Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Hreinlæti er af hinu góða

Sem hljómar vissulega ekki jafn spennandi og "óhreinindi eru holl". En það má færa fyrir því rök að hreinlæti sé mikilvægara en óhreinindi. Spurningin sem Weinstock og félagar velta upp, er hvort of mikið hreinlæti geti verið slæmt?

Ónæmiskerfi svara áreiti, aðallega vegna atlögu sýkla og einnig vegna náttúrulegrar bakteríu og sveppa flóru líkamans. Ónæmiskerfið bregst einnig við álagi (stressi), sem getur örvað ónæmissvarið.

Hvað er of mikið hreinlæti? Það að dauðhreinsa allan mat áður en hans er neytt er náttúrulega bilun, en á sama hátt vill maður meðhöndla svína og fuglakjöti af nærgætni til að koma í veg fyrir salmónellu eða campylobaktersmit. Hversu mikil mold má vera á gulrótinni sem maður nappaði úr beðinu hennar ömmu?

Trichinella_larvaeDEins Jane Brody útlistar í NY Times þá hafa vísindamenn gengið þrepi lengra og velta fyrir sér notagildi orma til að lækna sjálfsónæmissjúkdóma. Mænusigg (MS: multiple schlerosis) kemur til vegna þess að ónæmiskerfið ræðst gegn prótínum sem umlykja taugasíma og skaða þannig starfsemi taugakerfisins. MS sjúklingar sem eru sýktir af ákveðnum ormi ("human whipworm") eru með mildari einkenni en aðrir MS sjúklingar, sem bendir til þess að slík sýking dragi úr sjálfsónæmisviðbragðinu. Er stýrð sýking með ormum eða öðrum sýklum vænleg leið til að slá á einkenni MS og annara sjálfsónæmissjúkdóma? 

Á myndinn má sjá Trichuris trichiura, "human whipworm", hér í sýktum vöðva. Mynd af síðunni http://www.dpd.cdc.gov.

Það er ekki tímabært að endurskoða fæðupýramídann og tæplega að borða njálg í heilsubótarskyni, en við getum kannski aðeins slakað á í hreinlætisæðinu. Að borða gulrót með smá mold utan á er kannski ekki sú aðför að lýðveldinu sem maður óttast.

Sjá ítarlegri og betri grein eftir JANE E. BRODY um þetta efni á vefsíðu New York Times, "Babies Know: A Little Dirt Is Good for You".

Hér að neðan fylgir reglubundið aðhald við skrif mbl.is. Í grein mbl.is er undurfurðuleg setning:

„Börn, sem alin eru upp í ofurhreinu umhverfi, komast ekki í næga snertingu við örverur, sem eru þó forsendan fyrir því, að ónæmiskerfið virki vel,“ segir Weinstock og Mary Ruebush, sérfræðingur í örveru- og ónæmisfræðum, hefur skrifað bókina „Hvers vegna eru óhreinindi góð?“(feitletrun okkar)

Í hvern er vitnað hér, Weinstock eða ReuBush? Í ljós kemur að um er að ræða Joel Weinstock, sem var reyndar að tala um lífverur (organisms) en ekki bara örverur (microbes).

“Children raised in an ultraclean environment,”... “are not being exposed to organisms that help them develop appropriate immune regulatory circuits.”

Að auki leggur Joel áherslu á þroskun ónæmiskerfisins (e. "develop") sem er þýtt sem virkni af mbl.is, sem er svona eins og að ruglast á merkingu orðanna "framleiðsla" og "neysla".
mbl.is Óhreinindin eru holl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erindi: fullur pakki

Um helgina og í næstu viku verða nokkur erindi og kynningar á rannsóknarverkefnum, sem vert er að athuga. Fyrst ber að erindi um nafngiftir í líffræði, sem virkar e.t.v. dauft viðfangsefni, en sem reynist þegar betur er að gáð farvegur fyrir mikla sköpunargáfu og skopskyn. Einnig eru tvö erindi um vistfræði Mývatns og Alpana, auk varnar í sameindalíffræði, um rannsóknir á eiginleikum DNA límingarensims.

Fyrst ber að nefna fyrirlestur Jörundar Svavarssonar prófessors um nafngiftir á nýjum dýrategundum. Erindið verður laugardaginn 24. janúar nk., kl. 13.15, í Öskju, húsi Háskóla Íslands, stofu N 130. Í ágripi segir "árlega finnst fjöldi áður óþekktra dýrategunda, sem fá nafn sitt þegar lýsingar á þeim birtast í alþjóðlegum fræðiritum. .... Kynntar verða þær aðferðir sem beitt er við nafngiftir og fjallað um þau margvíslegu sjónarmið sem taka verður tillit til. Ræddir verða tískustraumar í vali á nöfnum og kynnt verða nöfn á ýmsum íslenskum tegundum, sem lýst hefur verið á undanförnum árum.

Vistfræðierindin tvö eru:

"Lífríkiskreppur í Mývatni ", þar sem Dr. Árni Einarsson líffræðingur fjallar um vistkerfi vatnsins, og þær miklu sveiflur sem í því verða. Erindið er hluti af fyrirlestraröð Hins Íslenska Náttúrufræðifélags, og er ítarlegt ágrip að finna á heimasíðu félagsins.Erindið verður Mánudaginn 26. janúar 2009, kl. 17:15 í fyrirlestrasal Menntaskólans við Sund, Gnoðarvogi 43.

Hafdís Hanna Ægisdóttir flytur erindið plöntulíf á háfjöllum - Æxlunarvistfræði og erfðabreytileiki gulklukku (Campanula thyrsoides) í slitróttum búsvæðum svissnesku Alpanna. Erindið er hluti af málstofu LbhÍ og verður flutt í húsnæði Landbúnaðarháskóla Íslands í Reykjavík á Keldnaholti mánudaginn 26. janúar klukkan 15. Hægt verður að fylgjast með erindinu á – www.lbhi.is.

Á sama tíma er nemandi hjá fyrrum leiðbeinanda mínum Sigríði H. Þorbjarnardóttur að kynna rannsóknir á geninu sem við krukkuðum í á sínum tíma. Þótt gulklukkur séu heillandi er maður alltaf veikur fyrir geninu "sínu".

Marteinn Þór Snæbjörnsson kynnir rannsóknir á BRCT hneppi DNA lígasa í Escherichia coli. Um er að ræða vörn 4. árs prófs verkefnis í líffræði við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Erindið fer fram mánudaginn 26. janúar 2009, kl. 15:15  í sal N-132 í Öskju, náttúrufræðahúsi, Sturlugötu 7.


Nálastungur og pílukast

Nýaldarfræði og óhefðbundnar lækningar eru sívinsælar, sem er traustur mælikvarði á ágæti þeirra og notagildi...hm. Ein slíkra aðferða er nálastungur, sem gengur út á að stinga nálum í líkama sjúklings með það að markmiði að lina þjáningar eins og mígreni. Oft er skírskotað til þeirrar staðreyndar að kínverskir nálastungumeistarar hafa stundað þessa iðn um árþúsundir og kortlagt staði á líkamanum sem heppilegast er í að stinga. 

Sem líffræðingur veit ég að taugar liggja á ákveðnum stöðum í líkamanum, og með með opnum hug gæti maður ímyndað sér að nálum stungið í ákveðnar taugar leiði til þess að heilinn hætti að heyra boð frá öðrum taugum (sem eru kannski vegna klemmdra tauga eða bólgu í einhverjum vef).

En hvað segja vísindalegar rannsóknir?  Ein tilraun var á þessa leið. Sjúklingum var raðað af handahófi í þrjá hópa. Einn hópur fékk enga meðhöndlun (viðmiðunarhópur). Í einstaklinga í öðrum hópnum var stungið nálum, á ákveðna staði sem skilgreindir hafa verið af kínverskum meisturum (kínverski-hópurinn). Nálum var einnig stungið í þá sem fylltu þriðja hópinn, nema hvað nálunum var stungið í þá hér og þar af handahófi  (tilviljana-hópurinn). (Sjá mynd af the Guardian af manni með nálar í andliti).

acupuncture1

 

Í ljós kom að fólki í viðmiðunarhópnum leið verst, en hinum leið marktækt betur. En athyglisverða niðurstaðan er sú að það var engin munur á því hvort nálarnar lentu á skilgreindum stöðum eða var stungið í sjúklinginn af handahófi. Semsagt pílukast blindingja er jafngott 3000 ára kínverskum fræðum. (Einnig finna þeir til jákvæðra áhrifa sem halda að nál sé stungið í sig - þá er nálinni bara ýtt á húðina en ekki stungið í hana.)

Þessar niðurstöður er tölfræðilega marktækar og eru samhljóma í endurteknum tilraunum, eins og lýst er í nýlegri yfirlitsgrein frá Klaus Linde og félögum við Tækniháskólann í Munchen. Hvernig má það vera að nálarstungu-lyfleysa (placebo) hafi sömu áhrif? Áhrifin eru greinilega andleg, og þá aðallega á skynjun einstaklingsins á sársauka og boðum frá líkamanum. Annað hvort platar sjúklingurinn sig alveg, eða að stungur geti leitt til þess að sársaukaboð fá þrálátum meinum fái lægri forgang í heilanum (þannig að viðkomandi haldi að sér líði betur!). Kínversku nálarstungukortin eru greinilega algert skýjaborg, eins og einkennandi er fyrir "hugmyndakerfi" óhefðbundina lækninga.

Ef nálastungur eru að plata heilann, þá er spurning hvort að þær hafi jákvæð áhrif þegar við (sem sjúklingar) höldum að þær séu að plata heilann?

Ítarefni

Ian Sample Even 'fake' acupuncture reduces the severity of headaches and migraines í the Guardian.

 


Urður, verðandi og skuld

Lykilhugmyndin sem fyrirtækið Urður, verðandi og skuld lagði upp með var að finna gen sem hefðu áhrif á allar gerðir krabbameina, ekki bara ákveðnar gerðir. Það er því sérstaklega ánægulegt að sjá að nýja greinin frá Íslenskri erfðagreiningu (sem keypti UVS á sínum tíma) fann einmitt slíka stökkbreytingu. Álíka ánægjulegt er að sjá að Þórunn Rafnar sem áður vann hjá UVS er fyrsti höfundur þessarar greinar.

Önnur af þeim tveim stökkbreytingum sem fundust á þessu svæði er í TERT geninu, sem skráir fyrir víxlrita ensímflókans telomerasa. Eins og við höfum rætt áður er telomerasi nauðsynlegur fyrir viðhald litningaenda og líklega sem slíkur fyrir stöðugleika erfðamengisins (pistill og pistill). (vinsamlegast einbeitið ykkur að vísindalegum fróðleik í eldri pistlum, og lítið framhjá nöldri, sem spratt úr blöndu ónákvæmra frétta og skapgerð ykkar auðmjúka þjóns).

Ágrip greinar Þórunnar Rafnar og félaga í Decode í Nature genetics.


mbl.is Mikilvægur áfangi á sviði krabbameinsrannsókna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framhald um þunglyndislyf og lyfjarisa

Kompás, fréttaþáttur stöðvar tvö mun í kvöld 19 janúar 2009 fjalla um þunglyndislyf og óvönduð vinnubrögð lyfjarisans Glaxo Smith Kline við kynningu á SSRi lyfjunum svokölluðu. Sjá auglýsingu á heimasíðu þáttarins á visir.is. Við bentum áður á pistil eftir Steindór J. Erlingsson sem tíundaði stöðu þessara mála. 

Af gefinni ástæðu er rétt að árétta tvennt. Í fyrsta lagi, þótt lyfjarisarnir séu uppvísir að óvönduðum vinnubrögðum og í sumum tilfellum hreinum lygum, þá þýðir það ekki að öll lyf séu ónothæf. Í öðru lagi, þá virkar hin vísindalega aðferð til þess að blása burt skýjaborgum og tálsýnum sem slíkir framleiðendur setja stundum upp í kringum VÖRUR sínar (rétt eins og hún nýtist til að slá botninn úr tunnum nýaldarsinna og snákaolíusölufólks).

Krafan hlýtur að vera að eftirlitskerfin verndi neytandann, ekki bara framleiðandann eða kaupsýslumanninn.


Vísindaskref ársins 2008

Byltingar eru sjaldgæfar í vísindum, þekkingingarleitinni miðar oftast áfram skref fyrir skref. Byltingar leiddar af einstaklingum enn sjaldgæfari. Það þarf að leita aftur í tímann til að finna dæmi um slíka einstaklinga, Newton, Copernicus, Darwin og Mendel. Sumum einstaklingingum er eignað meira en þeir eiga skilið, Thomas Morgan er eignað fyrsta genakortið, en það var í raun skilgreint af samstarfsmanni hans Sturtevant (fleiri einstaklingar í fluguhópnum í Columbia gerðu miklar uppgötvanir sem nafn Morgans er oftast tengt við).

Á síðari árum er það mun algengara að margir hópar vinni að áþekkum vandamálum, birti um þau í sama tölublaði vísindarits og dreifist heiðurinn af merkilegri (eða betur auglýstum) uppgötvunum því á fleiri staði. Það er einmitt tilfellið með það svið vísindanna sem tímaritið Science skilgreinir sem  framfaraspor ársins (fyrir árið 2007 voru það framfarir í mannerfðafræði, og árið 2006 rannsóknir á þróun.) Að mati ritstjórnar Science voru framfarir ársins í þroskunarfræði, nánar tiltekið í endurforritun á stofnfrumum "stem cell reprogramming".

science2008breakthrough.gifAllar frumur líkamans (með örfáum undantekningum) eru með sama erfðaefni, og mismunandi starfsemi fruma fer eftir því hvaða gen þær tjá og hvaða form þær taka. Frumurnar taka á þroskaskeiði sínu við boðum úr umhverfi, frá öðrum frumum, lesa styrk hormóna og boðefna og sérhæfast til einhverra verka. Stofnfrumur eru frumur sem ekki hafa sérhæfst, eða bara að hluta. Það er því mikilvægt fyrir skilning okkar á starfsemi stofnfruma og mögulegri hagnýtingu að skilja sérhæfingu fruma, og að geta stjórnað henni.

Nokkrir hópar birtu athyglisverðar greinar um endurforritun stofnfruma, jafnvel frumur sem ræktaðar voru úr sjúklingum með ákveðin heilkenni. Það eitt og sér er mjög forvitnilegt, því höfnun vegna ónæmisvars má yfirvinna með slíkri ræktun.

Tveir gallar eru á gjöf Njarðar. Heimturnar eru ekki góðar, einungis lítið hlutfall stofnfruma sérhæfist í þá frumugerð sem stefnt var að. Hinn gallinn er sýnu alvarlegri. Hingað til hefur þurft að erfðabreyta frumunum, með því að skutla inn í þær genum sem stýra þroskun. Slíkt er áþekkt því að reka járnkall inn í bílvél til þess að reyna að breyta starfsemi hennar. Í sumum tilfellum getur slíkt virkað en aukaverkanir eru óþekktar. Heppilegast væri að finna stjórnferla frumunnar sjálfrar og hafa áhrif á þá. Sem væri þá stýri, kúpling og gírar bifreiðar, ef við notumst við bílvélalíkinguna.

Tímaritið birtir einnig lista yfir 9 önnur framfaraspor, eins og greiningu á massa róteinda, skilgreiningu á plánetum í fjarlægum sólkerfum, framförum í rannsóknum á krabbameinum og flökt í byggingu prótína. En árið 2008 tilheyrði greinilega þroskunarfræðinni, þar sem rannsóknir á brúnni fitu (hún er líkari vöðvum en hvítum fitufrumum) og myndgreining á þroskun froska náði einnig inn á listann (skoðið endilega frábært myndband á síðu the Guardian). E.t.v. gerum við þeim framförum betri skil síðar.

Ítarefni. 

Pistill Magnúsar Karls Magnússonar um stofnfrumur.

Samantekt Gretchen Vogel fyrir Science magazine um endurforritun stofnfruma.

Frétt Ian Sample við the Guardian um sama efni.


Mars og spurningarmerkið

Bæði lífverur og ólífrænir ferlar geta leitt til myndunar metans. Gastegundin fannst nýverið á Mars, eins og vísindamenn NASA birtu í Science (sjá umfjöllun) og gert er ljómandi skil á Stjörnufræðivefnum.

Vissulega er möguleiki að metangasið sé af lífrænum toga en það er mörgum sinnum líklegra að  efnaferlar í iðrum Mars eða undir yfirborði hafi myndað gasið. Hugmyndin um líf á Mars kom fram fyrir nokkrum öldum, og var byggð á tilfinningu en ekki efnislegum rökum. Með framförum í sjónaukatækni og efnagreiningum fjarlægra hnatta tókst að sýna fram á að mjög ólíklegt væri að líf þrifist á Mars.

Samt lifir þessi hugmynd áfram, sem þjóðsaga sem NASA virðist gera út á að halda við. Hversu oft sér maður fyrirsagnir "Vísbending um líf á Mars?", "Maður á Mars?", "Merki um vatn á Mars, merki um líf?".

Eins og Ian Sample bendir á í the Guardian "Has Nasa found life on Mars?" eru svör við fyrirsögnum sem enda á spurningamerkjum nær alltaf neikvæð. Getum við láð Nasa að vilja vekja athygli á rannsóknum á Mars, stofnunin hefur gert heilmikið fyrir stjarnvísindin? Svarið við þeirri spurningu er já, við eigum að krefjast þess að vísindamenn og stofnanir vandi framsetningu á niðurstöðum sínum og ályktunum. Sérstaklega þegar fréttir hafa tilhneygingu til að brenglast í endursögn minni miðla eins og mbl.is.

Örlítill samanburður lokaathugasemdinni til stuðnings. Frétt BBC í endursögn mbl.is

Mikið af metangasi hefur fundist á þrem stöðum á plánetunni Mars, að sögn BBC. Gasið streymir upp úr jarðveginum og er skýringin annaðhvort jarðfræðileg virkni eða þá að gasið á sér lífrænar orsakir.

Fimm ár eru síðan metan var fyrst greint á Mars. Nú hefur komið í ljós að það eyðist ekki í sólinni eins og það ætti að gera ef um stundarfyrirbæri væri að ræða heldur er uppstreymið stöðugt.  Ekki er enn ljóst hvort gasið á sér rætur langt aftur í fortíðinni [eða] nútímanum, að sögn vísindamanna.

Inngangur fréttar BBC

Large quantities of methane gas have been detected on Mars, Nasa scientists have announced in Science journal.

The gas could be produced either by geological activity or by life.

Methane was detected in the Martian atmosphere five years ago; scientists have found it is more abundant over particular parts of the planet.

It should last for only a short time in the atmosphere until it is destroyed by sunlight, and so its continued presence means it is being replenished.

This suggests the methane is made by an ongoing process.

But the ultimate origin of the methane could either be an ancient or a modern one, say the researchers.

 


mbl.is Metan á Mars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugvekja Odds um líftækni

Eins og stundum vill verða dettur maður úr sambandi yfir hátíðirnar. Það var fyrst í þessari viku að ég rakst á öndvegis pistil frá Oddi Vilhelmssyni, sem birtist í Morgunblaðinu 18 des síðastliðinn, um tækifæri í vísindum og líftækni. Oddur rökstyður mikilvægi grunnrannsókna og óheftrar þekkingarleitar fyrir nýsköpun og framfarir í iðnaði. Oddur vitnar í nóbelsverðlaunahafann David Baltimore, sem leggur áherslu á grunnrannsóknir og heldur því fram að átak í grunnrannsóknum hafi verið lykillinn að velmegun Bandaríkjanna á síðustu áratugum. Reyndar held ég að rótin liggi í átaki sem hófst þegar sovétmenn skutu sputnik geimfarinu á loft. Þá áttuðu Bandaríkin sig á að menntakerfi þeirra var ábótavant, allavega í þjálfun eðlisfræðinga og verkfræðinga, og ýtta af stað átaki í menntun og grunnrannsóknum. Síðustu áratugi hafa bandaríkin einnig stundað nokkurskonar rjómafleytingu, þar sem þeir bjóða góðu erlendu námsfólki upp á doktorsnám og rannsóknarstöður. Þannig komast þeir í raun hjá því að bæta neðri stig menntakerfis síns, en geta viðhaldið mjög framsæknum rannsóknum á felstum sviðum vísinda. Blessunarlega snúa margir íslenskir vísindamenn aftur heim, en kúnstin verður auðvitað að hlúa nægilega vel að þeim, sérstaklega þeim yngstu og/eða ferskustu.

Mæli með því að þið lesið pistil Odds og sendið honum athugasemd ef þurfa þykir.


Er DNA lifandi?

Menn eru almennt sammála um að DNA sé ekki lifandi. Einangrað DNA í túbu er hvítur merkilega seigur hnoðri í lausn, en ekki er það lifandi. Ekki frekar en insúlín í lyfjaglasinu er lifandi. Þetta er eitt af undrum lífsins, lífverur eru settar saman úr hlutum sem eru ekki lifandi.

Strangt til tekið höfum við rétt snert á viðfangsefninu hér, en nokkura orða var þörf vegna ónákvæms orðalags í frétt á visir.is (Endurbyggðu nær allt erfðamengi loðfíls ). Viðfangsefnið er raðgreining á erfðaefni loðfíls sem rætt var hér fyrir áramót (Erfðamengi loðfílsins), en í því eru nokkrar misfærslur um eðli gena og erfðaefnis (sbr. tilvitnun að neðan - feitletrun okkar).

Einnig tókst þeim að fá gen úr tasmaníutígur til að lifa í líkama músar en tígurinn hefur verið útdauður síðan 1936. Engin von er þó til þess að risaeðlur líti dagsins ljós á ný þar sem erfðaefni lifir lengst í eina milljón ára.

Rétt hefði verið að segja að gen úr tígrinum geti starfað í líkama músar (sem er ekki merkileg frétt, fullt af genum hafa verið flutt á milli lífvera og geta myndað eðlileg prótín og tekið þátt í líffræðilegum ferlum - misjafnlega vel auðvitað). Varðandi seinni setninguna þá lifir DNA ekki. DNA er reyndar merkilega stöðugt efni, en með tíð og tíma skaddast basarnir og hryggur DNA keðjunar rofnar. Réttara væri að segja að elsta erfðaefni sem einangrað hafi verið sé innan við milljón ára gamalt. Þar af leiðir er upprisa risaeðlanna með erfðatækni ógerleg, og eins og við færðum rök fyrir í eldri pistli er upprisa loðfíla með slíkum aðferðum harla ólíkleg.


Þunglyndislyf og léleg tölfræði

Skríbertinn Ben Goldacre er í miklum metum hjá yðar æruverðugum. Ben skrifa pistla í the Guardian undir yfirskriftinni bad science. Hans sérgrein er að sundra lélegum rökstuðningi og gloppóttri tölfræði hvar sem hann er að finna. Skotmörk hans er bæði sjónvarpsfréttamenn, ljósritunarsinnaðir blaðamenn, snákasölumenn í öllum regnbogans litum og lyfjarisar. Ben hefur bent ítrekað á þá skelfilegu tilhneygingu lyfjarisanna til að birta bara jákvæðar niðurstöður úr lyfjaprófunum. En ef lyfja fyrirtæki prófar 20 lyf, er líklegt að eitt þeirra reynist hafa tölfræðilega marktæk áhrif (bara vegna tilviljunar - þegar miðað er við alfa upp á 0.05). Einnig eru áhrifin oft skelfilega veik, og spurning hvort jákvæðu áhrifin réttlæti hliðarverkanirnar, sem geta oft á tíðum verið ærið skrautlegar (og þjáningarfullar!).

Félagi vor Steindór Erlingson hefur ritað pistil í anda hr. Goldacres um þunglyndislyf og áhrif þeirra. Steindór þjáist af þunglyndi en er einnig ákaflega forvitinn og drífandi einstaklingur. Hann rýnir af fádæma skerpu í líkanið um að seratónín ójafnvægi sé ástæða þunglyndis, og sérstaklega notkun ákveðinna lyfja til að meðhöndla sjúkdóminn. Ef tilgátan um seratónin ójafnvægi er röng, þá er gagnast lyf gegn seratónin búskap ekki til meðhöndlunar. Þessu til stuðnings getur hann nokkura nýrra og eldri heimilda sem sýna fram á að mörg þunglyndislyf hafa ósköp veik ef þá marktæk áhrif sjúklingum til heilsubótar.

Ég hvet alla til að lesa pistillinn sem birtist í fréttablaðinu í dag og er einnig aðgengilegur á heimasíðu Steindórs.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband