Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Aðlögun að dýpi

Niðurstöður Einar, Kristjáns og Ubaldo byggja á meistaraverkefni þess síðarnefnda, þar sem hann rannsakaði tíðni tveggja gerða Pan I gensins í íslenskum þorskum. Arfgerðirnar AA, AB og BB sýna mjög sterkt samband við dýpt eins og sjá má á mynd úr grein þeirra. Teiknuð er tíðni A gerðarinnar (Y ás) sem fall af dýpi (X ás). fetchObject.action?uri=info%3Adoi%2F10.1371%2Fjournal.pone.0005529

Fyrir utan samband milli dýpis og arfgerðar Pan I gensins setja þeir einnig fram niðurstöður um aldursdreifingu fiskanna eftir arfgerð sem sýnir að A gerðin er á undanhaldi í stofninum. Og valkrafturinn er gríðarlegur, miðað við stuðla sem þeir meta má áætla að A gerðin hverfi á 4-5 kynslóðum.

Samkvæmt líkönum og mælingum eru áhrif náttúrulegs vals helst mælanleg yfir hundruði eða tugþúsundir kynslóða. Gervival, eins og menn hafa stundað í ræktun, getur leitt til afdrifaríkra breytinga á nokkrum kynslóðum. Það er greinilegt að afrán okkar á fiskistofnum líkist meira gervivali en því náttúrulega, og því mun meiri ástæða til að rannsaka slíka stofna ítarlega og umgangast þá af kostgæfni.

Grein Einars og félaga í PLoS One Intense Habitat-Specific Fisheries-Induced Selection at the Molecular Pan I Locus Predicts Imminent Collapse of a Major Cod Fishery

Frétt RÚV 29 maí 2009 og viðtal við kallinn í fréttaskýringarþættinum speglinum sama kvöld.

Umfjöllun New Scientist er í æsifréttastíl Turbo-evolution shows cod speeding to extinction


mbl.is Telur þorskstofninn í hættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rangfærslur um erfðabreytt bygg

ORF líftækni er fyrirtæki sem sérhæfir sig í framleiðslu prótína í erfðabreyttum byggplöntum. Fyrst sá ég til ORF manna, þegar Einar Mäntylä hélt fyrirlestur í líffræðinni um frostþol plantna og hvort mögulegt væri að auka þol þeirra með því að breyta erfðamengi þeirra markvisst.

ORF líftækni gengur hins vegar út á að nota bygg sem verksmiðju til að framleiða prótín fyrir lyf og rannsóknir. Þetta er dæmi um þekkingariðnað, nýsköpun þar sem hugvitið er virkjað með það að markmiði að búa til verðmæti og skapa störf.

Fyrirtækið sótti nýlega um leyfi til að rækta erfðabreytt bygg utandyra á Íslandi (hingað til hefur ræktunin farið fram í hátæknigróðurhúsi fyrirtækisins) eins og rætt var í nýlegri frétt Morgunblaðsins.

Af einhverri ástæðu fer hugmyndin um erfðabreyttar lífverur þversum í fólk. Viðbrögðin verða oft mjög ýkt og á köflum jaðrar við móðursýki. Staðreynd málsins er að erfðabreytingar verða hverja einustu mínútu í náttúrunni, bakteríur taka upp gen, tegundir skiptast á genum, sveppir og þörungar deila genum og svo mætti lengi telja. Það sem gert er á tilraunastofunni er í raun bara markviss útgáfa af þessu, í hagnýtum tilgangi.

Það er ekki hugmyndin að rekja þetta í þaula hér, en ástæðan fyrir færslunni er sú að yfirmaður minn, jarðefnafræðingurinn Dr. Kristín Vala Ragnarsdóttir skrifaði opið bréf til Umhverfisráðherra um málið, bréf sem er fullt af rangfærslum. Í stuttu máli sagt eru þeir líf og erfðafræðingar sem ég hef rætt við hreinlega gáttaðir á bréfinu. Erfðafræðiprófessorinn Ólafur Andrésson hefur sent opið bréf til Umhverfisráðherra um málið. Það fylgir hér að neðan.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra

Sæl Svandís

Ég skrifa þér fyrst og fremst sem vísindamaður með áratuga reynslu og þekkingu á sviði erfðatækni og erfðafræði, og í krafti starfs míns sem prófessor í erfðafræði við Háskóla Íslands. Hluti af starfi háskólakennara og vísindamanna í opinberri þjónustu er að miðla af þekkingu sinni og reynslu til stjórnvalda og almennings.

Ég er varamaður í ”ráðgjafanefnd um erfðabreyttar lífverur” og ég hef því reynt að fylgjast með umfjöllunum umsókn ORF líftækni um afmarkaða útiræktun á erfðabreyttu byggi. Mér sýnist umfjöllun um málið verða sífellt ómálefnalegri, og m.a. hefur

yfirmaður minn Kristín Vala Ragnarsdóttir forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs blandað sér í umræðuna á opinberum vetvangi. Hún er að sjálfsögðu frjáls í því að setja fram sína persónulegu skoðanir í málinu, en það þarf að vera skýrt hvað er faglegt og málefnalegt byggt á vísindalegum grunni, og hvað ekki. Ég vil því í stuttu máli greina þér frá faglegri afstöðu minni.

Ég er mjög á öndverðri skoðun við við sviðsforseta minn og Gunnar Gunnarsson sem skilaði séráliti í ráðgjafanefndinni. Mér þykir miður að bæði sviðsforsetinn og Gunnar Gunnarsson hafa boðið almenningi og stjórnvöldum upp á margháttaðar rangfærslur og villandi upplýsingar á sviði sem ég er sérfróður á.  Ég skal fúslega gera grein fyrir þessum ávirðingum lið fyrir lið og með viðeigandi bakgrunnsupplýsingum verði þess óskað. Þessar upplýsingar eru að miklu leyti að finna í greinargerð meirihluta ráðgjafarnefndarinnar.

Vísindamenn sem þróuðu nýja tækni til erfðabreytinga á áttunda áratug síðustu aldar sýndu sterka siðferðiskennd, framsýni og ábyrgð eins og m.a. kom fram í fundarhöldum í Asilomar 1975. Það var almenn afstaða vísindamanna að sýna varkárni og meta möguleg áhrif á sannferðugan hátt. Í eðli sínu er ekki mikill munur á þessum nýju erfðabreytingum og þeim sem hafa verið þróaðar mannkyni til framdráttar á liðnum árþúsundum. Þær eru ekkert meira hættulegar en margt annað sem við tökum okkur fyrir hendur, og eru betur skilgreindar og metnar en hefðbundnar kynbætur almennt. Almennar fullyrðingar um hættulegan óstöðugleika vegna erfðabreytinga standast hvorki sérstaka skoðun eða reynslu undanfarinna áratuga. Ég  fullyrði jafnframt, að eins og haldið er á málum, þá eru nútíma erfðabætur í ræktun margfalt minna vandamál og hættuminni fyrir mannkyn en almenn sóun okkar og eyðilegging á lofthjúpnum, innflutningur nýrra tegunda o.fl.

Við þurfum að standa vel og málefnalega að öllum mannana verkum og höfum til þess lagaumgjörð og lýðræðishefðir. Meirihluti ráðgjafarnefndarinnar hefur unnið sitt verk á þennan hátt af samviskusemi og fagmennsku og það ber að virða.

Það verkefni sem ORF líftækni sækir um felur í sér afmarkaða ræktun á byggi til framleiðslu til rannsókna á líf- og heilbrigðisvísindum – og er þannig allt annað en ræktun og vinnsla á erfðabreyttum matvælum. Margt annað skilur þetta verkefni frá flestu því sem ófaglegir gagnrýnendur vilja leggja að jöfnu. Þar að auki er margt af gagnrýninni illa grundað. Öll hugsanleg varúðarsjónarmið hafa verið tekin til greina í umfjöllun ráðgjafarnefndarinnar og niðurstaða hennar er hið besta faglega mat sem við höfum á að byggja.

Ég vil líka minna á að rannsóknir og þjónusta í líf- og heilbrigðisvísindum byggja mjög á erfðatækni og erfðabreyttum lífverum, þar er þessi tækni löngu orðin hversdagleg og gagnleg, sætir vart nokkurri harðri gagnrýni eða tálmunum lengur.

Hvað varðar umsókn ORF líftækni, þá er hún byggð á lagalegri umgjörð og almennu samþykki í þjóðfélaginu og hún á rétt á málefnalegri umfjöllun og góðri stjórnsýslu, m.a. tímanlegri ákvarðanatöku án órýmilegrar íþyngingar.

Það þarf vart að minna á að nýsköpunarfyrirtækið ORF líftækni hefur verið byggt upp af mikilli elju og þekkingu á mörgum árum. Miklu vænlegra er að byggja framtíð þjóðarinnar á slíkum fyrirtækjum en stóriðjuverum sem byggja á ósjálfbærri nýtingu verðmætra orkuauðlinda og skilja orkufyrirtæki landsmanna eftir í húrrandi hallarekstri sem nemur miljörðum eða miljarðatugum árlega.

Ég virði rétt manna til að hafa aðra skoðun en ég hlýt að benda á það þegar vísindamenn eða leikmenn fara með rangt mál eða villandi upplýsingar á fagsviði mínu.

 

Bestu kveðjur,

Ólafur S. Andrésson,

prófessor í erfðafræði við Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands.


Þróun mýrarköldusníkilsins

Barátta sníkla og hýsla er dæmi um þróunarlega togstreitu. Við, greindasta tegund jarðarinnar í augnablikinu, beitum margskonar aðferðum til að berja af okkur sníkla. Mýrarkalda (Malaria) er orsökuð af frumdýrinu Plasmodium falciparum, en að auki eru til töluverður fjöldi annara skyldra tegunda sem einnig eru undir smásjá vísindamanna.

Varnir okkar eru auðvitað lyf, eins og chloroquine, Proguanil og Doxycyclin. Því miður er lyfjagjöfin ekki alltaf nægilega samfelld, skammtarnir litlir eða mengaðir, sem leiðir til þess að ekki öll frumdýr í viðkomandi sjúklingi drepast. Það er dæmi um náttúrulegt val, ef þú drepur 90% af frumdýrunum en 10% lifa af, þá eru líkur á því að þessi 10% beri útgáfur af genum sem gera þeim kleift að þola lága skammta af lyfinu. Og ef afkomandur 10% frumdýranna verða fyrir annari umferð af "mjúkri" lyfjameðferð, þá er aftur möguleiki á að auka tíðni viðkomandi gena, eða annara sem hafa stökkbreyst í millitíðinni. 

Þannig getur náttúrulegt val safnað upp litlum breytingum, sem gera frumdýrin ónæm eða ónæm að hluta gegn meðferð. Á sama hátt hefur náttúrulegt val búið til mjög fín augu, úr einföldum ljósnæmum frumum, með því að betrumbæta, vefi, taugar, búa til linsu, slípa hana til, bæta eiginleika hennar, fjölga litnæmum viðtökum og svo koll af kolli. Vegna þess að í hverri kynslóð þá völdust úr þeir einstaklingar sem báru í sér útgáfur gena sem bættu starfsemi augans örlítið umfram aðra í stofninum. Þannig getur náttúrulegt val búið til dásamlegar aðlaganir eins og augað, og (ef manneskjurnar eru nægilega heimskar í heilbrigðismálum) þróað útgáfu af mýrarköldusníklinum sem er ónæmur fyrir lyfjum okkar.

Það er stundum sagt að þróunarkenningin sem vísindakenning hafi takmarkað spágildi, en þetta dæmi (og önnur) sýna okkur að þróun lyfjaónæmis er óumflýjanleg. WHO varaði t.d. við þessu árið 2006. Við verðum að vera varkár í notkun okkar á lyfjum og meðhöndlunum á sníklum, sýklum og veirum, því lögmál náttúrunnar eru enn að verki í okkar tæknivæddu veröld.

Nánari upplýsingar um mýrarköldu á vef Landlæknisembættisins.

Grein BBC Malaria parasites 'resist drugs'

Sjá einnig eldri frétt BBC, sem varar við þróun lyfjaónæmis í Plasmodium Resistance risk to malaria cure

Auka athugasemd. Þýðing tilvitnana í frétt mbl.is er til háborinnar skammar. Vitnað er í Nick Day formaður Mahidol-Oxford Tropical Medicine rannsóknarverkefnisins.

„Tvisvar áður hefur Suðaustur-Asía, grínlaust, gefið heiminum, og þá sérstaklega Afríku, sníkjudýr sem hafa verið ónæm fyrir lyfjum,” (feitletrun okkar)

Þetta er þýðing á orðunum

"Twice in the past, South East Asia has made a gift, unwittingly, of drug resistant parasites to the rest of the world, in particular to Africa,"

Merking setninganna tveggja er mjög ólík, og veltur á þessari skelfilegu þýðingu á orðinu "unwittingly". Það orð þýðir ekki "grínlaust", heldur "ómeðvitað",  "ekki af yfirveguðu ráði", "fyrir slysni"...

Eitt er að vinna fréttirnar sínar illa, þýða klunnalega eða sleppa nauðsynlegum bakgrunni. En að gjörbreyta merkingu tilvitnana er mbl.is til háborinnar skammar.


mbl.is Malaría myndar ónæmi gegn lyfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baráttan fyrir lífinu í hrauninu

Þróunarkenning Darwins og Wallace sýndi fram á að í stofnum lífvera veljast sumar gerðir úr, alveg náttúrulega. Þetta er afleiðing þess að lífverur eru breytilegar, eiginleikar þeirra erfast og þær eignast mismörg afkvæmi. Ástæða þess að lífverur eignast mismörg afkvæmi er sú að þær eru misjafnlega hæfar til að takast á við umhverfi sitt. Umhverfi er mjög víðfemt hugtak, og getur táknað aðgang að fæðu, birtuskilyrði, hitastig, ásókn afræningja, geimgeisla og þar fram eftir götunum.

Baráttan fyrir lífinu er oftast rædd sem slagur bráðar og afræningja eða sýkils og hýsils, en getur tekið á sig fleiri myndir. Planta í gljúpum jarðvegi, þarf að berjast fyrir lífinu. Fræ sem lendir í mosaþembu þarf að berjast fyrir lífinu, og þar fram eftir götunum.

Í dag mun Jóna Björk Jónsdóttir flytja fyrirlestur um rannsóknir sínar á baráttum plantna fyrir lífinu, í Skaftáreldahrauni. Hún sýnir meðal annars fram á að mosamottan sem þekur hraunið aftrar landnámi háplantna. Ég sjálfur hélt að mosi myndi frekar búa í haginn fyrir aðrar plöntur í hrauninu en svo virðist ekki vera. 

Fyrirlestur Jónu er meistaravörn hennar frá líf og umhverfisvísindadeild HÍ, á rannsókn sem hún vann undir leiðsögn Þóru Ellenar Þórhallsdóttur og Kristínar Svavarsdóttur.

Erindið hefst kl 14:00 í stofu 132 í Öskju, náttúrufræðihúsi HÍ. Ágrip erindisins má nálgast á heimasíðu HÍ.


Snákadoktorinn

Frétt þessi er ekki nægilega vel unninn. Vinsamlegast lesið úttekt Baldvins Einarssonar og athugaemdir lesanda hans (þið munið reyndar sjá frumdrög þessara færslu þar líka).

Fréttin gæti verið dæmi um það hvernig forvitnilegum tíðindum er hvíslað í gegnum of mörg eyru. Upprunalega sagan virðist vera á huldu.

Rótin er samt grein í PNAS fyrr í mánuðinum um "eitur í komodo drekum" (hugmyndin um hættulegar bakteríur er samt alls ekki galin). Fyrsti höfundur er Bryan Fry við háskólann í Melborne, eiturdoktor eins og hann kallar sig (http://www.venomdoc.com/). Hann byrjaði á að draga í efa viðtekna þekkingu, að felstar eðlur gætu ekki myndað eitur. Hann hefur sýnt að eiturkirtlar eru mjög útbreiddir í hópi eðla og snáka, og að sumar lífverurnar mynda hægdrepandi eitur (eða sem sljóvga einungis bráð eða rándýr).

Bryan%26StonefishMyndin er af síðu Bryan Fry (http://www.venomdoc.com/).

Nálgun hans er bæði að rýna í erfðamengi lífveranna og finna genin sem skrá fyrir eiturprótínunum. Hann skoðar einnig bein og vefi höfuðsins. Þannig sýndi hann fram á að vissir hópar eðla eru með eiturkirtla og að í eldri lýsingum hafi fólk hreinlega ekki teiknað dýrin upp nægilega nákvæmlega. 

Ég sá hann flytja erindi einu sinni, og ég hefði getað svarið að mörkin milli vísindalegs fyrirlesturs og dýrasirkus voru orðin ansi óljós. Einn alskemmtilegasti fyrirlestur sem ég hef nokkurn tímann séð. Fyrir kvenfólkið var þetta mjög örvandi erindi, glansandi skalli, opin flaksandi skyrta og glitrandi snákahálsmen...gvöð.


mbl.is Drekaeðlur ráðast á fólk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erindi: Íslenskar náttúruperlur og erfðamengi melgresis

Tvær meistaravarnir verða við líf og umhverfisvísindadeild HÍ í næstu viku.

Karen Pálsdóttir ræðir um rannsóknir sínar á íslenskum náttúruperlum. Hún leitaði leiða til að lýsa sjónrænum einkennum náttúruperla, flokka þær og bera við annað landslag. Þetta er mjög brýnt því við eigum svo erfitt með að meta fegurð landslags, nokkuð sem hefur flækst fyrir fólki sem vill meta á hlutlægan hátt áhrif framkvæmda. Rannsóknina vann hún undir handleiðslu Þóru Ellenar Þórhallsdóttur og Þorvarðar Árnasonar, og er hún til meistarprófs í umhverfis-og auðlindafræði.

Erindi Karenar verður mánudaginn 25 maí í Öskju, stofu 132. Það hefst kl. 16:00. Úr ágripi

Náttúruperlurnar áttu sameiginlegt háar einkunnir fyrir allar breytur sem við komu fjölbreytni. Þetta gerði það jafnframt að verkum að þær voru mjög ólíkar innbyrðis. Aðferðin greindi mun milli náttúruperla og annars "venjulegs" landslags (kerfispunktanna). Sumar náttúruperlur féllu inn í landslagsflokka ÍL, en aðrar röðuðust saman og mynduðu sinn eigin flokk. Niðurstöðurnar benda til þess að háar einkunnir fyrir fjölbreytileika, svo sem mikil fjölbreytni í formum, mynstrum, áferð og litum, greini náttúruperlur frá venjulegu landslagi. Einnig höfðu náttúruperlurnar oft meira vatn, fjölbreyttari birtingarmyndir vatns, og meiri straumþunga. Á hinn bóginn höfðu náttúruperlur að meðaltali svipaðan gróðurfjölbreytileika og minni gróðurþekju heldur en venjulegt landslag.

Ágrip á síðu HÍ.

Miðvikudaginn 27 maí heldur Sæmundur Sveinsson fyrirlestur um rannsóknir sínar á erfðamengi melgresis. Hveiti er ein helsta nytjaplanta heims. Ræktun nýrra afbrigða byggir oft á æxlunum við skyldar tegundir. "Samt sem áður er þekking á erfðafræði villtra tegunda innan hveitiættarinnar mjög takmörkkuð." Markmið rannsókna Sæmundar var að kanna fjölbreytileika melgresis og skyldra tegunda. Nálgunin var sú að einangra endurteknar raðir (örtungl) úr erfðamengjunum og finna sértæka lykla til merkja ákveðna hópa tegunda. Aðalleiðbeinandi var Kesara Anamthawat-Jónsson.

Erindi Sæmundar verður í Öskju, kl 14.00. Úr ágripi.

Nýlega einangruð fjölskylda af samfellt endurteknum satellite-röðum, nefnd Lt1, var skilgreind í þessari rannsókn.  Uppbygging Lt1 fjölskyldunnar og útbreiðsla hennar meðal meltegunda var könnuð með Southern þáttatengingu og staðsetning hennar á litningum kortlögð með flúrljómandi þreifurum.  Lt1 er fyrsta erfðamengis sérhæfða satellite-fjölskyldan sem aðskilur amerískar meltegundir frá evrópskum og asískum meltegundum.  Ljóst er að aukin þekking á erfðafræði villtra grastegunda eykur notkunarmöguleika á erfðaauðlindum fyrir kynbætur kornjurta.

Ágrip á síðu HÍ.


Nám í líffræði við HÍ

Hvers vegna vill fólk læra líffræði?

Líklega er forvitni veigamesta ástæðan.

Við erum lífverur og höfum mjög eðlilegan áhuga á okkur sjálfum, hvernig við hugsum, hvernig við verðum veik, hvaða eðli við höfum og hvernig við lifum sem lengst.

Aðrir heillast af fjölbreytileika náttúrunnar (vistkerfum kóralrifja, bjargfuglum eða hverabakteríum) á meðan aðrir vilja skilja grunneiningar frumunnar og lífsins (starfsemi gena, frumulíffæra og prótína).

Enn aðrir eru að undirbúa sig undir læknisfræði, dýralækningar eða nám í líffræðilegri afbrotafræði (CSI). Margir þeirra sem halda að þeir vilji verða læknar ættu frekar heima í líffræði, því hún undirbýr fólk betur undir rannsóknir t.d. á músum eða flugum sem nota má sem líkön fyrir mannasjúkdóma.Drápseðli í DNA

Að námi loknu fer fólk í framhaldsnám, rannsóknir, aflar sér kennsluréttinda eða fær vinnu hjá líftæknifyrirtækjum eða stofnunum. Atvinnuleysi er ekki vandamál hjá líffræðingum.

Nánari upplýsingar um grunnnám i líffræði má finna á vef HÍ, og kynningarvef líffræðinnar. Þeim sem eru að velta fyrir sér framhaldsnámi er ráðlagt að skoða síðu um rannsóknir við deildina.


Hlekkur í ættarrunnanum

Páll Jónsson hefur nú þegar bent á að orðið týndi hlekkurinn, hefur oftast verið notað um sameiginlega forfeður manna og apa. Almennt séð er kannski hægt að tala um týnda hlekki í ættarkeðju forfeðra okkar, en það missir marks af einni lykil ástæðu.

Fæstir af þeim steingerðu mannöpum sem fundist hafa eru beinir forfeður  okkar, þeir eru lang flestir ættingar af hliðargreinum þróunartrésins.

Ímyndið ykkur tré sem líkingu af ættartré mannapa. Homo sapiens  er á einni grein, en Homo erectus á annarri, Homo habilis enn annari og svo mætti lengi telja. Mjög lítill hluti lífvera varðveitist í jarðlögum. 

Ef við höldum okkur við trjá líkinguna. Ef við finnum einungis 10 litla búta af stærðarinnar birkitré sem kubbaðist í óveðri, er er harla ólíklegt að allir bútarnir séu af sömu grein (t.d. þeirri sem maðurinn situr á). Líklegast er að við finnum búta af hinum og þessum greinum.

Reyndar hefur einnig verið bent á að ættartré okkar sé ekki mjög trjálaga, það sé líkar greinóttum runna.

Það sem er stórkostlegt við Idu er hversu mikill hluti beinagrindar hennar fannst. Fólk gerir sér ekki grein fyrir því hversu erfið vísindi steingervingafræði er, því mjög sjaldan finnast heilar grindur eða mörg bein úr hverjum einstakling. 

Púsl með 5000 stykkjum var það stærsta sem við barnabörnin kláruðum með ömmu. Steingervingafræðingarnir reyna að púsla saman úr 500.000 beinum, úr kannski 100.000 mismunandi einstaklingum (púsluspilum). Það er gestaþraut í lagi.

Ítarefni

http://www.revealingthelink.com/

Umræða um hlekki og skjaldbökur.
mbl.is Týndi hlekkurinn fundinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krufning á LifeWave

Mæli eindregið með fyrirtaks útblæstri  Andmenningar á LifeWave vörunum.

Upprunalega fréttin í Frétta(og froðu)blaðinu minnti mig á grein úr the Onion, Revolutionary New Insoles Combine Five Forms Of Pseudoscience. Klassatilvitnun úr þeirri grein:

"Why should I pay thousands of dollars to have my spine realigned with physical therapy when I can pay $20 for insoles clearly endorsed by an intelligent-looking man in a white lab coat?" DeAngelis asked. "MagnaSoles really seem like they're working."


Erindi: Kvikasilfur í þingvallaurriða

 Þungmálmar og snefilefni finnast í öllum lífverum. Eiturefnafræðin og eiturefnavistfræðin fjalla um vandamál geta hlotist af ef styrkur slíkra verður of hár. Þau haft skaðleg áhrif á viðgang og starfsemi lífverunnar og einnig tegundir sem leggja hana sér til munns. Maðurinn er afræningi, sem leggur sér til munns dýr ættuð úr mörgum vistkerfum og af mismunandi stigum þeirra. Urriðinn í Þingvallavatni er einnig afræningi, ofarlega í fæðukeðjunni.

Matís og Laxfiskur hafa staðið fyrir rannsókn á magni kvikasilfurs í Þingvallaurriðanum og samkvæmt fréttatilkynningu er styrkur eitursins yfir viðmiðunarmörkum í meirihluta stórra fiska í vatninu. Niðurstöðunum verða gerð skil í erindi á morgun, miðvikudaginn 20 maí 2009, sbr. tilkynningu:

Matís og rannsóknafyrirtækið Laxfiskar halda fund til að kynna niðurstöður sameiginlegrar rannsóknar á magni kvikasilfurs í urriða úr Þingvallavatni. Hagsmunaaðilar og aðrir áhugasamir eru boðnir velkomnir á fundinn. Rannsóknin hafði manneldissjónarmið að leiðarljósi og var framkvæmd til að draga upp mynd  af magni kvikasilfurs í Þingvallaurriðum með hliðsjón af stærð þeirra og forsögu.

Fundurinn verður haldinn miðvikudaginn, 27. maí 2009, kl 14:00 í Sjávarútvegshúsinu, Skúlagötu 4, á 1. hæð.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að kvikasilfur er mælanlegt í Þingvallaurriða.  Í vissum tilvikum er magn kvikasilfurs í fiskholdinu yfir leyfilegum mörkum Evrópusambandsins fyrir styrk kvikasilfurs í matvælum. Smærri urriðinn er gegnumsneitt undir þeim mörkum en eftir að urriðinn hefur náð ákveðinni stærð eru umtalsverðar líkur á því að hann innihaldi meira kvikasilfur en viðmiðunarmörk gera ráð fyrir.

Sjá einnig umfjöllun á heimasíðu Matís.

Starfsfólk Náttúrufræðistofu Kópavogs vaktar einnig lífríki Þingvallavatns, vonandi mætir það á erindið á morgun og leggur orð í belg.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband