós fyrir líf og starf. Kokhreysti og tillitsleysi eru fylgifiskar vanþekkingar, og áskrift á yfirgang og valdníðslu.

Rektor Háskóla Íslands flutti fína ræðu fyrir útskriftarnema síðasta laugardag. Þar fjallaði hann ítarlega um hlutverk háskóla og mikilvægi menntunar.

Hann gerði að umtalsefni nýlega skýrslu Evrópusambandsins sem sýnir hvernig stuðningur við haskóla og grunnrannsóknir (óháð fræðigreinum) eykur velsæld og hagvöxt. Þau skilaboð þurfa að heyrast á alþingi, sem í nýsamþykktri 5 ára áætlun um ríkisfjármál hefur ákveðið að svelta menntakerfi þjóðarinnar. Hér fylgja nokkrar málsgreinar úr ræðu rektors, sem finna má á vef HÍ - hver króna í menntun verður að fimm.

Sagan sýnir ótvírætt að háskólar eru mikilvægasta uppspretta nýrra hugmynda og óþrjótandi aflvakar framfara. Þeir hafa frá alda öðli verið miðstöðvar frjálsrar hugsunar og þekkingarleitar.

Vissulega eru háskólar í harðri alþjóðlegri samkeppni um nemendur og starfsfólk, en þeir keppa ekki á markaði á sama hátt og atvinnufyrirtæki og þeir lúta ekki skammtíma arðsemiskröfu eigenda sinna. Eigandi Háskóla Íslands er íslenskur almenningur, við öll, og hann deilir afrakstri starfs síns með þjóðinni og í raun öllum heiminum...

Áhrif rannsókna og háskólastarfs í samfélaginu takmarkast síður en svo við tæknigreinar. Þvert á móti hefur nýsköpun í öllum greinum bein og óbein áhrif á auðlegð, framfarir og lífsgæði. Rannsóknir í hug- og félagsvísindum eru grundvöllur skynsamlegar ákvarðanatöku á fjölmörgum sviðum í lífi okkar og almenn menntun eykur starfshæfni, þroskar okkur sem manneskjur og dýpkar skilning okkar á umhverfinu.  

Nýlega kom út á vegum Evrópusambandsins merk skýrsla um efnahagsleg og samfélagsleg áhrif vísinda og nýsköpunar. Þar kemur ótvírætt fram að beint orsakasamband er á milli útgjalda til rannsókna, nýsköpunar og menntunar annars vegar og framleiðniaukningar og hagvaxtar hins vegar. Áhrifin eru víðtækust í þeim ríkjum sem fjárfesta mest í háskólastarfi, svo sem í Bretlandi og Finnlandi, en áhrifanna gætir mun minna í ríkjum á borð við Ungverjaland, Grikkland og Slóveníu sem verja hlutfallslega álíka miklu fé til háskóla og Íslendingar. Þetta verða íslensk stjórnvöld og við öll að ígrunda. Það er grafalvarlegt mál ef fjárhagsleg staða íslenskra háskóla torveldar þeim að sinna síaukinni eftirspurn atvinnulífsins eftir háskólamenntuðu og sérhæfðu vinnuafli.

Í áðurnefndri skýrslu er sýnt fram á að 10% aukning útgjalda til rannsókna og nýsköpunar skilar vexti þjóðartekna sem nemur fimmfaldri þeirri aukningu. Fjárfesting í rannsóknum og menntun skilar sér þannig margfalt til baka í auknum hagvexti og lífsgæðum. 

Atvinnulíf framtíðarinnar mun einkennast af hátæknistörfum, síaukinni menningarsköpun og það verður sérstök áskorun að tryggja stöðu íslenskrar tungu og menningar á tímum alþjóðavæðingar. Háskóli Íslands er skóli atvinnulífs framtíðarinnar. Sökum stærðar sinnar og alþjóðlegs samstarfsnets hefur Háskólinn allar faglegar forsendur til að veita ungu fólki samkeppnishæfa háskólamenntun fyrir eftirsótt og krefjandi störf. En til að Háskóli Íslands geti rækt þetta mikilvæga hlutverk sitt þarf að tryggja að hann njóti sambærilegrar fjármögnunar og háskólar í nágrannaríkjunum. Fjárfesting í menntun er fjárfesting í framtíðinni.  Samkeppnishæfni Íslands, lífskjör og farsæld samfélagsins til framtíðar er í húfi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fyrir tvö þúsund árum síðan, voru fólk sem bjó hús sín úr steypu ... höfðu holræsikerfi, vatnveitu ...

Síðan komu trúarbrögð, sem af öfundsýki lögðu þetta í eyði og rændu bókum fulla af vitneskju, og geymdu í lokuðum hvelfingum (sem sumar hverjar eru enn lokaðar), og settu afgangin af veröldinni í hina myrku miðaldir.  Þar sem sultu í hel óg dóu "drottni" sínum ...

Annan eins ófögnuð og "trúarbrögð" eru fáséð ... ætli þekking og vísindi, séu ekki þarfaþing.

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 27.6.2017 kl. 14:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband