Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2010

Stephen Fry er Goð

Tvö nýliðin mánudagskvöld hefur RÚV sýnt þætti um náttúrufræði, þar sem leikarinn Stephen Fry leitar uppi dýr í útrýmingarhættu. Síðustu forvöð (Last chance to see) er samstarfsverkefni Stephens og Mark Carwardine og hafa þeir farið með okkur til Suður Ameríku í leit að sækúm (sem reyndar lifa í Amasónfljóti) og hvíta nashyrningnum í Afríku. Nashyrninginn fundu þeir ekki, og er nú talið að þeir séu útdauðir.

Í þættinum í gær ræddu þeir um verkefni sem miðar að því að bjarga svarta nashyrningnum, meðal annars með því að flytja dýr á sérstök verndarsvæði. Þar fá dýrin að vera "villt", innan girðingar og með radíósendi í horninu. Það er sorglegt að eina leiðin til að vernda dýr sé að loka þau inni. Ímyndið ykkur veröld, þar sem engin villt náttúra er eftir, og við geymum fræ allra plantna í bönkum og stofna af helstu dýrategundum í sérútbúnum dýragörðum og verndarsvæðum. Þessi sýn verður framtíð okkar, ef við stöðvum ekki eyðingu búsvæða og náttúrunnar.

Leyfum okkur nú 678 gráðu beygju í 18 víddum. Allir fjórir persónuleikarnir mínir eru sammála um að Stephen Fry sé einn flottasti leikari og skemmtikraftur samtímans. Það gildir einu hvort um sé að ræða hlutverk hans í Wooster og Jeeves, ræðan sem hann flutti um kaþólsku kirkjuna eða QI þættirnir (YOUtube hér að neðan). Meira um QI sjónvarpsþættina.


Litla sæta genið

Mígreni er mjög alvarlegur kvilli og orsakir hans eru að mestu óþekktar. Sjá vísindavef HÍ. Hvað er mígreni. Til dæmis er fylgni á milli mígrenis og hjartaáfalla, mígrenis og hás blóðþrýstings (sjá Tengsl en ekki orsök, tengingar og athugasemdir sem þar fylgja).

Nú berast þau tíðindi að rannsókn á 2700 mígreni sjúklingum og 10700 "heilbrigðum" einstaklingum hafi afhjúpað erfðaþátt sem auki líkurnar á ákveðinni gerð sjúkdómsins. 

Áhrifin eru reyndar skelfilega veik, áhættuhlutfallið (odds ratio) er um 1.21. Úr greininni:

We identified the minor allele of rs1835740 on chromosome 8q22.1 to be associated with migraine (P = 5.38 × 10−9, odds ratio = 1.23, 95% CI 1.150–1.324) in a genome-wide association study of 2,731 migraine cases ascertained from three European headache clinics and 10,747 population-matched controls.

Reyndar er það með því veikasta sem greina má með sýni af þessari stærð. Stökkbreytingin sem sýnir sterkasta fylgni við sjúkdóminn er rs1835740. Um er að ræða C - T breytingu, og er tíðnin nokkuð breytileg milli landa og heimsálfa. T-ið er um 20% í evrópubúum, 50% í kínverjum af Han ættbálki og rúm 70% í Japan.

Þið getið skoðað þetta með því að slá inn slóðinni www.hapmap.org (og setja rs1835740 inn í gluggann þar sem beðið er um landmark eða region).

Miðað við uppgefna sýnastærð og tíðni stökkbreytingarinnar þá þýðir þetta að um 750 af þeim 3700 mígrenisjúklingum sem skoðaðir voru hafi viðkomandi stökkbreytingu. Það sem skiptir kannski mestu máli er að í jafnstórum hópi heilbrigðra eru 650 einstaklingar með stökkbreytinguna.

Það þýðir tvennt.

Mjög margir sem bera stökkbreytinguna hafa ekki mígreni.

   Það er sýnd "gensin" er mjög veik.

Mjög margir sem ekki bera stökkbreytinguna fá mígreni.

   Það þýðir að aðrir þættir (gen, umhverfi eða tilviljun ráða mestu um það hverjir fá mígreni).

Ég get sagt ykkur að genaleit er mjög spennandi starf, og hefur yfir sér bragð fjársjóðsleitar. En eins og Lína Langsokkur benti okkur á þá þarf fjársjóðurinn ekki að vera merkilegur til að leitin sé skemmtileg. Litla sæta mígrenigenið er kannski ekki svo ólíkt blikkdósinni sem Tommi, Anna og Lína fundu í fjársjóðsleitinni sinni.*

*Ég vil ekki gera lítið úr starfi þeirra vísindamanna sem unnu að þessari rannsókn, en bara benda á að stórar uppgötvanir geta stundum fjallað um veika krafta.


mbl.is Erfðafræði mígrenis opinberuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krossferð Dawkins

Líffræðingurinn Richard Dawkins gaf út bókina Eigingjarna genið (The selfish gene) árið 1977. Þar ræddi hann um mikilvægi gena, og færði rök fyrir því að genin skiptu mestu máli í þróun lífvera. Charles Darwin hafði lagt áherslu á einstaklinga, að það væru einstaklingar sem tækju þátt í lífsbaráttunni, og að breytileiki á milli þeirra sem væri hráefni þróunar.

Bók Dawkins rokseldist og miklar umræður skópust um efni hennar. Genamiðuð veraldarsýn Dawkins þótti sérstaklega afkáranleg, því hún tekur hvorki tillits til umhverfis né tilviljana. Við vitum (og vissum vel árið 1977) að áhrif gena geta oltið á breytileika í umhverfinu. Einnig er það vitað að tilviljun skiptir mjög miklu máli í þróun, t.d. getur það hafa skipt máli að finkur kom til Galapagos á undan þröstum. 

Dawkins fylgdi bókinni eftir með frekari ritstörfum og hefur hann gefið út á annan tug bóka um þróunarfræði. Ég hef bara lesið  The selfish gene og The blind watchmaker. Hann hefur helgað starfsferil sinn því verkefni að fræða fólk um þróunarfræði, líffræði og vísindi. Sá starfsferill hefur leitt hann út í orðaskak við sköpunarsinna. Það er líklega kveikjan að bók hans um guð.

Kristinn Theodórsson fjallar um bók Dawkins, Ranghugmyndin um guð (The god delusion) sem verður gefin út miðvikudaginn 1 september.

Eins og allir vita orðið er þetta ein af bókunum sem settu hina svokölluðu ný-trúleysishreyfingu af stað og hafði hún selst í yfir 2 milljónum eintaka á heimsvísu í janúar á þessu ári og setið lengi á mörgum metsölulistum.

Ég las bókina á ensku fyrir nokkru síðan og þótti hún smitandi, skemmtileg, fróðleg og kitlandi.

Ég verð að viðurkenna að hingað til hefur mér fundist óþarfi bækur sem eru að tæta í sig trúarbrögð (líklega vegna þess að sem trúleysingi og raunvísindamaður finnst mér álíka nauðsynlegt að velta sér upp úr ranghugmyndum kristinna og plottinu í lífsháska). En ég mun nota tækifærið og lesa Ranghugmyndina fyrst hún hefur verið þýdd.

Ég skora á fólk að kíkja á pistil Kristinns og kíkja einnig á athugasemdirnar þar, ef ekki til fróðleiks þá skemmtunar.


Kaktusklóninn ræðst til atlögu

Klónvöxtur er sjaldgæfur meðal kaktusa, en Stenocereus eruca sem vex í suðvesturhluta Bandaríkjanna og mögulega Mexíkó. Kaktus þessi vex með hnappskotum, sem geta myndað hinar vígalegustu breiður.

Auðvitað er atlaga þessara skepna ekki hættuleg mannfólki sem kann að hreyfa sig, en ef maður myndi leggja sig í eyðimörkinni í nokkra áratugi, nægilega nálægt svona skaðræðisgrip, þá myndi maður á endanum komast að því fullkeyptu.

stenocereus_eruca

Stenocereus eruca (Brandg.) 

Grasagarðurinn í Vancover ( UBC Botanical Garden and Centre for Plant Research) birtir á vefsíðu sinni mynd af plöntu hvern einasta dag.

Hér birtast nokkrar flottar myndir af þeirri síðu.

Orbea variegata

orbea_variegata hordeum-jubatum3 Plant Family / Families: Poaceae
Scientific Name and Author: Hordeum jubatum L.

 


Tengsl en ekki orsök

Því miður er algengt að tengsl séu túlkuð sem orsakasamband.

Fréttatilkynning Hjartaverndar byrjar svona:

Niðurstaða rannsóknar ...[]... sýnir fram á að fólk á miðjum aldri sem þjáist af mígreni höfuðverkjum ásamt áru (þ.e. sjóntruflunum, svima og dofa sem eru undanfari mígrenikasts) deyr frekar vegna hjarta- og æðasjúkdóma en þeir sem ekki þjást af slíkum höfuðverk.

Og síðan er rætt um TENGSL, en ekki endilega orsakir. Það er meira að segja lögð áhersla á að ...

Enn á eftir að rannsaka hvort meðferð sem leiðir til fækkunar mígrenikasta muni einnig leiða til minni áhættu á hjarta- og æðasjúkdómum hjá einstaklingum með mígreni með áru. 

En mbl.is birtir fréttina undir fyrirsögninni "mígreni eykur líkur á hjartasjúkdómum".

Vissulega er möguleiki að mígreni auki líkurnar á hjartaáföllum og því að deyja eftir hjartakast. En mér þykir líklegra að mígreni og hjartaáföll séu hvorutveggja afleiðingar, og að orsakaþátturinn sé enn óþekktur. Tökum einfalt dæmi. Vitað er að reykingar auka líkurnar á lungnakrabbameini og getuleysi. Rökvilla í anda blaðamanns mbl.is væri að álykta að getuleysi auki líkurnar á lungnakrabba!

Ítarefni:

Larus S Gudmundsson o.fl. Migraine with aura and risk of cardiovascular and all cause mortality in men and women: prospective cohort study BMJ 2010;341:c3966

Viðbót. Seinustu málsgreininni var bætt við eftir að færslan var birt.


mbl.is Mígreni eykur líkur á hjartasjúkdómum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Póstlisti líffræðifélagsins

Líffræðifélagið er dæmi um félag sem leggst gjarnan í dvala og raknar síðan við sér þegar minnst varir. Nú streymir blóð í stjórnarmeðlimum, og stefnt er á málþing um líffræðilegan fjölbreytileika í haust, í samstarfi við vistfræðifélag Íslands. Tilkynning frá stjórninni:

Skrá með félögum líffræðifélagsins tapaðist því miður snemma árs 2009 vegna breytinga í þjónustu hjá Símanum sem áður hýsti félagaskrána og heimasíðu félagsins. Eldri félagar, og aðrir sem áhuga hafa á starfi félagsins er góðfúslega beðnir um skrá sig í líffræðifélagið hér: https://lif.gresjan.is/skraning.

Ef þið hafið áhuga á að fylgjast með starfi félagsins eða taka þátt í starfi þess. Nýir jafnt sem eldri félagsmenn eru hvattir til að skrá sig. Upplýsingar verða hvorki seldar né þeim deilt með þriðja aðilla.

Líffræðifélagið hefur fengið nýja heimasíðu www.biologia.hi.is þar má sjá ýmislegt efni af fyrri síðu líffræðifélagsins og efni tengt ráðstefnu líffræðifélagsins og líffræðistofnunar sem haldin var haustið 2009, og eldri ráðstefnum. Fyrirhugað starf félagsins er í stöðugri mótun og ræðst af óskum félagsmanna. Stefnt er að því að halda málþing um líffræðilegan fjölbreytileika í haust með vistfræðifélaginu. Þá hefur ekki verið haldinn aðalfundur um nokkuð skeið og verður hann haldinn nú í haust. Upplýsingar um þessa fundi verða sendar út síðar.

Ákveðið er að félagsgjald verði 2000 krónur.

Virðingarfyllst, stjórn líffræðifélagsins.

Þeir sem hafa hugmyndir að atburðum sem líffræðifélagið ætti að standa fyrir eða koma að, eru beðnir um að skrifa inn athugasemdir.


Arfleifð Darwins á leið í prentun

Eftir nokkura ára meðgöngu lítur út fyrir að bókin um Arfleifð Darwins sé á leið í prentun. Hér munum við birta hluta úr verkinu, meðan á prentun verksins stendur og eitthvað fram eftir hausti. Fyrst nokkur orð úr formála:

Þróunarkenningin tengist nafni enska náttúrufræðingsins Charles Darwin órjúfanlegum böndum. Þar ber hæst útgáfu bókar hans Uppruni tegundanna árið 1859. Þann 24. nóvember 2009 voru 150 ár liðin frá útgáfu hennar. Það sama ár voru einnig liðin 200 ár frá fæðingu Darwins, en hann fæddist 12. febrúar 1809 í Shrewsbury á Englandi og lést árið 1882. Þessi tvöföldu tímamót urðu kveikjan að bók þessari og nokkrum viðburðum sem ritstjórn hennar stóð fyrir og nefndust Darwin-dagar 2009. Að þeim dögum komu einnig nokkrir samstarfsaðilar: samtök líffræðikennara, líffræðifélag Íslands, líffræðistofnun Háskóla Íslands, siðmennt, Hið íslenska náttúrufræðifélag og Hið íslenska bókmenntafélag.
Frekar lítið hefur verið skrifað um þróun lífvera á íslensku, en af því efni eru þrjár greinar eftir Þorvald Thoroddsen einna merkastar. Þær birtust í Tímariti Hins íslenska bókmenntafélags á árunum 1887–1889, en tvær síðustu greinarnar eru útdráttur úr 6. útgáfu Uppruna tegundanna. Þær voru endurútgefnar árið 1998 í lærdómsritinu Um uppruna dýrategunda og jurta með skýringum og ítarlegum inngangi eftir Steindór J. Erlingsson. Árið 2004 kom Uppruni tegundanna loks út á íslensku í röð lærdómsrita Hins íslenska bókmennta félags í þýðingu Guðmundar Guðmundssonar. Þeirri bók sem hér er fylgt úr hlaði er ætlað að fylla upp í þetta tómarúm, en markhópur hennar er fólk með áhuga á lífinu, þróun þess og fjölbreytileika, sögu hugmyndanna og stórum spurningum um líffræði mannsins og stöðu hans í náttúrunni. Bókin nýtist einnig nemum í framhaldsskólum og háskólum sem inngangur og ítarefni um þróun lífvera.

Reykjavík í ágúst 2010.

Arnar Pálsson, Bjarni Kristófer Kristjánsson, Hafdís Hanna Ægisdóttir, Snæbjörn Pálsson, Steindór J. Erlingsson.

Leiðrétting 23 ágúst 2010: Í fyrri útgáfu voru Shrewsbury og England með litlum staf. Takk Villi!

 


Náttúruminjasafn - gönguferð á Menningarnótt

Safnaganga:

 Félagsmenn HÍN!

Við minnum aftur á fræðslugöngu HÍN á Menningarnótt 2010, laugardaginn 21. ágúst, um slóðir Náttúrugripasafns Íslands í fylgd Guðjóns Friðrikssonar sagnfræðings og Helga Torfasonar forstöðumanns Náttúruminjasafns Íslands. Gangan hefst kl. 17:00 og varir í um tvær klst. Lagt verður af stað frá gömlu loftskeytastöðinni við Suðurgötu og endað í Þjóðmenningarhúsinu. Gengið verður um vesturbæinn og þrædd aldargömul slóð húsa og lóða sem tengjast Náttúrugripasafni Íslands.


Byggingareiningar besta vinar mannsins

Charles Darwin heillaðist af fjölbreytileika hunda, form þeirra, litur og skapgerð eru ótrúlega fjölbreytt. Sérstaklega með hliðsjón af því að þeir tilheyra allir sömu tegund.

Á síðustu árum hefur erfðarannsóknum á útlitseinkennum hunda fleygt fram. Í ljós kom að gervigen FGF4 vaxtarþáttarins stuðlar að stuttum fótum í t.d. Dachsund og Basset-hound (afsakið, ég kann ekki íslensk nöfn á hundakynum!).

Nýverið birtist grein í PLoS Biology sem sýnir að erfðir útlits og litar hunda eru miklu einfaldari en erfðir sjúkdóma sem þjá manninn. Á meðan rúmlega hundruð svæði í erfðamengi mannsins útskýra bara hluta af breytileika í hæð okkar, þá hafa 3-10 gen áhrif á bróðurpartinn af breytileika í stærð, leggjalengd, höfuðkúpu lögun, trýnislengd o.s.frv.

Ástæðan er vitanlega sú að kynbótaval fyrir ýktum eiginleikum hefur verið mjög sterkt, og aukið tíðni stökkbreytinga með sterkustu áhrifin. Stofnerfðafræðilegar greiningar sýna að genin sem tengjast útliti hundanna hafa verið undir suddalega sterku vali. Hjá manninum hefur á hinn boginn ekki verið ámóta  einstrengingslegt val fyrir hæð eða öðrum eiginleikum, og þar af leiðir finnast aðallega stökkbreytingar með veik áhrif (á þessa eiginleika) í stofninum.

Sérkennilegasta niðurstaðan er sú að sömu genin eru bendluð við breytileika í mjög mörgum hundakynjum. Ef við leyfum okkur orðalag tilgangshyggjunar, þá stjórnast mikill hluti mismunarins á 80 hundakynum af frekar fáum genum (kannski einungis 7 mismunandi genum). Svipaðar niðurstöður fengust úr rannsóknum á litarerfðum fiðrilda.

Nú á dögum er mikið talað um hversu flókin og ófyrirsjáanleg líffræðin er. Þessi rannsókn minnir okkur á að margt í náttúrunni lútir einföldum lögmálum og reglum.

SINDYA N. BHANOO í New York Times - 17 ágúst 2010 Wide Variety of Breeds Born of Few Genes 

Adam R. Boyko o.fl. A Simple Genetic Architecture Underlies Morphological Variation in Dogs PLoS Biology 2010. 


Nálarstungur í lithimnuna

Gagnrýni á vísindaumfjöllun fjölmiðla er einn meginþráðurinn í pistlum okkar. Af þeirri sögulegu ástæðu að blog.is liggur utan á www.mbl.is þá höfum við tilhneygingu til að agnúast frekar út í skrif MBL en annara fréttamiðla.

Í Fréttablaðinu birtast einnig slælega unnar fréttir af vísindum, innan um ágætlega unnar greinar. Veikasti hlekkurinn í Fréttablaðinu eru ALLT og EKKERT fréttirnar, sem birtast í aukablöðum, sérblöðum og "léttari" síðum blaðsins. Þar er allt löðrandi í nýaldar og gervivísindaþvaðri, sem ritstjórarnir verja líklega með skírskotun til skoðanafrelsis. Mest af þessu eru einhverjir nýaldar eða næringarpostular sem eru að reyna að selja sína "töfralausn", bók eða geisladisk. Mig grunar að margar þessara frétta séu skrifaðar af búðareigendum, heildsölum, græðurum eða heilurunum sjálfum, og endurprentaðar af Fréttablaðinu.

Nálarstungur verða vinsælli

Í helgarblaðinu fannst mér samt keyra um þverbak, þar sem blaðamaður setti nafn sitt á það sem var í raun auglýsing fyrir gervivísindin nálarstungu (Nálastungur verða vinsælli - Fréttablaðið 14. ágúst 2010).

Í fyrirsögn segir, "Þórunn Elísabet Bogadóttir kynnti sér nálastungur". Réttara er að "Þórunn Elísabet Bogadóttir kokgleypir allt sem Kolbein Steinþórsson segir henni um nálastungur". Í greininni er rætt við Kolbeinn Steinþórsson nálastungumeistara. Hann segir m.a.:

Á meðan vestræna kerfið byggir á línulegri hugsun, þar sem leitað er að orsök og afleiðingu og það er hugsað um að drepa eða fjarlægja ákveðna bakteríu eða orsakavald, þá erum við alltaf í þessu austræna að byggja á heildarskynjun á mannslíkamanum. Sem þýðir að allir þættir koma inn í, hvort sem er veðráttan úti eða tilfinningalegir eða matvælalegir þættir eða hvað sem er sem getur verið að hafa áhrif á eins ómerkilega hluti og jafnvel öxlina á þér.

 

Skilgreining hans á vestrænni læknisfræði (þ.e. vestræna kerfinu) er alröng. Vestræn læknisfræði þarf ekki að vita um orsök til að meðhöndla mein, við vitum ekki orsakir sjúkdóma í mörgum tilfellum. En við getum samt meðhöndlað sjúklinginn. Það sem mestu skiptir samt er að vestræn læknisfræði er á góðri leið með að verða gagnadrifin (evidence based medicine). Það þýðir að sýna þarf fram á með rannsóknum hvort að ný meðhöndlun (treatment) sé betri en eldri meðhöndlun. Til dæmis, í gamla daga var engin vörn gegn bakteríusýkingum, en rannsóknir sýndu fram á að þeir sem fengu sýklalyf læknuðust af slíkum kvillum frekar en þeir sem fengu ekki sýklalyf. Þannig verður þekking í læknisfræði til, með vönduðum rannsóknum, hlutlausri tilraunauppsetningu og heiðarlegri tölfræðilegri úrvinnslu.

Hinar mismunandi greinar læknisfræði og líffræði gera okkur kleift að finna þætti sem skipta miklu máli fyrir lífslíkur, framgang og í sumum tilfellum orsakir sjúkdóma. Núna er megináherslan samt á meðhöndlun, hvaða þætti getum við bætt til að bjarga lífi fólks, efla heilsu þess og lífsfyllingu. 

Mér finnst "frétt" Þórunnar ekki standa undir nafni sem slík, því nægar rannsóknir hafa sýnt fram á að fræðin á bak nálarstungur halda ekki vatni (Nálastungur og pílukast). Vera má að nálarstungur dugi til að sljóvga sjúkdómsskynjun, og sem slíkar held ég að þær eigi rétt á sér. En það er óþarfi að "selja" þær með því að bera á borð rangfærslur um nútíma læknavísindi. Því miður er það algeng aðferð hjá næringarprestum, að atast í lyfjafyrirtækjunum, til þess að beina fólki að vítamínblöndunni sem þeir eru að selja. Kaldhæðni örlaganna hagar því reyndar þannig að lyfjafyrirtækin eiga mörg hver stóran hluta í fæðubótaefnisfyrirtækjunum, þannig að þau græða á tá og fingri.

Lithimnugreiningar

Umfjöllun Fréttablaðsins er sem betur fer ekki alltaf svona léleg. Heilsíðu umfjöllun Óla Kristjáns Ármannssonar birtist 24 júlí 2010 í Fréttablaðinu "Augun sem spegill líkamans".

Þar hefur fréttamaðurinn kafað í málið, kynnt sér sjónarmið lækna og gagnrýni sem fram hafa komið á þessar "óhefðbundnu" lækningar. Hann segir:

Á lithimnukorti er meltingarvegurinn tengdur svæði sem innst liggur við augasteininn. Utar koma svo önnur líffæri og líffærakerfi. Yst eru svo hringrásarkerfi og húðin, ...[]... "Meltingin er því augljóslega miðpunkturinn."

Læknar og vísindamenn blása á þessi fræði og benda á að lithimna augans taki litlum sem engum breytingum yfir ævina. Þar með sé strax búið að kippa stoðunum undan fullyrðingum um að lesa megi eitthvað úr lithimnunni um breytilegt ástand líkamans.

Hann ályktar að:

Vandséð er að lithimnugreining verði kölluð hættuleg, þótt vissulega megi setja upp ímynduð dæmi þar sem einstaklingur með hættuleg einkenni leitar ekki læknis eftir að hafa fengið einhvers staðar ranga greiningu. Í slíku dæmi er þó heldur lítið gert úr skynsemi fólk og verður að teljast ólíklegt að einhver sem teldi sig haldinn sjúkdómi myndi leita til lithimnufræðings fremur en heilbrigðisþjónustunnar í landinu. Líklegra er að þeir sem leita þjónustu lithimnufræðinga geri það einhverri leit að betri almennri líðan. Ef þau ráð sem fólkið fær og fylgir virka þá er ekki nema gott eitt um það að segja. Virki þau ekki er ólíklegt að fólk haldi áfram að pínast áfram í að fylgja ráðleggingum sem ekkert fyrir það gerir.

Þannig að þessi fræði eru í besta falli gagnslaus. Það er semsagt allt í lagi að hafa fé að veiku fólki með segja því þjóðsögur um meltingarvegi, lithimnu og matarræði. Vitanlega geta ráðleggingarnar verið gagnlegar, hver hefur ekki gott af meiri hreyfingu, bættu matarræði og því að slaka á, en er ekki óþarfi að klæða þann einfalda boðskap í flókna heimsmynd sem á engin tengsl við raunveruleikann.

Saga mannsins og p-gildið

Í báðum greinunum nýta blaðamennirnir sér sögur einstaklinga sem iðka eða reynt hafa, nálarstungur eða lithimnugreiningu. Margir vísindamenn og blaðamenn vita að sögur af einstaklingum vekja miklu sterkari viðbrögð en tölulegar upplýsingar. Ein saga af krabbameinssjúklingi sem reykti burtu bæði lungun sín er áhrifameiri en leiðinda tafla eða prófstærð og p-gildi sem benda til aukningar á tíðni lungnakrabba meðal einstaklinga sem reykja. Þessi hugsanavilla er orsök margra deilna og veldur því að sumar þjóðsögur deyja seint eða aldrei.

Þeir sem hafa áhuga á hugsanavillum og veikleikum í umfjöllun fréttamiðla um vísindi er bent á bækurnar Ertu viss?, Brigðul dómgreind í dagsins önn (Thomas Gilovich) og Bad Science (Ben Goldacre).

Viðbót, Quackwatch - Be wary of Acuapuncture.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband