Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2010

Til hamingju - vísindavefurinn 10 ára

Fyrir 10 árum var settur á laggirnar vefur þar sem hver sem er gat spurt hvaða spurningar sem er um vísindi.

Fjallað er um vísindavefinn, og rætt við aðstoðarritstjórann Jón Gunnar Þorsteinsson í Fréttablaði dagsins (29. janúar 2010) undir fyrirsögninn Hver stal kökunni úr krúsinni? 

Af þessu tilefni verður málþing um vísindamiðlun í dag, í Þjóðmenningarhúsinu milli 14 og 16.

Vísindavefurinn hefur þroskast og dafnað síðan þá, og nú er hann orðin hin ágætasta heimild á mismunandi fræðasviðum. Auðvitað er hann ekki gallalaus, og það fer eftir svarendum hverjar áherslurnar eru í hverju tilfelli, en ég hef ekki orðið var við neinar virkilega alvarlegar skyssur í þeim pistlum um líffræði sem ég hef lesið (þær eru örugglega til staðar, allir gera einhvern tíman mistök).

Þar sem ég er líffræðingur fyrirgefst mér vonandi sú sérviska að tína eingöngu til svör líffræðilegs eðlis sem dæmi um svör á vísindavefnum.

Hvaða fiskur er mest veiddur í heiminum?

Hvers vegna eru pöndur í útrýmingarhættu?

Hvað getið þið sagt mér um arfgeng heilablóðföll?

Af hverju er DNA-sameindin gormlaga?

Hvaðan er íslenski hesturinn upprunninn?

Höfum við beina línu forfeðra frá öpum til nútímamanns eða vantar enn "týnda hlekkinn"?

Leiðrétting: Málþingið var í Þjóðminjasafninu, ekki Þjóðmenningarhúsinu og ekki Þjóðarbókhlöðunni. Komst að því þegar ég mætti í hlöðuna. Vonandi afvegaleiddi ég ekki einhverja fleiri. Takk Eyja fyrir leiðréttinguna.


Ísbirnir og pöndur að fornu og nýju

Er ekki eðlilegt að ísbirnir geri fólki skelkt í bringu, þar sem það situr í rólegheitum með blað og kaffibolla? Íslendingar hafa lengstum, af nauð einni, verið í afskaplega góðum tengslum við náttúruna, duttlunga hennar og harðnesku. Það er óþarfi að svara í sömu mynt.

Ísbirnir (Ursus maritimus) eru tilheyra ættkvísl bjarndýra. Þeir eru sannarlega sérstakir að mörgu leyti, aðlagaðir heimskautalífi. Flestar aðrar bjarnartegundir lifa svipuðu lífi, nema kannski pandabirnir sem lifa eingöngu á bambus.

IsbjarnarKjalki_OlafurIngolfsson Ólafur Ingólfsson jarðfræðingur fann 110-130 þúsund ára gamalt kjálkabein (sjá mynd) af ísbirni á Svalbarða. Miðað við lífshætti ísbjarna er álitið frekar fátítt að bein þeirra varðveitist. Flestir bera beinin á ís eða sundi, og þá eru minni líkur á að leifar þeirra leggist í set/sand sem varðveitir beinin.

Greinin sem lýsti beininu og aldursgreiningunni kom út á síðasta ári (Late Pleistocene fossil find in Svalbard: the oldest remains of a polar bear (Ursus maritimus Phipps, 1744) ever discovered - Ingólfsson og Wiig - Polar research 2009).

Í kjölfarið fór Ólafur í samstarf við hópa sem eru að kanna uppruna ísbjarna og annara bjarnartegunda. Eftir því sem ég best veit er greinin um rannsóknina svo gott sem samþykkt í eitt af virtari vísindatímaritum heims. Slík tímarit krefjast þess að höfundar bíði með kynningu á niðurstöðum sínum þangað til greinin kemur formlega út. Þess vegna er ekki hægt að fjölyrða um niðurstöðurnar, en mér skilst að þróunartréð sé mjög forvitnilegt.

Þess í stað get ég sagt ykkur að erfðamengi risapöndunar (Ailuropoda melanoleuca) var nýlega raðgreint. Þótt risapandan, oftast bara kölluð panda, sé augljóslega björn virðist sem val hennar á lífsstíl hafi komið henni í blindgötu. Eins og flestir vita lifa pöndur eingöngu bambus, en aðrir birnri borða jafnt kjöt, fisk sem ber og plöntuhluta.

Í erfðamengi pöndunar finnast óvenju mörg gen sem mynda viðtaka fyrir fjölsykrur, sem gæti útskýrt fíkn þeirra í plöntuvef. Á móti eru margar stökkbreytingar í unami geninu, sem myndar viðtaka sem gera dýrum kleift að finna bragð af kjöti. Þetta er vísbending um að pöndur finni hreinlega ekki bragð af kjöti (ímyndið ykkur að borða steik sem smakkast eins og frauðplast!). Þetta mætti útskýra með lífsháttum tegundarinnar, ef enginn í stofninum hefur borðað kjöt í fleiri þúsund kynslóðir þá er ekki náttúrulegt val til að viðhalda unami geninu.

Nú eru bara á milli 2500 og 3000 pöndur eftir í náttúrunni. Það er neyðarkall til þeirra sem vilja varðveita náttúruna.

Önnur ástæða til að varðveita náttúruna er sá möguleiki að einhverstaðar gæti leynst Gene Simmons genið (sbr. spaug af síðu Jerry Coyne - The panda genome revealed).

panda-kiss_qjgenth1.jpg Alvörugefnara ítarefni:

Matthew Cobb - The panda revealed.

Ruiqiang Li, et al. (2010) The sequence and de novo assembly of the giant panda genome Nature 463:311-318 (einungis ágripið er fríkeypis)

Leiðrétt 29. janúar 2010- áður stóð fjölskyldu bjarndýra í annari málsgrein. Réttara er að segja ættkvísl bjarndýra.  Ég vil þakka Vilhjálmi Berghreinssyni ábendinguna.


mbl.is Gæslan skimar eftir birni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erindi: um rjúpur og botndýr

Í hádeginu í dag (28. janúar 2010) mun Ólafur K. Nielsen við Náttúrufræðistofnun Íslands ræða um rjúpnastofninn á Íslandi. Ólafur birti fyrr í mánuðinum grein ásamt samstarfsmönnum, um far kríunnar. Erindið verður á Keldum. Úr tilkynningu.

[F]yrirlestrinum verður fjallað stuttlega um sögu rjúpnarannsókna og síðan verður gerð nánari grein fyrir niðurstöðum rannsókna á samspili fálka og rjúpu og hugsanlegu hlutverki fálkans í stofnsveiflu rjúpunnar.

Á morgun (29 . janúar 2010, kl 16:00) mun Eric dos Santos fjalla um botndýr á hörðum sjávarbotni. Um er að ræða meistaraverkefni sem hann hefur unnið með Jörundi Svavarssyni og á Náttúrustofu suðurnesja. Erindið verður í stofu 132 í Öskju - náttúrufræðihúsi HÍ. Úr tilkynningu:

Á hörðum botni norðan Vestfjarða reyndist botninn einkennast af svömpum og skrápdýrum. Tegundasamsetningin var talsvert breytileg á milli sýnatökustaða og mótaðist aðallega af botngerðinni, auk þess sem hitastig og dýpi höfðu áhrif á tegundasamsetninguna. Á djúpslóðinni við Jan Mayen og á Mohn hrygg var botndýralífið ákaflega fjölbreytilegt og þar voru sæfíflar, marflækjur og sæliljur áberandi.

Eric er fyrirtaks ljósmyndari, ég vil benda ykkur sérstaklega á pöddur á flickr síðu hans.


Tungutal í Apatar

Þessir atferlisfræðingar eru náttúrulega bilaðir, að setja fínar upptökuvélar í hendurnar á simpönsum og leyfa þeim að leika sér með þær í fleiri mánuði. Engu yrði áorkað við að setja páfagauka við stjórnborð kjarnorkuvers eða þráðorma á alþingi Íslendinga (..og þó!).

Myndskeiðin sem aparnir tóku eru frekar brotkennd, en samkvæmt vefsíðu BBC virtust þeir fatta hvernig myndavélin virkaði, skoðuðu myndskeið af öðrum öpum og starfsfólkinu að undirbúa málsverði fyrir þá o.s.frv.

Simpansar eru vissulega skynugar skepnur, kunna að nota verkfæri, lifa í hópum og sýna flókið félagsatferli. Þeir eru svo sannarlega ekki einstakir meðal apa. Nærskyldir ættingjar þeirra Homo sapiens hafa mikla samskiptagetu og mynda stór og flókin samfélög. Tungumál þeirra eru mjög fjölbreytt og samfélög einkennast af mikilli sköpunargleði (þeir búa t.d. til kvikmyndir um 3 metra háar bláar verur og framandi vistkerfi).

Aðrir apar hafa einnig sín eigin tungumál, eins og rannsóknir nokkurra vistfræðinga hafa sýnt. Klaus Zuberbühler byrjaði að rannsaka apa (Diana monkeys - veit ekki um íslenskt heiti) um 1990 og skildi ekkert í skvaldri þeirra.

main-image-red-putty.jpgNú hefur hann og aðrir ágætis skilning á orðaforða þessara apa og annara. Orðaforðinn litast vissulega af veruleika dýranna, hjá rauðrófu guenonapa* pyow varar við hlébarða og hack varar við skallaerni.

Það sem er kannski stórkostlegast er að þeir geta skeytt saman orðum pyow pyow pyow...hack hack hack þýðir "flýtum okkur héðan burt".

Mismunandi samsetningar af hack og pyow hafa síðan ólíka merking. Hlýða má á tóndæmi á vef the Independent.

Heyrumst...

*Þýðing skv. Kenja dýralífið - putty-nosed monkeys - mynd af vef Cameroon wildlife aid fund.

Ítarefni:

The independent 2008 Steve Connor 'Pyow-pyow': how the putty-nosed monkey tells its friends there's a leopard coming

var articleheadline = "'Pyow-pyow': how the putty-nosed monkey tells its friends there's a leopard coming"

National Geographic 2006 Nicholas Bakalar Monkeys Use "Sentences," Study Suggests

The New York Times 2010 Nicholas Wade Deciphering the Chatter of Monkeys and Chimps


mbl.is Fyrsta kvikmyndin gerð af öpum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landnotkun 2010

Mamma hvað er mold?

Nútildags alast flest börn upp  í borgum, þekkja húsdýr eingöngu af myndum og náttúru af afspurn. Þrátt fyrir að yngri kynslóðin kunni margar brellur, geti hringt eftir skyndibita eða selt heimateiknaðar teiknimyndir á netinu, virðast mörg þeirra vita á hvaða tré "pastabaunirnar" vaxa.

Samt sem áður byggir öll tilvist okkar á náttúrunni, hún er uppspretta næringarinnar og orkunar sem drífur bifreiðar og farsíma, hún setur tilvist okkar skorður, með hita/kulda, geislum og jarðhræringum.

Hamingjan, þetta átti nú ekki að verða svona háfleygt.

Ég vildi bara minna fólk á að við tilheyrum náttúrunni, erum ekki yfir hana hafin. Það borgar sig að byggja landnýtingu á skilingi á náttúrunni ekki bara gróðahagsmunum. 

Náttúrustofa Suðurlands og samstarfsaðillar standa fyrir fundi næsta fimmtudag (28. janúar), um landnotkun.


Plastfjallið

Plast var fundið upp rétt fyrir miðbik síðustu aldar, og eftir seinna stríð komst framleiðsla á því á verulegt skrið.

Plast brotnar ekki svo gjörla niður, lang stærsti hluti þess plasts sem framleitt var fyrir 50 árum er ennþá til. Vitanlega brotna plasthlutir, en brotin leysast ekki upp í frumefni sín eins og pappír eða viður.

Richard Thompson við háskólann í Plymouth hefur rannsakað uppsöfnun plasts í fjörum og hafinu. Stórir hlutir eins og þeir sem skipverjarnir eru að tína upp, eru sýnilegir. En smáar plastagnir, brot úr stærri hlutum eru ennþá viðvarandi.

Rétt eins og plasthringir af "six-pack" geta kyrkt otra eða seli, geta smáar agnir fyllt upp í meltingarveg smærri dýra, jafnt fiska sem orma.

Áætlað er að 1000.000.000 tonn af plasti hafi verið framleidd frá lokum síðari heimstyrjaldar, og bróðurparturinn er ennþá til (í landfyllingum, fljótandi í höfunum, á botni þeirra og innan um sandinn á ströndum okkar).

41xg6tsofrl_bo2_204_203_200_pisitb-sticker-arrow-click_topright_35_-76_aa240_sh20_ou01.jpgÞennan vísdóm fékk að mestu leyti úr The World Without Us - Alan Weisman (sjá kápumynd af vef amazon) sem var gefin út hérlendis í þýðingu Ísaks Harðarsonar sem Mannlaus veröld. Ég er ekki búinn með bókina, en eftir að lesa kaflann um plastið leið mér verulega illa.

Eins og staðan er í dag er ekki vitað um neinar örverur sem geta brotið þennan óhroða niður. Að mínu viti eru kostirnir tveir, i) að nota minna plast eða ii) að finna betri leiðir til að endurvinna það.

Vonandi gefst okkur færi á að ræða bókina betur síðar, hún er reglulega athyglisverð.

Viðbót: Plast kemur að manni úr öllum áttum.

Rakst á þessa frétt í lauknum. 'How Bad For The Environment Can Throwing Away One Plastic Bottle Be?' 30 Million People Wonder


mbl.is Sjómenn hirða sorp úr sæ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

MMS steypan

Vildi bara benda fólki á góðan pistil eftir Ragnar Björnsson á vantrú um MMS eitursullið:

MMS kraftaverkalausnin og Síðdegisútvarp Rásar 2

í kjölfarið kom á markaðinn frábær töfralausn fyrir trúgjarna frá Hnakkus.


Kröfur til akademískra starfsmanna

Rúnar Vilhjálmsson prófessor við Hjúkrunarfræðideild HÍ sendi góðan pistil á starfsmenn HÍ fyrr í dag. Hann gaf góðfúslegt leyfi fyrir því að ég endurprentaði hluta úr greininni hér.

Áhyggjuefni er hve takmarkaðar formlegar kröfur Háskóli Íslands gerir við ráðningu akademískra starfsmanna. Lögum og reglum samkvæmt er deildum enn heimilt að ráða lektora til starfa sem ekki hafa þá rannsóknaþjálfun sem felst í doktorsnámi. Dæmi eru jafnvel um að ráðnir hafi verið lektorar sem ekki luku rannsóknarritgerð í meistaranámi sínu (en skrifuðu í staðinn yfirlitsritgerð). Meira að segja leyfa lög og reglur Háskólans að dósentar og prófessorar séu ráðnir til starfa án þess að hafa doktorsmenntun. Um þetta segir í 16. grein laga um opinbera Háskóla: „Þeir sem hljóta akademískt starf við háskóla eða háskólastofnun skulu hafa lokið meistaraprófi hið minnsta eða hafa jafngilda þekkingu og reynslu að mati dómnefndar.“ 41. grein reglna Háskóla Íslands er nánast samhljóða en þar segir: Þeir sem hljóta akademískt starf við háskólann eða stofnun hans skulu hafa lokið meistaraprófi hið minnsta eða hafa jafngilda þekkingu og reynslu að mati dómnefndar...

Það er kunnara en frá þurfi að segja að Háskólinn hefur sett sér stefnu um að komast í hóp 100 bestu háskóla heims. Þessir 100 háskólar (og raunar miklu fleiri skólar) gera almennt þá kröfu til lektora að þeir hafi lokið doktorsnámi í fræðigrein lektorsstöðunnar. Sama er að segja um forstöðumenn rannsóknastofnana. Að ekki sé talað um ráðningu eða framgang dósenta og prófessora. Ástæðan er einföld: Sterkt samband er milli menntunarstigs og rannsóknarvirkni. Þeir sem ekki hafa lokið doktorsnámi skila mun minni árangri í rannsóknum en þeir sem doktorsmenntun hafa. Raunar er menntunarstig kennara og sérfræðinga einn sterkasti mælikvarði á rannsóknaárangur háskóladeilda og rannsóknastofnana. Torsótt verður fyrir Háskólann að komast í hóp 100 bestu háskóla heims ef hann setur sér ekki og framfylgir því viðmiði almennt, að þeir sem ráðnir eru í starf háskólakennara eða forstöðumanns rannsóknastofnunar hafi doktorsmenntun.

 

Það var ekki fyrr en síðdegis að ég fór á vef HÍ og sá frétt um ráðningu Ástu Möller. Það er mögulegt að það hafi verið kveikjan að pistli Rúnars (þó ég geti ekkert um það fullyrt). Hann gætir þess altént að móðga ekki nýja stjórnandanna beint...

Framangeind orð eru sögð með fullri virðingu fyrir öllum þeim einstaklingum sem sótt hafa um og fengið téðar stöður. Vandinn er ekki þeirra heldur skólans sjálfs og þeirra sem ábyrgð bera á ráðningarmálum skólans.

 

 

Mér þætti reyndar gaman að vita hvernig þessi ráðning sé fjármögnuð, því nú verður 10% niðurskurður á fjármagni til HÍ. Ætli peningurinn fáist ekki með því að skera niður þá sem gagnrýna...úps.


Leiðni í hjarta og gáttaflökt

Hjartavernd kom að nýrri rannsókn á erfðaþáttum sem hafa áhrif á leiðni í hjarta. Úr fréttatilkynningu:

Innra leiðslukerfi hjartans hefur verið rannsakað með hjartalínuritum í yfir 100 ár og er það eitt af mikilvægari tækjum í hefðbundinni læknisfræði í dag. Ítarlegri þekking á þeim þáttum sem stýra innri leiðslu og samdrætti hjartans opna fyrir nýja möguleika til að greina fyrr alvarlegar hjartsláttartruflanir eins og gáttaflökt en 5 af þessum genasvæðum sem fundust í erfðamenginu tengjast eðlilegri leiðni í hjartanu og einnig gáttaflökti.

Það þurfti sýni upp á 29000 manns til að finna erfðaþættina, sem sýnir að áhrifin eru fjarska veik! Engu að síður veita niðurstöðurnar innsýn í eðli hjartsláttar, og leiðni í vefnum. Af erfðaþáttunum 9 með voru tvö gen sem skrá fyrir jónagöngum. Það er forvitnilegt þar sem hjartsláttur byggir á leiðni, sem byggir á flæði jóna yfir himnur. Í erfðamengi okkar er hellingur af genum fyrir hin og þessi jónagöng, en rannsókn sem þessi getur bent á hvaða jónagöng starfa í hjarta.

Sex af hinum genunum reyndust vera þroskunargen, sem stuðla að skiptingu, sérhæfingu og viðhaldi vefja. Ein af rannsóknunum sem ég koma að hjá Decode fann einmitt þroskunargenið Pitx2, sem er einungis tjáð í annari hjartans og á síðasta ári fundu Hjartavernd og Decode sama genið ZFHX3. Allt eru þetta þroskunargen.

Úr tilkynningu Hjartaverndar:

Niðurstöður þessarar rannsóknar opna því hugsanlega fyrir nýja möguleika til að spá fyrir um hjartasláttartruflanir eins og gáttaflökt og þá um leið möguleika til að nýta niðurstöðurnar í fyrirbyggjandi læknisfræði. 

Vitanlega opnar rannsóknin möguleika, en það er langur vegur að fyrirbyggjandi læknisfræði. Það sem á eftir að rannsaka frekar er hvort að áhrif genanna séu í snemmþroskun eða hvort þau séu komi að viðhaldi vefja. Ef áhrifn eru á þroskaskeiði er enginn möguleiki á fyrirbyggjandi læknisfræði.

Ítarefni:

Genome-wide association study of PR interval Pfeufer og rúmlega 60 samstarfsmenn. Birt á vef Nature Genetics 10. jan. 2010 | doi:10.1038/ng.517.


Lífvera mánaðarins

Einn alskemmtilegasti vísindapenni sem ég veit um er Olivia Judson. Af einhverri ástæðu finnur hún alltaf skemmtileg viðfangsefni, eða tekst að gera öll viðfangsefni skemmtileg.

Við höfum fylgst með skrifum hennar um nokkuð skeið.

Judson gat sér gott orð fyrir lipurlega og sprenghlægilega bók um kynlífsráðgjafa (Dr Tatiana) sem svarar erindum héðan og þaðan úr dýraríkinu (Dr Tatiana's Sex Advice to All Creation The definite guide to the evolutionary biology of sex.

Sú bók er frábær. Ég geri henni betri skil í sérstökum pistli seinna, í dag er ég latur/upptekinn. Við höfum vitnað í nokkra pistla hennar í okkar skrifum, t.d Vongott skrímsli - skrímsli á von, Mörg andlit krabbameina og Vistkerfi í einum ananas.

Í sínum nýjasta pistli dáist hún að skoruþörungum, (dinoflagellate). Þegar maður heldur að maður viti nokkurn veginn allt sem vita þurfi í líffræði, er ágætt að líta til frumdýra eða baktería, sem brjóta allar reglur. Með orðum Olivíu:

They are the best of beings; they are the worst of beings. They are animals; they are plants. They are saviors; they are killers. They are predators; they are parasites.

Um þá er einnig fjallað á vísindavefnum.

Flottar myndir af skorþörungum á vef Jóns Baldurs Hlíðbergs (www.fauna.is).


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband