Leita í fréttum mbl.is

Mars og spurningarmerkið

Bæði lífverur og ólífrænir ferlar geta leitt til myndunar metans. Gastegundin fannst nýverið á Mars, eins og vísindamenn NASA birtu í Science (sjá umfjöllun) og gert er ljómandi skil á Stjörnufræðivefnum.

Vissulega er möguleiki að metangasið sé af lífrænum toga en það er mörgum sinnum líklegra að  efnaferlar í iðrum Mars eða undir yfirborði hafi myndað gasið. Hugmyndin um líf á Mars kom fram fyrir nokkrum öldum, og var byggð á tilfinningu en ekki efnislegum rökum. Með framförum í sjónaukatækni og efnagreiningum fjarlægra hnatta tókst að sýna fram á að mjög ólíklegt væri að líf þrifist á Mars.

Samt lifir þessi hugmynd áfram, sem þjóðsaga sem NASA virðist gera út á að halda við. Hversu oft sér maður fyrirsagnir "Vísbending um líf á Mars?", "Maður á Mars?", "Merki um vatn á Mars, merki um líf?".

Eins og Ian Sample bendir á í the Guardian "Has Nasa found life on Mars?" eru svör við fyrirsögnum sem enda á spurningamerkjum nær alltaf neikvæð. Getum við láð Nasa að vilja vekja athygli á rannsóknum á Mars, stofnunin hefur gert heilmikið fyrir stjarnvísindin? Svarið við þeirri spurningu er já, við eigum að krefjast þess að vísindamenn og stofnanir vandi framsetningu á niðurstöðum sínum og ályktunum. Sérstaklega þegar fréttir hafa tilhneygingu til að brenglast í endursögn minni miðla eins og mbl.is.

Örlítill samanburður lokaathugasemdinni til stuðnings. Frétt BBC í endursögn mbl.is

Mikið af metangasi hefur fundist á þrem stöðum á plánetunni Mars, að sögn BBC. Gasið streymir upp úr jarðveginum og er skýringin annaðhvort jarðfræðileg virkni eða þá að gasið á sér lífrænar orsakir.

Fimm ár eru síðan metan var fyrst greint á Mars. Nú hefur komið í ljós að það eyðist ekki í sólinni eins og það ætti að gera ef um stundarfyrirbæri væri að ræða heldur er uppstreymið stöðugt.  Ekki er enn ljóst hvort gasið á sér rætur langt aftur í fortíðinni [eða] nútímanum, að sögn vísindamanna.

Inngangur fréttar BBC

Large quantities of methane gas have been detected on Mars, Nasa scientists have announced in Science journal.

The gas could be produced either by geological activity or by life.

Methane was detected in the Martian atmosphere five years ago; scientists have found it is more abundant over particular parts of the planet.

It should last for only a short time in the atmosphere until it is destroyed by sunlight, and so its continued presence means it is being replenished.

This suggests the methane is made by an ongoing process.

But the ultimate origin of the methane could either be an ancient or a modern one, say the researchers.

 


mbl.is Metan á Mars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er ekki eitt þekkt eldfjall á Mars, sem væri stærsta ástæða þess að það sé metan gas sem leysist ekki upp í sólu. Þess vegna beina þeir svona mikla athygli á líf á Mars, vegna þess að 90% af metan gasi á jörðu er af lífi jarðar.

raRaRa (IP-tala skráð) 16.1.2009 kl. 11:15

2 identicon

raRaRa þeir á stjörnufræðivefnum eru sko aldeilis ekki sammála þér um að það sé ekki neitt þekkt eldfjall á mars.. Þeir telja meira að segja upp nokkur eldfjöll á síðunni hjá sér og ber þar að nefna hæsta fjall sólkerfisins sem er jafnframt hæsta eldfjall sólkerfisins, Ólympusfjall.

David (IP-tala skráð) 16.1.2009 kl. 11:32

3 Smámynd: Björgvin R. Leifsson

Þetta er angi af hugmyndum um að líf hafi ekki kviknað á jörðinni, heldur borist hingað utan úr geimnum. Ég set mikla fyrirvara við slíkar kenningar, enda svara þær engan veginn spurningunni um hvernig lífið varð til.

Björgvin R. Leifsson, 16.1.2009 kl. 13:03

4 identicon

En að kenningin, um að líf hafi borist hingað utan úr geimnum, svari ekki spurningunni um hvernig lífið varð til þýðir samt auðvitað ekki að hún sé röng.

Sigurjón (IP-tala skráð) 16.1.2009 kl. 13:18

5 Smámynd: Björgvin R. Leifsson

Nei, en fylgismenn þessa kenningaflokks reyna ekki einu sinni að svara grundvallarspurningunni.

Björgvin R. Leifsson, 16.1.2009 kl. 15:06

6 identicon

Arnar: Gleður mig að sjá þig tala um þetta með spurningamerkin. Það sýður í mér blóðið í hvert sinn sem ég sé svona heimskulega fyrirsögn; "Veldur kaffi krabbameini?" - þú'st, ég veit það ekki, eru ekki fréttirnar til að segja manni þannig hluti? Menn nota þessi spurningamerki til að afsaka þá venju að birta fréttir af pjúra getgátum.

HINSVEGAR þykir mér ekki alveg jafn gaman að sjá þig svona skeptískan fyrir lífi á Mars, þ.e. í fortíðinni. Ég bind nánast engar vonir við að líf sé þar ennþá, en það er ýmislegt sem bendir til þess að líf hafi verið þar einu sinni, þó auðvitað sé ógerningur að segja það með vissu strax.

En það sem við vitum núna, eftir meistaralega för vélmennanna Spirit og Opportunit, er að það er vatn á Mars núna. Ekki fyrir milljónum ára heldur núna í dag, er frosið vatn nær norðurpóli Marss.

Það sem gerir það merkilegt er að þessi vélmenni staðfestu einnig umfram jafnvel óskynsamlegan vafa, að vatn flæddi yfir alla plánetuna í gamla daga, nánar til tekið frá suðri til norðurs. Það er núna vitað með vissu eftir athugun á jarðvegssýnum af vélmennadúóinu.

Ofan á þetta var Mars í gamla daga nær sólinni og er tiltölulega nýkominn út fyrir hið lífvænlega svæði í kringum sólina.

Einnig er þar loftslag, sem er að vísu baneitrað í dag, en enginn veit ennþá hvernig það var í gamla daga. Með fljótandi vatni í jarðarhita má þó gera ráð fyrir því að þar hafi verið súrefni. Reyndar held ég að það sé vottur af súrefni þar ennþá, en loftið er í kringum 80% koltvísýringur, það er sumsé baneitrað í dag.

Spurningin um hvort einu sinni hafi verið líf á Mars er því ekki eingöngu getgátur og ekki eingöngu eftir tilfinningum. Það eru raunverulegar ástæður til að trúa því að eitt sinn hafi verið líf á Mars, og við það vaknar strax spurningin hvort það hafi þá komið þaðan hingað, en sú tilgáta þykir mér persónulega ólíkleg af þeirri einföldu ástæðu að stöðugt fleytir fram kenningum um það hvernig lífið hafi byrjað á jörðinni á eigin spýtur.

Allavega, það er ekki bara óskhyggja að skoða líf á Mars. Það er mjög raunhæfur möguleiki að þar hafi eitt sinn verið líf, og ennþá er mögulegt að einhvers konar örverur lifi undir yfirborði norðursins, þar sem Mars er heitari að innan en utan (eins og jörðin en ólíkt t.d. tunglinu).

Bara mínir tveir aurar. :)

Helgi Hrafn Gunnarsson (IP-tala skráð) 16.1.2009 kl. 15:54

7 identicon

Er ekki alveg nóg að leysa eina ráðgátu í einu og byrja þá á þessum sem standa okkur nær ? Fikra okkur svo heldur áfram út fyrir sólkerfið og út í óravíddir.

Hvað finnst ykkur um Nibiru og allar dómsdagskenningarnar þar í kringum ?

David (IP-tala skráð) 16.1.2009 kl. 16:02

8 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk allir fyrir innleggin.

Jarðfræði og saga loftslags á jörð og mars eru ekki mín sterka hlið. Þar verð ég að vísa til betur lesinna einstaklinga.

Takk Helgi fyrir auranna.

Hluti af tortryggni minni er sprottin af sögu hugmynda okkar um líf á Mars. Einu sinni voru nær allir stjarnfræðingar þess fullvissir að líf væri á Mars, en nú vitum við, eins og þú tíundar að plánetan er óvistleg í meira lagi.

Spurningin um hvort örverulíf hafi verið á Mars, og hvort það tóri þar enn, er vissulega spennandi. Við vitum að örverur lifa djúpt í jarðskorpunni og það er því fræðilegur möguleiki (ekki endilega líklegur samt) að lífverur leynist í berglögum á Mars.

Arnar Pálsson, 16.1.2009 kl. 16:10

9 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Skemmtilegar umræður. Ég setti nú saman greinina á Stjörnufræðivefnum um metanið á Mars og hef örfáar athugasemdir.

Helgi Hrafn, hvaðan hefur þú að Mars hafi eitt sinn verið nær sólu? Mars er við jaðar lífbeltisins í sólkerfinu okkar og ég hef hvergi séð í þeim bókum sem ég á um Mars (eða öðrum ritrýndum fræðigreinum) að reikistjarnan hafi einhvern tímann verið nær sólu en hún er í dag. Mér þykir það líka harla ólíklegt.

Lofthjúpur Mars var mun þykkari þegar hann myndaðist og innihélt líklega svipuð efni og lofthjúpur jarðar í upphafi (þær gastegundir sem voru algengastar í sólkerfinu). Halastjörnur hafa án efa fært talsvert magn vatns til Mars þegar þeim ringdi yfir reikistjörnurnar, mjög snemma í sögu sólkerfisins. Þróunarsaga lofthjúps jarðar er ágætlega þekkt og ekki ósennilegt að þróunarsaga lofthjúps Mars hafi verið svipuð framan af, eða þar til plöntur komu til sögunnar sem gáfu frá sér súrefni og Mars gekk í gegnum gríðarlegar loftslagsbreytingar.

Í vísindum er einfaldasta skýringin oftast sú rétta. Í þessu tilviki myndi ég hallast að því að metanið eigi sér jarðfræðilegar útskýringar en óskhyggjan segir líf. Hins vegar kom fram á blaðamannafundinum í gær að engin merki hefðu fundist um að brennisteinsvetni hefði komið upp með metaninu sem hefði verið augljós merki þess að metanið mætti rekja til eldvirkni.(Súrefni telur ekki nema 0,13% af loftjúpi Mars. Annars má nálgast frekari upplýsingar um lofthjúp Mars má finna hér Mars: Lofthjúpur).

Það er fullt af upplýsingum um Mars á vefnum okkar. Ég hvet ykkur til að kynna ykkur það sem þar stendur.

David, Nibiru er ekki til og heimsendaspár sem tengjast henni eru ekki á neinum rökum reistar. Árið 2012 verður minnst í mannkynssögunni sem árið sem heimurinn endaði ekki.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 16.1.2009 kl. 16:48

10 Smámynd: ROBBINN

Hvað er þetta, strákar!  Hafið þið ekki lengur gaman af ævintýrum

ROBBINN, 16.1.2009 kl. 18:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband