Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Hvatberi í útrýmingarhættu

Mannkynið mun deyja út...einhvern dag (líklega óháð veðri). 99,99% allra tegunda sem stigið hafa fæti, rót eða þreifara á plánetu okkar hafa dáið út. Þetta er eitt af lögmálum þróunar, sem gjörðir okkar, trú og orð fá ekki breytt. Það er þó óskandi að við sem tegund njótum jafn langrar dvalar á hnettinum og skeifukrabbar.

Spurningin sem Spencer Wells og félagar hjá National Genographic Project (sem er rekið af National Geographic) eru að eiga við er uppruni mannkyns. Reynt er að meta breytileika í erfðamengi nútímamanna, til að kanna sögu og far þjóða og þjóðarbrota (athugið, kynþættir í gamaldagsmerkingu orðsins eru gagnslausir). Nálgunin er að safna erfðaefni frá fjölda fólks, skima fyrir erfðabreytileika og reikna ættartré fyrir mannkynið. Greinin í American Journal of Human Genetics, sem gat af sér fréttirnar í Jyllandspóstinum, Mogganum, Science Daily og fleiri miðlum einblíndi á hvatberalitninga úr 624 Afrískum einstaklingum. Ættartréð endurspeglar að einhverju leyti landfræðilega legu einstaklingana, og gera höfundarnir mikið upp úr því að einstaklingar sem tilheyra Khoisan ættinni hópast á eina greinina. Höfundar gera því skóna að mannkynið hafi skipts upp í tvo aðskilda hópa fyrir u.þ.b. 100.000 árum sem gæti hafa tengst erfiðum veðurskilyrðum í Afríku. Það sem hefur varið mesta athygli, er ályktun byggð á þessum gögnum, um að mannkynið hafi verið mjög fámennt á ákveðnum tímapunkti, verið á mörkum útdauða. Tilvitnun þessi er ekki komin frá Wells og félögum, heldur Meave Leakey sem reyndar tilheyrir NGP sjá orðrétt.

"Who would have thought that as recently as 70,000 years ago, extremes of climate had reduced our population to such small numbers that we were on the very edge of extinction."

Það sem gleymist í tilvitnunum, herlegheitunum og fréttatilkynningum er að einungis lítill hluti erfðamengisins var notaður í rannsókninni. Og vitað er, bæði frá lögmálum erfða og þróunarfræði og rannsóknum á fleiri erfðamörkum, er að genin eiga hvert sína sögu. Ef við skoðuðum genið fyrir blóðrauða (hemoglóbín) fyrir sömu einstaklinga er öruggt að við fáum annað tré, og það gildir fyrir öll önnur gen í erfðamenginu. Nú er jafnvel boðið upp á nútíma ættfræði "greiningu" byggða á erfðabreytileika, til að reyna að komast að þróunarlegum uppruna einstaklinga, það eru skottuvísindi af verstu gerð. Rannsóknir á þessu sviði eru ekki alveg vonlausar, því ef nægilega mörg erfðamörk eru skoðuð getum við fengið örlitla yfirsýn um skyldleika innan hóps einstaklinga. 

Rétt er að árétta að því fer fjarri að fólk sé mótað af genunum eingöngu. Ættartré hvers gens er einstakt, eins og samsetning gena í hverjum einstaklingi. Það gildir jafnt um menn, hundasúrur og skeifukrabba.


mbl.is Mannkynið var í alvarlegri útrýmingarhættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Langa leiðin frá Neanderthal

Nýliðinn miðvikudagsmorgun fluttu Svante Pääbo og Johannes Krause frá Max Planck stofnunni í Leipzig erindi í húsakynnum Íslenskrar erfðagreiningar um raðgreiningu erfðamengis Neanderthalsmannsins. Raðgreining erfðamengja felur í sér að ákvarða röð basa í erfðamenginu, til að finna hvaða gen eru til staðar, innbyrðis afstöðu þeirra og með samanburði við aðrar erfðamengi annara lífvera, finna breytingar sem þau hafa orðið fyrir í tímans rás.

En hvers vegna ættum við að rannsaka erfðamengi útdauðra frænda okkar? Svante reyndi að svara þeirri spurningu, aðallega með skírskotun til forvitni okkar um eigin uppruna og líffræði.

Í fyrsta lagi eru menn heillaðir af sérstöðu sinni sem tegund. Í stuttu máli er Homo sapiens fiskur sem gekk á land, hékk í tré og gengur nú uppréttur á afturlimunum. Bróðurpartur erfðamengis okkar er eins og annara prímata og mjög svipaður fiskum og jafnvel þráðormum. Vissulega hafa nokkrar breytingar orðið, sumar eru einstakar fyrir prímata sem hóp, og síðan aðrar sem einkenna manninn. Áætlað er að 30 milljónir basa séu mismunandi milli erfðamengja manns og simpansa, og að 95% þessara breytinga skipti engu máli...séu hlutlausar.

Paabo leitaðist við að skilgreina eiginleika sem eru manninum einstakir, greind, félagsatferli, næmni gagnvart ákveðnum sýklum o.s.frv. Hann lagði áherslu á að einungis væri stigsmunur á flestir þessara eiginleika milli manns og simpansa, ekki eðlismunur. T.d. hafa simpansar sýnt mikla námshæfileika, valda 100+ orðaforða, nota verkfæri og eru með flókið félagsatferli. Oft hælir nútímamaðurinn sér af greind og höfuðstærð, en náfrændi okkar Homo neanderthalensis var með stærri höfuðkúpu en við (mynd úr bók Barton og félaga, http://www.evolution-textbook.org).

 

Í öðru lagi getur erfðamengi Neanderthalsmannsins svarað spurningunni um hvort kynblöndun var milli þeirra og nútímamannsins (rætt hér áður). 

Þriðja meginástæðan er að erfðamengi geta sagt ýmislegt um líffræði tegunda, sem ekki er hægt að ráða úr beinum og öðrum leifum. Fleiri rök eru fyrir því að raðgreina erfðamengi Neanderthalsmannsins, ekki rakin frekar hér því við viljum rýna aðeins í framkvæmdina og niðurstöðurnar.

Raðgreining DNA úr steingerfingum krefst tæknilegrar nákvæmni og margskonar leiðréttinga vegna mengunar. Ferlið hefst á því að beinahluti er mulinn í duft, og DNA einangrað. Mismunandi sýni eru skimuð, til að ákvarða hlutfall Neanderthals DNA og mannaerfðaefnis (með því að magna upp hluta af hvatbera litningi). Þeir notuðu einungis sýni sem voru með lítið hlutfall af mannaerfðaefni, sem situr utan á beinunum e.t.v. frá því þau voru grafin upp, eða handfjötluð á safni.

Raðgreiningin fer fram á hreinsuðu DNA úr beinunum og síðan eru raðirnar skimaðar fyrir annarskonar mengun (gerlum, plöntuleifum, o.s.frv.). Innan við 10% raða úr hverri keyrslu eru úr mannöpum, líklega Neanderthalsmanni (mengun frá H. sapiens fellur líka í þennan hóp!).

Það sem er kannski mest sláandi við vinnuna er hversu langan tíma þetta mun taka. Núna hafa þau safnað 60 Mb (megabasar - milljón basa), til samanburðar er erfðamengi mannsins 3.200 Mb, þannig að langt er í land.  Einnig er sláandi, þrátt fyrir varkár vinnubrögð, að enn eru vísbendingar um mengun í sýnunum. Allar niðurstöður sem koma úr verkefninu verður að túlka á grandvaran hátt, og frekari staðfestingar á að vera krafist.

Því miður er freistingin til að túlka takmarkaðar niðurstöður oft mikil, og við höfum rætt dæmi þar sem því var haldið fram að Neanderthalsmennirnir hafi verið rauðhærðir, og með samskonar málhæfileika og nútímamaðurinn. Ástæðan er líklega sú að vísindamenn eru mennskir, og gera samskonar skyssur og aðrir. Ef svo vildi til að Neanderthalsmaðurinn hefði þraukað á jörðinni, er allt eins líklegt að hann hefði oftúlkað niðurstöður um erfðamengi útdauðu og heilasmáu systurtegundarinnar Homo sapiens.


Vísindalegir hálfguðir

Í lesbók Morgunblaðsins, 19 apríl 2008 birtist pistill eftir Önnu Kristínu Jónsdóttur þáttagerðarmann, undir yfirskriftinni, "Brjálaðir vísindamenn eða hálfguðir í hvítum sloppum". Pistillinn er haganlega ritaður af penna með gott innsæi, og sem betur fer aðgengilegur á netinu.

Úr Svínadal eða Neanderdal

Þróunartré mannsins er eins og runni, með mörgum greinum. Reyndar á bara ein þeirra núlifandi fulltrúa, tegund sem nefnist Homo sapiens en hinar tegundinar, margar og fjölbreyttar hafa dáið út á milljónum ára. Sú tegund sem dó síðast út er kennd við Neanderdal, eftir u.þ.b. 35.000 ára gömlum leifum sem fundust þar (uppi eru vísbendingar um 10.000 ára gamla dvergmenn, sem enn er rökrætt um). Runnahugmyndin skilar sér ágætlega í mynd af ættartré og landfræðilegri legu mannapa úr kennslubók Barton og félaga (mynd af vefíðu bókarinnar, http://www.evolution-textbook.org/).

Skyldleiki okkar við útdauða frændur og frænkur, hefur lengstum verið rakinn með samanburði á beinagrindum og eiginleikum þeirra. Samanburður okkar við lifandi skyld"apa" er auðveldari, eftir að sameindalíffræðin gerði okkur kleift að einangra gen og ákvarða röð basa í hverju geni. Slíkur samanburður afsannaði þá tilgátu að górillur væru okkar næstu frændur, og renndi sterkari stoðum undir þá tilgátuna um skyldleika okkar og simpansa.

Frekari framfarir á þessu sviði og leiðir til að einangra erfðaefni úr steingerfðum leifum, t.d. beinum og tönnum, skapa ný tækifæri. Til dæmis er hægt að meta skyldleika okkar við útdauða mannapa, og var fyrst horft til Neanderthalsmannsins. Við  höfum áður velt slíkum samanburðarrannsóknum fyrir okkur, t.d. spurningunni um kynblöndun tegundanna. Ástæðan fyrir því að þetta efni er tekið upp aftur er sú að Svante Pääbo, sem ásamt, Johannes Krause og Ed Green leiðir raðgreiningu á erfðamengi Neandertalsmannsins mun halda erindi hérlendis í vikunni.

Erindið verður miðvikudaginn 23. apríl, kl.10, í fyrirlestrarsal Íslenskrar Erfðagreiningar, Sturlugata 8, 101 Reykjavík.

Rannsóknir á mannöpum verða óhjákvæmilega mannhverfar, og í þessu tilfelli er hætt við að greind, sérstöðu og yfirburðum mannkyns verði hampað. Samt er okkur hollast að rifja upp að þessi apategund er hluti af náttúrunni og lútir sömu takmörkunum og lögmálum og aðrar lífverur.

Sjá að auki ágrip úr fréttatilkynningu

"Til þess að komast að því hvað það er að vera mennskur, er gagnlegt að rannsaka þá lifandi tegund sem er skyldust manninum, þ.e.a.s. simpansinn. Sú tegund sem er náskyldust manninum í raun og veru, Neandertalsmaðurinn (Homo neanderthalensis), dó út fyrir u.þ.b. 35 þúsund árum, en hana þekkjum við bara af steingerðum beinum og steinverkfærum sem varðveist hafa í jarðlögum Evrópu og vestur Asíu. Í júlí 2006 hóf hópur vísindamanna frá Bandaríkjunum og Þýskalandi umfangsmikla rannsókn með það markmið að raðgreina erfðamengi Neandertalsmannsins, þar sem notað var erfðaefni sem einangrað var úr fornum beinum. Tilgangur rannsóknarinnar var ekki eingöngu að upplýsa um þróunarfræðilegan skyldleika manna og Neandertalsmanna, heldur líka að komast að því hvort erfðafræðilegur munur á þessum náskyldu tegundum geti varpað nýju ljósi á þróun þess líffæris sem gerir manninn svo einstakan, heilann. Á miðvikudagsmorgun gefst okkur einstakt tækifæri til að hlusta á þá vísindamenn sem leitt hafa þessa rannsókn, útskýra markmið hennar, helstu niðurstöður og framtíðarhorfur."


Doktorsvörn, áhrif eiturefna á krækling

Úr tilkynningu
"Doktorsvörn í líffræði frá raunvísindadeild Háskóla Íslands

Í dag, föstudaginn 18. apríl fer fram doktorsvörn við
raunvísindadeild Háskóla Íslands. Þá ver Halldór Pálmar Halldórsson,
líffræðingur, doktorsritgerð sína “Cellular and physiological
biomarker responses to pollutants in native and transplanted mussels
(Mytilus edulis L.) in Iceland”. Andmælendur eru dr. John Widdows,
prófessor, Plymouth Marine Laboratory, Englandi og dr. Kristín
Ólafsdóttir, dósent í eiturefnafræði við læknadeild Háskóla Íslands.
Dr. Lárus Thorlacius, deildarforseti raunvísindadeildar, stjórnar
athöfninni sem fer fram í sal N-132 í Öskju – náttúrufræðahúsi,
Sturlugötu 7 og hefst klukkan 14.00.

Ágrip
Á undanförnum árum hefur notkun á líffræðilegum mælikvörðum
(bíómarkerum) aukist við mat á mengun sjávar. Með líffræðilegum
mælikvörðum er átt við margvíslegar ástandsmælingar á lífverum, sem
gefa til kynna álag af völdum mengunar, svo sem skemmdir á líkamsvef,
raskaða starfsemi fruma eða líffæra eða jafnvel vansköpun.
Líffræðilegir mælikvarðar gefa þannig til kynna almennt mengunarálag
eða álag af völdum ákveðinna mengandi efna og eru mikilvægir til
stuðnings greiningum á styrk mengandi efna.
Í doktorsverkefninu voru nokkrir líffræðilegir mælikvarðar metnir í
kræklingi nærri íslenskum hafnarsvæðum, en þar eru ýmis olíusambönd,
t.d. PAH efni, þungmálmar og efni úr botnmálningu skipa, oft í miklu
magni. Beitt var frumulíffræðilegum (mat á skemmdum á einþáttabrotum
erfðaefnisins, DNA viðbætur, o.fl.), lífeðlisfræðilegum (hraði
öndunar, síunarhraði tálkna og hjartsláttur), auk lífefnafræðilegum
mælikvörðum (framleiðsla á málmþíónum, o.fl.)
Í ljós kom að við hafnarsvæði er umtalsvert álag á krækling af völdum
mengandi efna. Álagið kemur fram í skemmdum á erfðaefni kræklingsins,
bæði séð í aukinni tíðni einþáttabrota og í DNA viðbótum, þar sem
olíusambönd tengjast við erfðaefni, auk þess sem tilvist mengandi
efna hefur áhrif á hjartslátt kræklingsins og öndun hans. Fæðuupptaka
reyndist lítil vegna lamaðra bifhára. Lagt var mat á það hversu hratt
þetta gerist hjá heilbrigðum kræklingi sem var fluttur á hafnarsvæði.
Niðurstöður rannsóknanna sýna að líffræðilegir mælikvarðar í
kræklingi eru gagnlegir til að kanna ástand sjávar á norðurslóðum.
Líklegt er að álag af völdum olíusambanda muni aukast með aukinni
skipaumferð á norðurslóðum í framtíðinni og þessar aðferðir gera
kleift að vakta slíkt álag.

Hlutar verkefnisins voru unnir í samvinnu við rannsóknarhópa frá
Háskólanum í Stokkhólmi, Háskólanum á Flórens og Institue of Marine
Science, Feneyjum. Í doktorsnefnd voru dr. Jörundur Svavarsson,
prófessor við Háskóla Íslands, dr. Åke Granmo, prófessor við
Gautaborgarháskóla og Kristineberg Marine Research Station og dr.
Guðmundur Hrafn Guðmundsson, prófessor við Háskóla Íslands.
Rannsóknirnar voru styrktar af Rannís og af Rannsóknasjóði Háskóla
Íslands."

Fuglaráðstefna í Öskju


 

Tilkynning um Fuglaráðstefnu á vegum Fuglaverndar, Líffræðistofnunar HÍ og Náttúrufræðistofnunar Íslands.

"Ráðstefnan er haldin í samstarfi við Líffræðistofnun Háskólans og Náttúrufræðistofnun.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra setur ráðstefnuna. Fundarstjórar verða Þorsteinn Sæmundsson, forstöðumaður Náttúrustofu Norðvetsurlands og Ásta Þorleifsdóttir, jarðfræðingur. Á milli fyrirlestra verða stuttar umræður.
Fuglavernd stendur fyrir ráðstefnu um fugla laugardaginn 19. apríl, kl. 13–16:30 í Öskju, Háskóla Íslands. Ráðstefnan er haldin í samstarfi við Líffræðistofnun Háskólans og Náttúrufræðistofnun.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra setur ráðstefnuna. Fundarstjórar verða Þorsteinn Sæmundsson, forstöðumaður Náttúrustofu Norðvetsurlands og Ásta Þorleifsdóttir, jarðfræðingur. Á milli fyrirlestra verða stuttar umræður.

Dagskrá fyrirlestra:
Jan Ejlstedt, framkvæmdastjóri DOF (danska fuglaverndarfélagsins) - Alþjóðleg fugla- og búsvæðavernd.
Kristinn Haukur Skarphéðinsson og Guðmundur A. Guðmundsson, Náttúrufræðistofnun. Fuglastofnar á Íslandi - Ástand og horfur
Freydís Vigfúsdóttir, Náttúrufræðistofnun - Sjófuglar í breytilegu umhverfi.
Tómas Gunnarson, Háskólasetri Snæfellsness - Búsvæði fugla á Íslandi – sérstaða og framtíð.
Einar Ó. Þorleifsson, Fuglavernd - Staða fuglaverndar á Íslandi."

 

Fuglar skipa sérstakan sess í sögu náttúrufræðinnar. Að hluta til er þetta vegna mikils áhuga almennings á fuglum, sem hefur hvatað að hluta frjóar rannsóknir á líffræði þeirra, fari, og atferli. Til dæmis vann Alfred Wallace (annar höfunda þróunarkenningarinnar) meðal annars fyrir sér með því að safna fuglshömum fyrir ríka einstaklinga og söfn, sem gerði honum kleift að vafra um Indónesísku eyjarnar og kynnast náttúru þeirra og fólki.

Ég kannast við Tómas og Freydís og get staðfest að þau unnu góð verkefni í framhaldsnámi sínu, og hin erindin eru einnig flutt af færu fólki.


Samsæriskenningar sköpunarsinna

Síðar í mánuðinum fer áróðursmyndin Expelled í almenna dreifingu í Bandaríkjunum. Hún er unnin af Ben Stein, og reynir að kasta rýrð á vísindin, sérstaklega þróunarkenninguna. Titill myndarinnar, Rekinn (e. expelled), á að vera skírskotun til þess að margir þeirra sem gagnrýna þróunarkenninguna séu reknir frá akademískum stofnunum. 

Aðalefni myndarinnar er áras á þróunarkenninguna, í þeirri von að ef fólk fer að efast um ágæti hennar þá muni það frekar aðhyllast sköpunarsögu kristinna manna.

Í fyrsta lagi stendur þróunarkenningin sterkum fótum, við vitum að lífið á jörðinni er af einum meiði, og náttúrulegt val er eina vísindalega útskýringin á aðlögun lífvera að umhverfi sínu. Vísindamenn rökræða og þræta um hlutfallslegt mikilvægi náttúrulegs vals, og annara krafta, svo sem tilviljunar, eða um skyldleika lífvera, eru hvalir skyldir gíröffum eða kúm? En það er rökræða um hvernig ekki hvort þróunin gerðist.

Í öðru lagi, er það alger rökleysa að halda, að ef rýrð sé varpað á þróunarkenninguna, þá standi sköpunarsaga biblíunar eftir sem eini möguleikinn. Sköpunarsögur eru ekki vísindalegar, því þær kalla til almáttugar verur sem lúta ekki lögmálum náttúrunnar, (það sem ekki lýtur lögmálum náttúrunnuar er ekki hægt að rannsaka með aðferðum vísinda!). En ef (mjög fjarstæðukennt) þróunarkenningin er afsönnuð, og ef við viljum endilega trúa á yfirnáttúrulegt inngrip í lífheiminn, þá eru margar jafngildar sköpunarsögur til reiðu, sagan um Ask og Emblu er jafngild sögunni um fljúgandi spaghettískrímslið.

Myndin er stappfull af rangtúlkunum og útúrsnúningum, sem eru raktir og hraktir á ágætri síðu (Expelled exposed.com). Þrátt fyrir það er viðbúið að íslenskir sköpunarsinnar kætist við útgáfu myndarinnar, þótt hún eigi meira skylt við áróðursmyndir Göbbels en heiðarlega heimildamynd. 


Afmæli Örverufræðifélagsins

Orðrétt úr tilkynningu
"Örverufræðifræðifélag Íslands fagnar nú 20 ára afmæli sínu og af því tilefni verðu hið árlega vorþing með öllu stærra sniði þetta árið.
Þann 27. maí 2008 kl 13:00-16:30 verður haldin ráðstefna á Háskólatorgi undir yfirskriftinni "Örverufræðirannsóknir á Íslandi". Haldin verða yfirlitserindi yfir örverufræðirannsóknir á Íslandi síðustu áratugina þar sem farið verður vítt og breytt yfir svið örverufræðinnar. Fyrir utan ráðstefnusalinn verður svo veggspjaldasýning sem fundargestir geta skoðað í kaffihléi og í móttöku eftir ráðstefnuna.
Við óskum hér með eftir sem flestum veggspjöldum og útdráttum, svo hægt sé að fá greinagóða mynd af þeim örverurannsóknum sem stundaðar eru hér á landi. Þeir sem ætla að kynna veggspjöld eru vinsamlegast beðnir um að senda upplýsingar um titil, höfund(a) og nafn stofnunar (stofnanna) og útdrátt til ritstjóra fréttabréfs ÖRFÍ (thoruth@hi.is) fyrir 15. maí n.k.
Með kveðju
Stjórn ÖRFÍ"
Fyrir margt löngu vann ég með gen úr örverum, en nú er öldin önnur. Þetta gæti orðið skemmtilegur fundur engu að síður. Set upp dagskránna þegar hún verður frágengin. 

Gervivísindin í Brain Gym

Gervivísindin er mörg og skrýtin. Þau eiga það sammerkt að tileinka sér orðfæri og hugtök raunvísinda, en sleppa síðan tökum á raunveruleikanum og byggja miklar skýjaborgir (sem notaðar eru til að selja haug af vörum, bókum, diskum...).

Dæmi um slík gervivísindi eru kennsluaðferðir fyrir grunnskóla, þekkt sem Brain Gym, sem hefur verið að ryðja sér til rúms á Bretlandseyjum. Um er að ræða ósköp einfalda leikfimi, t.d. eru krakkarnir beðnir um að gera einfaldar hreyfingar, setja hendina á bringuna, putta í naflann og hugsa. Það er svo sem ósköp saklaust, en rökstuðningurinn fyrir herlegheitunum er það ekki. Þessi æfing á (samkvæmt Brain Gym!) að auka blóðflæði til höfuðsins, og þar með bæta starfsemi heilans.

Bæklingar frá Brain Gym eru stappfullir af slíkum staðhæfingum, sem hljóma vísindalega, rætt eru taugar, blóðflæði og vöðva, en hafa engan vísindalegan grunn. (Myndin að neðan er af spaugsíðunni "The Onion"). magazine_020906_full.article

Saklaus leikfimi sem gæti nýst til að brjóta upp einsleita kennslu (einkennast því miður af miklum setum og eintali kennara), er markaðsett sem afurð vísindalegra rannsókna. Hvernig eiga nemarnir síðan að samræma þessa "þekkingu" við það sem við vitum um starfsemi líkama okkar, út frá raunverulegum rannsóknum? 

Ben Goldachre ræðir þetta í nokkrum skemmtilegum pistlum á vefsíðu sinn, sá besti er titlaður "Ítrekaðir árekstrar við vegg af heimskum kennurum, leiðir til aukins blóðflæðis til ennisblaðanna" sem hljómar mun snarpara á frummálinu: "Banging your head repeatedly against the brick wall of teachers’ stupidity helps increase blood flow to your frontal lobes

BBC Newsnight, beindi einnig kastljósi sínu að viðfangsefninu (sjá tengil). Það er sláandi að nokkrir Brain Gym nemendur tileinka sér þvaðrið án nokkurar gagnrýni. Vonandi sjá þau í gegnum reykinn að lokum (ekki viljum við fá lækna sem segja okkur að stinga puttanum í naflann og fara heim). Seinna myndskeiðið er viðtal við forvígismann Brain Gym, sem virðist eiga í mestu basli með að verja staðhæfingar í kennsluefninu. Meðal annars þá að, meðhöndlaður matur innihaldi ekki vatn (á ensku "Processed food do not contain water").

Krakkar þurfa hreyfingu og tilbreytingu í námi. Slík tilbreyting þarf ekki að koma í klæðum Kalifornískra gervivísinda.


Afmælisráðstefna Keldna

Í haust verður haldin alþjóðleg ráðstefna um fiskisjúkdóma, á vegum Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í  Meinafræði að Keldum. Ráðstefnan er meðal annars haldin í tilefni 60 ára afmæli tilraunstöðvarinnar. Viðfangsefni ráðstefnunar verða fiskisjúkdómar og ónæmiskerfi fiska, og hefur fjölda erlendra fyrirlesara boðað komu sína. Efni ráðstefnunar verður gert betri skil þegar nær dregur, en nánari upplýsingar má nálgast á vefsíðu ráðstefnunar.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband