Leita í fréttum mbl.is

Erfðabreyttar lífverur, efasemdum svarað

Umræða um erfðabreyttar lífverur hefur tekið mikinn kipp á síðasta mánuði, i kjölfar beiðni ORF líftækni um að fá að rækta utandyra hérlendis erfðabreytt bygg. 

Ræktun nytjaplantna með markvissum erfðabreytingum er ekki í eðli sínu frábrugðin hefðbundinni ræktun, eða jafnvel venjulegri þróun.

Kári Stefánsson minntist á þetta í samtali við Leif Hauksson í þættinum samfélag í nærmynd (þriðjudaginn 9 júní 2009); líkurnar á að markvissar erfðabreytingar geti skapað skrímsli séu í raun hverfandi. Ef það væri auðvelt að búa til skrímsli með erfðabreytingum, þá hefði það örugglega gerst á síðasta einum milljarði ára. En þekking okkar á þróunarsögunni sýnir að slík skrímsli hafa aldrei orðið til.

Kristín Vala Ragnarsdóttir benti á að aukin ræktun  erfðabreyttra plantna í Bandaríkjunum helst í hendur við hrun í býflugnastofninum, og staðhæfði að um orsakasamband væri að ræða (án þess að geta heimilda, því þær eru engar!). Eins og Ólafur Andrésson og félagar benda á er ekki um orsakasamband að ræða. Kári útskýrir þetta ágætlega með líkingu: byggræktun hefur aukist á Íslandi á síðustu árum, á meðan fjöldi framsóknarmanna hefur minnkað. Það dettur engum í hug að halda að byggið hafi étið framsóknarmennina! Margar þættir sýna fylgni, og ef við kíkjum á Bandaríkin, þá er líklegt að marg annað sýni fylgni við samdrátt í fjölda býflugna, fylgi demókrata eða farsímanotkun. Hér er óttinn að trompa sannleikann.

Krafa fólks er um meiri upplýsingar og umræðu. Því miður hefur umræðan verið örlítið öfgakennd, og þegar fullyrðingar hafa verið hraktar, er slengt fram tilfinningalegum rökum eða vísunum í mismunandi lagaumhverfi (sjá til dæmis samskipti Katrínar Önnu Guðmundsdóttur og Magnúsar Karls Magnússonar, á bloggsíðu Katrínar).

Upplýsingarnar eru öllum aðgengilegar. Nefnd fagaðilla fór yfir umsókn ORF líftækni og skilaði sínu áliti, sem er aðgengilegt öllum á heimasíðu Umhverfisstofnunar. Tveir af nefndarmönnunum rituðu í síðustu viku grein í morgunblaðið (fimmtudaginn 11 júní 2009) sem tekur á nokkrum þeirra athugsemda sem fram hafa komið. Fyrirsögn greinar Evu Benediktsdóttur og Snorra Baldurssonar er sú sama og þessarar færslu "Erfðabreyttar lífverur, efasemdum svarað".

Í grein sinni ræða Eva og Snorri einnig þá nálgun andstæðinga erfðbreyttra lífvera, að slá um sig með misvísandi staðhæfingum og glannalegu orðalagi, sem er í raun bara hræðsluáróður (sbr. færslu Jakobínu Ingunnar Ólafsdóttir Óþverri á heimsmælikvarða).

Grein þeirra Evu og Snorra er endurprentuð hér í heild sinni, með góðfúslegu leyfi höfunda.

Nú liggur fyrir umsókn frá líftæknifyrirtækinu ORF um tilraunaræktun á erfðabreyttu byggi á sérstökum tilraunaakri í Gunnarsholti. Plöntunum hefur verið erfðabreytt þannig að þær framleiða græðisprótín eða vaxtarþætti úr mönnum í fræjum sínum. Nokkur umræða hefur verið um þessa umsókn undanfarið og er það af hinu góða. Til þess að slík umræða geti orðið grundvöllur upplýstrar skoðanamyndunar er mikilvægt að umræðan byggist á þekkingu, en ekki ranghugmyndum, misskilningi eða fordómum. Eðlilegt er að margir hafi áhyggjur af hinu óþekkta og í þessari umræðu hafa verið settar fram nokkrar fullyrðingar sem mikilvægt er að upplýsa um og skýra frekar.

1. Fullyrt hefur verið að lítið eða ekkert umhverfisáhættumat hafi verið gert varðandi umsókn ORF.

Áhættumat er skylda samkvæmt lögum og stór liður í umsókninni. Uppbyggingu þess má sjá á umsóknareyðublaði sem fyrir liggur hjá Umhverfisstofnun. Í umsókninni er áhættumatið vandlega útfyllt af umsóknaraðilum og yfirfarið af umsagnar- og matsaðilum.

2. Fullyrt er að erfðabreytta byggið geti æxlast við plöntur í náttúru Íslands, t.d. melgresi.

 Í fyrsta lagi er bygg sjálffrjóvga og dreifir ekki frjókornum nema í afar litlum mæli. Í öðru lagi á ræktað bygg enga nána ættingja í íslensku flórunni sem það gæti hugsanlega æxlast við. Undan ræktuðu byggi og melgresi er ekki hugsanlegt að kæmu frjóir afkomendur.

3. Fullyrt er að erfðabreytt bygg geti breyst í ágenga plöntu, sbr. spánarkerfil og lúpínu, sem geri innrás í íslenska náttúru.

Þetta er óhugsandi. Bygg er einær planta sem hefur verið í ræktun hér á landi með hléum frá landnámsöld og hefur aldrei slæðst úr ræktun. Mannaprótín í fræjum erfðabreytta byggsins gerir það á engan hátt hæfara til að vaxa í villtri náttúru.

4. Því er haldið fram að erfðavísarnir og prótínin sem um ræðir mengi jarðveg á tilraunastaðnum og safnist þar fyrir í jörðu líkt og þrávirk eiturefni eða þungmálmar.

Þetta er fráleitt. Erfðavísar (gen) og prótín eru flóknar stórsameindir byggðar upp af kirnum og amínósýrum. Þessi lífrænu efni rotna jafnt og allir aðrir hlutar lífvera. Örverur sjá um að brjóta niður plöntuleifar í jarðvegi, jafnt leifar erfðabreyttra plantna sem annarra. Erfðavísar og prótín eru í allri fæðu sem við innbyrðum og þeim er sundrað í grunneiningar sínar í meltingarvegi manna og dýra.

5. Áhyggjur eru uppi vegna fugla, smádýra og örveruflóru jarðvegs á tilraunastað.

Mest af plöntuleifum verður fjarlægt, gera má þó ráð fyrir að örlítið verði eftir á tilraunaakrinum og verði fæða smádýra og fugla. Óhugsandi er að þeim geti orðið meint af. Þau prótín sem framleidd eru í fræhvítu byggplöntunnar eru ekki virk fyrr en búið er að meðhöndla þau á rannsóknarstofu. Svipuð eða sömu prótein finnast í hræjum, kjöti og mjólk.

Í þessari umræðu hafa andstæðingar erfðabreyttra lífvera því miður notað orðalag sem ætlað er að sá tortryggni og hræða. Sem dæmi má nefna að slegið er fram spurningum varðandi eiginleika og áhrif hinnar erfðabreyttu lífveru án þess að leitað sé svars, en það er vel þekkt áróðursleið. Sagt er að vistkerfin eða lífveran „fari úr böndunum" og að erfðafræðingar „möndli" og „fikti" með erfðaefnið. Versta dæmið er líklega þegar matvörur, unnar úr erfðabreyttum lífverum, eru kallaðar „Frankenstein food". Svona málflutningi er ekki ætlað að upplýsa fólk, heldur að hræða það með óvönduðum áróðursbrellum.

Það sem virðist valda mestum ótta varðandi fyrirhugaða ræktun á byggi er að ætlunin er að framleiða mannaprótín. Mikilvægt er að fólk geri sér grein fyrir hve stór þáttur erfðatækni er nú þegar í nútíma samfélagi og hversu  mikilvæg hún er í framleiðslu lyfja og fyrir rannsóknir og framfarir í líf- og heilbrigðisvísindum.

Margir alvarlegir sjúkdómar manna orsakast af því að líkaminn framleiðir ekki nægilega mikið af lífsnauðsynlegum prótínum. Gott dæmi er sykursýki, sem stafar af skorti á insúlíni. Eina ásættanlega leiðin til að framleiða sérvirk mannaprótín er að flytja erfðavísa úr mönnum í aðra lífveru. Áður en erfðatækni kom til sögunnar var insúlín einangrað úr brisi svína og nautgripa og það var með dýrustu lyfjum. Í meir en tvo áratugi hefur raunverulegt manna-insúlín hins vegar verið framleitt af erfðabreyttum örverum sem innihalda erfðavísi úr mönnum. Nýlega hefur kanadískt líftæknifyrirtæki hafið tilraunaframleiðslu á insúlíni í erfðabreyttum plöntum og standa vonir til að hægt verði að lækka verðið umtalsvert og gera insúlín aðgengilegt öllum sem á þurfa að halda. Fjölmörg önnur lífefni og sérvirk lyf fyrir menn er einungis hægt að framleiða í lifandi erfðabreyttum frumum.

Erfðatækni má vissulega nota í misjöfnum tilgangi eins og alla aðra tækni. Það eru engir betur meðvitaðir um það en sameindalíffræðingar og náttúrufræðingar sem hafa tekið þátt í því frá upphafi að móta lög og reglur um erfðabreyttar lífverur. Löggjafinn hér á landi og í Evrópu hefur tekið þá afstöðu að dæma hverja umsókn fyrir sig faglega og hefur það verið gert í þessu tilfelli.

 


mbl.is Íslensk líftækni seld til Bandaríkjanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Sæll Arnar

Ef að þetta er svona vafalaust - finnst þér þá upprunalegur frestur til athugasemda settur af umhverfisstofnun frekar óheppilegur og til þess fallinn að skapa tortryggni um velsæmi aðgerðarinnar?

Anna Karlsdóttir, 14.6.2009 kl. 11:40

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæl Anna

Mér fannst fresturinn vera full stuttur. Það er tæknilegt atriði sem ber að skamma Umhverfisstofnun fyrir, en ekki faglegt atriði sem hefur neitt með efni umsagnarinnar eða erindis ORFs að gera.

Arnar Pálsson, 14.6.2009 kl. 11:57

3 identicon

Með leyfi langar mig til að spyrja hver tenging þín við þessa starfsemi?

Valdimar Valdimarsson (IP-tala skráð) 14.6.2009 kl. 18:19

4 Smámynd: Arnar Pálsson

Valdimar Valdimarsson

Spurningunni um hvort ég tengist ORF líftækni hef ég svarað áður hér 

(http://apalsson.blog.is/blog/apalsson/entry/887136/#comments).

Ég á hvorki hlutabréf né fjárhagslegra hagsmuna að gæta. Ég er ekki skyldur blóðböndum (í 4 lið eða nær) neinum af starfsmönnum ORF líftækni. Ég hef rætt við Björn Örvar í síma einu sinni, fyrir 4 árum þegar ég sótti um vinnu á RALA en fékk ekki.

Þú ert væntanlega að ýja að því að hagsmunaárekstrum, sem hljóti að útskýra mín afdráttarlausu afstöðu. Því miður hún er fagleg, ekki lituð af hagsmunum eða ætterni. Flestir vísindamenn fá þjálfun í siðfræði og faglegum vinnubrögðum (sjá t.d. hér).

Spurningin er sanngjörn, þú mættir alveg spyrja Gunnar forstöðumann vottunarstofunar Túns, hvort að hagsmunir hans tengist nokkuð baráttunni gegn erfðabreyttum lífverum? Ég er reyndar fylgjandi lífrænni ræktun, en mér finnst ekki að við eigum að kynda undir órökstuddan ótta til þess að laða kúnna að þessum vöruflokki. Nóg er af gildum röksemdum fyrir því að borða "lífrænt" ræktaða fæðu.

Arnar Pálsson, 15.6.2009 kl. 08:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband