Leita í fréttum mbl.is

Þróun mýrarköldusníkilsins

Barátta sníkla og hýsla er dæmi um þróunarlega togstreitu. Við, greindasta tegund jarðarinnar í augnablikinu, beitum margskonar aðferðum til að berja af okkur sníkla. Mýrarkalda (Malaria) er orsökuð af frumdýrinu Plasmodium falciparum, en að auki eru til töluverður fjöldi annara skyldra tegunda sem einnig eru undir smásjá vísindamanna.

Varnir okkar eru auðvitað lyf, eins og chloroquine, Proguanil og Doxycyclin. Því miður er lyfjagjöfin ekki alltaf nægilega samfelld, skammtarnir litlir eða mengaðir, sem leiðir til þess að ekki öll frumdýr í viðkomandi sjúklingi drepast. Það er dæmi um náttúrulegt val, ef þú drepur 90% af frumdýrunum en 10% lifa af, þá eru líkur á því að þessi 10% beri útgáfur af genum sem gera þeim kleift að þola lága skammta af lyfinu. Og ef afkomandur 10% frumdýranna verða fyrir annari umferð af "mjúkri" lyfjameðferð, þá er aftur möguleiki á að auka tíðni viðkomandi gena, eða annara sem hafa stökkbreyst í millitíðinni. 

Þannig getur náttúrulegt val safnað upp litlum breytingum, sem gera frumdýrin ónæm eða ónæm að hluta gegn meðferð. Á sama hátt hefur náttúrulegt val búið til mjög fín augu, úr einföldum ljósnæmum frumum, með því að betrumbæta, vefi, taugar, búa til linsu, slípa hana til, bæta eiginleika hennar, fjölga litnæmum viðtökum og svo koll af kolli. Vegna þess að í hverri kynslóð þá völdust úr þeir einstaklingar sem báru í sér útgáfur gena sem bættu starfsemi augans örlítið umfram aðra í stofninum. Þannig getur náttúrulegt val búið til dásamlegar aðlaganir eins og augað, og (ef manneskjurnar eru nægilega heimskar í heilbrigðismálum) þróað útgáfu af mýrarköldusníklinum sem er ónæmur fyrir lyfjum okkar.

Það er stundum sagt að þróunarkenningin sem vísindakenning hafi takmarkað spágildi, en þetta dæmi (og önnur) sýna okkur að þróun lyfjaónæmis er óumflýjanleg. WHO varaði t.d. við þessu árið 2006. Við verðum að vera varkár í notkun okkar á lyfjum og meðhöndlunum á sníklum, sýklum og veirum, því lögmál náttúrunnar eru enn að verki í okkar tæknivæddu veröld.

Nánari upplýsingar um mýrarköldu á vef Landlæknisembættisins.

Grein BBC Malaria parasites 'resist drugs'

Sjá einnig eldri frétt BBC, sem varar við þróun lyfjaónæmis í Plasmodium Resistance risk to malaria cure

Auka athugasemd. Þýðing tilvitnana í frétt mbl.is er til háborinnar skammar. Vitnað er í Nick Day formaður Mahidol-Oxford Tropical Medicine rannsóknarverkefnisins.

„Tvisvar áður hefur Suðaustur-Asía, grínlaust, gefið heiminum, og þá sérstaklega Afríku, sníkjudýr sem hafa verið ónæm fyrir lyfjum,” (feitletrun okkar)

Þetta er þýðing á orðunum

"Twice in the past, South East Asia has made a gift, unwittingly, of drug resistant parasites to the rest of the world, in particular to Africa,"

Merking setninganna tveggja er mjög ólík, og veltur á þessari skelfilegu þýðingu á orðinu "unwittingly". Það orð þýðir ekki "grínlaust", heldur "ómeðvitað",  "ekki af yfirveguðu ráði", "fyrir slysni"...

Eitt er að vinna fréttirnar sínar illa, þýða klunnalega eða sleppa nauðsynlegum bakgrunni. En að gjörbreyta merkingu tilvitnana er mbl.is til háborinnar skammar.


mbl.is Malaría myndar ónæmi gegn lyfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

sparðatínsla er þetta. Gildi þess sem var sagt í brengluðu setningunni vex hvorki né minnkar hvort heldur þýtt var rétt eða rangt í tilfelli "unwittingly". Skiljanleg villa annars, alltaf hjartahlýjandi að fá innsýn í mennsku þess sem skrifar með því að sjá rökhugsun hans að verki. En hvað mýrarköldu/malaríu pödduna varðar þá gæti mér ekki staðið meira á sama. Alltof mikið af fólki (heimsku fólki skv. þér?) á svæðinu til að byrja með, það verður að grisja stofninn.

 "Maður verður að rækta garðinn sinn" -prófessor Altúnga

ps. til gamans má geta að ruslpóstvörnin var pýþagórísk að þessu sinni, bauð upp á tölurnar 9, 16 og 25

viðhlæjandi (IP-tala skráð) 29.5.2009 kl. 11:32

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Viðhlæjandi

Alltaf upplífgandi athugsemdir frá þér. Ég held að Plasmodium sé líka bærilega sama um þig, en ég veit að það ber hag afrískra barna fyrir brjósti (samlíking, frumdýraskrattinn er náttúrulega bringulaus), því allir sníklar þurfa góða og gómsæta hýsla til að búa í.

Það væri gaman að rýna aðeins í tilurð og viðhald heimskunar.

Arnar Pálsson, 29.5.2009 kl. 13:02

3 identicon

anytime, er ekki gott að eiga sér aðdáendur?

 Varðandi heimskuna, er hún ekki þjóðhagslega hagkvæm og æskileg á vissu bili? Ekki getum við öll starfað sem vísindamenn ef eigi er til staðar þeim mun fullkomnara og sjálfvirkt stoðkerfisþjóðfélag sem sæi fyrir sjálfu sér til viðbótar við allar okkar dillur, þarfir og langanir.

Það sem ég velti frekar fyrir mér eru lögmál réttlætis og jafnréttis heimskra og snjallra, hvernig hægt sé að gera gott úr báðum. Verðleikakerfi fyrri tíma leitast við að finna réttlætingu á göllum sínum, nútíma pólítísk rétthugsun sópar stéttaumræðunni undir þagnargildisteppi. Eina upplífgandi tilhugsunin er sú að vera Malthusisti, þetta stefnir allt í vitleysu. Heimsendaspámennska er að vísu glópaglepjandi gróðabissness nú sem endranær, en með vaxandi stærðar(ó)hagkvæmni, óreiðustigi og nægs tíma þarf ekki mikið ímyndunarafl til að sjá meðhnígandi rökin í sannfærandi ljósi.

viðhlæjandi (IP-tala skráð) 29.5.2009 kl. 15:37

4 Smámynd: Arnar Pálsson

Reyndar held ég að greind sé ofmetin í þessum efnum, vinnusemi kemur passlega heimsku fólki (svo við tottum það orð aðeins betur) merkilega langt. Svo maður vanmeti ekki persónutöfra, smjaðurhæfni og pólitíska hæfileika, og lukkuna/ólánið (hvaða nafni sem maður vill kalla tilviljunina).

Skv bók um tilviljun (the drunkards walk) sem ég las um daginn er það þrjóskan (vinnusemi) sem skilar fólki oft ótrúlega langt. Spurning hvort að Malthus hafi verið vinnuþjarkur eða frístundahugsuður.

Arnar Pálsson, 29.5.2009 kl. 19:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband