Leita í fréttum mbl.is

Gætir þú róið opnum bát yfir norður íshafið?

Opinn bátur rær með ísröndinni, mörg hundruð kílómetra frá næsta landi. Þrír af sex manna áhöfn róa hverja vakt. Grámi norðurhjarans liggur yfir öllu og mörk himins og hafs mást út, róðratökin renna saman við öldukliðinn, bruninn í höndunum við bægir frá hugsunum um einsemdina. Hví vilja þessir sex ungu menn róa yfir norður atlantshafið á opnum bát? Hví reynum við takmörk okkar?

 DIgD2RQWAAIW6xy

Mynd Alex Gregory

Tilfinningin að yfirstíga áskoranir er dásamlega gefandi. Að klífa fjall, ljúka við ritun bókar, byggja hús eða græða áratuga gamlan fjandskap, það eru áskoranir sem við þrífumst á. Sumir leggja líka á sig miklar þrautir, til að rannsaka takmörk mannlegra krafta.

 

Það var ástæða Danny Longman, sem hefur brennandi áhuga á róðri og þoli mannsins við hinar mestu raunir. Hann og félagar hans (m.a. íslendingurinn Fiann Paul) skipulögðu pólarróður (www.polarrow.com) þar sem markmiðið var að róa yfir norður íshafið, og slá nokkur heimsmet í leiðinni, Danny er líffræðingur sem vinnur nú að verkefni við Cambridge háskóla ásamt Jay Stock og hópi annara samstarfsmanna (Phenotypic Adaptability, Variation and Evolution Research Group). Longmann, Stock og félagar vilja rannsaka þróun manna að ólíku umhverfi og lifnaðarháttum. Þau hafa sérstakan áhuga á þoli, sérstaklega við mikla og langvarandi áreynslu. Áherslan er á lífeðlisfræðilega svörun líkamans, t.d. bruna, orkubúskap og útskilnað úrgangsefna sem greina má úr blóðsýnum. Longman og félagar vilja vita hvort munur sé á þoli ólíkra ættbálka sem gæti t.d. tengst lifnaðarháttum forfeðra þogeirra og jafnvel landnámi tiltekinna svæða. Hann hefur sérstakan áhuga á íbúum eyjaálfu, sem eru upprunir frá Indónesíu og nærliggjandi eyjum. Þúsundir kílómetra skilja eyjar álfunnar að, og landnámið var allt með opnum eintrjáningum, sem róið var milli eyja. Hugmyndin er að fyrir slíkar ferðir þyrfti mikið þol.

 

Til að bera saman þol og svörun við áreynslu þarf að taka blóðsýni úr fólki fyrir og eftir mikla og viðvarandi áreynslu. Longmann og félagar hafa nú þegar safnað gögnum um langhlaupara af ólíkum kynþáttum, en höfðu einnig áhuga á að rannsaka ræðara. Áhugi Dannys á róðri hefur líklega haft hér eitthvað að segja. Nú veit ég ekki alla málavöxtu og aðdraganda ferðarinnar en snemma í ágúst skrifar Danny okkur og biður um aðstoð. Hann vantar einhvern sem getur tekið blóðsýni úr honum og félögum hans fimm þegar þeir koma til Íslands eftir róður frá Svalbarða. Það var lítið mál fyrir hann að taka sýni  og vinna þau á Svalbarða fyrir brottför, en reynsla kenndi honum að eftir langróður væri betra að fá úthvílt fólk til aðstoðar. Það reynir víst á kopp og koll að róa í marga daga á 2 tíma vöktum. Sýnin þurfti að taka 1 klukkustund eftir lendingu. Reyndar byrjaði hópurinn á því að róa frá Tromsö til Svalbarða, og svo var skipt um hluta af liðinu og róið frá Longyearbyen 8. ágúst, með stefnu á Ísland.

 

Það þarf náttúrulega ekki að taka fram að við vorum meir en til í tuskið, þ.e.a.s. segja eftir að Sigrún hafði samþykkt að koma með og sjá um blóðtökuna. Við þurftum bara að skipuleggja gistingu á Siglufirði og reyna að finna út hvar væri hægt að komast í skilvindu. Reyndar var staður lendingar færður á Sauðárkrók, sem í raun leysti skilvinduvandamálin (dásamlega hjálplegt fólk var tilbúið að hleypa okkur í græjur þar). Síðan þurftum við bara að bíða eftir ræðurunum, sem lögðu upp frá Longyearbyen á svalbarða 8. ágúst. Það fól í sér að fylgjast með GPS hnitum bátsins og lesa dagbók eins leiðangurmanna, Alex Gregory. Biðin tók aldelis á taugar þeirra sem heima sátu, en var helbert grín miðað við það sem ræðararnir sjálfir lentu í.

 

Eins og Alex Gregory rakti á twitter og fjallað hefur verið um á vísi.is, í New York Times og á BBC4 þá gekk ferðin til Íslands ekkert sérstaklega vel. Fyrst réru þeir út að ísröndinni vestan Svalbarða og fikruðu sig síðan suðureftir henni með stefnu á Ísland. Í hefðbundnum langróðrartúrum er hægt að stóla á stöðuga staðvinda sem auðvelda ferðalagið. Á norður Íshafi er enginn slíkur munaður. Meira munaði samt e.t.v. um þykka skýjahulu og grámann sem henni fylgdi. Báturinn er agnar smár, án mótors og vatnstanka. Það þarf sólarrafhlöðu til að eima vatn úr sjónum. Fimm daga sólarleysi norðan 70. breiddargráðu þýddi að geymirinn hlóð sig ekki. Raftækin hættu að virka og vatn varð dýrmætt.

 

Ofan á þetta bættist mótvindur og  vosbúð. Einn daginn var mótvindur það mikill að þeir urðu að róa allan daginn til að halda stöðu sinni (dáldið eins og rauða drottningin sem Lísa hitti í Undralandi). Öldur gengu yfir bátinn og bleyttu allt, ræðararnir voru votir inn að beini og ansi kaldir. Alex lýsti aðstæðum.

DHdUOdCXsAAGw3_

 

 Blessunarleg völdu leiðangursmenn að stefna á Jan Mayen, sem er 550 km norðan Íslands, til að leita athvarfs. Þar lentu þeir 21 ágúst. Eyjan er 340 km2 og á henni er risastórt eldfjall, Beerenberg sem rís 2277 metra yfir sjávarmáli.* Á eyjunni er norsk veðurathugunarstöð og herstöðvarkríli. Á eyjunni búa að jafnaði 18 manns.

 

Þar fengu leiðgangursmenn skjól, næringu og stuðning. Eftir fundarhöld til að meta stöðuna ákváðu fjórir þeirra að nóg væri róið í bili, og að endingu var hætt við síðasta legg leiðangursins.

 

Strætó stoppar ekki á Jan Mayen, og þar sem flugvöllurinn tilheyrir hernum er ekki hægt að fljúga þangað. Því urðu leiðangursmenn að bíða til 3 ágúst með að komast með báti til Noregs.

 

Við fengum aldrei að fara til Sauðarárkróks til að draga blóð úr róðrarhetjunum, en miðað við yfirlýsingar Fiann Paul leiðangursstjóra má búast við öðrum leiðangri í náinni framtíð.

 

Hugdirfska þeirra er aðdáunarverð en einnig ógnvekjandi. Sem dæmigerður skrifstofupúði, sem reyndar heggur tré sér til dundurs og fer í heyskap á sumrin, myndi ég aldrei leggja upp í slíkt ævintýri. En sem betur fer eru hugdjarfar manneskjur í veröldinni sem sýna reyna á takmarkanir mannlegs þolgæðis. Ég lyfti lopahúfu minni til heiðurs Danny Longman, Fiann Paul, Alex Gregory og félögum þeirra. 

Ítarefni:

28. ágúst 2017 New York Times. Stranded on Norwegian Island, Rowers End Their Arctic Mission


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband