Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2010

Arfleifð Darwins: af hverju stunda ekki fleiri kynæxlun?

Fyrir rúmum áratug sótti ég samdrykkju háskólanema í líffræði heimspeki og guðfræði. Fjallað var um hvort réttlætanlegt væri að klóna lífverur eða ekki. Auvitað man ég ekki orðaskipti og atburðarásina í smáatriðum, en fékk fína tusku í andlitið fyrir athugasemd mína um notagildi kynæxlunar (ég var með lista af punktum um ágæti kynæxlunar, og hélt því fram að klónun væri ónauðsynleg). Ég man ekki hver það var, en viðkomandi benti mér góðlátlega á að kynæxlun væri ekki það sama og kynlíf. Vissulega fer þetta stundum saman hjá mannfólki, en undantekningar eru þekktar. Kynlíf bleikjunnar er t.d. merkilega platóskt. Hængurinn og hrygnan dansa í vatninu, en snertast ekkert, og að endingu dæla þau kynfrumum sínum á botn vatnsins eða læksins og vona að allt fari vel. Það þarf sjúklega snertifælið mannfólk væri til í að stunda svoleiðis "kynlíf".

Kynæxlun er reyndar ráðgáta. Hvers vegna í ósköpunum ættu lífverur að eltast við það að finna maka, eyða púðri í að ná athygli hans, leggja orku í kynfrumur en fá síðan bara að setja HELMING af genunum sínum í hvert afkvæmi? Það væri miklu skynsamlegra að búa bara til einfalt ljósrit af sjálfum sér, það væri bæði ódýrara, fljótlega og tryggt að hver einstaklingur væri með afrit af ÖLLUM genum foreldrisins.

SnaebjornPalsson_ArfleifdDarwins_kynaexlun.jpgSamt sem áður er kynæxlun ríkjandi æxlunarform meðal fjölfrumunga. Það er einnig forvitnilegt að tegundir sem hafa lagt kynæxlun á hilluna og nota eingöngu kynlausa æxlun, þær virðast ekki endast. Ef þú stundar kynlausa æxlun, þá eru meiri líkur á að tegundin þín deyji út. Þetta hljómar smá eins og áfellisdómur predikarans - sjálfsfróun er ekki guði þóknanleg!

Snæbjörn Pálsson skrifaði kafla í bókina Arfleifð Darwins um þetta efni. Hann fjallar um ráðgátuna um kynæxlun og tíundar þær skýringar sem settar hafa verið fram á þessu furðulega fyrirbæri sem kynæxlun er.

kapaarfleifddarwins.jpg

Snæbjörn var einnig í viðtali hjá Birni og Sævari í Vísindaþættinum á útvarpi sögu nú í vikunni. Hann fjallaði þar meðal annars um þróun kynæxlunar, og líffræðilega fjölbreytni.

Kápan á Arfleifð Darwins var hönnuð af Bjarna Helgasyni listamanni. Hann býr í Bjadddnalandi (www.bjadddni.com) og hefur verið að hanna boli byggða á teikningum sínum fyrir kápuna á Arfleifð Darwins. Ég hef séð prufur og fullyrði að myndirnar eru það fegursta sem fest hefur verið á tau hérlendis á öldinni.

Leiðrétting: Vendetta benti mér á ritvillu, í setningunni "Ef þú stundar kynlausa æxlun, þá eru meiri líkur á að tegundin þín deyji út" stóð kynæxlun, sem kollvarpar merkingunni.


Íslenskar rannsóknir á líffræðilegri fjölbreytni

Líffræðileg fjölbreytni (biodiversity) er í brennidepli. Sameinuðu þjóðirnar tileinkuðu árið 2010 líffræðilegri fjölbreytni. Vefsíða verkefnisins er The International Year of Biodiversity. 

Markmið hins alþjóðlega árs líffræðilegar fjölbreytni er að benda á:

  • Mikilvægi líffræðilegrar fjölbreytni fyrir líf okkar, og hvernig fjölbreytnin er að minnka.
  • Hvað fólk er að gera til að verjast tapi á líffræðilegri fjölbreytni.
  • Hvernig fólk er að fagna hinu alþjóðlega ári líffræðilegrar fjölbreytni.

Hérlendis hefur merkilega lítið verið gert af þessu tilefni. Tilraun til úrbóta er að efna til ráðstefnu um rannsóknir á líffræðilegri fjölbreytni. Líffræðifélag Íslands og Vistfræðifélag Íslands standa fyrir ráðstefnunni ásamt samstarfsaðillum (sjá tilkynningu neðst). 

En hvers vegna að rannsaka fjölbreytni á Íslandi, allar tegundir sem finnast hér finnast líka erlendis? Ástæðan er sú að líffræðileg fjölbreytni er ekki bara mæld í fjölda tegunda. Fjölbreytning getur birst á allavega fjórum sviðum:

Fjölda tegunda

Mismunur á milli tegunda - hversu ólíkar eru tegundirnar

Breytileiki innan tegunda og stofna - stofnar eru mismunandi, t.d. er breytileiki inna górilla margfallt meiri en finna má milli manna.

Breytileiki í vistkerfum og búsvæðum lífvera

Tilkynning:

Íslenskar rannsóknir á líffræðilegri fjölbreytni
Ráðstefnan verður haldinn laugardaginn 27. nóvember 2010 í Norræna húsinu. Gert er ráð fyrir dagskrá frá 9:00 til 18:00, fyrst yfirlitserindi, síðan styttri fyrirlestrar og veggspjaldakynning.
Vísinda- og fræðimenn sem rannsaka líffræðilega fjölbreytni eru hvattir til þess að senda inn ágrip og/eða skrá sig á ráðstefnuna fyrir 13. nóvember næstkomandi. Netfang fundarins er lifbr.fundur2010@gmail.com - þar er tekið á móti skráningu og ágripum.Tilgreinið við skráningu hvort þið sækist eftir því að vera með erindi eða veggspjald.
Heppilegast er ef ágrip fylgi stöðluðu formi, sem notað var á síðustu líffræðiráðstefnu
Skráningargjald er 500 kr - ókeypis fyrir nemendur. Innheimtist á staðnum.
Skipulagsnefnd mun setja saman dagskrá og reyna að tryggja að fjölbreytilegar rannsóknir verði kynntar. Því gæti verið að einhverjir umsækjendur yrðu beðnir um að kynna veggspjald frekar en vera með erindi.
Skipulagsnefnd: Ingibjörg S. Jónsdóttir, Tómas G. Gunnarsson, Snæbjörn Pálsson og Arnar Pálsson 


mbl.is Yfir 1.200 lífverur uppgötvaðar á áratug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einn og hálfur metri á milli lækja

Elísabet Ragna Hannesdóttir fjallaði um áhrif jarðhvarma á dýralíf í lækjum á Hengilsvæðinu í erindi á rannsóknaþing Verk og raunvísindasviðs HÍ í upphafi mánaðar. Hún sýndi mynd af tveimur lækjum, það munaði 10°C á hitastigi þeirra, en samt var bara 1,5 metrar á milli þeirra þar sem minnst var. 

Aðal vandkvæði vistfræðirannsókna er hversu erfitt er að framkvæma tilraunir. Það er t.d. mjög erfitt að gera tilraun með stofnlíffræði þorskins, við getum ekki fjarlægt öll seiði úr tilteknum firði eða tvöfaldað krabbadýrin á Selvogsbanka. Sum vistkerfi er hægt að grípa inn í, eins og Elísabet, leiðbeinendur hennar Gísli Már Gíslason (vatnalíffræðingur við HÍ) , Jón S. Ólafsson (pöddufræðingur á Veiðimálastofnun) og samstarfsmenn hafa gert. Þau geta bætt næringu í læk, og borið saman vistkerfið í þeim hluta sem fær næringu við þann hluta sem ekki fær (sem er auðvitað ofar í læknum). Hitastiginu geta þau ekki stjórnað, en náttúran er þeim hjálpleg í þessu tilfelli. Á Hengilsvæðinu er margir lækir, af svipaðri stærð og á frekar sambærilegu undirlagi, en þeir eru einnig misheitir. Þeir eru því einskonar náttúruleg tilraun. Að auki er hægt að breyta hitastigi lækjanna, með því að leiða pípur í kross. Það er sérstaklega auðvelt ef lækirnir liggja skammt frá hvorum öðrum.

Stuttur vegur milli lækja dregur bandaríska vistfræðinga til landsins.


mbl.is Lækir við Hengil veita vísbendingar um hlýnun jarðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nammiprófessorinn

Er nammi af hinu illa eða bara misskilið?

Þetta er fyrirsögn greinar í New York Times sem fjallar öðrum þræði um sögu sælgætis og rannsóknir á sælgæti, en samt mest um Samira Kawash, sem titla má sem Nammiprófessorinn (http://candyprofessor.com/).

Hún fjallar meðal annars um tengsl sælgætis og hátíða, þar á meðal hrekkjavökunnar (mynd af vefnum CandyProfessor.com):

Jack-o'-lantern bucket filled with Halloween candy

I say Halloween, you say… candy, right?

It seems pretty obvious. Look at all that Halloween candy lining the shelves down at the CVS!

But back in first half of the twentieth century, there was no such thing as “Halloween candy.” Candy was big at Christmas and Easter, but Halloween wasn’t on the candy calendar at all.

 

 

Ítarefni, grein í New York Times Is Candy Evil or Just Misunderstood?

Þar segir meðal annars:

The blog is not so much a public forum, she said, as a “research trail,” a way of chronicling the hours she now spends reading old issues of Confectioners’ Journal, scanning patent applications, and combing archived phone books to count the number of candy shops in Brooklyn in 1908 (564).

Dr. Kawash says her research is partly fueled by anger toward candy manufacturers who publish inaccurate, often sugarcoated histories of their products. In fact, she says, the home-kitchen inventions of candy-shop owners were often simply copied, stolen or swallowed up by large companies.

The history of candy, like the history of wars, is always written by the winners,” she said. “We can’t just let that go unchallenged.”


Arfleifð Darwins: týndi kaflinn

ArfleifdDarwins kapa3Þegar við Steindór og Hafdís settum saman lista af köflum og viðfangsefnum fyrir Arfleifð Darwins, var hugmyndin að ég myndi fjalla um tengsl þroskunar og þróunar. Síðan gekk einn höfundur úr skaftinu og enginn eftir til að fjalla um þróun mannsins. Þar sem ég hef kennt þróun mannsins í námskeiðum í mannerfðafræði og þróunarfræði við HÍ varð úr að ég tæki það efni að mér. Sá kafli óx og dafnaði, og varð hinn bærilegasti (að mér sjálfum finnst). Sýnishorn úr kaflanum er aðgengilegt á darwin.hi.is (sem pdf skrá), og honum lýkur á þessum orðum:

Darwin var mikil mannvinur og hafa Adrian Desmond og James Moore fært rök fyrir því að andúð hans á þrælahaldi hafi orðið uppsprettan að hugleiðingum hans um þróun tegundanna. Kafli í nýlegri bók þeirra um Darwin heitir einmitt „sameiginlegur skyldleiki, frá forföður allra manna til forföður allra spendýra“. Darwin var tregur til að ræða líffræði og þróun mannsins, en með kenningu sinni og Wallace, bókum sínum og fádæma innsæi og nærgætni opnaði hann okkur leið til að rannsaka eðli og eiginleika mannskepnunnar. Hann gerði sér fyllilega grein fyrir „dýrslegum“ uppruna mannsins. engu að síður var honum samfélagsleg ábyrgð hugleikin, en það er fátíður eiginleiki meðal dýra merkurinnar. Darwin
hvetur okkur til þess að bæta líf meðbræðra okkar, því „ef eymd og fátækt meðbræðra okkar er ekki orsökuð af lögmálum náttúrunnar heldur stofnunum og gerðum mannsins, er synd vor mikil“.

Darwin 1839: 500. „if the misery of our poor be caused not by the laws of nature, but by the institutes of man, great is our sin.“

Mér var ekki unnt að klára kaflann um tengsl þróunar og þroskunar, en blessunarlega bauð Vísindafélag íslendinga mér að halda erindi á þessum nótum. Í kvöld mun ég halda fyrirlestur sem kallast "Fjölbreytileika lífvera: samspil þroskunar og þróunar"Ég verð að viðurkenna örlítinn taugatitring. Líklega til vegna þess að fyrir tæpu ári flutti ég versta erindi sem ég hef nokkurn tímann flutt, á 150 útgáfuafmæli Uppruna tegundanna, sem haldið var af Háskóla Akureyrar og Háskólanum á Hólum. Búið er gert,  og betur verður gert í kvöld. Fyrirlesturinn er kl 20:00 í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu, aðgangur ókeypis og öllum heimill.

Ég mun ræða um það hvernig náttúrulegt val leiðir til breytinga á útliti og eiginleikum lífvera og hvernig það getur leitt til breytinga í genunum sem nauðsynleg eru fyrir þroskun viðkomandi eiginleika. Einnig mun ég fjalla um lögmál genastjórnunar, sem ákvarða hvar og hvenær kveikt er á hverju geni, og hvernig þau lögmál tengjast þróun tegundanna. 

Veigamesta hugmyndin er sú að jafnvel þótt að náttúrulegt val viðhaldi einhverjum eiginleika, eins og t.d. hryggjasúlu eða skotti, þá getur genavirkið sem liggur að baki eiginleikanum tekið breytingum. Þannig að jafnvel þótt útlitið breytist ekki getur innhaldið breyst. Það getur m.a. útskýrt hvers vegna tegundir sem eru mjög áþekkar í útliti geta ekki eignast lifandi eða frjó afkvæmi.

Ritnefndin er félaginu sérstaklega þakklát fyrir að styrkja útgáfu bókarinnar. 


Einangrun í erfðamenginu

Í erfðamengi okkar eru um 21.000 gen, sem skiptast á 23 litninga. Genin eru í röð á litningunum, stundum þétt saman en í öðrum tilfellum er mikið pláss á milli þeirra. Flest gen eru með tvo megin hluta, það er hluti sem skráir fyrir prótíni og hluti sem ákvarðar hvar, hvenær og hversu mikið er myndað af viðkomandi prótíni. Sá hluti gensins sem ræður framleiðslu á prótíninu er kallaðar stjórnraðir. Þær eru af nokkrum gerðum, sumar eru lendingarstaðir fyrir ensímin sem mynda mRNA afrit af viðkomandi geni. Aðrar eru efliraðir, sem binda þætti sem ákvarða hvar og hvenær mynda á mRNA. Stjórnskipurit hvers gens er mjög flókið, oft þurfa margir mismunandi þættir að bindast til að framleiðsla þess hefjist. 

Ein furðulegasta gerð stjórnraða eru einangrar (insulators). Hlutverk þeirra er að passa að stjórnraðir eins gens hafi ekki áhrif á næsta gen við hliðina. Ef stjórnraðir gens sem nauðsynlegt er fyrir myndun  hára myndu allt í einu hafa áhrif á gen sem venjulega er tjáð í meltingarvegi er hætta á ferðum. Það getur verið hættulegt fyrir lífveruna að tjá meltingarensím í húðinni. Einangrarar eru því mjög mikilvægir til að halda aðskilja starfsemi gena sem sitja nálægt hvort öðru á litningunum.Sjá mynd úr bók Alberts og félaga The cell - 4 útgáfa.

picrender.fcgi?book=mboc4&part=A1323&blobname=ch7f84 Á myndinni sést hvernig metýlun (rauðir sleikipinnar) á einangrara (blár kassi) hefur áhrif á bindingu CTCF og þar með virkni einangrara í nágreni Igf2 gensins.

Starfsemi einangrara er ennþá ráðgáta, en vitað er að í erfðamengi okkar bindst CTCF prótínið nokkrum þeirra. Með því að kortleggja bindingu CTCF í erfðamenginu er hægt að finna einangrara og rannsaka þá frekar. Einnig er hægt að skoða hvaða áhrif munur í bindingu á CTCF  hefur á starfsemi lífverunar. Það er eitt af því sem Bjarki Jóhannesson gerði í doktorsverkefninu sínu.

Þriðjudaginn 26. október fer fram doktorsvörn við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Þá ver Bjarki Jóhannesson líffræðingur doktorsritgerð sína Stofnsértæk Cftr-virkni umbreytir lungnasvipgerð ENaC-Tg músa (e. Strain specific differences in Cftr function modify the pulmonary phenotype of ENaC overexpressing mice).
Doktorsritgerðin er á sviði sameindalíffræði og fjallar um rannsóknir sem miðuðu að því að finna stofnsértæka þætti sem umbreyta lungnasvipgerð ENaC-Tg músa. Svipgerð ?ENaC-Tg músa, sem líkir eftir svipgerð langvinnar lungnateppu og slímseigju í mönnum, sem bakvíxlað var á tvo samgena músastofna var greind. Þetta leiddi í ljós stofnsértækan breytileika í uppsöfnun slíms í öndunarveg músanna og dauða þeirra. Raflífeðlisfræðilegar og erfðafræðilegar rannsóknir leiddu í ljós að þessi breytileiki væri líklega til kominn vegna stofnsértæks breytileika í virkni Cftr-jónaganganna.

Athöfnin fer fram í Öskju, stofu 132, og hefst kl. 14:00.

Úr tilkynningu.


Arfleifð Darwins: Myndir frá Galapagoseyjum

Hafdís Hanna Ægisdóttir opnaði á laugardaginn ljósmyndasýningu: á slóðum Darwins í Te og Kaffi Eymundsson Austurstræti. Hafdís Hanna er einn ritstjóra bókarinnar Arfleifð Darwins og  fór til Galapagoseyja fyrir nokkrum árum til að stunda rannsóknir. Hún tók ógrynni ljósmynda, úrval má sjá í Te og Kaffi og fleiri að auki á myndasíðu hennar - http://www.flickr.com/photos/hafdishanna. Ég hef áreiðanlegar heimildir fyrir því að myndirnar séu falar.

hhae_mynd3.jpg Mynd Hafdís H. Ægisdóttir - copyright.

Sýningin stendur yfir frá 23. október - 23. nóvember 2010.

ArfleifdDarwins kapa3Bókin Arfleifð Darwins, þróunarfræði, náttúra og menning er gefin út í tilefni þess að í fyrra voru 150 ár liðin frá útgáfu Uppruna tegundanna og 200 ár frá fæðingu Charles R. Darwin. Markmið bókarinnar er að kynna íslendingum þróunarkenninguna, sem varpar ljósi á flest líffræðileg fyrirbæri og hefur vægi í læknisfræði, jarðfræði og jafnvel tölvunarfræði.

Hið íslenska bókmenntafélag gefur bókina út og býður í samstarfi við Bóksölu stúdenta upp á tilboðsverð á bókinni allan októbermánuð.

Sjá einnig fésbókarsíðu Arfleifðar Darwins.

Líf með hvítabjörnum

Hið íslenska náttúrufræðifélag stendur fyrir röð fræðsluerinda. Næsta erindi heitir "Komur hvítabjarna til Íslands á undanförnum árum. Hvernig brugðumst við þeim? Hvað höfum við lært?“ og verður flutt af Dr. Þorsteinn Sæmundsson, jarðfræðingur og forstöðumaður Náttúrustofu Norðurlands vestra. Erindið verður síðdegis (mánudaginn 25. október) kl. 17:15 í stofu 132 í Öskju*, Náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands.  Aðgangur er öllum heimill og ókeypis. Ágripið.
Í júnímánuði árið 2008 gengu tveir hvítabirnir á land í Skagafirði og sá þriðji gekk á land í Þistilfirði í janúar árið 2010. Sá fyrri sem gekk á land í Skagafirði sást fyrst við Miðmundarfjall við Þverárfjallsveg þann 3. júní og sá síðari þann 16. júní við bæinn Hraun II á utanverðum Skaga. Hvítabjörninn sem gekk á land í Þistilfirði sást fyrst við bæinn Sævarland 27. janúar. Í öllum þessum tilfellum voru birnirnir í miklu návígi við fólk. Þessar hvítabjarnarkomur vöktu mikla athygli og oft hörð viðbrögð bæði innanlands og utan, kannski ekki síst vegna þess að dýrin voru öll felld. Rétt um 20 ár voru liðin síðan hvítabjörn gekk síðast á land á Íslandi í Haganesvík í Fljótum í Skagafirði árið 1988. Sá björn var einnig felldur. Frá því að fyrsti hvítabjörninn kom á land árið 2008 hefur farið fram mikil umræða á Íslandi um viðbrögð vegna komu þeirra og hvernig við eigum að bregðast við. Í því máli eru mjög skiptar skoðanir. Umhverfisráðherra skipaði starfshóp sem fór yfir viðbrögð vegna landgöngu hvítabjarna fljótlega eftir að síðari björninn kom til landsins 2008. Niðurstaða starfshópsins, sem byggð er á áliti 16 innlendra og erlendra sérfræðinga á sviði hvítabjarnarfræða, er að skynsamlegast sé að fella þá hvítabirni sem til landsins koma miðað við öryggissjónarmið, stofnstærðarsjónarmið og kostnað við björgunaraðgerðir. Í dag eru í gildi lög frá árinu 1994 þar sem hvítabirnir eru friðaðir á Íslandi og er lagt bann við veiðum á hvítabjörnum á sundi eða á hafís. Heimilt er þó í þeim lögum að fella hvítabirni ef þeir ógna fólki eða búfénaði. Til þess að framfylgja niðurstöðu starfshópsins þarf því að breyta lögunum.
Í fyrirlestrinum mun Þorsteinn fara yfir atburðarásina í tengslum við komu hvítabjarnanna til landsins og aðkomu starfsmanna Náttúrustofu Norðurlands vestra að henni. Hann mun einnig fjalla um ástand hvítabjarnanna og velta upp nokkrum spurningum um framtíð þessara mála hér á landi.

Sjá einnig pistil um uppruna hvítabjarna: Ísbirnir og pöndur að fornu og nýju


mbl.is Viðbrögð við komu hvítabjarna rædd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skilningsleysi íslenskra stjórnmálamanna

Íslensk yfirvöld virðast ekki hafa neina hugmynd um mikilvægi vísinda fyrir framfarir og hagvöxt. Á meðan Bandaríkjamenn og Þjóðverjar berjast við kreppuna með því að auka fjármagn til rannsókna og tækniþróunar, þá skera íslendingar niður fé til þessa málaflokks (að raungildi!).

Hluti vandans er landlæg fáviska stjórnmálamanna um eðli rannsókna, framfara í tækni og raungreinum. Þetta á við um fulltrúa allra flokka. Stundum ber hreinlega á fordómum gagnvart vísindamönnum, eins og valdastéttinni finnist henni vera ógnað af gagnrýnisröddum. Davíð Oddsson varði frumvarpi um ríkisábyrgð til handa Íslenskri erfðagreiningu með orðunum “[m]ér finnst ótrúlegt að svokallaðir vísindamenn skuli taka upp á því að senda út í heim níðgreinar um fyrirtækið.” [skáletrun AP] Svona svarar hann þeim sem gagnrýndu hugmyndafræði ÍE og settu spurningamerki um það hvort siðferðilega rétt væri að innlima alla í gagnagrunninn (að þeim óspurðum - hugmyndin um "assumed consent").

Núverandi stjórn er ekki skárri, Jón Bjarnason lætur undan þrýstingi sérhagsmunaaðilla sem heldur því fram að erfðabreyttar lífverur séu hættulegur matur, og setur reglugerð um að það þurfi að sérmerkja fæðu sem inniheldur erfðabreyttar lífverur. Þrátt fyrir að engar vísindalegar röksemdir séu fyrir þessum staðhæfingum. Neytendur fá örugglega að borga fyrir merkinguna.

Katrín Jakobsdóttir Menntamálaráðherra virðist ekki heldur skilja mikilvægi grunnrannsókna. Í þremur greinum í Fréttablaðinu lagði hún mesta áherslu á samfélagslega ábyrgð vísindamanna og fræðimanna. Vandamálið er ekki það að vísindamenn séu ekki tilbúnir að leggja fræðilegt mat á mikilvæg mál og álitaefni, heldur það að ráðamenn íslensks samfélags hlustar ekki á vísindamenn. Eins og Einar Steingrímsson segir í nýlegri grein (birt í heild hér fyrir neðan):

Það er líka ámælisvert að ráðherra réð, sem sérstakan ráðgjafa sinn í endurskipulagningu háskólakerfisins, manneskju sem enga reynslu hefur af háskólastarfi (aðra en sem nemandi). Þetta helst í hendur við þá staðreynd að meðal æðstu stjórnenda íslensku háskólanna er nánast enginn sem hefur reynslu af starfi við erlenda háskóla, þótt HÍ og HR tali digurbarkalega um að hasla sér völl á alþjóðavettvangi. [feitletrun AP]

Vandinn er mikill og sögulegur, og vísindamenn og rýnihópar hafa margoft bent á leiðir til úrbóta á umgjörð vísinda hérlendis en þær tillögur daga allar uppi í ráðaneytinu eða Háskólaráði (sjá t.d. greinar Magnúsar K. Magnússonar og Eiríks Steingrímssonar: Gæði háskólarannsókna á tímum kreppu, Fjármögnun vísindarannsókna á tímum kreppu, Grunnannsóknir á tímum kreppu og hlutverk háskóla, Sameiginleg hlutverk og baráttumál vísindafólks) og grein Einar Steingrímssonar frá því júlí 2009 (Forystuleysið í háskóla- og vísindamálum).

Mikilvægast er að setja fé í samkeppnisjóði, en ekki útdeila þeim í krafti hefðar og pólitíkur.

Einnig er mikilvægt að ráðherra menntamála stígi fram fyrir skjöldu og viðurkenni mikilvægi grunnrannsókna  hérlendis.

Síðan þarf siðbót - þjóðfélagið þarf að læra rökræðu - það er munur á því að gagnrýna skoðun fólks og fólkið sjálft.

Það væri óskandi að stjórnendur landsins átti sig á eðli og mikilvægi vísindalegrar þekkingar.

Einar Steingrímsson birti greinina Stefnu- og ábyrgðarleysi menntamálaráðherra í Fréttablaði helgarinnar (23. október 2010).

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra skrifaði nýlega þrjár greinar undir fyrirsögninni "Háskólar í mótun" í Fréttablaðið. Þar talar hún um hlutverk háskóla og nauðsyn þess að huga að gæðum í starfi þeirra í yfirstandandi niðurskurði. Hún segir líka að ráðherra geti ekki hlutast til um málefni einstakra háskóla, og skal undir það tekið hér. Tilefni þess er hins vegar rangfærsla af hálfu ráðherra, þar sem hún veitist að tiltekinni háskólamanneskju á fölskum forsendum. Slíkt myndi ráðherra varla líðast í siðuðu landi, en hér gilda aðrar reglur um siðferði ráðamanna. Samtímis skýtur ráðherra sér undan allri ábyrgð á störfum sínum.

Þótt umræða um þessi mál hafi e.t.v. ekki náð eyrum almennings getur ráðherra ekki þóst vera óvitandi um harða gagnrýni á starf háskólanna frá mörgum bestu vísindamönnum landsins síðustu árin. Viðbrögð ráðherra nú eru af smjörklípugerðinni; hún útskýrir að ráðherra geti ekki beitt sér í málum einstakra háskóla en leiðir hjá sér umfangsmikla gagnrýni (m.a. frá tveim nefndum á vegum ráðuneytisins árið 2009, og meðlimum svokallaðs rýnihóps sem ráðherra skipaði sjálf í fyrra) um að íslenska háskóla- og vísindakerfið sé afar veikburða, þar skorti eftirlit með hvernig fjármunum sé varið, og lítið sem ekkert eftirlit sé með gæðum þess og skilvirkni. Afskipta- og meint ábyrgðarleysi ráðherra er sama viðhorf og stjórnvöld höfðu til bankanna fyrir hrun.

Ráðherra hefur talað um það nánast frá upphafi embættisferils síns að það þurfi að endurskipuleggja háskólastarf hér í kjölfar hrunsins, og hún talar nú um mikilvægi þess að standa vörð um gæði þessa starfs. Það eina sem hún nefnir að gert hafi verið fjallar um svokallað "samstarfsnet" ríkisháskólanna. Engin leið er að sjá hvernig þetta net muni auka gæði starfsins, hvað þá að það verði í takt við þau hundruð milljóna sem á að setja í þetta skrifræðisapparat. Einnig talar hún um fjölbreytnina í íslensku háskólastarfi (sem nær væri að kalla kraðak) eins og hún sé lykill að gæðum, sem lýsir litlum skilningi á gæðum háskólastarfs. Það er líka ámælisvert að ráðherra réð, sem sérstakan ráðgjafa sinn í endurskipulagningu háskólakerfisins, manneskju sem enga reynslu hefur af háskólastarfi (aðra en sem nemandi). Þetta helst í hendur við þá staðreynd að meðal æðstu stjórnenda íslensku háskólanna er nánast enginn sem hefur reynslu af starfi við erlenda háskóla, þótt HÍ og HR tali digurbarkalega um að hasla sér völl á alþjóðavettvangi.

Ráðherra segir einnig í greinum sínum "Á undanförnum misserum hefur mikið stefnumótunarstarf verið unnið í mennta- og menningarmálaráðuneytinu". Þetta er ekki rétt. Það hefur mikið verið talað, en engin stefna verið mótuð, heldur rekur ennþá allt á reiðanum. Auk þess hefur ráðherra framselt vald sitt til hagsmunaaðila, nefnilega rektora háskólanna, sem engum dettur í hug að muni gera umtalsverðar breytingar í eigin ranni. Eins og svo margt annað valdafólk á Íslandi þykist ráðherra enga ábyrgð bera á neinu sem undir hana heyrir. Hér verða ekki endurteknar þær tillögur sem fram hafa komið um hvernig efla megi gæði háskólastarfs á Íslandi, en bent er á greinaflokk sem birtist í FB þessa dagana eftir þá Eirík Steingrímsson og Magnús Karl Magnússon, og álit sem samið var af nokkrum meðlimum "rýnihóps" ráðherra í fyrra.

Íslenskir háskólar eru ekki sterkir í alþjóðlegum samanburði, og þeim mun hraka á næstunni, því dálítið af besta fólkinu er horfið úr landi og sá straumur mun þyngjast þegar niðurskurðarhnífnum er beitt á hvað sem fyrir verður, óháð gæðum. Afleiðing af því er að vonlaust verður að fá hingað öflugt fólk erlendis frá í talsverðan tíma. Þetta hefur ráðherra verið bent á ítrekað. Ráðherra hefur algerlega brugðist hlutverki sínu sem æðsta vald í menntamálum þjóðarinnar. Hún virðist ákveðin í að skilja eftir sig sviðna jörð, þar sem klíkur undirmálsfólks drottna yfir rústunum. [feitletrun AP]


Munur á kristnifræði, trúarbragðafræði og trúboði

Umræðan um tillögur mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar sýnir í hnotskurn hversu lélegri við íslendingar erum í því að ræða saman málefnalega.

Frá því að tillögurnar voru kunngjörðar hefur umræðan verið mjög fjörug, en því miður lituð af fordómum, miskilningi, rangtúlkunum og sleggjudómum. Örn Bárður blés til sóknar í síðustu viku (grein á pressunni:Gildahlöður og menningarbylting) og sagði meðal annars:

Hvað má gera með börnum? Hvað má kenna í skólum? Við þurfum að taka það allt til endurskoðunar, einkum í ljósi þess, að nú er hamast á kirkju og kristni sem aldrei fyrr og boðskapurinn um frið og kærleika sem þaðan kemur er af fámennum hópi talinn hættulegur börnum þessa lands.

Kristinn Theodórsson hakkar þessa þvælu í sig:

Hér er um tvær rökvillur/útúrsnúninga að ræða.

Það þarf ekki að taka „allt“ til endurskoðunar þótt eitthvað eitt sé tekið til endurskoðunar. Það vitum við vel og þetta er bara óheiðarlegt orðaskak.

Og „boðskapurinn um frið og kærleika“ er ekki talinn „hættulegur börnum þessa lands“, þetta eru hreinir útúrsnúningar hjá Erni Bárði og afskaplega lágkúrulegir. Þyki einhverjum boðskapur kristninnar hættulegur eða óheppilegur þá er það að sjálfsögðu ekki sjálfur boðskapurinn um „frið og kærleika“ sem þykir vondur. Ég veit ekki hvernig yfirlýstur fylgismaður boðorðanna tíu fær sig til að skrifa svona undirförla þvælu og birta í fjölmiðlum undir nafni.

Örn Bárður heldur áfram og röksemdafærslan verður sífellt furðulegri. Fyrst dregur hann upp bein tengsl milli tillaga mannréttindaráðsins og menningarbyltingarinnar í Kína, síðan fetar hann beint út í það kviksyndi að segja að allt sé gildishlaðið og því megi gildishlaðið trúboð Kirkjunnar viðgangast.

Viljum við kannski þjóðfélag í anda menningarbyltingarinnar í Kína á dögum Maós formanns sem reyndi að þurrka allar skoðanir og háttsemi út nema eina skoðun og einn klæðnað?

Allt er gildishlaðið. Engin kennsla er hlutlaus og verður aldrei. Hvernig á til dæmis að kenna sögu í skólum, menningu, trúarbrögð, tungumál, félagsfræði? Hvar ætla þau sem vilja kirkju og kristni út úr öllum skólum að draga mörkin? Krafa þeirra um að „gerilsneyða“ skóla, af boðskap kristinnar trúar, vekur upp spurningar um allt sem fram fer í skólum, einnig í ríkisreknum fjölmiðlum og víðar.

Mínar skoðanir eru mjög nálægt þeim sem Guðmundur I. Markússon setti fram í Fréttablaðinu 22. október  2010. :

Opið bréf frá trúlausu foreldri

Sæll Örn Bárður. Ég er foreldri með tvö börn á grunnskólaaldri. Ég er einnig trúarbragðafræðingur og skrifa þér þetta bréf með báða hatta á höfði.

Grein þín hér í blaðinu "Gildahlöður og menningarbylting" um samskipti kirkju og skóla olli mér vonbrigðum. Í stað þess að tala málefnalega og virða að þeir sem þú ert ósammála hafi raunverulegar áhyggjur, sem í það minnsta kalli á skynsamleg skoðanaskipti, talar þú um þá í sömu andránni og blóðþyrsta kúgara. Einföld breyting á skólastarfi í Reykjavík er skyndilega sett út á blóðakur menningarbyltingar Maós. En látum kyrrt liggja. Tökum gífuryrðin út af borðinu. Ég er trúlaus en ég er ekki "andstæðingur kristinnar trúar". Ég hef lengi staðið utan trúfélaga en ég er ekki "að hamast á kirkju og kristni". Og fyrst ég er byrjaður er ég hvorki í Vantrú né Siðmennt og hef aðeins átt góð kynni af kirkjunnar fólki.

Þú spyrð margra spurninga í greininni, Örn Bárður, m.a. hvort við viljum sögukennslu út úr skólakerfinu. Ég segi "?!" Hér er verið að tala um að skólastarf skuli ekki blandast trúarlegum tilgangi. Hvernig getur "engin sögukennsla" verið næsta skref? En í allri sanngirni segir þú áður að öll kennsla sé gildishlaðin - líka sögukennsla. Meira að segja bestu sögukennarar hafa skoðanir. Alveg rétt. En það er ekki þar með sagt að hægt sé að leggja boðun trúar og sögukennslu að jöfnu. Gildin (merkingin) sem koma fram í sögukennslu og samfélagsfræði eiga að byggjast á rannsóknum sagnfræðinga og samfélagsfræðinga. Ekki trúarhugmyndum. Því gildi, eins og þú ýjar að, eru ekki jafnrétthá. Við viljum að kennsluefnið eigi rætur við Suðurgötuna en ekki í Hádegismóum.

Þetta er kjarni málsins um tengsl trúar og skóla. Trúarbragðafræðin er veraldlegt fag með rætur í hug- og félagsvísindum. Trúarbragðafræðin á að fræða um trúarbrögð sem mannlegt fyrirbæri - eitthvað sem fólk gerir og hugsar. Heimsóknir presta og annarra fulltrúa trúfélaga eiga heima innan þessa ramma - sem innlegg í trúarbragðafræðslu. Sömu sögu er að segja um heimsóknir í kirkjur og önnur musteri, sem og föndur trúartákna - ekki í trúartilgangi heldur þeim að uppfræða. Hér á kristindómurinn sinn sess og þannig fræðast börn þjóðkirkjufólks, múslíma, trúleysingja og annarra um kristna trú og önnur trúarbrögð. Ekki er hægt að kenna Íslandssögu án þess að kirkjan spili þar stóra rullu. Því eru áhyggjur þínar, Örn Bárður, og annarra um "gerilsneydda" skóla ástæðulausar. Þú spyrð hvar eigi að láta staðar numið. Svarið er einfalt: látum skólann gegna sínu hlutverki. Hann á ekki að boða trú heldur fræða um trú. Þetta svarar einnig áhyggjum þínum um þöggun - fræðsla og upplýsing eru andstæður þöggunar og þröngsýni.

Látum það liggja á milli hluta að mannréttindi eru fyrst og fremst til þess að vernda minnihlutann. Þetta ættu kristnir að skilja manna best. En þetta er ekki aðalatriðið. Skólakerfið er opinbert og veraldlegt og þar má ekki mismuna. Með því að blanda trú inn í skólastarf er verið að víkja frá hlutverki skólans sem fræðslustofnunar. Og það getur ekki verið að neinn íhugi í alvöru þá "lausn" að taka börn "þessa fólks" út úr hópnum - varla eftir alla þá umræðu sem verið hefur um einelti. Finnst þér, Örn Bárður, að þú hafir rétt til þess að gera lítið úr lífsskoðunum foreldra í mínum sporum og taka fram fyrir hendurnar á þeim um uppeldi eigin barna? Finnst þér að þú hafir meiri rétt til minna eigin barna en ég sjálfur? Svona snýr þetta við mér sem trúlausu foreldri sem sendir börnin sín til fræðslu í hverfisskólanum. Og hvers vegna þarf skólinn að vera vettvangur trúarinnar? Kirkjur eru víða. Ég sé a.m.k. eina út um stofugluggann. Þar er blómlegt barnastarf oft í viku. Ég er sammála þér þegar þú segir að "í fjölhyggjusamfélagi þarf fólk að læra að virða og meta skoðanir annarra". Þetta er háleitt en raunsætt markmið. Leyfum skólanum að sinna sínu hlutverki og kirkjunni sínu. Leyfum kristnum að láta sín börn koma til Krists - leyfum börnum trúlausra að vera börn foreldra sinna. Þetta er engin bylting, aðeins lítið sanngirnismál.


mbl.is Jón Gnarr fylgjandi kristinfræðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband