Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

Síðasta vísindafrétt mbl.is?

Síðan 24 september hefur ekki verið færð til vef ný frétt um tækni og vísindi á vef mbl.is.

Það er tæpt ár síðan visir.is sturtaði niður sinni vísindasíðu, og e.t.v. hefur mbl.is tekið sama kúrs með nýjum ritstjórum. 

Vonandi er fréttamaðurinn sem sinnir þessu starfi bara læstur inni á klósetti (hleypið manninum út) eða heima með kvef.

Kannski væri sniðugara að fækka íþróttafréttamönnum um einn, og setja inn einhvern sem getur miðlað vísindalegum framförum af þekkingu og ástríðu?


mbl.is Samgöngumáti framtíðarinnar?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erindi: sýklalyfjaþolnar bakteríur

Næst komandi mánudag mun Þórunn Rafnar Þorsteinsdóttir fjalla um rannsóknir sínar á "Sýklalyfjaónæmi baktería í búfénaði á Íslandi". Hún hefur einnig rannsakað hvort möguleiki sé á að slíkar bakteríur flytjist frá húsdýrum til manna.

Fyrirlestur hennar hefst kl 13:00 í Hátíðarsal aðalbyggingar HÍ. Sjá nánari upplýsingar á vef HÍ.


Geðröskun og lyfleysa

Vinur vor Steindór J. Erlingsson hefur um áratuga skeið glímt við geðsjúkdóm. Hann sveiflast milli hæða og lægða, stundum oft á dag. Sumir muna eftir persónulegri umfjöllun Stephen Fry um Bipolar-disorder í sjónvarpsþætti fyrir nokkrum árum, getur sjúkdómurinn farið illa með fólk og meðferðarúrræðin eru fá og mörg haldlítil.

Steindór fjallar um þetta í morgunblaði dagsins, sunnudaginn 27 september 2009, fyrirsögn greinarinnar er Listin að kljást við geðröskun. Þar rekur Steindór baráttu sína við sjúkdóminn, hleypir lesandanum að sínum innstu hugsunum og deilir af reynslu sinni.

Þrennt af því sem hann hefur lært er að i) hreyfing hjálpar við að hemja geðrösku, ii) það að setja sér skýr mörk (marklínur) hjálpar, og iii) að hugurinn hefur áhrif á lífeðlisfræði og þar með vellíðan. Þessi síðasti punktur tengist þeirri staðreynd að lyfleysa (placebo) hefur áhrif á huga og vellíðan einstaklinga. Áhrifin eru ekki bara ímyndun, heldur breyta þau starfsemi heilans og geta þannig gert fólki kleift að yfirvinna sársauka og vanlíðan.

Með orðum Steindórs (HAM er hugræn atferlismeðferð):

...ég las nokkrar vísindagreinar sem staðfesta að HAM og lyfleysur (placebo) valda raunverulegum breytingum á starfsemi heilans. Í mínum huga er hér um byltingarkennda vitneskju að ræða. Rannsóknirnar sem hér um ræðir fara t.d. þannig fram að tekin er mynd af starfsemi heila einstaklinga sem þjást af ákveðinni geðröskum fyrir og eftir inngrip með lyfi eða sálfræðilegri meðferð. Niðurstöðurnar hafa leitt í ljóst að HAM getur stuðlað að hliðstæðum breytingum á heilanum og geðlyf. Einstaklingur sem finnur fyrir bata eftir HAM-meðferð eða inntöku lyfleysu er því ekki að upplifa „ímyndun“. Gagnvirkt samband virðist ríkja á milli huga og heila, þ.e. milli hins sálfræðilega og félagslega annars vegar og hins vegar lífefna-, og lífeðlisfræði heilans. Þetta mun líklega hafa talsverðar afleiðingar fyrir skilning okkar á geðröskunum og í raun hvað felst í því að vera manneskja.

 

Greinin er aðgengileg á vef Steindórs, sem og örlítið lengri útgáfa.

Þar má einnig finna önnur skrif Steindórs um geðröskun, sem og pistla og greinar um vísindi og sögu.

Forvitnum er bent á fyrri færslur um þunglyndislyf og léleg tölfræði og framhald um þunglyndislyf og lyfjarisa.


Lífklukka í þreifaranum

Ég hef ekki tíma til að kryfja fréttina til þrautar. Vísa ykkur á BBC þar sem fjallað er um hvernig lífklukka keisarafiðrilda virðist skipta mestu máli fyrir ratvísi þeirra. Fiðrildin fljúga mörg þúsund mílur frá Mexíkó til BNA, ekki svipað og farfuglar gera. Það er ekkert smá afrek fyrir hryggleysingja.

Ef þreifaranir eru fjarlægðir þá fljúga þær stefnulaust. Í ljós kemur að þær eru með lífklukku í þreifaranum. Ímyndið ykkur að vera með lífklukku í einhverjum húðsepa, eyrnasnepli t.d.

Frétt BBC - Butterflies carry 'GPS clock' in their antennae

Antennal Circadian Clocks Coordinate Sun Compass Orientation in Migratory Monarch Butterflies
Christine Merlin, Robert J. Gegear, and Steven M. Reppert Science 25 September 2009: 1700-1704.
Ágætis umfjöllun eftir Charalambos P. Kyriacou - einnig kallaður Bambos (grínlaust, heyrði hann sjálfan segja það!) - Unraveling Traveling Science 25 September 2009: 1629-1630.

Uppruni lífsins eftir viku

Eftir rétta viku, 3 október 2009, mun Guðmundur Eggertsson halda fyrirlestur um uppruna lífsins.

Allar lífverur á jörðinni eru af sama meiði, það vottar innribygging þeirra, DNA, prótínmyndunarkerfi, og efnaskipti. En hvernig varð lífið til? Til að svara þeirri spurningu hafa verið settar fram mjög, mjög, mjög margar tilgátur. Vandamálið er að prófa tilgáturnar, þær þurfa að vera nægilega nákvæmar til að hægt sé að framkvæma tilraunir eða gera athuganir til að sannreyna þær (eða hrekja!).

LeitinAdUpprunaLifsGuðmundur mun fjalla um þessa stærstu spurningu líffræðinnar, og styðjast við að hluta bók sem hann gaf út árið 2008 (Leitin að uppruna lífs, líf á jörð, líf í alheimi - Bjartur). Bókin hefur ekki fengið mikla umfjöllun hérlendis, þrátt fyrir að vera tilnefnd til verðlauna Hagþenkis. Atli Harðarson birti þó lofsamlega umsögn um bókina.

Sjá einnig grein Guðmundar í Náttúrufræðingnum, endurprentuð á Stjörnufræðivefnum.

Erindið verður kl 13:00 í Öskju, náttúrufræðihúsi HÍ, stofu 132 og er öllum opið, engin aðgangseyrir.

Fyrirlesturinn er hluti af fyrirlestraröð í tilefni afmælis Charles Darwins, sjá dagskránna á darwin.hi.is.


Spennandi vísindavaka

Mér þykir rétt að benda fólki á að næstkomandi föstudag 25 september 2009 verður haldin vísindavaka í Hafnarhúsinu. Hún er aðallega hugsuð fyrir ungt fólk, frá 5 og uppúr, en mér sem foreldri fannst einnig mjög gaman að því að skoða allt sem boðið var upp á.

Á vökunni verður boðið upp á margskonar forvitnilegheit. Kynningarbæklingur sem fylgdi fréttablaðinu í morgun sýndi myndir af neðansjávarhverum, véltaugum, sprengingum og beinagrindum. Nemendur í líffræði og náttúrustofur HÍ (t.d. í Sandgerði) munu sýna sjávardýr, m.a. Grjótakrabba nýlegan landnema við Ísland og skýra hvernig hægt er að nota DNA til að greina uppruna tegunda.

Vísindavakan sýnir einnig hversu fátæk við erum hér á Íslandi, að hér skuli ekki vera stórt og ríkulegt náttúrufræði og vísindasafn. Við eigum nokkrar ágætar náttúrustofur, sú í Kópavogi líklega glæsilegust, og húsdýragarðinn með fiska og vísindatjaldinu. Mér þætti frábært ef hér væri allsherjar vísindasafn, svona íslensk blanda af Museum of Science and Industry og American Museum of Natural History.


Meira um kvikmyndina um Darwin

Fyrir nokkru ræddum við um að kvikmyndin sköpun (creation) var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Toronto. Kvikmyndin fjallar um dauða hinnar tíu ára gömlu Annie, og því hvernig foreldrar hennar takast á við sorgina sem fylgir barnsmissinum. Foreldrarnir voru Emma og Charles Darwin, og tekur myndin þá einnig á innri togstreitu Darwins, sem var á þessum árum að móta kenningu sína um þróun tegundanna. Einnig vöktum við athygli á því að kvikmyndin hafði þá ekki fengið dreifingaraðilla í Bandaríkjunum.

Nýliðin laugardag, 19 september 2009, birti Fréttablaðið síðan ítarlega umfjöllun eftir Sigríði Björgu Tómasdóttur um þetta mál og stöðu þróunarkenningarinnar. Fyrirsögn greinarinnar var Charles Darwin á hvíta tjaldinu. Hér birtast valdar setningar úr greininni sem einnig má nálgast í heild sinni á vef Fréttablaðsins.

Andstaða bókstafstrúarmanna

Ekki er að undra að meginefni Creation sé mannlegt eðli, missir og sorg. Slíkt er umfjöllunarefni ótal kvikmynda og flestar myndir á borð við Creation myndu fá dreifingu í Bandaríkjunum skyldi maður halda. En sterk staða bókstafstrúarmanna þar í landi gerir það að verkum að myndin mætir andstöðu. "Andstaðan við þróunarkenninguna er stórt og mikið mál í Bandaríkjunum og á sér langa sögu," segir Einar Árnason, prófessor í líffræði við Háskóla Íslands og sérfræðingur í þróunarkenningunni. Gott dæmi um andstöðuna eru fræg réttarhöld sem kennd eru við kennarann John Scobes, sem var árið 1925 dæmdur fyrir að kenna þróunarkenninguna í skóla í Tennessee, á þeirri forsendu að hún stangaðist á við lög ríkisins. Í þeim var kveðið á um að ekki mætti kenna neitt í skólum ríkisins sem hafnaði guðlegri sköpun mannsins. Málið var reyndar síðar fellt niður vegna formgalla.

Andstæðingar þróunarkenningar eru oft nefndir sköpunarsinnar (creationists) vegna þess að þeir trúa að guð hafi skapað heiminn í þeirri mynd sem við þekkjum hann. Að sögn Einars er annarri hugmynd þó frekar haldið á lofti af bókstafstrúuðum um þessar mundir, svokallaðri hönnunarkenningu, "intellectual design". "Sú hugmynd er í raun sköpunarhyggja í nýju formi, hún gengur út á að það hljóti að vera hönnuður að eiginleikum lífvera, þeir séu einfaldlega of fullkomnir til þess að hafa þróast með blindu náttúrulegu vali." Augu séu gjarnan tekin sem dæmi um þetta, þau séu svo fullkomin. Einar bendir hins vegar á að þetta standist ekki vísindalega skoðun, hægt sé að finna ótal millistig líffærisins auga.

Ég verð að segja það Sigríði til hróss að greinin er hin læsilegasta og fellur ekki þá póstmódernísku gryfju að gefa óvísindalegum útskýringum á tilurð lífvera undir fótinn, eins og oft vill verða. Eina ónákvæmnin í umfjölluninni varðar útskýringartexta sem staðfærður var af vefsíðunni darwin.hi.is. Við höfum umsjón með þeirri síðu, og við nánari athugun kom í ljós að orðalag okkar var óskýrt.

Fyrst var rætt um breytileika, erfðir og mishraða æxlun og síðan sagði að:

Fyrst auðlindir eru takmarkaðar og samkeppni á milli lífvera óumflýjanleg leiða þessar staðreyndir til náttúrulegs vals.

Réttara er að segja að samkeppnin sé á milli einstaklinga sömu tegundar. Upprunalega setningin er óskýr, og mætti skilja hana sem að samkeppni milli tegunda sé drifkraftur náttúrulegs vals. Við vitum að samkeppni innan tegundar er grundvallarforsenda náttúrulegs vals. Réttara væri:

Fyrst auðlindir eru takmarkaðar og samkeppni á milli einstaklinga innan tegundar óumflýjanleg leiða þessar staðreyndir til náttúrulegs vals.

Eftir allar leiðréttingarnar og athugasemdirnar er ágætis tilbreyting að leiðrétta sjálfan sig.


Forfaðir Tyrannosaurus rex var dvergur

Einn af forfeðrum T. rex, eðla sem kallast Raptorex, var mjög smágerð "risaeðla". Engu að síður var hauskúpan mjög áþekk, sbr. mynd af vef BBC.

_46397104_raptorex

 Margir sköpunarsinnar afneita þeirri staðreynd  að lífverur geti átt sér sameiginlegan uppruna.  Hvernig er hægt að komast að annari niðurstöðu þegar maður ber saman höfuðkúpur þessara tveggja eðla?

Forvitnilegasta ályktun þessa hauskúpufundar snýr að formi T. rex. Margir hafa haldið því fram að stærð risaeðlanna hafi sett vexti þeirra og byggingu ákveðnar skorður*. Sú staðreynd að Raptorex er með mjög áþekka byggingu og T.rex sýnir að uppáhalds risaeðla allra drengja er ekki aflöguð vegna risastærðar sinnar. Risaeðluáðdáendum á öllum aldri hlýtur að vera létt.

Ítarefni:

Ed Young gerir fundinum góð skil í pistli " Raptorex shows that T.rex body plan evolved at 100th the size".

Sjá einnig umfjöllun Judith Burns á BBC, Tiny ancestor is T. rex blueprint

*Svona rétt eins og það er ómögulegt að byggja hús jafnhátt Esjunni úr timbri. 


Þraut sem þarf að leysa

Hrun í býflugnastofnum víða um heim hefur vakið mikla undrun. Á sumum svæðum hafa heilu búin lagst af, en annarstaðar fækkar í þeim um fleiri prósent.

Hvað gæti verið orsökin, eða orsakirnar?

Í frétt mbl.is er rætt um alþjóðlega býfluguráðstefnum sem fram fer í Frakklandi. Þar kynna vísindamenn niðurstöður rannsókna, þar sem leitast er við að kasta ljósi á ráðgátuna. Prófaðar eru tilgátur um sýkingar, afrán, stofnerfðafræðilegt hrun (vegna ónógs kynlífs) og þar fram eftir götunum.

Ég vill benda fólki á að það er ENGINN á þessari ráðstefnu að velta alvarlega fyrir sér þeim möguleika að erfðabreyttar plöntur eigi þar hlut að máli. Ástæðan er sú að þeirri tilgátu hefur verið hafnað með óyggjandi rökum (sjá meðan annars opið bréf Ólafs Andréssonar og frumheimild Duan JJ, Marvier M, Huesing J, Dively G, Huang ZY (2008) A Meta-Analysis of Effects of Bt Crops on Honey Bees (Hymenoptera: Apidae). PLoS ONE 3(1): e1415. doi:10.1371/journal.pone.0001415).

Engu að síður lifir þessi meinloka, erfðabreyttar plöntur drepa býflugur, góðu lífi.

Okkar hlutverk er að benda á slík mistök, rétt eins og við bendum vinum okkar á að kvef sé orsakað af veirum (en sé ekki karma) og neysla frauðplasts sé ekki heppileg leið til megrunar (í tilefni föstudagsins verð ég að benda á dúndur myndband á lauknum - "non food diet").


mbl.is Hvers vegna hrynja býflugnasamfélögin?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjúkdómurinn er öndunarfærasýking

...bakterían heitir Mycobacterium avium. Ekki eins og sagt var í mbl.is:

Í um 30% af sturtuhausunum var umtalsvert magn af örverum sem tengjast hættulegum lungnasjúkdómi er nefnist mycobacterium avium, (feitletrun okkar)

Eins og rætt er á breska heilbrigðis og félagsvefnum (www.nhs.uk) ættu þessi tíðindi ekki að koma fólki úr jafnvægi. Bakteríur eru alls staðar, og þótt að sumar bakteríur finnist á vissum stöðum frekar en öðrum er engin sérstök ástæða til ótta.

Nokkrir punktar skipta miklu máli í því samhengi.

Það var EKKI sýnt fram á að M. avium úr sturtuhausum auki líkurnar á sýkingu.

M. avium virðist ekki berast með gufum eða lofti, heldur haldast í vatninu.

Það var ekki rannsakað hvort þessi baktería finnist einnig í baðkrönum.

Rannsóknin tók til 45 sturtuhausa í 9 borgumí BNA, þ.e. rannsóknin var lítil og e.t.v. ekki mjög lýsandi.

Ég verð að lýsa því yfir hér með, NHS.uk er nýja uppáhaldssíðan mín.

Ítarefni

Shower heads and lung disease. www.nhs.uk


mbl.is Stórvarasamir sturtuhausar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband