Leita í fréttum mbl.is

Kynslóðin sem borgaði laun alþingismanna með menntun sinni

Menntun er nauðsynleg fyrir samfélagið og eflandi fyrir einstaklinga. Með því að læra nýja hluti bætir maður sjálfan sig, öðlast nýja færni, sjálfstraust og heimssýn. Menntun auðgar bæði þjóðir og fólk, jafnt andlega og fjárhagslega.

Menntun er ekki ókeypis eða sjálfsögð. Íslenskt samfélag var reist á þeirri hugsun að menntun ætti að vera almenn og ókeypis. Menntun væri fjárfesting til framtíðar. En ekki vilja allir stjórnmálamenn fjárfesta í menntun, og sýna það með gjörðum sínum ef ekki orðum.

Núverandi ríkisstjórn sveltir háskóla og menntakerfi landsins. Á aðalfundi Háskóla Íslands sem haldinn var í dag kom í ljós að skólann vantar einn og hálfan milljarð til að geta sinnt eðlilegum rekstri. Í ár er háskólinn rekinn með næstum 500 milljóna króna tapi. Ástæðurnar fyrir hallanum eru margvíslegar.

1. Ein er sú að ríkið samdi um laun háskólakennara, en jók ekki að sama skapi fjárframlög háskólanna sem þeir vinna hjá. Ríkið samdi við háskólakennara og prófessora um rúmlega 20% launahækkanir árið 2015. En í fjárlögum fyrir 2016 hækkaði framlag til t.d. Háskóla Íslands ekki í samræmi við kjarasamninginn. Því situr skólinn  upp með halla, hann verður að borga starfsmönnunum hærri laun en skortir fjármagn til þess.

Afleiðingin er sú að námskeið eru lögð niður, önnur kennd með 30% minna framlagi kennara, og verklegar æfingar og ferðir eru skornar niður, yfirvinna og nýráðningar bannaðar og lausráðnum starfsmönnum sagt upp. Hvaða áhrif ætli það hafi á gæði menntunar?

2. Alþingi Íslendinga gaf HÍ afmælisgjöf af tilefni 100 ára afmæli skólans árið 2011. Um var að ræða 150 milljóna króna upphafsgreiðslu og svo áþekka aukningu á hverju ári, sem átti að nýtast í nýjungar í starfi skólans.* En aldarafmælissjóðurinn hefur ekki haldið áfram að stækka. Nú situr HÍ uppi með undirfjármagnaðar einingar og námsbrautir. Skyldi það hafa jákvæð áhrif á gæði menntunar?

3. Háskólar hérlendis tóku þátt í niðurskurði á ríkisútgjöldum eftir hrun, á sama tíma og þeir tók við fleiri nemendum. Stuðlar það að betri eða verri menntun?

4. Mikilvægasta staðreyndin er sú að HÍ og Háskólar á Íslandi almennt eru undirfjármagnaðir miðað við Háskóla á norðurlöndum og í norður Evrópu. HÍ hefur stært sig af því að vera rekinn af mikilli ráðdeild, en hægt er að herða sultarólina um of.

Íslendingar eru harðir af sér og barma sér eiginlega bara rétt fyrir (eða eftir) andlátið. En afleiðingar langvarandi fjársveltis háskóla hérlendis eru margþættar og svo alvarlegar að ekki verður orða bundist. Sveltið birtist í hrörnandi húsnæði, tækjabúnaði og kerfum, en einnig í verri kennsla, lakara námsframboði, tærandi vinnuumhverfi og lélegri vísindum.

Svelti menntakerfis veldur því að kynslóðin sem nú innritast í háskóla fær verri kennslu en fyrri kynslóðir.

Eftir kosningarnar í október voru laun alþingismanna hækkuð um tæp 45%, með úrskurði kjararáðs. Launahækkanir gæðinga kjararáðs er annar en sá sem almennings eða annara ríkisstarfsmanna.

Fjárframlag til Alþingis var auðvitað hækkað til að standa straum af auknum launakostnaði alþingismanna. Háskólar (eða aðrar mennta og heilbrigðistofnanir) njóta ekki sömu greiðvikni fjármálaráðherra og ríkisvaldsins. Háskóla þurfa að sýna ábyrgt bókhald, en gæðingar kjararáðs þurfa ekki að óttast kjaraskerðingu.

Í anda húsdýragarðs George Orwell eru gæðingar kjararáðs jafnari en aðrir, og næsta kynslóð fær að borga laun alþingismanna með menntun sinni.

Ítarefni:

Jón Atli Benediktsson í ritstjórnargrein í Læknablaðinu 2016 (Fjármögnun Háskóla Íslands)

Útlit var fyrir að nokkuð myndi rofa til í fjármögnun Háskóla Íslands þegar Aldarafmælissjóður HÍ var stofnaður í þverpólitískri sátt allra stjórnmálaflokka á Alþingi á 100 ára afmæli Háskólans árið 2011. Var það yfirlýst markmið með stofnun sjóðsins að framlög til Háskóla Íslands myndu aukast í áföngum uns náð væri meðalfjárveitingum til háskóla í ríkjum OECD árið 2016 og meðalfjárveitingum til háskóla á hinum Norðurlöndunum árið 2020. Var þetta markmið ítrekað í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar og einnig í stefnu Vísinda- og tækniráðs sem lýtur formennsku forsætisráðherra og er skipað 6 öðrum ráðherrum ríkisstjórnarinnar.

Þessi fyrirheit hafa ekki verið efnd og í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2017-2021 er ekki minnst á þau.

Jón Atli Benediktsson 17.12.2016 Um alvarlega fjárhagsstöðu Háskóla Íslands Fréttablaðið.
 
Jón Atli Benediktsson fjallaði um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar í viðtali við Stundina
 
*Gáfulegra hefði verið að leyfa HÍ að ráðstafa fénu að vild, t.d. til að efla rannsóknir með því að styrkja nemendur og kennara.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Heldur svo ríkið & háskóli íslands áfram að styrkja og mylja undir samkynhneigð sjónarmið sem að gætu orsakað smitpestir og aukið útgjöld hjá ríkinu?

http://thjodarskutan.blog.is/blog/thjodarskutan/entry/2200661/

Hverskonar eiginlega vitleysisgangur á sér stað þarna í háskóla íslands?

Jón Þórhallsson, 22.8.2017 kl. 17:55

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll Jón

Það er rangt hjá þér að samkynhneigð orsaki smitpestir eða auki útgjöld hjá ríkinu.

Ef þú ert að hugsa um samkynhneigða og HIV eins og Reagan hjónin, þá er fyrir löngu búið að sanna að smit HIV hefur ekkert með kynhneigð að gera. HIV smitaðist í upphafi einnig ört milli dreyrasjúkra - á tímabili voru helmingur dreyrasjúkra ameríkana með HIV sýkingu. Það mátti allt eins halda því fram að HIV væri sjúkdómur dreyrasjúkra og sjúkdómur homma. En það hentaði ekki trúræknu fordómafólki.

Faraldsfræði smitsjúkdóma ræðst af smitleiðum, t.d. með vessum eða blóði, en dreifingin er einnig háð tilviljun. Ef það hefðu fyrst verið gagnhneigðir sem smituðust af HIV, þá væri þessi mýta að AIDS væri sjúkdómur homma ekki til. En mýtan fóðraði fordóma smáborgara og trúarlegra púrista og olli ómældum skaða og færa má rök fyrir því að hún hafi ýtt undir faraldurinn.

Vegna þess að fordómar komu í veg fyrir að fólk áttaði sig á alvarleika málsins og kom í veg fyrir rétt viðbrögð.

Fordómar þínir gagnvart samkynheigðum eru af sama meiði og eru engin rök gegn akademísku frelsi háskóla eða nauðsyn þess að bjóða fólki að mennta sig. Nema síður sé.

Virðingarfyllst.

Arnar Pálsson, 23.8.2017 kl. 11:02

3 Smámynd: Jón Þórhallsson

Ég vil leyfa mér að vera ósammála þér:

http://www.mbl.is/frettir/taekni/2014/07/11/hiv_smitum_fjolgar_medal_samkynhneigdra/

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/08/03/lifrarbolga_a_greind_a_slandi_a_ny/

Jón Þórhallsson, 23.8.2017 kl. 12:23

4 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll Jón

Það er þinn réttur.

Reyndar er áherslan í fréttinni sem þú vitnar í ansi athyglisverð, miðað við tölurnar í skýrslu UN AIDS

Í fréttatilkynningu með GAP skýrslunni frá 2014 segir:

HIV prevalence is estimated to be 28 times higher among people who inject drugs, 12 times higher among sex workers, 19 times higher among gay men and other men who have sex with men and up to 49 times higher among transgender women than among the rest of the adult population. In sub-Saharan Africa, adolescent girls and young women account for one in four new HIV infections. The report looks at why certain populations are not accessing HIV services and outlines the urgent need to address their specific needs.

“There will be no ending AIDS without putting people first, without ensuring that people living with and affected by the epidemic are part of a new movement,” said Mr Sidibé. “Without a people-centred approach, we will not go far in the post-2015 era.”

http://www.unaids.org/en/resources/presscentre/pressreleaseandstatementarchive/2014/july/20140716prgapreport

Þarna eru taldir upp áhættuhóparnir. Ef þú vilt gæta samræmis, þarftu líka að fordæma sprautufíkla, "hórur" (þolendur kynferðisþrælkunar) og transfólk.

Og þú þarft að hundsa algerlega ráðleggingar UNAIDS sem leggja áherslu á ENGA MISMUNUM hvað varðar umönnun sjúklinga.

Þín orð "...samkynhneigð sjónarmið sem að gætu orsakað smitpestir og aukið útgjöld hjá ríkinu"

Vilt þú fordæma alla hegðan og sjónarmið sem geta haft áhrif á smitpestir og/eða aukið útgjöld ríkisins? t.d.

1. Fólk fer til útlanda - í útlöndum eru sýklar sem geta smitað íslendinga.

2. Íslendingar taka ekki allir lýsið sitt - það gerir okkur útsett fyrir smiti

3. Íslendingar fara á fyllerí - og geta fengið flensu eftir næturgleðina

4. Íslendingar hafa stunda kynlíf án viðeigand öryggisbúnaðar - og geta fengið smitsjúkdóma í kjölfarið.

5. Íslendingar senda börnin sín til dagmömmu, í leikskóla og skóla, allt vel þekkt pestarbæli.

Allt þetta leiðir til kostnaðar fyrir einstaklinga og þjóðarbúið. Til að gæta samræmis held ég uppfæra þurfi hómófóbíuna með allsherjar smitatferlisfordómum.

Arnar Pálsson, 23.8.2017 kl. 14:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband