Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Stökkbreytirófið

Stökkbreytingar á erfðaefni lífvera liggja að baki miklum hluta breytileika milli einstaklinga og tegunda. Stökkbreytingar geta verið einfaldar, t.d. skipti á stökum bösum A yfir í T, eða flóknari innskot nýrra basa eða úrfellingar.

Dæmi um innskot er t.d. ef fjórum bösum GAGA er skotið inn í miðja röðina GATTTA fæst GATGAGATTA. Inn geta skotist einn basi eða fleiri (lesist þúsundir eða milljónir). Innskotin geta verið tóm tjara, vegna þess að DNA fjölliðunarensímið spólar út bulli, eða eintök af erfðaefni sem finnst í kjarnanum. Dæmi um slík innskot eru DNA afrit veira (t.d. HIV eða vörtuveirunnar) eintök stökkla (e. transposons) eða DNA afrit af RNA frumunnar. Á sama hátt geta basar fallið úr röðinni, t.d. ef þrjú T dyttu úr röðinni okkar að ofan, breyttist hún úr GATTTA í GAA. Dæmi með myndum má sjá á heimasíðu Berkley háskóla (reyndar á ensku).

Einnig eru til flóknari breytingar, sem verða vegna víxla erfðaefni milli litninga (svokölluð litningabrot), eða vegna þess að svæði snúast við. Þessi síðasti hópur stökkbreytinga viðsnúningar (e. inversions) eru sérstaklega erfiður í greiningu, en getur haft mjög afdrifaríkar afleiðingar (endurröðun milli venjulegs litnings og litnings með viðsnúning getur t.d. leitt til úrfellinga).

Hreinn Stefánson og samstarfsmenn hjá Íslenskri erfðagreiningu fundu úrfellingar á ákveðnum svæðum í erfðamenginu, og að þær voru tíðari í einstaklingum með einkenni geðklofa. Það sem er kannski mest spennandi er að stökkbreytingarnar eru flestar nýjar, de novo, sem hefur reynst mjög erfitt að greina með hefðbundnum aðferðum (sjá fyrri færslu).

Líffræðilega ástæðan fyrir áhrifum úrfellinganna er líklega sú að úrfellingarnar fjarlægi gen sem nauðsynleg eru fyrir samræmingu hugsunar og heilastarfsemi. Nicolas Wade rekur þessi vandamál og stöðu rannsókna á geðklofa í grein í New York Times. Það sem er kannski sláandi er að engar algengar breytingar hafa áhrif á geðklofa, eins og fundist hefur fyrir sykursýki, hjartaáföll og margar gerðir krabbameina. Ástæðan þess er enn ókunn. Eins og alltaf bíður heilmikil líffræði þeirra sem vilja skilja áhrif gena á sjúkdóma og svipfar.

 


mbl.is Varpa ljósi á orsakir geðklofa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stökkbreytitíðni eða eitthvað annað...

Stökkbreytingar eru undirstöðuatriði erfðafræðinnar. Ef ekki væru fyrir slíkar breytingar hefði t.d. verið ómögulegt fyrir Mendel að uppgötva eðli gensins. Stökkbreytingar eru tilviljanakenndar, til dæmis er ógerlegt að vita hvaða gen hafa fengið nýjar stökkbreytingar í hverri kynfrumu. Um er að ræða rúmlega 25000 gen, hvert með að meðaltali 5000 basa, og kannski 10 til 20 nýjar stökkbreytingar í hverri kynfrumu. Samt er stökkbreytimynstrið ekki alveg handahófskennt t.d. eru sumar breytingar eru tíðari en aðrar. Eitt best þekkta dæmið um slíkt er að sum gen virðast vera með hærri tíðni breytinga en önnur. Ákveðnir viðtakar í ónæmiskerfinu eru dæmi um slíkt en einnig gen sem valda ákveðnum sjúkdómum, eins og Apert heilkenninu. Þar verða stökkbreytingar í viðtaka fyrir FGF vaxtarþáttinn, og metið er að þær séu 100 til 1000 sinnum algengari en aðrar breytingar í erfðamengi okkar.

Nú er hins vegar komin fram ný kenning um það hvers vegna slíkar stökkbreytingar í FGFR virðast svona algengar (grein eftir Choi og félaga sem birtist í PNAS þessa vikuna). Hugmyndin er sú að stökkbreytitíðnin sé eðlileg í þessu geni, en að frumur sem verði fyrir slíkum breytingum veljist frekar til kynfrumumyndunar en aðrar kynstofnfrumur. Eins og oft vill gleymast eru kynfrumur afsprengi frumuhóps sem skilgreindur er snemma í þroskun, hinar frumurnar mynda sómatíska vefi (haus, hár, blóð, og allt það sem við þekkjum sem lífverur).  Stofnfrumur kynfruma eru um margt sérstakar og eðlilegt að togstreita sé milli þeirra og sómatískra vefja (út frá kenningum þróunarfræðinnar). Tilgáta Choi sýnir að það er einnig möguleiki á samkeppni fruma innan hóps kynfrumustofnfruma. Náttúrulegt val milli slíkra fruma getur útskýrt háa tíðni sjúkdómsins.

Fyrir þá sem finnast tilgátan ekki nægilega spennandi, er hægt að bæta krydda söguna með aðferðalýsingu. Til að kanna tíðni stökkbreytinga í kynstofnfrumum þarf að kryfja mannaeistu, sjálfboðaliðar óskast. 


Berlín kvödd - síðasta ráðstefnan?

Frekari tíðindi af erfðafræðiþinginu í Berlín. Seinni hluti ráðstefnunar gaf hinum fyrri ekkert eftir. Tveir kunningjar frá Íslenskri erfðagreiningu fluttu erindi. Auggie Kong lýsti hvernig nota má erfðaupplýsingar frá hundruðum þúsunda breytilegra staða í erfðamenginu, til að skilgreina endurröðunar atburði og litningagerðir (svo kallaðar setraðir). Það er mjög mikilvægt að skilja setraðir (e. haplotypes) því þær segja manni hvaða stökkbreytingar hanga saman á litningabútum. Ef ein af slíkum stökkbreytingum lendir í kynfrumu, eru miklar líkur á að aðrar stökkbreytingar á sömu setröð fylgi einnig. Daníel (sem var reyndar kallaður Dave af gosanum sem kynnti hann) gerði grein fyrir kortlagningu á litagenum í manninum. Genagallar sem valda breytingum á litum hafa verið mikið notaðir í erfðafræði, fyrsta fluga Morgans var með hvít augu í stað rauðra, Castle og Wright unnu með arfgengar breytingar í lit felds og svo mætti lengi telja. Forvitnilegasta niðurstaða Daníels og félaga er sú að freknur eru líklega af tveimur gerðum, ef ekki fleirum. Freknur myndast vegna misdreifðingar litarefna í húð, og það er hægt að búa til mismunandi líkön um hvernig slíkt getur komið til.

Annars var margt sniðugt á dagskránni. Framúrskarandi erindi um erfðir og þróun ónæmiskerfis baktería, yfirlit um óstöðuga litningaenda í Trypanosóm frumdýrum, innlimaðir litningar innanfrumusýkilsins Wolbachia í ávaxtaflugum. Ég kem örugglega til með að draga þessi viðfangsefni og önnur upp á þessum vettvangi og í kennslunni.

Ráðstefnur sem þessar eru hugsaðar til þess að hvetja fræðilega vinnu og framfarir. Því fyrr sem bættur skilningur (ný kenning eða fall eldri tilgátu) skilar sér út í fræðisamfélagið, því markvissara verður hið vísindalega starf. Vinna út frá úr sér gengnum hugmyndum er einungis til óþurftar.  En  það má einnig spyrja hversu margar þurfa ráðstefnurnar að vera til að skila þessum ávinningi, og jafnvel, hvort að þær séu nauðsynlegar á öld rafrænna samskipta?

Kanadískur vísindamaður, Philippe H. sem vinnur að aðferðum til að greina skyldleika djúpt í þróunartrjám, heldur því fram að við gætum sparað heilmikið púður með því að draga úr fjölda funda og stækkað þá. Hann notaði síðustu 3 mín á erindi sínu í að ræða þessar spurningar, sem hann hefur einnig komið á prent í Trends in Genetics (2008 Jun;24(6):265-7) undir fyrirsögninni

    "Less is more: decreasing the number of scientific conferences to promote economic degrowth."

Vissulega verða vísindamenn eins og aðrir að vera meðvitaður um umhverfisáhrif gjörða sinna og lífstíls, þetta á ekki einungis við um svokallaðar gróðurhúsalofttegundir! Ráðstefnur er vísindunum bráðnauðsynleg og verða að duga svo lengi sem ekki hefur verið fundin upp sýndarveruleikaumhverfi fyrir ráðstefnur af þessu tagi. Símafundir virðast bara virka fyrir smáa hópa, þannig að vandamálið er enn til staðar. Sá sem leysir það gæti sparað veröldinni milljarða og dregið úr neikvæðum áhrifum millilandaflugs á mannverur. Ég þori ekki að lofa að ég myndi sleppa tuttugasta og fyrsta erfðafræðiþinginu í Japan 2013 jafnvel þótt slikur búnaður væri kominn í gagnið. Mig langar nefnilega að heimsækja Naruo Nikoh vin minn á heimaslóðir. Þegar allt kemur til alls þrífast vísindamenn líka á mannlegum samskiptum.

 


Berlín 2008

Fátt er jafn hressandi og góðar samræður, helst um eitthvað sem skiptir manni máli eða vekur áhuga. Þessa dagana fer tuttugasta alþjóðlega erfðafræðiþingið fram í Berlín. Á fundinum má finna dæmi um þær fjölbreyttu rannsóknir sem stundaðar eru á sviði erfðafræði, eða sem beita erfðafræðilegum aðferðum til að svara spurningum í líffræði eða læknisfræði.

Meðal fyrirlesara eru Christine Nusslein Volhard, sem hlaut Nóbelsverðlaun fyrir rannsóknir sínar á þroskun ávaxtaflugunnar (ásamt Edward Lewis og Eric Wieschaus). Tvö skemmtilegustu yfirlitserindin voru flut af Elisabeth Blackburn, sem uppgötvaði ensímið telomerasa sem verndar litninga enda, og Eric Lander, sem var ein af driffjöðrum raðgreiningar erfðamengis mannsins.

Ísland á sína fulltrúa hér, auk mín sendi Kesera Amathawhat Jónsson prófessor í líffræði inn ágrip (hún rannsakar meðal annars kynblöndun birkis og fjalldrapa) og Bjarki Eldon sem stundar nám við Harvard sendi kynnti þróunarfræðilegt líkan fyrir stofna með ójafna dreifingu afkvæma. Dæmi um slíka stofna eru t.d. þorskar, þar sem stærstu hrygnurnar geta eignast margfallt fleiri afkvæmi en þær minni, sem hefur athyglisverðar afleiðingar fyrir stofngerð og mælingar á fari milli stofna.

Daníel Guðbjartsson kynnti í frábæru erindi niðurstöður sem Íslensk erfðagreining hefur birt á undanförnu ári um erfðir rúmlega tylft algengra sjúkdóma. Hann var dró upp raunsæa mynd af árangrinum og sló tóninn upp á framhaldið, þar sem leitast verður við að finna stökkbreytingar sem hafa sterkari áhrif (en sem eru sjaldgæfari í stofni vegna áhrifa náttúrulegs vals) og nýta íslendingabók og ættfræðigrunninn til að finna litningabrengl sem valda sjúkdómum. Ákveðinn hluti stökkbreytinga er svo alvarlegur að einstaklingar sem erfa slíkt í kynfrumu frá foreldrum sínum, eiga litla möguleika á að fjölga sér (ath, einungis er hægt að finna breytingar sem eru ekki bannvænar, en sem draga úr æxlunarhæfileikum). Slíkar stökkbreytingar verða við r‎‎ýriskiptingu (meiósu), og hafa því ekki áhrif á foreldrana sem framleiða kynfrumurnar en geta valdið börnum þeirra vandræðum. Þar sem slíkar stökkbreytingar draga úr hæfni eru þær hreinsaðar úr stofni af náttúrulegu vali. Með því að nota ættartréð er hægt að sjá, hversu oft slíkar stökkbreytingar hafa orðið til og staðfesta að æxlunarhæfni viðkomandi sé líkari. E.t.v. var þessi útskýring vita gagnslaus, en ég mátti til með að reyna.

Rétt er að minnast á að Eric Lander dró saman framfarir í rannsóknum á erfðamengi mannsins, og gerði mikið úr framförum í kortlagningu á algengum erfðaþáttum. Hann hampaði ÍE sérstaklega, ásamt Wellcome Trust, og Broad Institute,

 


Surtsey á lista heimsminjaskrá Unesco

Sem pjakkur lá ég dáleiddur yfir bókum um gosin í Surtsey og Heimaey, rýndi í hverja mynd og þreifaði á hraundröngunum eins og ég byggist við að steinarnir væru enn heitir. Síðar lærði maður að meta hversu lánsamlega gosið fór í Eyjum, að enginn skyldi farast, og hina dásamlegu tilraun sem Surstey er.

Þar er hægt að fylgjast með náttúrulegri framvindu og landnámi lífvera á glænýju landi. Í heimi þar sem áhrifa mannkyns eru sífellt sterkari er sjaldgæft að finna slíka gersemi þar sem hægt er að geta fylgst með náttúrunni óáreittri. Vissulega eru náttúruleg lögmál enn að verki, í líkömum okkar, vistkerfum stórborga og sjávar, sem og sífelldri þróun tegundanna, en maðurinn skiptir alltaf meira og meira máli.

Mynd af vef Surtseyjar félagsins "Njóli í máfavarpi" (Ljósm. Borgþór Magnússon, júlí 2002).

Sem líffræðingur með áhuga á genum, þroskun og þróun hefur Surtsey verið utan áhugasviðsins. Vera má að hægt sé að gera athyglisverðar landnáms rannsóknir þar, sérstaklega á erfðabreytileika landnemaplantna sem fyrstar námu land. E.t.v. þrifust fyrst afbrigði sem áttu auðveldar uppdráttar í lausri gosösku, en með þéttari gróðuþekju breytist valþrýstingurinn og önnur afbrigði eða jafnvel tegundir gætu náð yfirhöndinni.

Óspillt vistkerfi og landsvæði skipta ekki bara máli fyrir fræðilegar bollaleggingar. Ímyndum okkur þann dag er mannkynið uppgötvar að það er ekki einn blettur á jörðinni sem er ekki mótaður af mönnum. Maðurinn hluti af náttúrunni, ekki yfir hana hafinn, og gerir best að átta sig á þvi og skilja hana betur. Þörfin er ekki einungis fagurfræðileg eða andleg, framtíð okkar sem tegundar og menningarheimsins sem við höfum skapað hangir á spýtunni.

Surtsey er komin á heimsminjaskrá Unesco, skálum í hraunbolla.


Lesa DNA acaattaaga ccgcgcagga...

Tuttugasta og fyrsta öldin er öld upplýsinga, ef ekki upplýsingar! Líffræðingar hafa einangrað fjölda gena og raðgreina nú heilu erfðamengin á vikum eða mánuðum.

Nú var tilkynnt að sælgætisframleiðandinn Mars hyggist raðgreina erfðamengi kakóplöntunnar Theobroma Cacao, (sjá t.d. vísir.is og Washington Post). Það sem vísir.is kallar DNA-kóða er í raun erfðamengi, þ.e. erfðaefni lífverunnar sem samanstendur af DNA þráðum (einum eða fleirum). Líklega er um hráa þýðingu að ræða. Í tengslum við fréttina er vert er að árétta að erfðamengi nokkura plantna hafa þegar verið raðgreind, fyrst mengi Arabidopsis thaliana, sem er er óásjáleg planta mikið notuð í erfða og þroskunarfræði. Einnig hefur erfðamengi eins afbrigðis hrísgrjóna verið raðgreint (afbrigðin eru rúmlega 70.000) en kannski ofmælt að segja að ræktun hafi verið kollvarpað.

Eins og staðan er í dag 7 júlí 2008 hafa erfðamengi 23 heilkjörnunga verið raðgreind (að meira og minna leyti, ekki farið nánar í hér!). Rúm fjögur hundruð eru í farvatninu, og búast má við að þessar tölur skipti þúsundum eftir nokkur ár.

Við erum samt einungis rétt byrjuð að kroppa í toppinn á erfðabreytileika lífríkisins. Enginn veit hversu margar tegundir heilkjarna lífvera eru til á jörðinni, en fjöldinn er metinn á milli 10 og 100 milljónir. Að auki er venjan að raðgreina bara einn einstakling hverrar tegundar, en mikill munur getur verið á erfðaefni jafnvel náskyldra einstaklinga, vegna nýrra stökkbreytinga og endurröðunar litninga.

Ef við ígrundum bakteríur og veirur er fjölbreytileikinn mun meiri. Nú hafa erfðamengi rúmlega 700 baktería og fornbaktería (Archea) verið raðgreind, meðal annars nokkrir stofnar af E. coli með mismunandi sýkingarmátt.

Greining á samsetningu erfðamengjanna og DNA röð genanna hefur undirstrikað ályktanir þróunarfræðinga um skyldleika lífvera. Allar lífverur á jörðinni eru af sama meiði, en einnig hjálpað mikið við að afsanna tilgátur um skyldleika ákveðinna tegunda. Slík gögn sýndu til dæmis endanlega fram á að nánustu ættingjar mannkyns væru simpansar og afsönnuðu þá hugmynd að górillur væru mest skyldar manninum af núlifandi prímötum.

Röðin í fyrirsögn er úr Leafy geninu úr kakóplöntunni, svona sem smá forsmekkur af erfðamenginu.  Augljóslega þarf að gera heilmikla líffræði til að skilgreina hvernig erfðamengin starfa.


Lesa, gleypa og kyngja

Mikilvægi góðrar vísindablaðamennsku hefur komið til umfjöllunar hér. Oftast erum um leiðréttingar að ræða (dæmi, dæmi, dæmi) en einnig almennt aðhald við íslenska miðla um vísindaskrif (dæmi, dæmi).

Ben Goldacre birti nýlega pistil um mikilvægi góðrar vísindafréttamennsku. Fólk les slíkar fréttir og tekur mark á þeim, t.d. jukust skimanir fyrir brjóstakrabbameinum í Ástraliu um tugi prósenta vikurnar eftir að Kylie Minoque greindist með slíkt mein. Slíkt er dæmi um jákvæðar afleiðingar, en gagnrýnislaus lestur er ekki lestur. Það felst meira í því að vera fullorðinn og lesa blöð, gagnrýnin hugsun og geta til að setja upplýsingar í samhengi er öllum til bóta.

Við höfum löngum agnúast út í fréttamennina og krafist vandaðari vinnubragða af þeim. Sú krafa stendur enn, en ein af athugasemdunum við grein Bens var að eigendur blaðanna og ritstjórar beri einnig mikla ábyrgð. Sum blöð gera beinlínis út á misvísandi fyrirsagnir og sögur undir skekktu horni. Hversdagsleikinn selst ekki nægilega vel. 

Hinn forvitnilegi punkturinn var að vísinda og heilbrigðisstéttir gleypa líka við fréttum í blöðum, þótt fulltrúar þessara stéttu ættu að vera gagnrýnni og rökvísari en meðalmaðurinn. Grein frá 1991 í New England Journal of Medicine sýnir, skv. Goldacre, að vísindamenn voru líklegri til að vitna í greinar sem fengu umfjöllun í New York Times en ekki. Vísindin eru iðkuð af mannfólki og litast af hugmyndaauðgi þeirra og göllum.

Vísindalega mikilvægustu greinarnar eru ekki endilega þær sem komast í blöðin vikuna sem þær birtast. Í tilfelli Darwins og Wallace tók rúmt ár fyrir veröldina að átta sig og uppgötun Mendels lá í lítt lesnu riti um áratuga skeið.


Fyrsti stóri dagurinn

1 júlí 1858 var kynnt á fundi Linneaska félagsins í Lundúnum kenning um náttúrlegt ferli sem gæti útskýrt tilurð og fjölbreytileika tegunda. Lesnar voru greinar eftir tvo höfunda, annar starfaði við söfnun í austur indíum en hinn vann aðallega á sveitabæ sínum. Hvorugur þeirra sóttu fundinn, og fór efni hans og greinanna ekki hátt meðal fræðimanna árið 1858. Formaður félagsins komst svo að orði í árslok að árið hafi verið blessunarlega fábrotið á vísindasviðinu (full tilvitnun að neðan).

“The year which has passed has not, indeed, been marked by any of those striking discoveries which at once revolutionize, so to speak, the department of science on which they bear.”

Blessunarlega átti sagan eftir að sýna okkur að uppgötvun Alfred Russel Wallace og Charles Darwins á náttúrulegu vali átti eftir að umbylta líffræði og skyldum greinum. Greinar þeirra félaga sem kynntar voru þennan júlídag vöktu litla eftirtekt, og það þurfti útgáfu "um uppruna tegundanna..." ári síðar til að kynna hugmyndina ítarlegar og í allri sinni dýrð. Þar sýndi Darwin fram á þetta grundvallar lögmál líffræðinnar, sótti röksemdir jafnt í steingervingasögu, ræktun á dúfum, líffærafræði og líflandafræði, og kastaði einstöku ljósi á þessar fræðigreinar og aðrar. Nú eru 150 ár liðin síðan og næsta ár mun einkennast af hátíðahöldum til að marka afmæli uppruna tegundanna og þess að 200 ár verða liðin frá fæðingu Darwins.

Sjá frekari lesningu í pistli Oliviu Judson, Darwinmania og Michael Shermers um kynninguna 1 júli 1858 (fletta niður að "Real anniversary"). 


Stærra samhengi

Besti pistill vikunnar er eftir Sverri Jakobsson í fréttablaðinu. Þetta er dæmi um velígrundaðan pistil þar sem stærra samhengi hugmyndanna er rætt. Upplýsingin var ekkert smá mál og hugmyndafræði hennar er rótin að mörgum framförum. En upplýsingin krefst sífelldrar vinnu, framfarir eru aldrei endanlegar, það eru alltaf til öfl í samfélaginu sem sjá sér hag í að endurvekja hugmyndaheim fortíðar. Minn uppáhalds partur i pistli verris er:

"Efling menntunar á 20. öld er kannski mesta afrekið, en það væri ofmælt að líta svo á að arftakar upplýsingarmanna hafi unnið fullnaðarsigur á andvísindalegri hugsun. Og á Vesturlöndum er vísindaleg hugsun í kreppu. Barátta sköpunarsinna gegn kenningum Darwins hefur áorkað því að náttúrufræðikennsla í Bandaríkjunum er að hverfa 300 ár aftur í tímann."


Erfðir og móðuráhrif

Hvort skipta meira máli umhverfi eða erfðir? Þetta er klassísk spurning í líffræði og fer svarið m.a. eftir því hvaða ferli er verið að rannsaka og í hvaða lífveru. Áhrif erfðaþátta eru vegna stökkbreytinga sem breyta starfsemi gena, t.d. getur einhver stökkbreyting aukið magn prótíns sem framleitt er eða, leitt til þess að örlítið önnur útgáfa er mynduð. Slíkar breytingar geta verið hlutlausar (haft áhrif á eiginleika sem skipta frekar litlu, t.d. lögun eyrnasnepla) eða raskað mikilvægum ferlum, t.d. lífklukku eða ónæmiskerfinu.

Spurningin er samt flóknari í raun, því umhverfi getur haft bein áhrif á lífverur, eða óbein, t.d. í gegnum áhrif á foreldra. Það er nákvæmlega það sem nýja rannsóknin er að sýna fram á, að fæðuvenjur foreldra hafi áhrif á eiginleika afkvæma þeirra. Fyrirsögnin á BBC var "Mother´s junk food ´harms child´". Strangt til tekið eru þessi áhrif sem sáust í rottunum vegna umhverfis, og erfast ekki! (fyrirsögn fréttarinnar á mbl.is er því ónákvæm).

En, það er samt leið fyrir áhrif umhverfis til að erfast, með svokölluðum sviperfðum (epigenetics). Þá breytist röð basanna í DNAinu ekki, en samt erfist tjáningarmynstur þeirra. Um er að ræða t.d. viðhengi, svokallaða metýlhópa, sem er bætt við erfðaefnið á ákveðnum svæðum. Slíkir hópar hafa áhrif á tjáningu, þ.e. hvort að genið sé ræst og viðkomandi prótín sé framleitt.

Rétt er samt að árétta að jú þótt erfðir, umhverfi, móðuráhrif og sviperfðir geti öll haft áhrif á eiginleika, þá vega tveir fyrstu þættirnir mestu. Móðuráhrifin útskýra sjaldan meira en 10% af breytileika í svipgerð. Hlutverk og starfsemi sviperfða er vettvangur frjórra rannsókna, og vonandi skýrist fljótlega hversu mikilvæg slík ferli eru fyrir breytileika í svipfari, svo sem líkur á sjúkdómum og hvítum rifsberjum. 


mbl.is Fæðuvenjur erfast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband