Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2009

Afmælisfundur Hins íslenska náttúrufræðifélags

Það voru fleiri en Charles Darwin og Galileó Galilei sem áttu afmæli á árinu 2009. Hið íslenska náttúrufræðifélag var stofnað fyrir 120 árum, og að því tilefni á að halda málþing um náttúruminjasafn þann 28. desember.

Fundurinn verður í Þjóðmenningarhúsinu sem hýsti náttúrugripasafn Íslands á tímabili, og hefst kl 13:00. 

Dagskrá afmælisfundarins er eftirfarandi:

Kl. 13:00 Kristín Svavarsdóttir formaður HÍN.
Hið Íslenska náttúrufræðifélag 120 ára.
Kl. 13:20 Guðmundur Páll Ólafsson rithöfundur og náttúrufræðingur.
Íslandssafn - að sá, virða og uppskera.
Kl. 13:50 Sigurjón Baldur Hafsteinsson lektor í safnafræði við HÍ.
Af samtíð og framtíð Náttúruminjasafns Íslands.
Kl. 14:10 Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri.
Hvaða máli skiptir náttúruminjasafn fyrir ferðaþjónustuna?

Kl. 14:30 Kaffihlé

Kl. 15:00 Pallborðsumræður
Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra
Ásborg Arnþórsdóttir, ferðamálafulltrúi uppsveita Árnessýslu
Eygló Friðriksdóttir skólastjóri Sæmundarskóla
Helgi Torfason, safnstjóri Náttúruminjasafns Íslands
Jón G. Ottósson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands
Hilmar J. Malmquist ritari HÍN

"Á síðasta aðalfundi HÍN sem haldinn var í Kópavogi laugardaginn 28. febrúar 2009 var samþykkt ályktun um Náttúruminjasafn Íslands sem má lesa hér. "

Sjá einnig ályktun stjórnar líffræðifélags Íslands í viðhengi.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Jólapistlar Prakkarans

Fyrir nokkru rakst ég á yndislegan pistil eftir Jón Steinar Ragnarsson, einnig þekktur sem prakkarinn á blog.is. Hann tekur fyrir rómantíska sýn okkar á lífið í gamla daga, dásamlega fátæktina og óbilandi vinnusemi og elju fólks sem barðist fyrir lífi sínu á mörkum hins byggilega heims. Lýsingar pattaralegra nútímamanna ná ekki að lýsa glæsileika fortíðar, O, sei sei. Það var nú í þá daga.

Jólamáltíðin var safaríkt lambslæri, sem móðir mín svaf með í 3 nætur til að þýða það, en of kalt var á bænum til að það þiðnaði öðruvísi. Það var alltaf mikil eftirvænting sem hríslaðist um börnin, þegar mamma lagðist með lærinu, því þá vissu menn að hátíð færi í hönd. 

Prakkarinn er ekki einungis dásamlegur penni með skarpt skopskyn, heldur einnig mikill kveðskapar og listaáhugamaður. Jólin koma einnig við sögu í nýlegum pistli hans um enskt jólasjónvarp Við göngum himinveg.


Sardínugangan mikla

Í þáttaröðinni stórviðburðir í náttúrunni verður í kvöld fjallað um sardiníugönguna miklu. Þættirnir eru á dagskrá RÚV kl. 20:20 á mánudagskvöldum. 

Hér var fjallað áður lítillega um stórviðburði í náttúrunni og ég get staðfest að tveir fyrstu þættirnir, um bráðnunina miklu á norður heimskautinu og laxagöngurnar í Alaska voru stórkostlegir.

Er ekki við hæfi að slaka aðeins á fyrir vetrarsólstöðurnar og rifja upp hvernig það er að borða sardínur...já og horfa á sardínur, og dýr að borða sardínur.


Frábær rannsókn

Við þróunarfræði og vistfræðideild Chicagoháskóla er haldinn í hverri viku lesklúbbur um nýlegar rannsóknir í þróunarfræði. Þegar ég vann við deildina (2003 til 2006) var fundunum stjórnað af Janice Spofford, sem kallaði fundina hádegisljóma (Noon illumination). Lesklúbburinn var áður rekinn af Brian Charlesworth (áður en hann fór aftur til Bretlands), og gekk undir nafninu hádegismyrvki (Darkness at noon) vegna þess hversu harða gagnrýni flestir pappírarnir fengu.

Það voru aðallega doktorsnemar og nýdoktorar sem fjölluðu um nýlegar greinar, og ein þeirra sem ég fjallaði um var grein Michael D. Shapiro, Bjarna Jónssonar og félaga (2004 í Nature)*.

Greinin fjallaði um kortlagningu á genum sem hafa áhrif á kviðbrodda (kviðgadda) hornsílisins. Hornsíli lifa venjulega í sjó eða ísöltu vatni, en hafa nokkrum sinnum ruðst inn í ferskvatn. Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir hefur rannsakað hornsíli hérlendis, og fjallaði meðal annars um þau í erindi um uppruna tegunda á ÍslandiDarwin dögunum 2009). Mörg hornsíla afbrigði í ferskvatni hafa misst brynplötur og jafnvel kviðbrodda sem verja fiskana afræningjum. Talið er að slíkar varnir séu kostnaðarsamar og óþarfar í ferskvatni, og að þess vegna sé náttúrulega valið gegn þeim. Rannsókn Shapiro o.fl. er nú getið í mörgum kennslubókum (sbr. mynd úr bók Barton og félaga).Pitx1_hornsili_Barton

Lykil punktur í greininni var sú staðreynd að sama svæðið í erfðamenginu útskýrði tap á kviðbroddum í kanadískum og íslenskum hornsílum. Höfundarnir leiddu líkur að því að breytingar þroskunargeninu Pitx1 væru ábyrgar. Spurningin sem eftir stóð var sú hvort að um sömu breytingu í Pitx1 væri að ræða í Kanada og á Íslandi, eða hvort að mismunandi breytingar lægu til grundvallar. 

Þetta tengist spurningunni um það hvort þróun endurtaki sig? Ef í ljós kæmi að mismunandi breytingar í sama geni á mismunandi stöðum væru það rök fyrir þeirri tilgátu að þróun geti endurtekið sig.

Nýja rannsóknin sýnir þetta einmitt. Pitx1 genið hefur orðið fyrir ólíkum stökkbreytingum í 5-6 mismunandi stofnum. Afleiðingar stökkbreytingana eru alltaf þau sömu að ekki er kveikt á geninu í þeim hluta hornsílafóstursins sem leiðir til myndunar kviðbrodda.

Þroskunarfræðingar hafa löngum haldið að þróun geti gerst í stökkum, þegar róttækar stökkbreytingar ná hárri tíðni og verða allsráðandi í einhverjum stofni. Þótt Pitx1 genið hafi vissulega róttæk áhrif, þá er um að ræða tap á eiginleika en ekki tilurð nýjungar. Það er alltaf erfiðara að byggja upp en brjóta niður, og líklegast þarf fjölda smárra stökkbreytinga til að slípa þróunarlegar nýjungar, en fáar og róttækar til að fjarlægja aðlögun (t.d. að kippa fótunum undan hvölum).

* Þótt oft hafi verið harkalega farið með greinar í lesklúbbnum í Chicago, fannst ekki veikur blettur á niðurstöðum Shapiro o.fl. frá 2004.

Chang o.fl. Science 10 desember 2009 Adaptive Evolution of Pelvic Reduction in Sticklebacks by Recurrent Deletion of a Pitx1 Enhancer

Fleiri greinar Kingsley og félaga um hornsílin.


mbl.is Veitir vísbendingar um stökk í þróuninni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

15 sígarettur leiða til einnar stökkbreytingar

Langflestar stökkbreytingar eru skaðlegar. Einhver hluti stökkbreytinga er hlutlaus, þ.e. hefur engin áhrif á starfsemi genanna og lífvænleika viðkomandi einstaklings. Mikill minnihluti stökkbreytinga er til bóta. Það er allt í lagi því náttúrulegt val getur bæði hrifið nýjar betrumbætur og aukið tíðni þeirra, og haldið skaðlegum breytingum í lágri tíðni.

Náttúrulegt val virkar bara á stofna lífvera, það á ekki við um það sem gerist á lífsferli hvers einstaklings fyrir sig. Þess vegna geta stökkbreytingar sem verða á líkamsfrumum okkar safnast upp og valdið heilmiklum skaða. Krabbamein eru að hluta til orsökuð af uppsöfunun skaðlegra stökkbreytinga í líkamsfrumum. Þegar nægilega margar skaðlegar breytingar hafa orðið í ákveðinni frumu eða frumuhóp þá losnar um fjandann. Breytingarnar hafa margskonar áhrif (þær geta eyðilagt viðgerðarkerfi, stýrt frumunni í stjórnlausar skiptingar og losað þær úr viðjum vefsins sem þær eiga uppruna sinn í), sem leiða til æxlisvaxtar og meinvarpa.

Nokkrir alþjóðlegir hópar eru nú að kanna hvaða stökkbreytingar eru algengastar í nokkrum gerðum krabbameina. Á vef BBC er fjallað um eina rannsókn á þessu sviði, þar sem breytingar í vefjasýnum úr lungna og skinnkrabbameinum voru rannsakaðar.

Í húðkrabba fundu þeir um 33,345 breytingar á erfðamenginu, og í lungnakrabba 22,910. Flestar þeirra eru saklausar (í þeim skilningi að þær leiða ekki til æxlisvaxtar!), en einhverjar lentu í genum sem sjá um viðgerð, hindra fjölgun eða hjálpa frumum að halda sér á mottunni. Slíkar breytingar geta ýtt undir krabbamein!

Vísindamennirnir skoðuðu þær gerðir stökkbreytinga sem fundust í æxlunum og leiða líkur að því að sólarljós og krabbameinsvaldandi efni í sígarettum séu alvarlegustu áhættuþættirnir (í húð og lungnakrabba!). Þeir mátu áhrif reykinga á tíðni stökkbreytinga, og reiknuðu út fyrir 15 sígarettur megi búast við einni stökkbreytingu í lungnavef.

Nálgun þessara hópa er önnur en annarra, sem hafa kortlagt arfgengar stökkbreytingar sem geta ýtt undir líkurnar á krabbameini (eins og Íslensk erfðagreining, Broad Instititue og Wellcome trust og fleiri aðillar hafa gert).

Báðar nálganir hafa sitt notagildi, en það er samt mikilvægt að átta sig á að þessar niðurstöður leiða ekki beint til meðferðarúrræða. Vonin er kannski helst sú að þær hjálpi fólki að sjá áhættuna sem liggur í sígarettum og of miklum sólböðum.

Ég vil þakka Dr.Z. fyrir að benda á þessa grein, Jóhannesi og Arnari ábendingar um jafnaðarmerkið (upphaflegi titill pistilsins var 15 sígarettur = ein stökkbreyting).

BBC Experts crack cancer 'gene code'

Cancer genomes reveal risks of sun and smoke Brendan Borrell  Nature 16 desember 2009

Vísir sagði frá þessari rannsókn, á sorglega yfirborðskenndan hátt. Á grein þeirra má ætla að reynt hafi verið að kortleggja arfgengar breytingar sem auka líkurnar á krabbameinum.


Sannleikurinn um þróun, ala laukurinn

Þrír virtir líffræðingar, og strákurinn úr "growing pains" fjalla um þróun.

evolution.jpg Þetta minnir mig á atriði í The man of the year, þar sem spaugari sem Robin Williams leikur verður allt í einu forseti Bandaríkjanna.

Í einu atriðinu er verið að ræða Kastljós, þátt þar sem tveir aðillar eru fengnir inn til að ræða um eitthvað málefni. Ein persónan í myndinni segist ekki þola slíka þætti af því að í slíkum þáttum er báðum gert jafn hátt undir höfði, söguprófessornum og geðsjúklingnum sem dettur í hug að afneita helförinni.

Stundum leika fjölmiðlamenn þennan leik, lyfta undir sögusagnir eða halda uppi orðspori fólks sem er hreinlega ekki með báða fætur á jörðinni.

Fjölmiðlamenn verða að búa að grundvallarþekkingu um raunveruleikann. Það er freistandi að feta sanngirnisstíg milli ólíkra skoðanna, en það má ekki kasta rýrð á þekkt lögmál og staðreyndir. Þyngdaraflið er lögmál, þróun er lögmál, maðurinn er að rústa umhverfinu og sjúkdómar verða ekki læknaðir með milljarðafalldri þynningu á hrossataði.

Myndin er forsíða á lesbók lauksins, sem hittir stundum í mark.

Að auki vill ég benda á að í lauknum eru síðustu 4,5 milljarða ára gerð upp (ekki bara 2009), í frábærri 10 punkta syrpu. Nokkur sýnishorn.

Sumerians Look On In Confusion As Christian God Creates World

Dinosaurs Sadly Extinct Before Invention Of Bazooka

Rat-Shit-Covered Physicians Baffled By Spread Of Black Plague

New 'War' Enables Mankind To Resolve Disagreements


Erindi: Mjölhaus á föstudaginn

Bogi Andersen vinnur við Læknisfræði- og Lífefnafræðideildir Kaliforníuháskóla í Irvine (Departments of Medicine and Biological Chemistry, University of California, Irvine).

Hann hefur verið að rannsaka myndun þekjufruma, sem koma m.a. að þroskun hársekkja, mjólkurkirtla og augnaloka. Rannsóknirnar hafa leitt hann að umritunarþættinum Grainyhead (sem er kveikjan að titli pistilsins), og hann mun halda erindi næsta föstudag (18. des. 2009 kl 13:00 í 132 í Öskju). Titill erindisins er Grainyhead: an evolutionarily conserved transcription factor for epithelial barrier formation.

virgin2.jpgMyndin hér til hliðar er af mjólkurkirtlum 6 vikna gamallar músar. Mjólkurgangarnir eru litaðir með bláu, og þeir þræðast inn í vefinn og munu þannig geta safnað saman mjólk sem myndast allsstaðar í músabrjóstinu. Myndin er af síðu rannsóknastofu Boga og félaga.

Bogi er sannur íslendingur og tileinkar hluta vefsíðu rannsóknarhópsins sögunni, sýnir m.a. myndir af bernskuslóðunum í Vestmannaeyjum.

Tilkynning á vef HÍ.

Vefur rannsóknastofu Boga Andersens.


Kolkrabbar eru þrælsnjallir

Ráða má af hegðun margra tegunda dýra að þau búi að greind, rökvísi og tilfinningum.

Þetta var viðfangsefni okkar í pistli um andlega vanfæra menn.

Þar var vísað meðal annars í grein í National Geographic sem ræðir m.a. frábærlega snjallan kolkrabba.


mbl.is Kolkrabbar ekki eins vitlausir og þeir virðast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Egill rokk

Brjálaða býflugan frændi minn ætlar að halda ókeypis tónleika í listasafni Reykjavíkur  nú á fimmtudaginn (17. des.) kl 20:30.

Egill Sæbjörnsson verður með tónleika ásamt mörgum, kunnum tónlistarmönnum í Listasafni Reykjavíkur - Hafnarhúsi næstkomandi fimmtudagskvöld kl. 20:30. Aðgangur er ókeypis en tónleikarnir eru haldnir í tilefni af sýningu hans Staðarandi og frásögn sem nú stendur yfir í Hafnarhúsinu og nýlegum geisladiski. Tónleikarnir eru  í samstarfi við hljómplötuútgáfuna Borgin. Á tónleikunum leikur Egill ýmis lög frá ferli sínum.

Vonandi spilar hann býflugulagið (sjá Myspace).

Í kvöld verður sýnd heimildamynd um pjakkinn á RÚV (kl. 21:25).

Heimildarmyndin er gerð af frönsku sjónvarpsstöðinni Arte og var frumsýnd samtímis í Frakklandi og Þýskalandi fyrr á þessu ári.
Egill hefur verið virkur í hringiðu myndlistarinnar á meginlandi Evrópu undanfarin tólf ár, en sýning hans Staðarandi og frásögn sem nú stendur yfir í Listasafni Reykjavíkur - Hafnarhúsi er fyrsta stóra einkasýning hans í safni hér á landi. Vegleg bók um listamanninn kom út fyrir skömmu og er hún fáanleg í Listasafni Reykjavíkur og bókaverslunum. Sýning Egils stendur til 3. janúar 2010.


Eru til karlkyns eggjastokkar?

Stefán Vilberg á Vísindin.is tók saman pistil um nýlega rannsókn um þroskun og viðhald eggjastokka.

Hvernig vita allar frumur í líkamanum hvers kyns viðkomandi einstaklingur er? Það eru til dæmi úr skordýrum, þar sem líkamar dýranna eru samsettir úr kvenkyns og karlkyns vefjum. Ímyndið ykkur slíkt spendýr, með mjaðmir konu, brjóstkassa karls og andlit stúlku!

Hjá spendýrum er Y tengda genið SRY kynákvarðandi, tjáning þess dugir til að viðkomandi verður karlkyns. SRY vinnur með nokkrum öðrum genum, en nú kemur í ljós að ef sum þessara gena eru gölluð þá geta eggjastokkar farið að líkjast eistum.

Eru til karlkyns eggjastokkar?

Stefán sendi mér pistilinn til yfirlesturs, og ég krukkaði aðeins í honum, vonandi til batnaðar. Við vorum sammála um að þetta væri heppileg leið, þá "þarf" ég ekki að nöldra í athugasemdum um hin og þessi atriði, tæknileg og fræðileg. Það er vitanlega hræðilegt að fá sína gleði úr nöldri, en einhvert verða súrir sýruna að sækja. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband