Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2009

Stórviðburðir í náttúrunni

Viðvörun, lifandi sjónvarpsefni kemur á skjáinn í kvöld. Alvöru raunveruleikaþáttur um stórviðburði í náttúrunni. Um er að ræða þáttaröð frá BBC um öfl náttúrunnar og hversu víðtæk áhrif þau hafa á lífríki og vistkerfi, jafnvel óraveg í burtu. Þulur er náttúrufræðingurinn og heiðursdoktorinn David Attenborough.

Fyrsti þátturinn verður sýndur kl. 20.15 og er titlaður leysingarnar miklu á vef RÚV. Hann fjallar um breytingar sem verða á lífríki heimskautasvæða með tilkomu vorsins, sbr. vef RÚV:

Þegar veturinn er loksins liðinn og sólin hækkar á lofti yfir norðurheimskautssvæðinu verða þar miklar sumarleysingar og undan hafísnum birtast eyjaklasi, sund og höf. Konungar ísbreiðunnar, hvítabirnirnir, eru nú í háska staddir þegar þeir komast ekki út á ísinn til veiða en refir, mjaldar, náhvalir og gríðarstórir fuglahópar njóta þess að sumarið stutta gerir norðurheimskautssvæðið að gósenlandi.


Spurningar um líf og dauða

Hvers vegna lifa lífverur misjafnlega lengi?

Hvernig geta sumar lífverur svindað á dauðanum, með því að leggjast í dvala?

Hví lifa sumar flugur bara í einn dag, makast og deyja svo?

Hvernig getur fækkun hitaeininga lengt líf bæði orma og músa?

Geta hæfileikar sem nýtast ungiviði orðið þeim til trafala þegar þau fullorðnast?

Svörin við þessum spurningum liggja ekki á lausu, en hópur líffræðinga og lækna hefur á síðustu árum þokast nær, með smáum og oft tilviljanakenndum skrefum.

Einn fótvissasti vísindamaðurinn á þessu sviði er Linda Partridge, prófessor við Lundúnarháskóla. Hún mun fjalla um hina nýju líffræði öldrunar í fyrirlestri á morgun laugardaginn 28 nóvember kl 13:00 (í stofu 132 í Öskju - náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands - allir velkomnir).

Eftir margra áratuga þrotlausar rannsóknir hlýtur hún einnig laun erfiðs síns, í hennar skaut féllu fjögur glæsileg verðlaun á árinu.

2009. Darwin-Wallace medal, The Linnean Society of London

2009. Women of Outstanding Achievement award for Science Discovery, Innovation and Entrepreneurship, UKRC for Women - see www.ukrce4setwomen.org

2009 Royal Society Croonian Prize Lecture - see www.royalsociety.org

2009 Dame Commander of the British Empire, awarded for services to science


Lyfjafyrirtæki og blekkingar

Í framhaldi af fyrri umræðu hér um lyfjafyrirtæki og geðlyf vill ég benda lesendum á grein eftir Steindór J. Erlingsson, sem birtist í Fréttablaði dagsins (26 nóvember 2009).

Þar rekur hann svikamyllu GlaxoSmithKline lyfjarisans við markaðssetningu á SSRI lyfinu Seroxats.

Í fyrra birtust tvær vísindagreinar þar sem ítarlega er greint frá því hvernig GlaxoSmithKline (GSK) og forveri þess birti neikvæða rannsókn á virkni SSRI-lyfsins Seroxats sem „jákvæða“. Um er að ræða rannsókn nr. 329 á virkni Seroxats á þunglyndi í unglingum, sem birtist í Journal of the American Academy of Child and Adolescent Psychiatry (JAACAP) árið 2001. Þar er því haldið fram að lyfið „sé áhrifaríkt á meiriháttar þunglyndi í unglingum og almennt vel þolað“.

Í umræddum greinum kemur hins vegar fram að rannsókn nr. 329, auk tveggja annarra, leiddi í ljós að Seroxat var ekki fremra lyfleysu í að meðhöndla þunglyndi í unglingum, auk þess hafði lyfið slæmar aukaverkanir. GSK hafði áhyggjur af því að þessar neikvæðu niðurstöður gætu dregið úr sölu lyfsins til fullorðinna einstaklinga. Því var ákveðið að birta rannsóknina sem „jákvæða“ og var almannatengslafyrirtæki, sem sérhæfir sig í læknisfræði, fengið til þess að skrifa grein um rannsóknina. Eftir að fyrsta uppkast fyrirtækisins lá fyrir gerðu hinir eiginlegu „höfundar“ rannsóknarinnar, 22 talsins, litlar efnislegar breytingar á greininni þar til handrit var sent til birtingar.

Með hliðsjón af þessum vinnubrögðum Glaxo er mjög eðlilegt að fólk sé tortryggið um starfsemi lyfjafyrirtækja.

Einnig hlýt ég sem vísindamaður að vera virkilega svekktur yfir því hvernig sumir vísindamenn (að nafninu til) láta nota sig (viljandi eða ekki?!).

Vissulega duga vísindin til þess að afhjúpa svona svik, en það má ekki kosta líf og útlimi.


Stofnun helguð heilbrigðri öldrun

Í hinum vestræna heimi er öldrun álitinn hinn mesti ógnvaldur. Læknavísindin og líffræðin hafa engar  lausnir til að bægja frá öldrun, hrörnun og frelsa okkur frá dauða í eitt skipti fyrir öll.

Dauðinn er nefnilega eitt af lögmálum lífsins.

En er eitthvað hægt að gera til að stugga dauðanum frá um stundar sakir?

Vitanlega, læknavísindin geta lengt líf fólks með alvarlega sjúkdóma, gefið fólki nokkur góð ár í kjölfar áfalla sem áður drógu forfeður okkar krókloppna á Hornströndum til dauða.

En hvað með öldrun og hrörnun, getum við varist henni?

Niðurstöður úr einföldum tilraunalífverum eins og flugum og ormum sýna að stökkbreytingar í genum sem tilheyra ákveðnum kerfum geta lengt líftíma dýranna, og einnig hægt á hrörnun þeirra.

Hið stórmerkilega er að með því að draga úr fæðuinntöku má stuðla að sambærilegum ávinningi.  Það er ef fæðan er næringarrík, en ekki með of mikla orku, (caloric restriction) þá lengir það líf tilraunadýra.

Það má e.t.v. setja inntakið í slagorð gæði en ekki alls ekki magn.

portico_spring_2Linda Partridge, þróunarfræðingur við  Lundúnarháskóla, er framarlega í rannsóknum á þessum öldrun. Hún hóf sinn feril í vist og þróunarfræði, með doktorsverkefni við Oxford háskóla. Hennar fyrsta grein fjallaði um búsvæðaval smáfugla (Titmice).

Leiðin frá vistfræði fugla til rannsókna á öldrun er merkilega stutt, því á sínum ferli hefur Linda einbeitt sér að fæðuatferli, lífssöguþáttum og samkeppni milli maka. Grundvallarhugmyndin er samt komin frá Darwin og Wallace, lífið á jörðinni er afurð náttúrulegs vals. Við getum lært um líffræði mannsins með því að skoða aðrar lífverur.

Linda Partridge er forstöðumaður stofnunar sem heitir Stofnun heilbrigðrar öldrunar - Institute of Healthy Ageing - www.ucl.ac.uk/iha/) - mynd af vefsíðu stofnunarinnar.

Linda mun halda tvö erindi hérlendis í næstu viku. Annað verður fræðilegs eðlis, og kallast Diet, death and demography (föstudaginn 27 nóv, kl 16:00) en hitt verður yfirlit um hina nýju líffræði öldrunar (laugardaginn 28 nóv kl 13:00).

Bæði erindin verða í Öskju, flutt á ensku (móðurmáli frú Partridge) og opin öllum sem hlýða vilja.


Útgáfuafmæli - uppruna tegundanna 24 nóvember

Háskóli Akureyrar og Háskólinn á Hólum efna til ráðstefnu í tilefni 150 ára afmælis Uppruna tegundanna undir yfirskriftinni Undur náttúrunnar.

Að tilefni afmælis Darwins og bókar hans er líka staðið fyrir fyrirlestraröð, næsta erindi fjallar um hina nýju líffræði öldrunar.

Sjá einnig umfjöllun okkar um bókina, frá 149 ára afmælinu í fyrra. "Um uppruna tegundanna..." gefin út

Það er reyndar spurning um hvernig sé best að fagna svona afmæli. Á að leggja áherslu á bókina, höfundinn, hugmyndirnar eða framvindu í moldarhaug?

Á afmæli Darwins 12 febrúar halda sumir sérvitringar matarveislu, þar sem maturinn verður að hafa Darwinlega, þróunarlega eða náttúrulega skírskotun.


Fjölbreytileiki sjávarlífsins

Í kjölfar landafundana miklu voru sendir út af örkinni leiðangrar sem könnuðu náttúru Afríku, Ameríku, Asíu og Ástralíu. Fyrir 300 árum vissi enginn á Íslandi að til væru kengúrur, hvað þá breiðnefir eða pandabirnir. Charles Darwin og Alfred Wallace ferðuðust um heiminn og söfnuðu eintökum af áður óþekktum plöntum, dýrum og steingervingum. Það varð kveikjan að hugmynd þeirra um þróun og um hlutverk náttúrulegs vals sem vél sem útskýrir aðlaganir lífvera að umhverfi sínu.

Höfin eru minnst kannaði hluti jarðarinnar, þrátt fyrir að þekja stóran hluta plánetunar og innihalda gríðarlegan lífmassa og fjölda tegunda. Það er því gríðarmikið verkefni fyrir höndum að kortleggja lífríki undirdjúpana.

pycnoeggs.jpg

Fyrir rúmum áratug var sett í gang verkefni með þetta markmið, Census of Marine Life. Verkefnið er mjög metnaðarfullt, og inniheldur stofnanir frá um 80 þjóðlöndum, þar á meðal Hafrannsóknarstofnun.

crossota_935425.jpg

Afraksturinn hefur verið kynntur með vísindagreinum, en einnig myndböndum, bókum og fleiru í þeim dúr (ekki undarlegt þar sem National geographic er einn af lykil þátttakendunum).

arcticpycnopodia.jpg

Við að sjá framandi lífverur (sbr myndir af vef COML) líður manni eins könnuði, sem er að takast á við eitthvað nýtt. Fyrir mér er það skemmtilegasta við líffræðina ekki endilega það sem maður veit, heldur allt sem maður á eftir að læra.

Viðbót:

Sjá einnig á síðu BBC.


mbl.is Fjölskrúðugt líf við hafsbotn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Darwin bolir í úrvali

Hagsmunafélag líffræðinema (haxi, einnig á fésbók) hefur séð um veitingar og kaffi í kringum Darwin dagana 2009.

Darwinbolur1 Haxi lét búa til boli í tilefni Darwin daganna, sem verða seldir nemendafélaginu til stuðnings (2000 ISK stykkið) - hafið samband við Haxa.

Nokkur litatilbrigði eru til en mest er eftir af þessum gráu (sjá til hliðar). Aðrar litagerðir eru gult (stelpusnið og small), fjólublátt (small) og brúnt (strákasnið - large).

Myndirnar er teiknaðar af listapennanum Bjarna Helgasyni (sjá einnig Ekkert), sem skóp meðal annars bæklinginn fyrir nýafstaðna líffræðiráðstefnu hérlendis og plakatið fyrir Darwin dagana (mynd að neðan).

 DarwinVeggspjald


Maís með fleiri gen en maður

Maís er eitt af undrum landbúnaðar. Á nokkrum árþúsunum tókst forfeðrum okkar að beisla villtar plöntur og velja úr afbrigði sem gáfu miklar afurðir. Bændurnir nýttu sér grundvallaratriði þróunarlögmáls Darwins, mannkyninu til hagsbóta.

Tilurð maís úr villtu plöntunni Teosinte er dæmi um mikilfenglegar breytingar vegna ræktunar.

25_EVOW_CH11 Munurinn er mjög afdrifaríkur eins og sjá má mynd úr kennslubók Barton og félaga, teosinte er vinstra megin, maís hægra megin, og blendingur í miðið (www.evolution-textbook.org).

Nú er svo komið að erfðamengi maísplöntunar hefur verið raðgreint að mjög stórum hluta, sjá greinar í Science vikunnar. Erfðamengi hennar er með um 32000 gen, sem er um 7000 fleiri en það sem finna má í erfðamengi mannsins.

Lengi vel var talið að fyrst að maðurinn væri svona flókinn og fullkominn hlyti hann að vera með 100000 gen.

ZeaMaysScience

Myndin hér til hliðar er af forsíðu Science þar sem nokkrar greinar um erfðamengi og breytileika í Maís voru birtar í dag.

Maís hefur lengi verið eftirlæti erfðafræðinga, þeirra þekktust er e.t.v. Barbara MacClintock sem fann í þeim stökkvandi gen (transposable genes - einnig kallað stökklar á íslensku) - og hlaut Nóbelsverðlaunin 1983 fyrir uppgötvun sína.

Stökklar taka þátt í að mynda hina ævintýralegu litadýrð sem einkennir indjánakornið (indian corn). Þakkir hafi þeir fyrir "gjörðir" sínar.

Ítarefni:

Schnable o.fl. The B73 Maize Genome: Complexity, Diversity, and Dynamics Science 20 November 2009: Vol. 326. no. 5956, pp. 1112 - 1115

Uppruni hænsna og nautgripa


Undur náttúrunnar - 24 nóvember

Þriðjudaginn 24 nóvember 2009 verða 150 ár liðin frá útgáfu uppruna tegundanna. Að því tilefni efna Háskóli Akureyrar og Háskólinn á Hólum til ráðstefun undir heitinu Undur náttúrunnar.

Fyrirlestrarnir skiptast í nokkrar málstofur:

Náttúra Norðurlands: Svipmyndir úr dýraríki, jurtaríki og hinum hulda heimi örvera

Sameinaðir stöndum vér: Sambýli örvera, dýra og jurta í náttúru Íslands

Vor dýrasti arfur: Hlutverk erfða í þróun lífvera

Úrsmiðurinn blindi: Þróun mannsaugans, finkugoggsins og annarra furðuverka

Hvað þýðir þetta allt? Áhrif þróunarkenninga á hugmyndasögu og vísindaheimspeki

Dagskrá í heild sinni.

Meðal fyrirlesara er yðar auðmjúkur, Steindór J. Erlingsson og Hafdís Hanna Ægisdóttir, allt meðlimir í hófsama og handprjónandi armi Darwinistafélags Íslands. Hafdís mun tala um lífríki eyja bæði á þriðjudaginn og núna á laugardaginn (21 nóvember).

Leiðrétting:

Í fyrstu útgáfu af pistlinum var misritaður fjöldi ára frá útgáfu upprunans, hann er 150 ekki 200. Nafna er kærlega þökkuð ábendingin.


Mekka líffræðinga

Galapagos eyjar eru örugglega sá staður í veröldinni sem flestir líffræðingar myndu kalla sitt helga vé. Hlutleysi vísindanna er oft hampað en mannlegur breyskleiki hefur samt mikið að segja um framvindu mála. Á sama hátt hefur sköpunargáfa einstakra vísindamanna oft opnað mannlífinu
nýja heima og gefið okkur djúpstæðan skilning á lífi og náttúru.

Einn slíkur vísindamaður var Charles Darwin. Í ár höfum við fagnað afmæli hans, með pompi, prakt og fyrirlestrum.

Nafn Darwins er samofið Galapagos eyjaklasanum, sem skip hans hátignar HMS hvutti (Beagle) heimsótti árið 1835.

GalapagosKort

Mynd af vefsíðunni Galapagos.org.

Lífríki eyjaklasans er mjög sérstakt, sæljón, skjaldbökur, finkur og aðrir fuglar. Þar sjást mjög skýr merki um áhrif náttúrulegs vals, sérstaklega í útliti og lífsháttum finkanna, eins og Peter og Rosemary Grant ræddu um í sínum fyrirlestrum.

Það má þess vegna kalla Galapagos Mekka líffræðinga.

Nokkrir íslenskir líffræðingar hafa heimsótt eyjarnar, þar á meðal Hafdís Hanna Ægisdóttir líffræðingur. Næstkomandi laugardag fjallar hún um sérstöðu lífríkis eyja.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband