Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2010

Lúpínur og líffræðilegur fjölbreytileiki

Sameinuðu þjóðirnar vilja beina athygli heimsins að mikilvægi líffræðilegur fjölbreytileika, og tilkynntu að árið 2010 yrði helgað líffræðilegum fjölbreytileika (The International Year of Biodiversity). Hérlendis hefur ekki mikið verið gert af þessu tilefni, en vonandi verður bót á.

Orðasambandið líffræðilegur fjölbreytileiki (biological diversity) hefur ekki langa hefð í íslenskri tungu og því við hæfi að skilgreina það. Samkvæmt vef helguðum ári líffræðilegs fjölbreytileika, má meta fyrirbærið á nokkra vegu.

1. Fjöldi tegunda

2. Mun á milli tegunda

3. Breytileika innan tegunda og stofna

4. Fjölbreytni vistkerfa og búsvæða lífvera

Það er augljóst að fjöldi tegunda hlýtur að tengjast líffræðilegum fjölbreytileika. Einnig að ef á ákveðnu svæði finnast mjög mismunandi tegundir (plöntur, sveppir og dýr) hlýtur fjölbreytileiki þess að vera meiri en svæðis sem skartar bara mismunandi bakteríutegundum.

Atriði 3 og 4 eru atriði sem fólk hugleiðir sjaldnar. Breytileiki innan stofna er líka líffræðilegur, og getur verið umtalsverður. Til að mynda finnast mörg afbrigði af bleikjum og hornsílum hérlendis, bundin við vötn, ár og lindir.

Ísland er sérstakt að því leyti að hérlendis finnast mjög fáar einlendar tegundir (sem finnast hérlendis og hvergi annars-staðar). Undantekning eru ferskvatnsmarflær sem Bjarni Kr. Kristjánsson fann og sem þraukað hafa nokkrar ísaldir hérlendis. Þrátt fyrir þetta er lífríki Íslands að mörgu leyti sérstakt. Samsetning vistkerfa og samfélaga er mismunandi eftir löndum. Hérlendis dæmi um vistkerfi með einstakar samsetningar tegunda, sem hvergi finnast erlendis. Einhver gæti sagt sem svo: Fyrst hérlendis finnast mjög fáar einlendar tegundir er engin ástæða til að varðveita íslenska náttúru til að varðveita líffræðilegan fjölbreytileika. Það að einblína á fjölda tegunda eru mistök.

Þegar við erum hvött til að varðveita líffræðilegan fjölbreytileika þá eigum við einnig að huga að breytileika innan tegunda og tegundasamsetningu vistkerfa og búsvæða. 

Hætturnar að líffræðilegum fjölbreytileika eru nokkrar, og meðal þeirra eru ágengar tegundir (invasive species). Mín tillaga að skilgreiningu á ágeng tegund: "Ágeng innflutt tegund er sú tegund sem hefur eiginleika sem gera henni kleift að auka kyn sitt og útbreiðslu á kostnað tegunda sem fyrir eru á landsvæði."

Ef melur sem upphaflega skartar 100 mismunandi tegundum blóma, grasa og sveppa er undirlagður af lúpínu á skömmum tíma (t.d. 15 árum), þá myndi ég skilgreina lúpínu sem ágenga tegund (það er einmitt það sem sérfræðingar á náttúrufræðistofnun hafa gert). Jafnvel þótt að í kjölfar lúpínunar muni fylgja ertuygla og fuglar sem ekki þrifust á melnum. Sigvaldi Ásgeirsson segir að lúpína muni þannig auka líffræðilega fjölbreytni.

Þetta sýna rannsóknir, sem taka til fleiri lífvera en háplantna. T.d. virðist spóinn hafa fundið sér vist í lúpínubreiðum. Hið sam[a] á við um skógarþresti og hagamýs. Einnig brandugla og væntanlega smyrill, sem nærist m.a. á skógarþröstum. Þessar tegundir græða allar á aukinni framleiðni jarðvegsins, sem fylgir lúpínunni.

Hér er komin upp erfið staða. Hvað gerum við þegar togstreita er á milli mismunandi hliða hins líffræðilega fjölbreytileika. Er mikilvægara að hafa margar og ólíkar tegundir eða ólík búsvæði? Þetta er erfið spurning, sem ég treysti mér ekki til að skera úr um.

Undirliggjandi í málflutningi Sigvalda er framfarahyggja sem stundum einkennir landgræðslu og skógræktarfélög. Fyrir þeim er gróðusnautt land einskis virði, einungis land með hámarks framleiðni hefur gildi. Hann skírskotar til alþjóðasamþykkta:

Íslendingar hafa skyldum að gegna gagnvart alþjóðasamfélaginu. Í anda sjálfbærrar þróunar ber okkur að auka framleiðni landsins með því að græða upp eyðimerkurnar. Það verður best gert í sátt við hugmyndir um sjálfbæra þróun með notkun lúpínu, en alls ekki með notkun tilbúins áburðar, sem yfirleitt er unnin úr olíu og allavega mikil raforka notuð í framleiðsluferlinu.

Hér erum við að horfa á togstreitu milli krafna um að varðveita líffræðilegan fjölbreytileika og sjálfbærni. Að mínu viti þá þurfum við að breyta neyslumynstri frekar en að breyta framleiðni landsins.

Vissulega er vistkerfi Íslands ekki með hámarks framleiðni, eða ber hámarks þéttni fugla og spendýra sem mögulegt er miðað við okkar breiddargráðu, en það þýðir ekki að við þurfum að bæta við tegundum. Og helst ekki tegundum sem eyða þeim tegundum sem fyrir eru, dregur úr erfðabreytileika viðkomandi stofna og fjölbreytileika búsvæða.

Aðstæður okkar eru dálítið sérstakar aðstæður. Við eyddum þeim skógi sem landið byggði á nokkrum öldum. Lífríki Íslands í dag er ekki óskaddað, í þeim skilningi að menn hafi aldrei raskað því. En það þýðir samt ekki að við höfum rétt á að raska því meira!

Reynslan kennir okkur að ágengar tegundir geta valdið miklum óskunda í vistkerfum, rutt út tegundum, raskað tengslum tegunda og þannig breytt samsetningu vistkerfa.

Reyndar efast ég um að hægt verði að stöðva alaskalúpínuna hérlendis. Þekja hennar hefur aukist mjög hratt (17.000 m2 in 1988 to 230.000 m2 in 2000 - tilvitnun í Kristínu Svavarsdóttur úr grein Borgþórs Magnússonar). Dreifingargetan er mjög mikil og fáar náttúrulegar hindranir. Miðað við reynslu mína úr sveitinni af því að reyna að hemja lúpínubletti, þá geri ég mér engar grillur um að hægt verði að útrýma henni á landsvísu. Dreifing hennar innan borgarmarkanna er einnig það hröð og víðfem að það þyrfti tröllaher til að fjarlægja hana. En mér finnst eðlilegt að henni verði settar einhverjar skorður. Það hjómar dálítið sérkennilega en besta leiðin til að hemja lúpínu er með sauðfjárbeit. Upp gæti komið sú staða að við þyrftum að ramma inn þjóðgarða og vernduð svæði með beitarhólfum.

Til útskýringar. Þessi pistill er tilkomin vegna þess að ég hafði látið í ljós þá skoðun mína að lúpína væri óheppileg viðbót við íslenska náttúru. Aðalsteinn Sigurgeirsson og Sigvaldi Ásgeirsson voru mér ósammála (sjá athugasemdir), og gáfu mér tækifæri til að rökstyðja ályktun mína frekar. Hluti af þessum pistli er endurnýttur úr svari mínu við athugasemd Aðalsteins.

Ítarefni:

Af vef Náttúrufræðistofnunar Íslands - ágengar tegundir

Samantekt (á ensku) um vistfræði lúpínu af vefsvæði NOBANIS verkefnisins. Höf: Borgþór Magnússon.

Fyrsta fréttin um líffræðilega fjölbreytni


Skjaldbökur á Galapagoseyjum

Þeir vita það sem reynt hafa að dauður spörfugl lifnar ekki við hjartahnoð eða munn-við-gogg. Dauði er óafturkræft ástand. Þegar allir einstaklingar ákveðinnar tegundar deyja, tölum við að hún hafi dáið út. Margar tegundir hafa dáið út á síðustu öld vegna ofveiða, landnýtingar og eyðingu skóga (eins og t.d. Geirfuglinn).

Einnig eru margar tegundir í útrýmingarhættu, þar sem frekar fáir einstaklingar eru eftir af tegundinni. Í sumum tilfellum hefur verið reynt að bjarga viðkomandi tegund, með því að fjölga þeim á ræktunarstöð eða dýragarði. Nýverið bárust fréttir um eitt slíkt verkefni sem virðist hafa gengið upp. 

Úr frétt RÚV (Risaskjaldbökur á Galapagoseyjum 27 júní 2010):

Á áttunda áratugnum voru aðeins fimmtán risaskjaldbökur eftir á Espanjólu. Síðan þá hefur verið unnið markvisst að því að breyta lífríki Galapagos-eyjanna til þess sem var þegar Charles Darwin kom til eyjanna á miðri nítjándu-öld. Geitum hefur verið útrýmt og hlúð að innfæddum tegundum, þeirra á meðal risaskjaldbökum.

Fjallað var þetta í the Guardian sama dag. Galápagos giant tortoise saved from extinction by breeding programme. Reintroduction of species that Charles Darwin saw raises conservation hopes for other wildlife

Vandamálið var ekki bara það að sjómenn veiddu skjaldbökurnar, heldur skildu þeir eftir geitur sem eyddu þeim gróðri sem skjaldbökurnar nærðust á. Úr grein the Guardian:

For much of the 20th century the archipelago was a symbol of human destruction. After sailors ran out of tortoises to eat, they introduced goats to several islands. From numbering just a handful the new arrivals multiplied into thousands, then tens of thousands. They stripped vegetation and made the islands uninhabitable for the few remaining tortoises and other endemic species.

Það leiddi til þess að ákveðið var að útrýma geitunum til að rýmka fyrir skjaldbökum.

The threat to the islands' endemic species meant there was little protest over the goat slaughter. "There was little public outrage because it was seen that the tortoises were at risk," said Barry. Scientists moved 15 giant tortoises – among the last survivors of the species – from their ruined Española habitat to a captive breeding programme. As the goats were eradicated, progeny from the breeding programme were reintroduced to the island.


Innrás ertuyglunar

Yglur teljast til fiðrilda, og borða lirfur ertuyglunar aðallega plöntur af ertuætt. Á undanförnum árum hefur þetta fiðrildi verið að sækja í sig veðrið hérlendis, og fer illa með þær plöntur sem hún leggst á.

Hérlendis leggst hún aðallega á lúpínu en skaðar einnig ungar skógarplöntur og getur þannig valdið ómetanlegu tjóni. Mér sárnar alls ekki að hún éti lúpínu, sem er ágeng planta og óþörf í íslenskri náttúru.

Nú er hafin rannsókn á líffræði ertuyglunar, t.d. segir Edda Sigurdís Oddsdóttir frá því á skogur.is að fiðrildið virðist lifa veturinn af sem púpa, en ekki á lirfu stigi eins og áður var talið. Frekari rannsóknir eru fyrirhugaðar:

Á þessu ári verður haldið áfram með rannsóknir á ertuyglunni. Búið er að fara og leita að púpum á tilraunasvæðunum við Gunnarsholt og í haust verða teknar út gróðursetningar síðasta árs þar sem meta á hvort ertuyglan leggist jafn þungt á allar trjátegundir. Einnig verður haldið áfram með rannsóknir á lífsferli og þéttleika. Síðast en ekki síst, verða rannsóknir á hvaða vörnum er hægt að beita gegn ertuyglunni. Reynt verður að eitra með skordýraeitri og árangur þess borinn saman við notkun lífrænna varna. Fyrstu niðurstöður hvað þetta varðar munu liggja fyrir seinnipart ársins 2010.

Fréttastofa RÚV ræddi við Eddu um ertuygluna í kvöldfréttum 14 júní. 

Þetta er annasöm vika hjá Eddu, því á föstudaginn (18 júní 2010) mun hún verja Doktorsritgerð sína í líffræði. Það fjallar svepprætur og skordýrabeit á útplöntuðum trjám. Titill verkefnisins er Útbreiðsla og tegundagreining svepprótar- og skordýrasníkjusveppa í jarðvegi og áhrif þeirra á skordýrabeit á trjáplönturótum.  Úr ágripi:

Doktorsritgerðin fjallar um útbreiðslu og tegundasamsetningu svepprótar- og skordýrasníkjusveppa í jarðvegi og áhrif sveppanna á lifun ranabjöllulirfa og rótarskemmdir nýgróðursettra trjáplantna af þeirra völdum....

Niðurstöðurnar benda til þess að unnt sé að beita svepprótar-  og skordýrasníkjusveppum til að draga úr skaðsemi lirfa sem lifa á trjáplönturótum, en mikilvægt sé að rannsaka vel samspil þeirra sveppategunda, sem smitað er með, við lífverusamfélög í jarðvegi og aðra jarðvegsþætti.

Sjá einnig:

Plöntur stunda þrælahald


Mjög spennandi

Þetta eru virkilega spennandi niðurstöður. Rafskauteindir, með eiginleika ljós og einda, alveg geggjað fyrirbæri.

Minn grunnur í eðlisfræði er bara ekki nægilega traustur til að vita almennilega hvernig hægt sé að hagnýta þessa uppgötvun til þess að eyða krabbameinsfrumum.

Ef þetta eru ljósvirkjanlegar eindir, þá hlýtur að vera hægt að nota þær gegn krabbameinum sem eru skýrt afmörkuð í vef. Það hlýtur að vera erfiðara með krabbameinsfrumur sem eru að dreifa sér, eða dreifð krabbamein eins og hvítblæði sem eru ekki staðbundin á sama hátt og t.d. lungnakrabbi eða heilakrabbamein. Ég treysti mér ekki til að spekúlera meira í þetta vegna vankunnáttu.


mbl.is Uppgötvarnir í ljóstækni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myndarlegir melrakkar

Því miður áttum við ekki heimangengt um helgina, annars hefði verið gaman að kíkja á opnun Melrakkasetursins.

Ungir_yrdlingar_af_morauda_litarafbrigdinu

Ester Rut Unnsteinsdóttir líffræðingur er forstöðumaður. Hún hefur meðal annars unnið að rannsóknum á refum á Hornströndum og á hagamúsum á Kjalarnesi, hvorutveggja með Páli Hersteinssyni

Ester á nokkrar myndir í bók Páls um refina á Ströndum, og það sést á myndasafni Melrakkaseturs að hún hefur enn gott tak á myndavélinni.

Refirnir eru upprunaleg tegund á Íslandi, þ.e. þeir voru ekki fluttir hingað fyrir tilstuðlan manna. Páll og félagar fundu meðal annars 3500 ára gömul bein refa á ströndum.

Eldri pistill um Melrakkasetrið.


mbl.is Melrakkasetur með leikhúslofti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tólfta djúpsjávarráðstefnan

Þessa daganna er 12. alþjóðlega djúpsjávarráðstefnan (12th International Deep-sea Biology Symposium) haldin hérlendis.

Viðfangsefni sjávarlíffræðinnar eru mörg og margvísleg. Eitt erfiðasta viðfangsefnið eru vistkerfi og lífverur djúpsjávarins. Þetta eru hinir síðustu ókönnuðu afkimar jarðar, botn sjávar, neðansjávargil og hverasvæði.

dsc00417b1-300x225.jpgkolga.pngMyndirnar eru af vef ráðstefnunar - copyright.

Af vef Háskóla Íslands:

Hinar alþjóðlegu djúpsjávarráðstefnur eru meðal stærstu viðburða á sínu sviði. Á ráðstefnunni, sem er hin tólfta í röðinni, verða haldnir um 150 fyrirlestrar um hin fjölbreytilegu viðfangsefni sem djúpsjávarlíffræðingar fást við. Fjallað verður um fjölbreytileika lífvera í djúphöfunum, samfélagsgerð, útbreiðslu hryggleysingja og fiska, o.fl. Ennfremur verður fjallað ítarlega um djúpsjávarhverasvæði, en nýlega hafa fundist ný svæði víða í heiminum. Djúpsjávarkóralar eru víða undir álagi af völdum veiða og verða forvitnilegar rannsóknir um djúpsjávarkórala kynntar á ráðstefnunni.

Þar sem ráðstefnan er haldin í Öskju, þýðir það að við fáum að blanda geði við margvíslega líffræðinga, sem eru álíka fjölbreytilegir og lífverurnar sem þeir skoða.

Einn af gestum ráðstefnunar, Robert Carney - prófessor við Lousiana State University er sérfræðingur í botndýrum í Mexíkóflóa, ræddi við Guðjón Helgason fréttamann sjónvarps á þriðjudaginn. Hann segir að olíulekinn í flóanum sé mjög alvarlegur og ekki vitað hversu mikið tjónið er (Myndskeið fréttarinnar - óvíst um tjónið á botni Mexíkóflóa). Hluti úr texta fréttarinnar:

Carney segir mestu óvissuna vera um hvað gerist í djúpunum því olían flæði af hafsbotni á eins og hálfs kílómetra dýpi. Hún berist síðan upp á yfirborð sjávar og dreifi úr sér þar.

Robert Carney segir að ekki verið hægt að kanna tjónið á sjávarbotni fyrr en í fyrsta lagi í næsta mánuði enda sé það flókið ferli. Áherslan sé frekar á að stöðva lekann þessa stundina. Hann segir að enginn sérfræðinganna í djúpsjávarlíffræði á ráðstefnunni hér á landi hafi skoðað hafsbotninn í Mexíkóflóa.

Carney þykist viss um að á Íslandi hafi menn áhyggjur af Golfstraumnum og að komi að olían blandist Golfstraumnum og berist með honum út í Atlantshafið. Carney segir að því lengra sem menn séu frá upptökunum því lánsamari séu þeir. Örverur brjóti niður olíuna og hún gufi einnig upp.
Þótt hann bendi á að áhrifin af mengun í mexíkóflóa séu kannski ekki mikil hérlendis, er samt ALLT í lagi að læra örlítið af þessu slysi. Í fyrsta lagi er mikilvægt að hafa regluverk og eftirlit sem tryggja að fyrirtæki eyðileggi ekki náttúruna og þar með lifibrauði fjölda fólks.

Líffræðileg fjölbreytni í vísindaþættinum

Árið 2010 er ár líffræðilegrar fjölbreytni. Fjallað hefur verið um líffræðilega fjölbreytni á ýmsum vettvangi, meðal annars á vísindaþætti útvarps sögu.

Vísindaþátturinn er þriðjudaga milli 17 og 18 á Útvarpi Sögu. Þættirnir eru alltaf aðgengilegir á Stjörnufræðivefnum. Í haust, þegar nýr Stjörnufræðivefur verður opnaður, verður hægt að gerast áskrifandi að þættinum í gegnum iTunes.

Úr pistli á vef stjörnuskoðunnar, Líffræðileg fjölbreytni í Vísindaþættinum.

Stjörnufræðivefurinn er alger gullnáma fyrir áhugafólk um vísindi.


Háskóli unga fólksins 2010

Nú á mánudaginn og þriðjudagin var fjöldi ungs fólks í heimsókn í Háskóla Íslands. Í Öskju voru nemendurnir kynntir fyrir verkfræði, jarðvísindum, eðlisfræði, stjarnfræði og líffræði. Hér fylgja tvær myndir úr líffræðistofunni.

huf_2010_saebjuga.jpg

huf_2010_ph1.jpgEfri myndin sýnir sæbjúga í búri og fróðleiksfúsa gesti, og sú neðri hönd Péturs Halldórssonar sem einangraði DNA úr lauk fyrir börnin.

Fjallað var um Háskóla unga fólksins í fréttum RÚV mánudaginn 7. júní 2010. Pétur var spurður af því hvað lærir maður af því að einangra erfðaefni? Hann svaraði: við lærum bara hvernig lífið virkar.

Snaggarlegt svar, en ekki alveg nákvæmt. DNA er mikilvægur þáttur lífsins, en ekki sá eini. Eins og við vitum þá var fyrsta hermilífveran búin til með DNA úr vél, en umfrymi og prótín lifandi frumu. DNA eitt og sér er eins dautt og Oscar Wilde, en DNA í réttu samhengi getur gert "kraftaverk". Rétt eins og orð öðlast merkingu í samhengi. O. Wilde sagði í bókinni, Myndin af Dorian Gray.

I wonder who it was defined man as a rational animal. It was the most premature definition ever given. Man is many things, but he is not rational.
Vísindamenn eru oft álitnir rökfastir og stífir, en þeir eru mennskari en það. Þeir hrífast af undrum náttúrunnar og eru drifnir áfram af forvitni. Og það að verða vitni að hrifningu barnanna, yfir því að handfjatla loftstein, grjótkrabba eða túbu með DNA, eru sannkölluð forréttindi.

Lifði af undir jökli

Sumarið 1998 var Bjarni Kr. Kristjánsson dósent við Háskólann á Hólum að rannsaka fæðu og vistfræði hornsíla í Þingvallavatni, og fann framandi marfló í uppsprettu við vatnið. Bjarni og Jörundur Svavarsson, prófessor við Háskóla Íslands, hafa nú lýst tveimur nýju tegundum grunnvatnsmarflóa sem finnast hvergi annars staðar á jörðinni.

Þessar tvær marflær, Crangonyx islandicus (sjá mynd) og Crymostygius thingvallensis, eru einstakar í sögu dýrafræði Íslands. Marflóin  C. islandicus, er 2-5 mm að stærð. Myndina tók Etienne Kornobis - copyright.

kornobis_c_islandicus.jpg

Sérstaklega með tilliti til þess að líffræðilegur fjölbreytileiki er lítill á Íslandi. Einlendar tegundir á Íslandi (tegundir sem finnast hér og hvergi annars staðar) eru nánast óþekktar, fáar tegundir búa hérlendis og breytileiki innan tegunda er almennt talinn frekar lítill. Einnig er dreifigeta grunnvatnsmarflóa afar takmörkuð, ólíklegt er að þær hafi borist yfir Atlantshafið og numið hér land. Þar að auki er stutt síðan Ísland var allt hulið jökli, u.þ.b. 10 þúsund ár eru frá lokum síðasta kuldaskeiði ísaldar. Þetta leiðir til tveggja spurninga:

Hvenær og hvernig námu marflærnar land á Íslandi?

Lifðu marflærnar ísöldina af undir jökli?

Til að svara þessum spurningum var ákveðið að ráðast í erfðafræðilega rannsókn á breytileika og uppruna íslensku grunnvatnsmarflónna. Snæbjörn Pálsson og doktorsnemi hans Etienne Kornobis skoðuðu breytileika í hvatberalitningi annarrar marflóarinnar (C. islandicus), og greindu mikinn breytileika. Breytileikinn fylgir landfræðilegri dreifingu tegundarinnar um Ísland. Marflóin hefur fundist í ferskvatnslindum í hraunjöðrum á eldvirka svæði landsins. Skyldleiki þeirra innan Íslands endurspeglar fjarlægðir innan landsins asamt sögu þess. Fjarskyldustu marflærnar finnast á Melrakkasléttu og sýna útreikningar að þær aðskildust frá öðrum marflóm á  Íslandi fyrir um 4,5 milljónum ára. Landfræðileg dreifing arfgerða bendir til að marflærnar hafi lifað af ísöldina í ferskvatnslindum undir jökli. Enn er ekki vitað hvaða fæðu þær nærast á en líklegast er að þær lifi a bakteríum, sveppum eða frumdýrum.
marflo2010_mynd1.gif
marflo2010_mynd2.gifBjarni og Jörundur settu fram þá hugmynd að marflærnar hafi í raun borist með landinu þegar "forveri" Íslands var viðskila við Grænland fyrir um 40 milljónum ára. Niðurstöður rannsóknar Kornobis og félaga duga ekki til að staðfesta þá tilgátu, en benda til að marflóin C. islandicus hafi búið hér í að minnsta kosti 4,5 milljónir ára og jafnvel aðgreinst í tvær eða fleiri tegundir.

Ítarefni:

ETIENNE KORNOBIS, SNÆBJÖRN PÁLSSON, BJARNI K. KRISTJÁNSSON og JÖRUNDUR SVAVARSSON
Molecular evidence of the survival of subterranean amphipods (Arthropoda) during Ice Age underneath glaciers in Iceland Molecular Ecology (2010) doi: 10.1111/j.1365-294X.2010.04663.x
B
jarni Kr. Kristjánsson og Jörundur Svavarsson  GRUNNVATNSMARFLÆR Á ÍSLANDI Náttúrufræðingurinn 2007.


Skraut eða heiðarleiki

Lítið skreyttur fiskur er ljótur.

Mikilvægast er samt að dýr skilji hvaða einstaklinga er heppilegast að æxlast við. Kanína sem þráir gíraffa kynferðislega er vitanlega þróunarfræðileg blindgata. Einnig eru þau dýr líklegri til að eignast afkvæmi sem gera hosur sínar grænar fyrir gagnstæðu kyni.

Hjá mörgum tegundum eru karl og kvendýr mjög ólík í útliti, t.d. blikar og æðarkollur eða ljón og ljónynjur. Iðullega er karldýrið meira skreytt, vegna þess sem Darwin kallaði kynjað val. Lykilatriðið er að kvendýrin kosta meiru til við myndun eggja en karldýr við myndun sæðisfruma. Þær eru því kröfuharðari á maka, og reyna að velja hann vel.

Tilgátan er sú að skraut sé merki um heilbrigði, bara þeir sem séu virkilega frískir geta eytt orku í að skreyta sig (Það mætti taka dæmi úr mannlífinu hér, bera saman heimilislaust fólk í Moskvu og einhverja Hollywood gleðipinna).

  • Ein opin spurning er, hversu heiðarlegt er skrautið?
  • Önnur er, ef skrautið þitt er lélegt, geturu svindlað?

Nýleg rannsókn Jonathan Evans og félaga á gúbbífiskum tekst á við þessar spurningar. Þar náðu minna skreyttir fiskar (kallaðir ljótir) að svindla með því að framleiða kröftugara sæði. Kvenfiskarnir lögðu niður egg sín fyrir skrautlega karla, en þeir "ljótu" sprautuðu sínu kröftuga sæði út, og það náði að frjóvga eggin á undan sæði skrautfisksins. Önnur dæmi um svona "svindl" finnast hjá löxum, þar sem litlir læðupúkar smjúga með botninum og skvetta svili sínu yfir eggin.

Svona samkeppni milli sæðisfruma er algeng í dýraríkinu. Talið er að eistu prímata séu í stærra lagi vegna þess að kvendýrin makist iðullega við mörg karldýr, og því sé sá sem sem "leggi henni til" flestar sæðisfrumur líklegastur til að feðra afkvæmið*. Hjá ávaxtaflugum, sem geyma sæði margra karldýra í sæðissekknum sínum (eitthvað fyrir Grefilinn), er hatröm samkeppni milli sæðisfruma (sperm competition). Þar er stundaður efnahernað (efni í sæðisvökva sem eyða sæðisfrumum keppinauta), eitrað er fyrir kvendýrinu (efni sem draga úr löngun hennar til að makast við karldýr), og víggirðingum komið fyrir (vökvinn inniheldur hlaupkennd efni, sem virka eins og getnaðarvarnarhetta inni í kvenflugunni).

Samskipti kynjanna taka á sig margar myndir. Skraut og heiðarleiki geta farið saman en sannleikurinn er að blessaðar kynfrumurnar neyða dýrin til að prufa mjög furðulega hluti í kynlífinu.

*Reyndar sker maðurinn sig úr hér, eistu okkar eru með þeim minnstu meðal prímata, en á móti kemur að löngunin vitjar okkar oftar.

Sjá einnig:

Hin kenning Darwins

Í laufskálanum tifa maríuhænur

BBC 2 júní 2010 Less attractive fish have 'better sperm' (frétt mbl.is er næstum orðrétt þýðing á pistlinum á BBC).


mbl.is Ljótir framleiða betra sæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband